Söguskekkjur JVJ. Kirkjan á eignir fyrir eigin rekstri.

Jón Valur Jensson er eins og margir trúbræður hans, þolir illa gagnrýni og vinnur að því að bæla skoðanaskipti. Hann hefur meinað mér að birta athugasemdir við færslur hjá honum (þótt ég fagni ævinlega athugasemdum hans hjá mér) og því neyðist ég til að svara honum hér. Hann endurbirtir gamla grein þar sem hann fer með furðulegar sögutúllkanir á eignayfirtöku Kaþólsku kirkjunnar á sínum tíma auk ýmissa annarra fullyrðingar, m.a. um að kirkjan eigi jarðirnar og eigi að fá fyrir þær peninga. Það sé einhver heilagur réttur að það sem var stolið fyrir 500 árum eigi maður í dag (þannig er það jú víðast hvar, sjá t.d. konungafjölskyldur hvarvetna). En jafnvel þótt maður samþykkji að kirkjan eigi og hafi átt jarðeignir, þ.e. efist ekki um eignarhald, þá er ekki þar með sagt að núverandi ástand sé óumflýjanlegt.

Fordæmi fyrir því að virða ekki þinglýstar eignir er þegar fyrir hendi. Ríkið hefur undanfarinn áratug eða svo tekið til sín jarðir og eignir almennings þvert á þinglýsingar, í kjölfar laga um þjóðlendur. Nokkrir dómar hafa fallið í þeim málum, m.a. hæstaréttardómar, og þar hefur ekki alltaf verið fylgt fornu eignarhaldi.

Jón Valur kemur með ýmsar tölur um eignarhald kirkjustofnana á jarðeignum á hinum og þessum tímum en tekst að skauta fram hjá því að um 1550 átti kirkjan og það sem henni tilheyrði helming jarðeigna á Íslandi. Ætli honum finnist það ekki óþægileg tala? Síðustu kaþólsku biskuparnir, Jón Arason og Ögmundur, riðu til þíngs 1527, hvor um sig með fjölmennt vopnað lið, samtals um 2700 manns undir vopnum. Ögmundur sektaði menn og hirti af þeim jarðir, Jón Arason fór vopnaður um sveitir með sveinalið, píndi og hrakti búalið og tók jarðir af bændum. Þetta voru vopnaðir fulltrúar erlends valds að sölsa undir sig eignir Íslendinga.

Íslenskir bændur kvörtuðu sáran undan ofurvaldi kirkjunnar, til dæmis 1513 með bænabréfi til Konungs. Jarðir í eigu kirkjunnar borguðu ekki tíund en fjórðungur tíundar fór til fátækraframfærslu. Hin mikla eignatilfærsla varð til þess að fátækraframlag fór sífellt minnkandi. "Farið var að líta á þetta sem þjóðfélagsmein" segir Helgi Þorláksson í VI. riti Íslandssögusafns þjóðhátíðarnefndar (Rvík 2003) en árið 1489 samþykktu Skálholtsbiskup og hirðstjóri að tíund yrði áfram greidd af þeim jörðum sem komið hefðu í eigu biskups undanfarin 20 ár. Helgi telur vafamál að sú samþykkt hafi komið til framkvæmda nema að litlu.

Jarðasöfnun Kaþólsku kirkjunnar var ekki einhver sjálfsögð afleiðing af kristni heldur vísvitandi auðsöfnum með vopnavaldi. Kirkjan varð óhemju rík en sendi jafnframt stórar upphæðir suður til Rómar. Ofurvald kirkjunnar og fjárstreymi til útlanda varð til þess að þýskir furstar og skandínavískir kóngar tóku siðbót Lúters fagnandi.

Klausturjarðir fóru strax undir konung, biskupsjarðir voru seldar um 1800. Enn á kirkjan verulegar jarðeignir, sbr. 2. mgr. 62. grein laga nr. 78/1997:

 62. gr. Kirkjujarðir og aðrar kirkjueignir sem þeim fylgja, að frátöldum prestssetrum og því sem þeim fylgir, eru eign íslenska ríkisins, samkvæmt samningum um kirkjueignir milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar. Andvirði seldra jarða rennur í ríkissjóð.
 Prestssetur, þ.e. prestssetursjarðir og prestsbústaðir, sem prestssetrasjóður tók við yfir stjórn á frá dóms- og kirkjuálaráðuneytinu 1. janúar 1994 með síðari skjalfestum afhendingum frá dóms- og málaráðuneytinu, svo og prestsbústaðir, hús og aðrar eignir sem prestssetrasjóður hefur keypt, eru eign þjóðkirkjunnar með öllum réttindum, skyldum og kvöðum samkvæmt samningi um prestssetur milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar.

Samkvæmt lista á heimasíðu prestssetrasjóðs eru 45 prestsetursjarðir í eigu Þjóðkirkjunnar, þar með taldar til dæmis Staðarstaður, Saurbær á Hvalfjarðarströnd, Borg á Mýrum, Oddi á Rangárvöllum, Skálholt, osfrv. osfrv.

Prestssetrasjóður á síðan annað eins af fasteignum í þéttbýli. Miðað við jarðarverð í dag gæti kirkjan auðveldlega selt eignir fyrir um 50 milljarði, sett þær í banka og fengið 2,5 - 3 milljarði á ári í vexti! Hún á því eignir fyrir eigin rekstri nú þegar og gott betur.

Prestsetrasjóður var skv. lögum frá 1. júli 2007 sameinaður Kirkjumálasjóði og heyrir undir hann núna. Eftir árámót ætla ég að skoða betur þessar jarðeignir, t.d. hvaða eignir það voru sem fóru undir ríkið 1907 og 1997 og hvert söluandvirði þeirra var. Venjulegur húskaupandi tekur lán og greiðir það upp. Hversu stórt lán þyrfti að taka til að endurgreiðslur væru 2,7 milljarðir á ári?

Þær jarðir sem standa undir greiðslum til kirkjunnar í dag voru sem sagt ekki prestsetur heldur venjulegar bújarðir. Af hverju gat kirkjan ekki selt þær sjálf og lifað af vöxtunum? Það hefði ekki breytt neinu um starfsemi kirkjunnar, þetta voru bara venjulegar jarðir án prestsetra eða kirkna.

Þjóðkirkjan er forrík stofnun, ætli hún sé ekki ríkasta fyrirbærið á Íslandi í dag í innlendum eignum talið? Og fær síðan allan rekstrarkostnað greiddan frá ríkinu. Já það er margt skrítið í kyrhausnum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Já, það munaði ekki miklu að hún næði landinu öllu! Siðaskiptin komi í tæka tíð.

Ég gleymdi í pistlinum að benda á að fordæmin fyrir því að taka jarðir af kirkjunni án þess að bæta henni það beint upp eru mörg, bæði við siðaskipting strax en líka þegar Magnús Stephensen og fleiri stóðu fyrir skipulagsbreytingum á biskupsembættinu og sölu biskupsjarða í kjölfarið. Í hvorugt skiptið var eignarréttur kirkjunnar virtur.

Svo má spyrja sig, ef opinber stofnun eins og Þjóðkirkjan á eignir, eru þær þá ekki í eigu almennings? Skv. bréfi frá Biskupsstofu sem ég hef undir höndum er Þjóðkirkjan skilgreind sem opinber stofnun sem heyrir undir stjórnsýslulög og upplýsingalög. Hver á þessa opinberu stofnun ef ekki ríkið (við)?

Brynjólfur Þorvarðsson, 30.12.2007 kl. 20:44

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Það er ekki rétt, Brynjólfur – ef þú ert að reyna að telja lesendum þínum trú um það – að ég meini þér að birta athugasemdir við færslur á vefsetri mínu. Þú ert þar ekki í banni og hefur aldrei verið.

Þjóðkirkjan er ekki "opinber stofnun" í eigu ríkisins, heldur samfélag og stofnun í eigu meðlima hennar, sem eru t.d. skilgreindir í upphafi laganna "um stöðu, stjórn og starfshætti Þjóðkirkjunnar" nr. 78/26. maí 1997. En samur er vilji þinn til að hrifsa eignir af kirkjunni, eins og það sá á það bætandi, hafa ekki kirkjuránsmenn verið nógu margir í sögunni frá 16., 18. og 20. öld? Ertu kannski kommúnisti, Brynjólfur? Þá ertu vitaskuld ekki einlægur fylgismaður réttarríkisins, hvað þá eignarréttarins; þá geta menn betur skilið þig í því ljósi.

Annars þarf varla kommúnista til, ýmsir íslenzkir pólitíkusar hafa tekið þátt í kirkjuránum fram á síðustu áratugi, eins og þú átt að vita.

Aldrei þókknast ykkur öfundarmönnum Þjóðkirkjunnar að nefna nein konkret dæmi um það, að kirkjan hafi rænt þeim jörðum, sem hún eignaðist.

"Ögmundur sektaði menn og hirti af þeim jarðir, Jón Arason fór vopnaður um sveitir með sveinalið, píndi og hrakti búalið og tók jarðir af bændum,"

segirðu. Nefndu jarðirnar og hvort þær hafi síðan á grunni ranginda verið í eigu kirkjunnar, þá er hægt að ræða málið, en farðu ekki fram úr sjálfum þér í fullyrðingunum á meðan. Viljirðu byggja upp röksemdafærslu, má undirstöðuna, réttar forsendur, ekki vanta. Fróðlegt verður líka að sjá þig "sanna" þessar alhæfandi fullyrðingar þínar um að kirkjujarðirnar hafi verið "stol[nar] fyrir 500 árum." Meirihluti þeirra var reyndar kominn í eigu kirkjunnar alllöngu fyrir 1507!

Jón Valur Jensson, 30.12.2007 kl. 21:52

3 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Sæll Jón Valur

Það má vera að ég hafi misskilið rauðu athugasemdina sem birtist þegar ég reyndi að pósta athugasemd á bloggið hjá þér. Ef svo er þá biðst ég forláts. Þú ert velkominn hérna, ég vona að ég sé velkominn hjá þér.

Ég er ekki kommúnisti þótt ég hafi verið alinn upp í vinstri afstöðu. Konan mín fyrrverandi vildi meina að ég væri frjálshyggjumaður, ég læt það liggja milli hluta. það er fátt sem ég trúi á í þessum heimi en það er þó þetta: Að einstaklingurinn á að vera frjáls og að lífið er meira virði en allt annað, þ.ám.  guð. Kommúnismi veitir ekki frelsi frekar en kaþólska.

það sem ég segi um yfirgang kaþólskra er beint úr Saga Íslands VI. bindi, Helgi Þorláksson skrifar, fyrsti kafli. Þetta er á öllum bókasöfnum (og uppí hillu hjá mér). Helgi er helsti sérfræðingur okkar í kirkjusögu (kannski fyrir utan guðfræðideild) og skrifar allt VI. bindið og megnið aðf því VII. líka.

En ég hef í sjálfu sér ekki áhuga á því að eigna þér (eða kaþólskum) eða núverandi Þjóðkirkju yfirgang miðaldamanna. Þá voru aðrir tímar og eiga í raun ekkert skylt við nútímann. (Úbbs gleymdi að þú fylgir 2000 ára kreddum, 500 ár er bara eins og eitt korter eða svo).

Voru jarðirnar stolnar? Ég skal segja þér, JVJ, ef stofnun sem ekki framleiðir neitt nema lygar eignast helming verðmæta í einu landi á uþb. 250 árum -  hvað er á seyði? Ekki kannski stolið en svindlað í öllum merkingum þess orðs.

Að vísu - plágurnar tvær um 1400 og aftur rétt fyrir 1500 gátu veitt stofnun sem er "eilíf" færi á að eignast lönd þeirra sem deyja, bara með hefðbundnum bissness. En Helgi gerir lítið úr því, jarðareignir virðast ekki hafa aukist að ráði með þeim aðferðum.

Í þá daga drápu menn hvorn annan, slógust með steinhvöttu ísajárni svo blóðið rann. Þá var kristnin upp á sitt besta. Í dag rífumst við með lyklaborðum enda kristnin af léttasta skeiði og öld vatnsberans á næsta leiti.

Kærleikurinn sigrar kristnina, það er bara staðreynd JVJ, hættu að streitast á móti!

Brynjólfur Þorvarðsson, 30.12.2007 kl. 23:55

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Kærleikurinn fæst fyrir trú, hvernig geturðu elskað Guð af öllum huga þínum, allri sálu þinni og öllum mætti þínum og náunga þinn eins og sjálfan þig nema fyrir trú – þá "trú sem starfar í kærleika," eins og Páll postuli segir. Og "fyrir trú" merkir hér: fyrir tilverknað trúar eða með trú. Trúin er forsenda bæði hinnar kristnu vonar og hins kristna kærleika (Hebr. 11).

Eins og ég nefndi nauðsyn undirstöðu, réttra forsendna, í innlegginu hér ofar, þegar ég minntist á rökfærslur þínar, þá verð ég aftur að minna þig á það sama í tilefni af orðum þínum: "stofnun sem ekki framleiðir neitt nema lygar." Þetta er ekki empírískt sönnuð forsenda og þess vegna vont fyrir þig að ganga út frá slíkum ósönnuðum, alhæfandi for-dómum, þegar þú byrjar að rökræða við fólk um þessi mál.

Í stað þess að vera í þínum almennu staðhæfingum um jarðamál, Brynjólfur, ættirðu að kanna hvert eitt tilfelli fyrir sig og spyrja þig svo: Var þetta eðlilegt afsal jarðeignar? Og þú munt jafnframt komast að raun um, að vellríkir höfðingjar gáfu mikið af þessum jörðum, enda var eignarhald á jörðum aldrei það sem við gætum kallað almennt meðal allrar alþýðu. Gríðarlegar eignir fólust líka í klaustrajörðunum, um þriðjungur kirkjulegra eigna um siðaskiptin (sem kóngur rændi svo), og höfðu margir gefið jarðir fyrir sjálfa sig í próventu til að ljúka ævi sinni í klaustri. Þær eignir höfðu ávaxtað sig vel, í alkunnu menningarstarfi og (eins og uppgröftur á Skriðuklaustri staðfestir) heilsugæzlu fyrir sjúka og aldraða, þótt vissulega séu til dæmi um misnotkun á þeim eignum eða brot á reglum klausturlífsins.

Þú lætur mig vita, ef þú kemst ekki inn á síðu mína. 

Jón Valur Jensson, 31.12.2007 kl. 00:42

5 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Af hverju á ég að kanna hvert og eitt mál sérstaklega? Kannski á ég eftir að gera það í t.d. doktorsverkefni en að ég nenni því til að þræta við þig, glætan. Af hverju gerir þú það ekki sjálfur fyrst þér finnst það svona mikilvægt?

Annars á ég erfitt með að sjá fyrir mér eðlilegt afsal jarðeignar til kirkjunnar. Löglegt kannski, en eðlilegt?

Ég prófaði að pósta hjá þér núna rétt áðan, tókst algjörlega! Fyrr í dag þegar ég var að reyna þá fékk ég einhver villuboð - ég er alveg til í að viðurkenna að það hafi bara verið þetta venjulega tölvuvesen enda mjög langt síðan ég hef skrifað komment hjá þér og mér var ekki kunnugt um að þú hafir "bannfært" mig - ég var bara að prófa og fékk villuboð.

Jón Valur, það er mér ekkert kappsmál að halda því fram að þjónar kirkjunnar hafi ekki oft og mörgum sinnum verið hinir bestu menn. Margir þeirra hafa tekið hinn raunverulega boðskap til sín og elskað náungann, stundum vegna innri sannfæringu, stundum vegna kristilegs boðskapar, stundum vegna hvoru tveggja. En yfir þeim voru veraldlegir höfðingjar, vopnaðir smákongar sem sóttust eftir auð fyrir sig og sína. Kristin kirkja býður upp á þetta - allar stofnanir með valdi yfir hugsunum fólks kalla á kúgun og auðsöfnun.

Ég vil hamingu og velsæld öllum til handa. Kristnin hefur klikkað, dæmin sanna það. Tími til að leita annað.

Brynjólfur Þorvarðsson, 31.12.2007 kl. 01:38

6 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Takk fyrir þessar upplýsingar Brynjólfur

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 3.1.2008 kl. 21:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband