Sjónarvottar sögðu satt og skrifuðu guðspjöllin. Sönnunin er hér!

Frásagnir guðspjallanna af upprisunni eru eins ólíkar og þær eru margar. Hafi guðspjöllin verið rituð af sjónarvottum þá er nú ekki mikið að marka þá. Eða hvað? Reynum að láta dæmið ganga upp og sjáum hvað gerist! En skoðum fyrst hvað guðspjöllin segja um þennan örlagaríka morgun:

 
Mt   28:1-9  Að liðnum hvíldardegi, þegar lýsti af fyrsta degi vikunnar, komu þær María Magdalena og María hin til að líta á gröfina. Þá varð landskjálfti mikill, því engill Drottins sté niður af himni, kom og velti steininum og settist á hann. Hann var sem elding ásýndum og klæðin hvít sem snjór. Varðmennirnir skulfu af hræðslu við hann og urðu sem örendir. En engillinn mælti við konurnar: "Þér skuluð eigi óttast. Ég veit, að þér leitið að Jesú hinum krossfesta. Hann er ekki hér. Hann er upp risinn, eins og hann sagði. Komið og sjáið staðinn, þar sem hann lá. Farið í skyndi og segið lærisveinum hans: ,Hann er upp risinn frá dauðum, sjá hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann.` Þetta hef ég sagt yður." Og þær fóru í skyndi frá gröfinni, með ótta og mikilli gleði, og hlupu að flytja lærisveinum hans boðin. Og sjá, Jesús kemur á móti þeim og segir: "Heilar þið!" En þær komu, féllu fram fyrir honum og föðmuðu fætur hans.
 
Mk   16:1-8  Þá er hvíldardagurinn var liðinn, keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann. Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni. Þær sögðu sín á milli: "Hver mun velta fyrir oss steininum frá grafarmunnanum?" En þegar þær líta upp, sjá þær, að steininum hafði verið velt frá, en hann var mjög stór. Þær stíga inn í gröfina og sjá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítri skikkju og þær skelfdust. En hann sagði við þær: "Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér. Sjá, þarna er staðurinn, þar sem þeir lögðu hann. En farið og segið lærisveinum hans og Pétri: ,Hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann, eins og hann sagði yður`." Þær fóru út og flýðu frá gröfinni, því ótti og ofboð var yfir þær komið. Þær sögðu engum frá neinu, því þær voru hræddar.
 
Lk    24:1-10       En í afturelding fyrsta dag vikunnar komu þær til grafarinnar með ilmsmyrslin, sem þær höfðu búið. Þær sáu þá, að steininum hafði verið velt frá gröfinni, og þegar þær stigu inn, fundu þær ekki líkama Drottins Jesú. Þær skildu ekkert í þessu, en þá brá svo við, að hjá þeim stóðu tveir menn í leiftrandi klæðum. Þær urðu mjög hræddar og hneigðu andlit til jarðar. En þeir sögðu við þær: "Hví leitið þér hins lifanda meðal dauðra? Hann er ekki hér, hann er upp risinn. Minnist þess, hvernig hann talaði við yður, meðan hann var enn í Galíleu. Hann sagði, að Mannssonurinn skyldi framseldur verða í hendur syndugra manna og krossfestur, en rísa upp á þriðja degi." Og þær minntust orða hans, sneru frá gröfinni og kunngjörðu allt þetta þeim ellefu og öllum hinum. Þessar konur voru þær María Magdalena, Jóhanna og María móðir Jakobs og hinar, sem voru með þeim. Þær sögðu postulunum frá þessu. En þeir töldu orð þeirra markleysu eina og trúðu þeim ekki. Pétur stóð þó upp og hljóp til grafarinnar, skyggndist inn og sá þar líkklæðin ein. Fór hann heim síðan og undraðist það, sem við hafði borið.
 
Jh    21: 1-18       Fyrsta dag vikunnar kemur María Magdalena til grafarinnar svo snemma, að enn var myrkur, og sér steininn tekinn frá gröfinni. Hún hleypur því og kemur til Símonar Péturs og hins lærisveinsins, sem Jesús elskaði, og segir við þá: "Þeir hafa tekið Drottin úr gröfinni, og vér vitum ekki, hvar þeir hafa lagt hann." Pétur fór þá út og hinn lærisveinninn, og þeir komu til grafarinnar. Þeir hlupu báðir saman. En hinn lærisveinninn hljóp hraðar, fram úr Pétri, og kom á undan að gröfinni. Hann laut inn og sá línblæjurnar liggjandi, en fór samt ekki inn. Nú kom líka Símon Pétur á eftir honum og fór inn í gröfina. Hann sá línblæjurnar liggja þar og sveitadúkinn, sem verið hafði um höfuð hans. Hann lá ekki með línblæjunum, heldur sér samanvafinn á öðrum stað. Þá gekk einnig inn hinn lærisveinninn, sem komið hafði fyrr til grafarinnar. Hann sá og trúði. Þeir höfðu ekki enn skilið ritninguna, að hann ætti að rísa upp frá dauðum. Síðan fóru lærisveinarnir aftur heim til sín. En María stóð úti fyrir gröfinni og grét. Grátandi laut hún inn í gröfina og sá tvo engla í hvítum klæðum sitja þar sem líkami Jesú hafði legið, annan til höfða og hinn til fóta. Þeir segja við hana: "Kona, hví grætur þú?" Hún svaraði: "Þeir hafa tekið brott Drottin minn, og ég veit ekki, hvar þeir hafa lagt hann." Að svo mæltu snýr hún sér við og sér Jesú standa þar. En hún vissi ekki, að það var Jesús. Jesús segir við hana: "Kona, hví grætur þú? Að hverjum leitar þú?" Hún hélt, að hann væri grasgarðsvörðurinn, og sagði við hann: "Herra, ef þú hefur borið hann burt, þá segðu mér, hvar þú hefur lagt hann, svo að ég geti sótt hann." Jesús segir við hana: "María!" Hún snýr sér að honum og segir á hebresku: "Rabbúní!" (Rabbúní þýðir meistari.) Jesús segir við hana: "Snertu mig ekki! Ég er ekki enn stiginn upp til föður míns. En farðu til bræðra minna og seg þeim: ,Ég stíg upp til föður míns og föður yðar, til Guðs míns og Guðs yðar."` María Magdalena kemur og boðar lærisveinunum: "Ég hef séð Drottin." Og hún flutti þeim það, sem hann hafði sagt henni.
 

Fjórar útgáfur, engar tvær eins. María Magdalena kemur og fer, kemur fyrst eða ekki, snertir Jesú eða ekki, kemur ein eða ekki. Símon Pétur kemur ýmist einn eða í fylgd annarra.  En bíðum við, nú vitum við ekki fyrir víst að hér séu ekki margar “María Magdalena” á ferð. María var algengt nafn og “Magdalena” merkir eitthvað á borð við “frá bænum Magdala”. Þær hefðu vel getað verið nokkrar. Ef við segjum svo að Pétur og Símon Pétur séu ekki sömu mennirnir þá gæti dæmið farið að ganga upp. Fjórar aðskildar heimsóknir, fjórir aðskildir hópar.

 

Við nánari athugun kemur líka í ljós að frásagnirnar gerast ekki á sama tíma. Frásögnin í Jóhannesi virðist vera fyrst, þar kemur María “svo snemma að enn var myrkur.” Hjá Mattheusi  hefst sagan “þegar lýsti af fyrsta degi vikunnar”, nokkru fyrir sólarupprás. Hjá Markusi “mjög árla ... við sólarupprás” og hjá Lúkasi “í afturelding”. Grískan er einnig skýr með fjórar tímasetningar, nánar tiltekið í myrkri (skotiax) hjá Jóhannesi, við sólarupprás (epijwskoush) hjá Mattheusi, eftir sólarupprás (anateilantox tou eliou) hjá Markúsi og einfaldlega snemma morguns (baqeox) hjá Lúkasi.

Frásögn Jóhannesar ætti því að koma fyrst. En gæti verið að þær fléttist saman? Skoðum málið nánar og höfum í huga að hér er mikill æsingur og læti, “ótti og mikil gleði”, “ótti og ofboð”, hræðsla og aðsvif. Ekki nema von að fólk geti ruglast og farið að sjá ofsjónir sem gæti auðvitað skýrt alla englana sem eru  ýmist hér eða þar.

 

Byrjum á Jóhannesi. Þar kemur ein kona, María Magdalena, að gröfinni, finnur hana tóma og hleypur til Símon Péturs og hins lærisveinsins. Þeir tveir hlaupa af stað, hinn er fljótari í förum. Nú er farið að birta af degi, skiptum yfir til Mattheusar.

 

Nú koma tvær konur, enn ein María Magdalena ásamt Maríu hinni. Þá er  “landskjálfti mikill” í íslensku þýðingunni en mætti eins þýða sem “mikil læti” og gæti átt við hlaupandi mann – hinn lærisveininn úr Jóhannesi! Þær stöllur ruglast í látunum, halda að hann sé engill, eiga við hann orð en hlaupa í burtu – beint í flasið á Símoni Pétri og halda að hann sé Jesú!

 

Aftur yfir í Jóhannes. Hinn lærisveinninn er kominn að gröfinni en fer ekki inn. Símon Pétur kemur að gröfinni, fer inn. Nú er komin sólarupprás, skiptum yfir til Markúsar.

 

Þrjár konur koma að gröfinni, þriðja María Magdalena ásamt Maríu móðir Jakobs og Salóme. Þær fara inn í gröfina og hitta þar “engil” (Símon Pétur!) sem segir þeim að fara og láta Pétur vita. Þær fara en þora ekki að láta vita.

 

Aftur yfir í Jóhannes. Nú fer hinn lærisveinninn inn í gröfina, þeir eru þar báðir Símon Pétur og hinn. Enn er í aftureldingu, skiptum yfir til Lúkasar.

 

Nú koma margar konur, María Magdalena, María moðir Jakobs, Jóhanna og “hinar”. Þær hitta tvo “engla” í gröfinni (Símon Pétur og hinn lærisveininn!), snúa við og láta lærisveinina vita og nú loks fréttir Pétur af þessu og fer að gröfinni.

 

Aftur yfir til Jóhannesar. María Magdalena er aftur komin að gröfinni, grátandi lítur hún inn og sér tvo engla (Símon Pétur og hinn lærisveininn). Hún á við þá orð en snýr svo aftur til baka og mætir núna Jesú án þess að þekkja hann í fyrstu (hér er kominn Pétur sem komst loks af stað hjá Lúkasi). Á meðan þau eigast við læðast Símon Pétur og hinn lærisveinninn í burtu þannig að þegar Pétur gægjist inn í gröfina eru allir farnir.

 

Þarna er sem sagt búið að tvinna saman fjórar frásagnir af sama atburðinum með þeim hætti að hann gæti hafa gerst – en sem tómur ruglingur og læti, misskilningur og hystería. Og, já, með því að gera ráð fyrir fjórum konum sem heita María Magdalena. Annars er sniðugt hvernig konunum fjölgar í hverri ferð, eftir því sem æsingurinn magnast!

 

En hvað með upphafið, þegar María Magdalena kemur í myrkri og finnur tóma gröf. Getur verið að hún hafi villst í myrkrinu? Það gæti einmitt best verið því í Jóhannesarguðspjalli er sagt frá annarri gröf á sama stað, gröf Lazarusar, sem Jesú hafði einmitt opnað viku áður með því að láta renna frá steini (Jh. 11:39) en Lazarus var sveipaður líkblæjum og með sveitadúk – hvort tveggja var skilið eftir á staðnum (Jh. 11:44). Allt passar þetta eins og flís við rass.

 

Hér er lausnin því komin. Guðspjöllin fjögur eru dagsönn sjónarvottafrásögn af því þegar María Magdalena ruglaðist á gröfum, síðan tóku við tóm læti og ruglingur þar sem trúheitar konur sáu engla þar sem voru félagar þeirra og allir ruglast á öllum – sannkallaður gamanleikur við gröfina.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Mofi

Óvenjulegt hjá þér Binni... Nærri því svo slappt að maður gæti hafnað öllu sem þú segir héðan í frá sem vitleysu. Greinilegt að þú lepur þetta af einhverri atheist síðunni og hefur ekkert skoðað málið sjálfur eða skoðað síður sem svara þessu.

Mofi, 29.12.2007 kl. 15:55

2 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Sæll Mofi

Ég sat nú lengi yfir þessu, hugmyndin er fengin annars staðar frá ég viðurkenni það. En það sniðuga er að þetta smellpassar!

Þú ættir að skoða það sjálfur, það er í raun og veru hægt að tvinna þessar fjórar frásagnir svona saman - að vísu fellur samtvinnunin um sjálfa sig ef lengra er haldið en ég geri hérna (sem skýrir af hverju ég birti bara þessa tilteknu kafla úr biblíunni!)

En punkturinn er auðvitað: Það eru fjórar ólíkar útgáfur og það er engin leið að taka þær bókstaflega. Enda gerðu menn það ekki!

Rétt að endurtaka þetta Mofi: Þessar frásagnir voru almennt ekki teknar bókstaflega jafnvel af kristnum mönnum! Bandaríski guðfræðingurinn Gregory Riley bendir á þetta í nýlegri bók, að meirihluti kristinna á 2. og 3. öld hafi EKKI trúað á upprisuna. Það er ekki fyrr en eftir Nicea og Konstantínus sem farið var að krefjast þess af fólki að það keypti þetta sem bókstaflegar frásagnir.

Brynjólfur Þorvarðsson, 29.12.2007 kl. 16:00

3 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Hvaða bók er það? Resurrection Reconsidered? 

Ég persónulega á bágt með að trúa því að meirihluti kristinna manna á 2. og 3. öld hafi ekki trúað á upprisu Jesú. Mér finnst það hugsanlegt ef upprisa þýðir bókstaflega líkamleg upprisa, en á bágt með að trúa því.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 29.12.2007 kl. 17:33

4 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Já Hjalti Rúnar, það er "Resurrection reconsidered". Riley á sjálfur bágt með þessa niðurstöðu enda trúir hann á uppreisnina.

Sjálfsagt liggur þarna bakvið einhver blanda af dósetisma og aríanisma og hvað þetta hét allt saman, sem afneitar líkamlegri upprisu Jesú. Ég var einmitt að spá í að lesa bókina aftur, ég man ekki hvernig hann tekur á þessu máli.

Riley segir:

"Yet, the claim that anyone might rise bodily from the dead was met in the Hellenic world by utter disbelief; it shocked the listeners into ridicule. ... Even more remarkable, however, was that for the first four hundred years of the movement many Christians, often the most educated and often in the majority, agreed with the opponents. ... This opinion, that neither Jesus nor anyone else could rise from the dead in the flesh, had ancient roots in Greco-Roman culture and in earliest Christianity."

Hann heldur síðan áfram með umræðu um Tómasarguðspjall og er síðan með samanburð við Jóhannesarguðspjall sem sé jafnvel samið sem svar við því fyrra. Ætla að skoða þetta aftur!

Brynjólfur Þorvarðsson, 29.12.2007 kl. 19:04

5 Smámynd: Árni þór

Í stuttu máli er þetta fljótafgreitt, í fyrsta lagi Guðspjallamennirnir fjórir segja frá sama atburði á sitthvorum tímanum og í sumum tilfellum á mismunandi hátt til að fá betri heildarmynd, þess vegna virðist í fljótu bragði frásögnin ekki passa saman en á þennan hátt er atburðarrásin nákvæmari og ýtarlegri.
Í öðru lagi er margt falið fyrir hyggindamönnum þessa heims sem horfa á ritninguna aðeins til að finna að eða gagnrýna hana, þess vegna meðal annars talaði Jesús í dæmisögum, aðeins í samfélaginu við Drottinn sjálfan í heilögum anda er það orð opinberað þar sem maður þarf að heyra rödd Drottins í bæn og hann er hið lifandi orð. Hvernig á maður að skilja hið lifandi orð ef maður hafnar því, því miður ekki hægt.  Smá hluti biblíunnar nefnist fagnaðarerindi, þar að segja að Jesús kom inn í þennan heim til að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eylíft líf, allur hinn hlutinn er skrifaður fyrir þá sem hafa meðtekið fagnaðarerindið og vilja vaxa í Guði eins og ritað er sérhver ritning er innblásinn af Guði og nytsöm til fræðslu, umvöndunar, leiðréttingar og menntunnar í réttlæti til að guðsmaðurinn sé algjör hæfurgjör til sérhvers góðs verks.

Nóg um þetta í bili Guð blessi ykkur

Árni þór, 29.12.2007 kl. 20:46

6 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Skemmtileg tilgáta

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 29.12.2007 kl. 22:06

7 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Hér er ein tilgáta:

Ef Jesú var til, þá var hann aldrei krossfestur erða hann lést ekki á krossinum. Það var sett á svið svo hann kæmist í burtu af því að hann var hundeltur. Einhverjir sáu hann eftir krossfestinguna og þá flaug fiskisagan um upprisu hans. Hann komst hins vegar undan og endaði í Frakklandi og eignaðist það marga afkomendur (sbr. Dan Brown)

Margrét St Hafsteinsdóttir, 29.12.2007 kl. 22:28

8 Smámynd: Árni þór

Það eru alltaf þeir sem eru með þetta stóra EF Jesús hitt og þetta sem fullyrða í gegn ritningunni...

Það er ekkert EF hjá mér, Jesús er uprisinn og ég er fylltur heilögum anda

Árni þór, 30.12.2007 kl. 04:30

9 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Sæll Árni

Því miður er ekkert sem bendir til þess að það sé satt sem stendur í guðspjöllunum. Þau eru samin löngu eftir atburði, nánast allt sem stendur í þeim er fengið að láni annars staðar frá. Vel þekkt söguminni, þar á meðal krossfestingin og upprisan.

Þú trúir því að Jesú sé upprisinn. Sjálfum finnst mér það svo fáránlegt að nokkur maður gæti risið upp frá dauðum að ég myndi að lágmarki heimta tvær samhljóða útgáfur til að viðurkenna að það gæti eitthvað hafa gerst sem VIRTIST vera upprisa. En því er ekki einu sinni til að dreifa, mín skoðun byggð á þeim heimildum sem til eru er einfaldlega sú að upprisusagan var búin til nokkru eftir að hugmyndin um upprisu kviknaði hjá einhverjum sértrúarsöfnuði.

En það er bara kenning, mér finnst hún sennilegri en að upprisan hafi gerst. Reyndar finnst mér nánast allt sennilegra en að upprisan hafi gerst, þar á meðal að Jesú hafi verið brottnuminn af litlum grænum geimförum. Vegna þess að upprisa er ómöguleg samkvæmt öllu því sem við vitum um lífið og tilveruna, um vísindi og heimspeki, öll okkar fræði.

Ef þú Árni villt leggja það allt thil hliðar á grundvelli fjögurra ósamhljóða og ótrúverðugra frásagna þá er það þinn réttur.

Sá sem afneitar EF hann afneitar skynsemi, frelsi, sjálfstæði, hugsun. Ég er ekki tilbúinn til þess.

Brynjólfur Þorvarðsson, 30.12.2007 kl. 12:45

10 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

<blockquote>Ef þú Árni villt leggja það allt thil hliðar á grundvelli fjögurra ósamhljóða og ótrúverðugra frásagna þá er það þinn réttur.</blockquote>Þar sem Mt og Lk notuðu Mk sem heimild, þá held ég að það sé eðlilegra að tala um tvo vitnisburði.   

Hjalti Rúnar Ómarsson, 30.12.2007 kl. 17:02

11 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Þetta er rétt hjá þér Hjalti svo langt sem það nær, þ.e. ef þú tekur guðspjöllin sem tilraun til raunverulegrar söguritunar. Í því tilfelli er ljóst að Mk, Mt og Lk eru samstofna (erfiðara að segja hver sé fyrstur) og Jh því ósamstofna. En ef aldrei vakti fyrir mönnun að reyna að segja sanna sögu heldur einhvers konar helgisögu þá er allt eins líklegt að höfundar allra fjögurra guðspjallanna hefðu vitað hvor af öðrum og lesið hvorn annan.

Mt var lengi talinn fyrstur, og er sá fyrsti sem vitnað er í ef ég man rétt, en svo eru til þeir sem telja jafnvel að Jh sé fyrstur.

Ég held að það sé mikilvægt að taka afstöðu til þess í hvaða tilgangi þessi rit voru skrifuð. Ef tilgangurinn var að segja sem réttast frá atburðum þá getum við talað um tvo vitnisburði (þar sem annar er í þremur oft ósamhljóða útgáfum), en ef tilgangurinn var að segja helgisögu án sérstaks áhuga á sagnfræðilegum staðreyndum þá eru fjórir vitnisburðir, hver um sinn höfund og tilgang ritunar en enginn vitnisburður um Jesú.

Varðandi þessa tilteknu kafla sem ég vitna í hérna þá er ekki að sjá að "samstofna" kaflarnir séu líkari innbyrðist en gagnvart Jh. Þetta eru fjórar ólíkar frásagnir og allar ótrúverðugar.

Brynjólfur Þorvarðsson, 30.12.2007 kl. 20:50

12 identicon

Ég er sammála Hjalta. Ég tel það ólíklegt að menn hafa ekki trúað á upprisuna. Ég sé ekki að Riley hafi neitt bakvið það sem hann segir, enda hef ég ekki lesið þessa umræddu bók. En vita mál er að upprisan er of mikil dauðmiðja í bæði guðfræði Páls (alráðandi jafnvel) og guðspjöllunum. Sjá bara að Markús er eiginlega ekkert nema Píslarsaga með formála. Allt virðist vera byggt íkrignum upprisuna, frekar en að henni sé skellt við þegar meistarinn er óvænt líflátinn.

Jakob (IP-tala skráð) 31.12.2007 kl. 01:25

13 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Jamm Jakob, ég er til í að samþykkja þetta (án þess að skoða það nánar). En hjá Páli hangir saman upprisa og messías. Jesú verður messías með upprisu.

Það er erfitt að vita hvernig fornaldarmenn hugsuðu en líklegt, miðað við aragrúar "upprisu"-trúarbragða sem voru í tísku, að menn hafi ekki tekið upprisuna bókstaflega. það er það sem dósetísmi og Aríanismi gengur út á.

Ef t.d. Júdas Galíleumaður er upphafsmaður kristninnar (sem mér finnst alltaf merira og meira spennandi) þá er hann krossfestur og deyr uþb. 6 e.o.t - hvað ef menn hafa sagt að hann verði messías þegar hann rís upp. Páll segir síðan "hann er upprisinn", þ.e. Páll sá hann, þar með er hann messías!

Öfgatrúaðir messíanistar voru viðvarandi frá Júdasi að lokum byltingar. Voru þeir ein hreyfing? Hvað segir Jósefus, hann talar við farísea og saddúkea og vandlætara og sicarii. Þeir síðarnefndu taka völdin í musteinu 64, er það ekki hinir for-kristnu, þeir sem bíða eftir Júdasi endurfæddum? Páll er "hin milda rödd", sá sem segir við þá "hann er endurfæddur" en hann er þaggaður niður þar til allt springur í loft upp.

Páll skrifast á við Jakob (dæmigerður farísei ef marka má Jakobsbréfið), Símon og Jóhannes. Jakob er drepinn 64, en Símon og Jóhannes leiða byltinguna og tapa. Símon er drepinn af Vespaníasi, Jóhannesi sleppt. (sömu menn? kannski).

Trúðu menn á upprisuna? Hvað gerist, Jakob, ef þú gróðursetur fræ í frjóa mold. Hveitið vex upp. þetta er grunnurinn að Ósíris/Ísis/Hórus átrúnaði. Fræið er Ósíris, Ísis er jörðin, Hórus er hveitið. Faraó er hinn endurfæddi Hórus en jafnframt hinn dáni Ósíris. Ísis er móðir jörð, meyjan sem þarf engan karlmann.

Þannig skildu menn bæði upprisuna og kvöldmáltíðina. Þetta hangir saman - "þetta er blóð mitt, þetta er hold mitt"  - þarna talar Ósíris og það er Hórus sem rís upp.

Að dauður líkami rísi upp - því trúðu menn ekki. Að guðinn rísi upp í óeiginlegri merkingu - það var klassískt, því trúðu allir.

Brynjólfur Þorvarðsson, 31.12.2007 kl. 01:53

14 Smámynd: Árni þór

Sami krafturinn sem reisti Jesús upp frá dauðum, verkar í þeim sem ákalla Jesú nafn, ég er fylltur heilögum anda þar að segja nærvera Guðs er raunveruleg í mínu lífi. Þannig að það er of seint að segja mér þetta.

Árni þór, 31.12.2007 kl. 02:19

15 Smámynd: Árni þór

Gleðilegt nýtt ár

Árni þór, 31.12.2007 kl. 02:20

16 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Sömuleiðis Árni, megi þú njóta vel!

Brynjólfur Þorvarðsson, 31.12.2007 kl. 02:32

17 Smámynd: Villi Asgeirsson

Merkilegt að kristnir séu á móti þessu. Er ekki bara fínt ef einhver kemur með kenningu sem gerir atburðina sennilegri?

Annars hef ég lesið að guðspjöllin hafi öll verið skrifuð löngu eftir atburðina sem þau lýsa, milli 150 og 250 eftir krist. Séu til samtímaheimildir, var þeim hafnað þegar Biblían var sett saman, því þar er Jésús of "mannlegur" og ekki nógu heilagur. 

Villi Asgeirsson, 31.12.2007 kl. 15:34

18 identicon

Skoðum aðeins hvað sjónarvottar eru áreyðanlegir og spáið í því hversu frásagnir biblíu eru hreint fáránlegur vitnisburður, hann er algerlega ómarktækur með öllu hvernig sem menn reyna að horfa á málið... well nema með afneitun
http://en.wikipedia.org/wiki/Eyewitness_identification

DoctorE (IP-tala skráð) 6.1.2008 kl. 15:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband