Skólatrúboð í skjóli ólöglegrar undanþáguklausu?

Grein sem alþingismaður skrifaði í moggann varð tilefni þessarar greinar og ábendingar til umboðsmanns Alþingis (sjá neðst)

Af trúarstarfi í skólum 

Höskuldur Þór Þórhallsson alþingismaður skrifar grein undir titlinum “Kristilegt siðgæði og Mannréttindadómstóll Evrópu” í Mbl 12. mars síðastliðinn og fullyrðir að gildandi lög veiti heimild til undanþágu frá námi í kristinfræði. Þar er hann væntanlega að vísa til 8. og/eða 35. greinar grunnskólalaga.

Við nánari athugun sést að 8. greinin veitir ekki slíka undanþágu enda er eingöngu verið að veita tímabundna lausn frá skólasókn, vegna smalamennsku eða íþróttaferða samkvæmt greinargerð sem fylgdi frumvarpinu á sínum tíma.

Öðru máli gegnir með 35. greinina, þar væri hugsanlega hægt að veita undanþágu á borð við þá sem Höskuldur gerir. Hins vegar er það ljóst af greinargerð með frumvarpinu á sínum tíma að svo er alls ekki.

Í nýlegu frumvarpi menntamálaráðherra er það 15. greinin sem tekur á undanþágum frá námi. Enn er skýrt af greinargerðinni að ekki er gert ráð fyrir að börnum sé sleppt við námsþætti á grundvelli skoðana foreldra þeirra.

Loks má benda i á að námsgreinin “Kristin fræði, siðfræði og trúarbragðafræði” (KST) verður lögð niður í núverandi mynd samkvæmt frumvarpinu og vandséð hvernig veita eigi undanþágu frá kristinfræði eftir gildistöku nýrra laga.

Tíu prósent afslátt af námi?
Í gildandi aðalnámskrá er þess ekki getið að KST sé valfrjáls námsgrein.  Fjallað er um viðbrögð við fjölmenningu á bls. 7 í kafla um KST: “Með auknum fjölda barna frá ólíkum menningarsvæðum þarf skólinn að huga að því, í samvinnu við heimilin, hvernig koma má til móts við óskir þeirra og þörf til að fá fræðslu um eigin trú og menningu. Nýta má þá möguleika sem blandaður nemendahópur felur í sér til að kynna nemendum ólíka trú, siði og lífsviðhorf.”

Hér er ekki gert ráð fyrir að kennt sé í aðskildum hópum enda væri þá aðeins til námskrá fyrir einn hópinn.

Í viðmiðunarstundarskrá fá samfélagsgreinar ásamt KST að meðaltali þrjár kennslustundir á viku. Ef skipt er til helminga situr hver nemandi í 400 kennslustundum í KST á námsferli sínum, um það bil hálft ár af tíu ára skyldunámi. Varla er ætlast til að börn sleppi hálfu ári úr námi vegna skoðana foreldra þeirra?

Sjötta hvert foreldri, gróft reiknað, er kaþólskt, íslamstrúar, búddísti eða trúlaust en borgar engu að síður jafn mikið til reksturs grunnskólans og aðrir foreldrar og á tilkall til jafngóðrar þjónustu börnum sínum til handa.

Nauðsynlegt nám
Nám í KST er nauðsynlegt enda trúarbrögð stór þáttur samfélagsins og mikilvæg í lífi fjölmargra. Kristni er stór hluti menningar okkar og meiri hluti þjóðarinnar er kristinn eða hliðhollur kristni. Það er því fullkomlega eðlilegt að kristnin hafi þyngst vægi í KST.

Á hvaða forsendum eigum við að sleppa nemendum við þessa kennslu, sem er svo nauðsynleg til að við getum skilið okkar eigin menningu og fengið innsýn í menningu annarra landa?

Eina ástæðan sem ég sé fyrir því að veita nemendum undanþágu frá KST er ef þar færi fram einhvers konar trúarinnræting. Sjálfur vildi ég ekki láta innræta börnum mínum kristni í skólanum og ég geri ráð fyrir því að Höskuldur vildi síður að börnum hans væri innrætt trúleysi. En innræting á auðvitað ekki heima í skólastarfi. “Skólinn er fræðslustofnun en ekki trúboðsstofnun...” segir í aðalnámskrá og það er því afgreitt mál trúarleg innræting í skólum er enda ekki í samræmi við lög.

Trúarstarf í skólum ótækt
Trúboð og annað trúarstarf á augljóslega ekki heima í skólum af ýmsum ástæðum. Ein þeirra er sú að allir hafa rétt á jafngóðri þjónustu en trúarstarf er aðeins ætlað afmörkuðum hópum. Hvorki námskrá né lög gera ráð fyrir skólastarfi þar sem sumum er sinnt en öðrum ekki og skólanum væri því vandi á höndum að sinna öllum nemendum jafnt eins og þeir eiga kröfu til.

Væri kirkjuferð skipulögð á skólatíma, hvort sem það er á vegum skólans eða annarra, þá þyrfti skólinn einnig að sinna þeim nemendum sem ekki færu í kirkjuna. Eigi trúboð sér stað í skólum, til dæmis sem hluti af KST, þá þyrfti skólinn að bjóða upp á sömu þjónustu fyrir allar trúar- og lífsskoðanir. Allt skólastarf lýtur námskrá sem þyrfti þá að taka tillit til trúarlegra þátta með mismunandi námskrár fyrir mismunandi trúarbrögð og lífsskoðanir.

En það sem kemur endanlega í veg fyrir að trúarstarf geti átt sér stað innan veggja skólans er sú staðreynd að skólinn þarf þá jafnframt að hafa vitneskju um trúarafstöðu foreldra. Mannréttindadómstóllinn tekur af skarið með að slíkt gangi ekki og sama gera íslensk lög um verndun persónuuplýsinga.

ES:

Eftir að hafa lokið við þessa grein var mér bent á að í Almenna hluta Aðalnámskrár væri að finna undanþáguklausu sem hljóðar svona:

"Með hliðsjón af sérstöðu þessara þátta, einkum hvað varðar trúfrelsi, er heimilt að veita einstökum nemendum undanþágu frá ákveðnum þáttum skyldunáms." (Aðalnámskrá grunnskóla 2006, almennur hluti, bls. 26)

Í kjölfarið ákvað ég að beina því til umboðsmanns Alþingis að hann kannaði lögmæti þessarar unanþáguklausu Aðalnámskrár. Bréf mitt til umboðsmanns, ásamt fleiri skjölum, eru talin upp hér fyrir neðan:

Ábendinging til umboðsmanns Alþingis : http://binntho.is/files/umbi.pdf

Dómur Mannréttindadómstólsins gegn Norska ríkinu : http://binntho.is/files/norskidomur.pdf

Skýrsla Reykavíkurborgar um samstarf skóla og trúfélaga : http://binntho.is/files/rvk_skolar_tru.pdf


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Sæll Skúli

Ja, kristnifóbía - mér finnst kristni vitsmunalega vitlaus en á tilfinningalegu plani skil ég vel að sumir vilji vera kristnir. Ég hef enga fóbíu gagnvart kristnu fólki og ég virði tilverurétt kristninnar.

En ég er með fóbíu gegn ríkisstyrktu sóvét-rússnesku hugstýringarembættismannakerfi (fjúkk) sem þykist mega valsa í börnin okkar - mín og þín.

Skúli, þú veist að trúarsannfæring og lífsskoðun hvers og eins er með allra dýpstu og persónulegustu málefnum hans. Minni sannfæringu er gróflega misboðið af skólatrúboði sem læðist að börnunum mínum án minnar vitundar. Eflaust þætti þér það ekki gott ef vantrúarseggir (að ég tali nú ekki um múslímar) væru að reka sinn áróður í skólum, jafnvel án þess að foreldrar viti af því!

En aftur af fóbíunni - fátt heillar mig meira en uppruni kristninnar, það má segja að þar sé mitt aðal áhugamál. Ekki hefur sú rannsóknarvinna aukið tiltrú mína á þessum trúarbrögðum fornaldar sem satt að segja hafa gengið sér til húðar hugmyndafræðilega nú 2000 árum seinna. En trúarþörf getur verið mjög sterkt fyrirbæri og margir finna tilfinningalega svölun í kristni, enda má segja að hún (þ.e. sem kenningakerfi) geri út á það.

Það er öllum frjálst að mínu viti að hafa hvaða skoðanir sem þeir vilja. Við tveir erum mjög ósammála um mjög margt, við megum tjá okkur um það eins og okkur sýnist og eigum að hafa fullan rétt til þess. Ég tek gjarnan á móti öllum sem vilja rökræða við mig, og svara eftir bestu getu.

En takk fyrir innleggið!

Brynjólfur Þorvarðsson, 26.3.2008 kl. 14:10

2 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Annars, Skúli, fyrst þú ert nú að droppa inn!

Hvað finnst þér um að börn séu haldin aðskilin, kristin börn fái fræðslu um kristni eins og hún er stunduð hér á Íslandi en börn múslíma ekki?

Brynjólfur Þorvarðsson, 26.3.2008 kl. 14:12

3 identicon

Nú hafa aðalega þingmenn stjórnað landinu um margra áratuga skeið, án þess að styðjast við ein eða nein Kristileg gildi . Hvað finnst þér um árangurinn ?

Það finnst mér einkennilegt af sumum, að boða samfélag án trúar . Það er eins og að bjóða uppá læknisþjónustu án lyfja .

Mér finnst það tímasóun dauðans að reyna útrýma Kristni í landinu, og mæli frekar með að menn reyni að stöðva framgang islamtrúar hér, áður en samfélagið fer að líða og blæða fyrir hana eins og hefur gerst í nágrannalöndum . 

conwoy (IP-tala skráð) 26.3.2008 kl. 20:08

4 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Sæll Conwoy

Ég held að árangurinn væri öllu verri ef þeir hefðu stuðst við einhver "kristileg gildi" - sem eru reyndar vandfundin.

Varðand íslamtrú, hún er auðvitað (í mínum huga) jafn vitlaus og kristnin. Að sumu leyti er hún hættulegri, hún er rökfastari og krefst meiri aga og ástundunar.

En besta vopnið gegn hættunni af íslam  (og öðrum hindurvitnum) er einmitt trúleysi - við lifum í nútíma samfélagi þar sem mannréttindi eru virt og allt það, fólk má hafa sínar skoðanir. En þegar við svo ríkisstyðjum og stofnanavæðum eina vitleysuna þá getum við ekki sett okkru á háan hest gagnvart hinni. Enda taktu eftir að þeir sem eru duglegastir að verja myndafælni múslíma eru kristnir!

Það er bara hin sekúlera leið, að líta á allar guðsóttakenningar sem sama bartnaskapinn, sem leyfir okkur að taka á hræðslu- og ofbeldisáróðri kristinna. Já og múslíma.

Þetta er sama klemman og þjóðverjar lentu í þegar þeir voru að spá í að banna vísindakirkjuna. Allar lýsingar á henni sem þeim datt í hug að setja í almennt orðuð lög áttu líka við kristni - og reyndar öll trúarbrögð. Hugmyndakerfi án rökstuðnings sem selja "andlega" vöru fyrir alvöru peninga. Þeir gátu ekki orðið lögin gegn Vísindakirkjunni þannig að þeir væru ekki að banna lútersk-evangelísku kirkjuna líka!

Brynjólfur Þorvarðsson, 26.3.2008 kl. 20:17

5 identicon

Ég er ekki alveg viss, en tel samt að múslimar óttist nokkuð viðveru Kristninar í þessu landi, og veigri sér frekar við að koma hingað heldur en ef landið væri trúlaust .

Þess vegna kýs ég m.a aukin umsvif Kristni hér á landi frekar en hitt .

Trúleysi gæti aldrei orðið veruleiki hér á landi held ég . Kannski gætu Kristnir sleppt því að mótmæla svoleiðis uppákomu, en ekki ásatrúarmenn, buddistar og islamistar .

conwoy (IP-tala skráð) 26.3.2008 kl. 20:46

6 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Takk fyrir góðan pistil Binni.

Þú ert bara frábær.  Það er umhyggja og mannúð í öllu sem þú skrifar. Það er ekki oft í skrifum ofurtrúaðra.  

Margrét St Hafsteinsdóttir, 27.3.2008 kl. 00:59

7 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 1.4.2008 kl. 21:59

8 Smámynd: Egill Óskarsson

Skúli, fóbía er skilgreind sem órökrétt hræðsla. Mér finnst Brynjólfur hvorki vera hræddur né órökréttur.

Egill Óskarsson, 6.4.2008 kl. 04:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband