Færsluflokkur: Menning og listir

Móðgandi myndbirtingar

Flest finnum við innra með okkur þann kjarna sannfæringar og lífsgilda, þá grundvallandi vitund siðgæðis og mannlegrar breytni sem við hvikum ekki frá. Arfur af hjörtum foreldra okkar, numið af visku meðbræðra okkar, ástargjöf til barnanna okkar. Sú lífsýn sem gefur lífinu gildi, sem réttlætir tilveru okkar og færir okkur skilning á því hver við erum.
Við mörkum okkur skil í huganum, drögum línu í sandi sálarinnar, og segjum hingað og ekki lengra. Yfir þessar línu fer ég ekki, handan þessara skila líð ég engum að vera. Við finnum hvert um sig þau mörk sem skipta okkur máli, sem skilgreina okkur og gefa okkur tilverurétt.
Engum skal því undra það þótt mönnum sárni þegar ráðist er að þessum grunngildum þeirra, þau hædd og lítilsvirt.
Andúð á ofbeldi
Sjálfsþekking eykst með aldrinum, maður áttar sig á kostum sínum og göllum og því sem skiptir mann máli þegar allt kemur til alls. Kjarni lífsgildanna styrkist og verður sýnilegri hverjum og einum.
Sjálfur hef ég áttað mig á því að djúpt í huga mínum hvílir óhagganleg sú sannfæring að eitt það mikilvægasta í lífinu sé frelsi hvers einstaklings til lífs og lima, frelsi til hamingju, frelsi til athafna og ásta. Hvers kyns kúgun og misrétti er mér sem eitur í beinum, helsi hugmyndakerfa jafnt sem hlekkjar harðstjórans.
Ekkert vekur mér þó jafn mikla óbeit og ofbeldi í hvaða mynd sem er, hvort heldur andlegt eða líkamlegt. Andúð mín á ofbeldi er í raun það sem skilgreinir minn innsta sannfæringarkjarna.
Ofbeldið gert heilagt
Myndbirtingar ofbeldis eru hvarvetna í kringum okkur. Fréttir og frásagnir af ofbeldi eru óþægilegur raunveruleiki lífsins en gerir vonandi það gagn að minnka þol okkar gagnvart valdbeitingu og misþyrmingum, enda fer ofbeldi minnkandi í samfélagi okkar og reyndar á heimsvísu líka, þrátt fyrir á stundum neikvæðan fréttaflutning.
En eitt er það sem særir mína dýpstu vitund meira en nokkuð annað og það er tilbeiðsla ofbeldis. Þegar pyntingar og dauði eru gerð að trúaratriði, réttlætt með vísun til einhverra æðri máttarvalda, með tilheyrandi myndbirtingum. Dauðadýrkun er einkamál hvers og eins, svo lengi sem hann gengur ekki á rétt annarra. En að þurfa að flagga þessum ósóma, jafnvel af stolti, slík hegðun vekur með mér viðbjóð.
Sjöfalt í yfirstærð
Öll minnumst við barnatrúarinnar með hlýhug, sakleysi bernskunnar þegar jólasveinar gefa í skóinn og jesúbarnið liggur í jötunni, táknmyndir alls hins góða í lífinu. Kannski er barnatrúin æfing þess að við getum, sem fullorðið fólk, verið sannfærð um tilvist mannúðar og ástar og réttlætis? Barnatrúna eigum við öll, með einum eða öðrum hætti, og flest þroskumst við frá henni til ábyrgs lífernis.
Lífið er stórkostlegt, ást og gleði, jafnvel sorg og mótlæti eru eldiviður reynslunnar, og börnin, þetta stórkostlega kraftaverk náttúrunnar, gefa tilverunni gildi. Við fögnum lífinu og höldum hátíðir því til heiðurs enda þarf ekki að leita lengi að táknmyndum frjósemis innanum jólatré og páskaegg.
Ein er þó sú hátíð, eða væri nær að kalla það lágtíð, þar lífið er fjærri en dauðinn er lofsunginn, píningin dásömuð og barnatrúin negld á staur.
Andaktugir lesa menn hina listilega skrifuðu passíusálma, ekki til að gleðjast yfir kveðskapnum heldur til að fagna píningunni. Stórkostleg myndlist er innblásin af þjáningum dauðastríðsins og hengd upp í helgidóminum miðjum til átrúnaðar. Sjöfalt og í yfirstærð.
Svo er sagt frá þessu í fréttum, hér fagna menn dauðanum, þar gleðjast menn yfir píningunni, þessir syngja þjáningunni lof, hinir mæra sárin og blóðið. Traðkað á dýpstu sannfæringu allra þenkjandi manna, grunngildi samfélagsins að engu höfð.
Að þjást og þola
Eilífar opinberar myndbirtingar þessarar ofbeldisdýrkunar valda mér þjáningum. Að ég sé móðgaður er vægt til orða tekið. En ég þoli þetta, ég lít undan og vona með sjálfum sér að þessu linni einn daginn. Frelsi til tjáningar er mér dýrmætt og þá um leið frelsi til að tjá aðrar skoðanir en þær sem ég tel réttar.
Því fylgir einnig frelsi til að tjá sig opinberlega, til að boða sína trú og sínar sannfæringar hverjum þeim sem heyra vill, fullorðnum einstaklingum vel að merkja. Trúboð gagnvart börnum er siðleysa eins og allir sjá.
Það er mín von að sem flestir frelsist frá því helsi sem þessi dauðadýrkun felur í sér. Að einn daginn þyki það ekki lengur sjálfsagt að fagna píningu og dauða, að birta myndir af blæðandi líkum á opinberum vettvangi, kalla það heilagt og finnast það gott.

Vinaleið fær falleinkunn (birtist í Morgunblaðinu 11. janúar 2008)

Bæjarráð Garðabæjar samþykkti vorið 2007 að leita til sérfræðinga hjá KHÍ til að “meta réttmæti og gildi vinaleiðar” og hafa þeir nú sent frá sér skýrslu en tengingar á hana er að finna á vefsíðunni blogg.visir.is/binntho.
Skýrsluhöfundar fóru þá leið að vinna skýrsluna eingöngu út frá faglegum sjónarmiðum skólastarfs en taka ekki afstöðu til þess hvort aðkoma kirkju að skólastarfi sé réttmæt þegar horft er til almennra laga í lýðræðisþjóðfélagi.
Úrskurður Evrópudómstólsins í Strasbourg gegn norska ríkinu virðist þó taka af öll tvímæli um að starfsemi trúfélags innan almenns skólakerfis standist ekki almenn mannréttindaákvæði.
Starfsmenn Þjóðkirkjunnar hafa ítrekað í ræðu og riti staðfest að vinaleið sé trúboð og biskupinn taldi hana “sóknarfæri” fyrir kirkjuna. Það þarf því heldur ekki að velkjast í vafa um að  vinaleið stangist á við lög um grunnskóla, siðareglur kennara, stjórnarskrá og ýmsa þá alþjóðasamninga um mannréttindi sem íslenska ríkið er aðili að.

Farin og hætt
Vinaleið hófst haustið 2006 í fjórum grunnskólum í Garðabæ og á Álftanesi að frumkvæði sóknarprests. Tveir starfsmenn tóku að sér að sinna verkefninu, djákni og  skólaprestur. Vegna andmæla foreldra var gripið til þess ráðs í tveimur skólanna að gefa foreldrum kost á að taka fram sérstaklega ef þeir vildu ekki gefa starfsmönnum vinaleiðar færi á börnum sínum. Þessari gagnasöfnun var vísað til Persónuverndar sem hafði samband við skólastjóra viðkomandi skóla haustið 2007. Á sama tíma sagði djákni starfi sínu lausu og féll vinaleið þar með niður í Flataskóla. Skólastjórar Sjálandsskóla og Hofsstaðaskóla virðast hafa ákveðið að framlengja ekki starfsemi vinaleiðar og er hún því ekki lengur starfrækt í grunnskólum Garðabæjar en skólaprestur starfar enn í Álftanesskóla.

Ekki á forsendum skólastarfs
Fram kemur í áðurnefndri skýrslu að flest jákvæð ummæli sem féllu í viðtölum megi rekja til ánægju með skólaprestinn sem einstakling enda virðist hann hafa náð vel til barnanna og starfsmanna skólans. Að öðru leyti virðist vinaleið engan veginn standast þær kröfur sem gera verður til faglegs skólastarfs. Sú réttlæting sem oft heyrist, að aðkoma Þjóðkirkjunnar að grunnskólum sé á forsendum skólanna, virðist því ekki standast.
Hugmyndafræði vinaleiðarinnar er óljós og framkvæmd hennar illa afmörkuð að mati skýrsluhöfunda. Eigi framhald að verða á vinaleið þurfi að draga fram með skýrum hætti hver sérstaða hennar sé og meta framhaldið á grundvelli þess. Höfundar benda á að sé um hefðbundna sálgæslu að ræða eigi hún heima innan kirkjunnar en verði niðurstaðan sú að vinaleið taki til víðara sviðs eru viðfangsefnin og eðli þjónustunnar þannig að þau eigi heima hjá þeim aðilum sem þegar sinna slíkri þjónustu innan skólans.
Skýrsluhöfundar gagnrýna einnig aðferðarfræði vinaleiðarinnar, þar sé farið inn á svið sem aðrir fagaðilar sinna þegar en án fagþekkingar með þeim afleiðingum að samstarf fagaðila innan skólans er í hættu. Ekki eru haldnar skýrslur eða skrár um viðtöl, engin markmið séu sett fram, engin greining, engin meðferðaráætlun. Fyrst og fremst er um einsleg trúnaðarsamtöl að ræða, jafnvel án vitneskju foreldra, og skýrsluhöfundar gagnrýna þessa aðferðafræði réttilega.
Spyrja má hvort ítrekuð einsleg trúnaðarsamtöl um viðkvæm málefni, án faglegra forsendna, séu ekki hreinlega hættuleg börnum.

Vantar ákvörðun og fjármagn
Skýrsluhöfundar gagnrýna hvernig staðið var að innleiðingu vinaleiðar. Lögformlegum leiðum var ekki sinnt, foreldraráð og skólanefnd fjölluðu ekki um málið fyrirfram og starfsmönnum var tilkynnt um það sem orðnum hlut. Skýrsluhöfundar benda á að þar sem vinaleið sé ekki hluti af lögboðinni þjónustu skóla sé nauðsynlegt að sveitarfélög taki formlega afstöðu til þess hvort þjónustan skuli veitt.
Um leið þurfi að taka afstöðu til kostnaðar. Skólaprestur er mjög dýr á mælikvarða skólastarfs enda eru byrjunarlaun hans um það bil þrefalt hærri byrjunarlaunum kennara sem þó er fagmenntaður til starfa með börnum. Fram kemur í skýrslunni að hörð andstaða sé innan skólanna gegn því að greiða kostnaðinn enda þurfi þá að skerða aðra þjónustu.
Vinaleið í Garðabæ var fjármögnuð að mestu leyti með framlagi eins foreldris en auk þess lagði kirkjan til fjármagn auk sveitarfélagsins Álftaness. Komi til framhalds á starfsemi vinaleiðar er ljóst að sveitarstjórnir þurfa að taka formlega afstöðu til hennar og jafnframt að tryggja fjárveitingar.

Enginn grundvöllur
Skýrsluhöfundar mæla ekki með framhaldi á starfsemi vinaleiðar en segja í lokaorði að brýnt sé að hagsmunaaðilar “ræði og taki afstöðu til þess hvort réttmætt sé að kirkjan komi að skólastarfi” en fallist menn á það þurfi að fara fram “hreinskiptin skoðanaskipti um hugmyndafræði, markmið og leiðir með starfinu.”
Af lestri skýrslunnar má sjá að vinaleið er klúður og best færi á því að henni væri hætt með öllu, þó ekki sé nema vegna barnanna sjálfra.


Þjóðkirkjan á hraðri niðurleið. Tölur síðustu 18 ára.

það var sannkallað góðverk hjá Birni Bjarnasyni að birta tölur um trúfélagskráningar 2007 á vefsíðu sinni - áður en Hagstofan nær að birta þær! Þar kemur fram að Þjóðkirkjan er í frjálsu falli og umtal síðustu missera um "vinaleið" og "leikskólatrúboð" hefur ekki orðið til að styrkja hana - þvert á móti. Hér eru tölur síðustu átján ára, fengnar frá www.hagstofa.is og (horfnu) Dagbókinni hans Björns Bjarnasonar.

 

Íbúar

í ÞK

Hlutfall

Fjölg. Íbúa

Fj. Í ÞK

1990255.708236.95992,7%
1991259.577239.32192,2%1,5%1,0%
1992262.193241.63492,2%1,0%1,0%
1993264.919243.67592,0%1,0%0,8%
1994266.783244.92591,8%0,7%0,5%
1995267.806245.04991,5%0,4%0,1%
1996269.727244.06090,5%0,7%-0,4%
1997272.069244.68489,9%0,9%0,3%
1998275.264246.01289,4%1,2%0,5%
1999279.049247.24588,6%1,4%0,5%
2000282.849248.41187,8%1,4%0,5%
2001286.250249.25687,1%1,2%0,3%
2002288.201249.45686,6%0,7%0,1%
2003290.490250.05186,1%0,8%0,2%
2004293.291250.66185,5%1,0%0,2%
2005299.404251.72884,1%2,1%0,4%
2006307.261252.23482,1%2,6%0,2%
2007312.872252.46180,7%1,8%0,1%

 

Eins og sést minnkar hlutfall Þjóðkirkjunnar um nærri 10 prósentustig á áratug. Sú þróun ágerist mjög, 1990 - 1999 minnkar hlutfallið um 4,1 prósentustig, 1998-2007 um 8,7 prósentustig. Framreiknað er auðvelt að sjá að hlutfall þeirra sem skráðir eru í Þjóðkirkjuna verður komið niður fyrir 50% fyrir miðja öldina.

Töluleg fjölgun milli ára segir einnig sína sögu:

 

 

 

í ÞK

Töluleg fjölgun

1990236.959
1991239.3212.362
1992241.6342.313
1993243.6752.041
1994244.9251.250
1995245.049124
1996244.060-989
1997244.684624
1998246.0121.328
1999247.2451.233
2000248.4111.166
2001249.256845
2002249.456200
2003250.051595
2004250.661610
2005251.7281.067
2006252.234506
2007252.461227

Árið 1991 eru úrskráningar fáar og flest börn skrást sjálfkrafa inn í Þjóðkirkjuna. Árin 1995 og 1996 fjölgaði úrskráningum verulega þegar biskup gerðist fjölþreifur. Lítil fjölgun árið 2002 er að mestu vegna mjög lítillar fæðingartíðni það ár. Fækkun ársins 2007 skýrist hins vegar helst vegna deilna sem Þjóðkirkjan hefur staðið í allt árið um rétt sinn til að reka trúboð í leik- og grunnskólum.

Framreiknun þessara talna (þ.e. besta línulega nálgun) sýnir neikvæðar tölur eftir tvö ár (þ.e. töluleg fækkun milli ára) og fækkun um 1000 manns á ári eftir tíu ár.

Þessar tölur sýna að starfsmenn Þjóðkirkjunnar hljóta að vera örvæntingarfullir - milljarðir í ríkissjóð, embættismannalaun og lífeyrir, sporslur og fríðindi, allt þetta byggir á því að vera kirkja þjóðarinnar. Kirkja hálfrar þjóðarinnar hangir ekki lengi á ríkisspenanum.


Aðskilnaður Íslands og kirkju - lausn sem allir geta sætt sig við.

Nú legg ég til að gerður verði fullur aðskilnaður milli Íslands og kirkju. Línan verði dregin nokkurn veginn um Kópavogslækinn, upp á Vatnsendahæð, eftir Búrfellsgjánni í beina stefnu útsuðaustur að Krýsuvík. Reykjanesið (ásamt Garðabæ og Álftanesi) væri þá Þjóðkirkjuland, hitt væri Ísland og yndislegt.

Hér væri fáninn með hring í stíl við þann grænlenska (miklu flottara, hið fullkomna form), þjóðsöngurinn væri "Ísland er land þitt", þar væri reglulega langar fríhelgar með fríi á föstudegi en ekki þessa kristnu dellu að vera alltaf með frí á fimmtudögum eða öðrum fáránlegum dögum. Fjórir milljarðir á ári færu í að efla skólastarf á öllum stigum og "kristinfræði-" tímar í grunnskóla færu í heimspeki, hugmyndasögu og siðfræði en ekki trúarbragðaítroðslu.

Svo væru kristnir auðvitað frjálsir að lifa á Íslandi, hvað annað, þeir eru líka alvöru Íslendingar, ekkert síðri en við hin. En þjóðkirkjan ætti sitt útaf fyrir sig, það er hennar stíll.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband