Að trúa því ótrúlegasta án raka er hlægilegt. Skyldi fólkið vita af þessu?

Ótrúlegasta birtingarform þeirrar sjálfviljugu blekkingar sem heitir trú er hin kristna sköpunarhyggja. Það er illskiljanlegt að fullorðið fólk skuli trúa á jafn mikla vitleysu, svipað og að trúa á jólasveininn. Reyndar er sköpunin forsenda kristinna kennisetninga þ.a. það er kannski ekki við öðru að búast í samfélagi sem ríkisstyrkir blekkingarmeistarana. Þeir sem láta plata sig, en eru kannski sæmilega greindir eða rökfastir, hljóta að komast að þeirri niðurstöðu að sköpunin sé nauðsynleg forsenda kristninnar. Síðan er það spurning um að velja - heilbrigða skynsemi eða dogmatíska sköpunarhyggju.

Eitt það fyrsta sem sköpunarsinnar verða að hætta að skilja eða taka mark á eru vísindin. Algengasta aðferðin er sú að draga fram hinar og þessar vísindalegar kenningar sem hafa reynst vitlausar, eða sem eru ekki enn nógu góðar, og hafa þar með afsannað alla vísindalega hugsun!Reynar er mjög algengt að fólk rugli saman vísindalegri þekkingu vs. vísindalegri aðferðafræði. Þekking hvers tíma er ekki endanleg en vísindaleg aðferðarfræði er eina leiðin til að komast að hinu raunverulega. Svo finnst mér óvarlegt af þér að segja að eitthvað sé "vísindalega sannað".

Vísindin og vísindaleg aðferðarfræði er mjög ungt fyrirbæri, segjum að upphafið sé hjá Njúton og Cartesíusi fyrir um 300 árum. Alveg síðan þá hefur vísindaleg aðferðarfræði sannað sig aftur og aftur og aftur og aftur. En vísindalegar kenningar hafa oft verið bölvað bull. Til dæmis sú jarðfræðikenning að meginlöndin væru kjurr en hreyfðust upp og niður. Rökrétt á sínum tíma en afskrifað í dag.

En vísindaleg aðferðarfræði, sem byggist á þeirri kenningu að allt sé skýranlegt með vísindum út frá vísindalegum forsendum, hefur skapað heimsmynd sem er svo ótrúlega miklu flóknari og margreytilegri í alla staði en nokkurn hefði órað fyrir þegar biblían var skrifuð og allt þar til á allra síðustu öldum. Hér gildir engu hvort við skoðum allra smæstu einingar efnisins eða þær allra stærstu, hvort við tökum eðlisfræði eða efnafræði eða efnisfræði eða lífvísindin öll. Heimurinn er ótrúlega gríðarlega miklu flóknari en menn töldu og allt þetta höfum við uppgötvað með vísindalegri aðferðarfræði.

Sumt er enn utan færis vísindanna, er einfaldlega of flókið til að festa hendur á með núverandi þekkingu þótt eitthvað miði áleiðis. Til dæmis mannsheilinn og þetta furðulega fyrirbæri meðvitund sem virðist vera eitthvert það flóknasta sem til er. Í einum mannsheila eru fleiri mögulegar leiðir fyririr taugaboð að fara frá einum enda til annars en eru frumeindir í alheiminum. Það sem gerist í þessum eina mannsheila er af sömu af stærðargráðu og allur tölvubúnaður heimsins samanlagt (þetta var reyndar áætlað fyrir nokkrum árum, allar tölvur heimsins gætu verið farnar að ná samanlagðri heilastarfsemi tveggja einstaklinga, og þá er aðeins átt við margbreytileika í raflögnum, ekki margbreytileika í starfsemi sem er í væntanlega miklu meiri).

Vísindaleg aðferðarfræði hefur skapað þann heim sem við þekkjum í dag. Án hennar engin iðnbylting, engin tölvubylting. Ekkert internet, ekkert rafmagn, engir bílar, engin nútíma sjúkrahús, engin þægileg innivinna. Áður vann ég sem forritari og tölvukall, núna vinn á hjólaskóflu, hvorki hún né tölvurnar væru til án vísindalegrar aðferðarfræði.

Það sem mér finnst furðulegast við hugsunarhátt sköpunarsinna, og jafnvel allra kristinna, er að þeir virðist ekki hafa hugarflug til að skilja hvað þeir í raun trúa á. Ef það væri rétt að guð hafi skapað heiminn þá er guð svo gríðarlega ótrúlegt fyrirbæri að engin orð ná að lýsa því. Öll okkar þekkingarleit síðustu 300 árin með vísindalegri aðferðarfræði er eins og barnaleikur, eins og að klóra í málninguna á húsi raunveruleikans.

Guð væri nánast óendanlega flókinn og tilvist hans óendanlega ólíkleg. Samt helda menn þessu fram án þess að falla bókstaflega í stafi yfir því að láta sér detta annað eins í hug, eins og þetta sé eitthvað sjálfsagt. Mörgum finnast kenningar skammtafræðinnar illskiljanlegar og margt þar ganga á móti almennri skynsemi. Guð slær almenna skynsemi kalda og verður aldrei skiljanlegur.

Ef guð er til þá er heimurinn svo geigvænlega flóknari en við höldum að það er eiginlega ekki hægt að lýsa því. Kenningin um guð væri ótrúlegasta og ólíklegasta kenning sem hægt væri að setja fram. Samt gera menn það, kannski án þess að átta þig á því sem þú eru að segja? Kannski skilja þeir þetta ekki? Halda einhverju fram sem þeir vita ekki hvað er?

Á hvaða rökum eða forsendum byggir þeir kenningu þína? Hvar eru sönnunargögn þessarar alheimsbyltandi heimsmyndar sem þeir heldur fram?

Heimsmynd nútímans er þróuð með vísindalegri aðferðarfræði. Öfugt við það sem flestir halda þá er ekkert, akkúrat ekkert, sem hægt er að sjá frá jörðu niðri án sjónauka sem bendir til þess að jörðin sé á hreyfingu. Jarðmiðjukenningin er hin eðlilega niðurstaða fornaldar og miðalda. Brúnó og Kóperníkus settu sólmiðjukenningar sínar fram jafnvel á trúarlegum forsendum frekar en vísindalegum (einkum Brúnó) en stjórnuskoðanir Galíleós færðu frekari rök fyrir henni þó þau væru ekki óyggjandi. Þegar síðan Tycho Brahe ætaði að afsanna sólmiðjukenninguna með vísindalegum athugunum réð hann ekki við stærðfræðina og fékk Kepler til að reikna fyrir sig. 

Kepler uppgötvaði að útreikningarnir gengu einmitt best upp með sólmiðju + sporbaug. Þar með voru komin mjög sterk rök fyrir sólmiðjukenningunni en fram að Kepler voru í raun engin óyggjandi rök með henni. En engum datt í hug að stjörnurnar væru eins langt í burtu og þær eru, smám saman uppgötvuðu menn að flestar þeirra væru ótrúlega langt í burtu en engan óraði fyrir fjarlægðum á borð við þær sem eru í vetrarbrautinni. Það er ekki fyrr en með Hubble, við upphaf 20. aldar, sem menn fara að gruna að til séu aðrar vetrarbrautir og menn fara að skynja hina raunverulegu óravídd geimsins - og smæð okkar.

Þessi heimsmynd stjörnufræðinnar er studd gríðarlega mörgum athugunum og útreikningum. Það er ekki sjálfgefið að hún sé hin endanlega og eina sanna heimsmynd en það er miklu fleira sem styður hana í öllu því sem við þekkjum í dag heldur sem mælir á móti. Þessi heimsmynd er gríðarleg í ótrúleika sínum miðað við jarðmiðjukenningar miðalda. Hún er samt eins og rykkorn í samanburði við guðmiðjukenningu biblíunnar. Sú kenning hefur engin haldbær rök á bak við sig. Það heldur enginn henni fram í alvöru sem gerir sér grein fyrir því hversu ótrúlega miklu ólíklegri sú kenning er miðað við allar aðrar. Engar mæliniðurstöður, engar kenningar leiddar fram með vísindalegri aðferðarfræði, engar tilgátur um sennilegar orsakir og afleiðingar. Bara eitt stórt alheimssvarthol sem heitir guð.

Guð er sú ótrulegasta kenning sem hægt er að koma fram með til skýringar á nokkrum hlut. Hún er þar að auki óþörf, við höfum nóg af öðrum skýringum og mjög öfluga leið til að finna fleiri. Loks eru engar staðreyndir sem styðja hana á nokkurn hátt.  Þessar þrjár staðreyndir, þ.e. guð er með ólíkindum ótrúlegur, óþarfur og án sönnunargagna, gerir það að verkum að allar tilraunir til að skýra eitthvað út frá guði, eða halda einhverju fram í tengslum við guð eða um guð eins og maður viti eitthvað um hann, eru í raun hlægilegar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Frábær og skýrmælt grein.  Það er þó varla hægt að halda uppi slíkri röksemdarfærslu við trúaða því að á bakvið hugtakið Guð eða orðið Guð felst persónulegur geðþótti sem er jafn margbreytilegur í túlkunum og greind og þekking hvers og eins trúmanns leyfir.  Guð er allt og  vegir hans órannsakanlegir. Hver getur slegið út slíkar röksemdir.

Ég gaf Mofa alveg upp á bátinn fyrir útúrsnúninga sína dónaskap og vanvirðu, þar sem hann snýr út úr öllu, sem borið er á borð og svarar engu. Ég held að hann gangi ekki heill til skógar og ætla ekki að eyða orðum á hann meir, enda skipta svona nöttar engu. Það skilur enginn hvað þeir eru að fara.

Röksemdir manna fyrir tilvist Guðs eru ótrúlegar.  Aðspurður segir Guðsteinn að fullvissa hans um tilvistina sé byggð á innri tilfinningu, auk þess sem fornleifafræðin hafi leitt ýmislegt í ljós.  Hmmm?  Það að Trója fannst staðfestir þá einnig trúverðugleika Hómerskviða og tilvist allra hinna Grísku Guða, sem nefndir eru þar. 

Það er engin leið að rökræða við þetta fólk.  Það leiðir frá argumentinu, hæðist eða móðgast...end of story.

Á síðu Guðsteins, hélt ég því fram að enginn af spádómum Biblíunnar hefðu ræst svo óhrekjandi sé.  Viti menn. Ég fékk rök:

Kristur spáði fyrir um fall musterisins, svo ekki stóð steinn yfir steini. 

Ég benti á að í raun eru nokkrir steinar yfir steini í grátmúrnum, þótt það sé aukaatriði.  Hinsvegar er þessi spádómur sá spádómur, sem menn byggja endurkomuna á (the rapture), semsagt að þetta hafi ekki gengið eftir og eigi eftir að koma enda séu mikil tákn á himni og jörðu, sem eru undanfari.  Þetta hafa menn talið vera nærri um margar aldir og spáð í teiknin án þess að nokkuð hafi hent.

Mótrökin: Jú, það er ekkert sem segir að spádómar geti ekki ræst aftur og aftur og að hann hafi ræst árið 70 og eigi efti að rætast aftur innan tíðar.

Er nokkur leið að halda uppi rökum við svona þverhausa? 

Ég veit sveimér ekki hvort ég hef gaman af þessu lengur, því annaðhvort er þetta fólk freyðandi idíótar eða algerlega ódrengilegt og óupplýst í orðræðu sinni.

Ég hallast meir og meir að því að þetta sé ólæknandi geðbrestur en nokkuð annað. Einhveskonar afbrigði af skitsófreníu með ranghugmyndum.  Það er eiginlega stúdía fyrir vísindamenn að skoða þessa rökleiðslur.

Jón Steinar Ragnarsson, 9.1.2008 kl. 02:22

2 identicon

Flott skrif.
Það verður að teljast hreint fáránlegt að skynsemi & vísindi eigi að leggja að jöfnu við að hér sé skywizard, að menn séu hatrammir og vondir ef þeir trúa ekki á þetta eða segi fólki að þetta sé ævintýri.
Tökum guðlastslög, miðað við forsendur þeirra þá gætu nokkrir menn tekið sig saman og stofnað trúfélag í kringum sorptunnu og aðrir mættu helst ekki segja okkur að við værum að rugla því það myndi særa trúarvitund okkar.
Góð "vísindi": Það er ekki hægt að sanna að eitthvað sé ekki til og því ber að kenna börnum að hluturinn sé til og meira að segja hendir ríkið milljörðum í ruglið.
Æ dónt get it... og þetta hlýtur að verða skilgreint sem geðsjúkdómur, við munum að hommar voru lengi vel titlaðir sem geðveikir en voru teknir af þeim lista... well ég er nokkuð sjúr á að trúaðir munu verða settir á þennan lista á einhverjum tímapunkti, a.m.k. þeir sem hafa svæsnustu einkennin

DoctorE (IP-tala skráð) 9.1.2008 kl. 11:19

3 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Hreinn unaður að lesa þetta...takk fyrir mig

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 9.1.2008 kl. 14:33

4 Smámynd: Árni þór

Ég nenni ekki að rökræða vitleysu, það er tíma þjófnaður

Árni þór, 9.1.2008 kl. 19:01

5 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Takk fyrir gott hrós!

Brynjólfur Þorvarðsson, 9.1.2008 kl. 20:07

6 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Sæll Brynjólfur.

Hvernig gerðist það í þróun mannkynsins sem kallar aðeins á hið nauðsynlega, að samfara auknum vitsmunum varð til þessi afstaða hans til hins óþekkta og hins óþekkjanlega, afstaða sem flestir kalla trú? Ég er ekki að biðja þig einhverja útleggingu á "guðsgeninu" enda geta til tilfinningalegra tengsla við hugmyndir ekki endilega forsenda hugmynda um guðdóm.

kv,

Svanur Gísli Þorkelsson, 9.1.2008 kl. 20:51

7 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Sæll Svanur

Þú fyrirgefur langlokusvarið!

 

Þessi spurning hefur nú oft verið rædd. Þú gefur þér tvær forsendur, annars vegar að þróun geti ekki leitt af sér “ónauðsynlega” eiginleika (eða hegðun) og hins vegar að trú sé “ónauðsynleg” hegðun. Með trú virðist þú eiga við þá afstöðu til “hins óþekkta og óþekkjanlega” sem leiði til trúar á “guðdóm”. Þarna felst reyndar fullyrðing um að eitthvað geti verið óþekkjanlegt, ekki bara á hverjum tíma heldur yfirhöfuð. Það er í sjálfu sér trúarleg afstaða og ekki í samræmi við t.d. vísindalega nálgun á tilveruna.

 

Varðandi fyrri forsenduna þá er auðvitað ekkert skipulag eða hugmyndafræði bak við þróun. Breytingar á genum verða handahófskennt og vel flestar hafa neikvæð áhrif að talið er. Með því er átt við að einstaklingur með þannig breytingu í genum sínum á minni möguleika á að eignast afkvæmi. Þannig breyting myndi hreinsast út úr stofninum eftir nokkrar kynslóðir, mishratt eftir því hversu neikvæð áhrifin væru.

 

Margar breytingar eru hlutlausar þegar þær verða, þ.e. hafa engin áhrif á möguleika einstaklingsins til að eignast afkvæmi og sumar breytingar eru strax jákvæðar.  Breyting sem er hlutlaus hverfur ekki sjálfkrafa. Samkvæmt tölfræðinni myndu hlutlausar breytingar haldast og dreifa sér nokkuð jafnt en aldrei til allra einstaklinga. Tilvist þessara hlutlausu breytinga innan tegundarinnar leiðir til þess margbreytileika sem við sjáum, við erum öll ólík en höfum langflest sömu möguleika til að eignast afkvæmi. Sú staðreynd að við erum með mismunandi gen fyrir háralit er algjörlega “ónauðsynlegt” en samt afleiðing þessa sama ferlis.

 

Mannsheilinn er gríðarlega flókið fyrirbæri, hvað þá sú starfsemi sem þar fer fram. Ekkert af því varð til samkvæmt einhverju plani eða áætlun, þetta bara gerðist og ýmsir eiginleikar heilans gætu vel verið hrein aukaafurð, svo lengi sem hún er ekki neikvæð. Svo er einnig hugsanlegt að jákvæður eiginleiki sé háður neikvæðum en sé samt svo jákvæður að hann yfirvinnur hinn neikvæða. Athyglisverð tilgáta um þróun tungumáls bendir á að Neanderthalsmenn voru með stærri heila en við, og þykkari hauskúpubein. Barnsburður og fæðing hefur því verið mjög erfið og hættuleg móðurinni vegna höfuðstærðar. Hins vegar virðast Neanderthalsmenn ekki hafa getað talað eins og við (vantar vöðvafestingar fyrir nákvæma hreyfingu tungunnar) en voru engu að síður með flókna menningu (grófu t.d. látna). Stór heili gæti hafa verið nauðsynlegur til að skilja samfélagslega hegðun án fullþróaðs tungumáls, og tungumálið þá þróast vegna þess að það þarf minna heilapláss til að ná sama stigi samfélagssamskipta, þar af leiðir minni höfuðkúpu og auðveldari fæðingu. Þetta er auðvitað bara tilgáta en sýnir kannski hvernig hlutirnir geta hangið saman.

 

Varðandi síðari forsendu þína, að trú eða trúhneigð sé “ónauðsynleg” þá væri réttmætt að benda á að við fyrstu sýn virðast trúarbrögð vera tíma- og orkueyðsla ef tilgangurinn er fyrst og fremst að eignast afkvæmi. Þessu er auðvelt að svara með því að benda á þá samfélagslegu bindingu sem felst í trúarbrögðum, hlutverk þeirra sem samfélagslegt hjálpartæki bætir auðveldlega upp alla orku- og tímaeyðsluna. Í nútímanum höfum við aðrar leiðir til samfélagsbindingar og má segja að sameiginlegt ritmál (og menningin sem hangir á því), skólakerfi og lagaumhverfi að ógleymdu lýðræðislegu stjórnarfari geri miklu meira gagn en trúarbrögð.

 

En þetta var um trúarbrögðin. Trú og trúhneigð er annað. Við höfum sterka tilhneingu til að finna munstur eða samræmi í hlutum, finna einhver kerfi sem auðvelda okkur að skilja umhverfið. Þessi hæfileiki til að finna munstur eða samfellur er nauðsynlegur til að spara tíma í ákvarðanatöku. Frummaður sem stendur frammi fyrir hættu þarf ekki að hugsa sig í gegnum öll atriði hættunnar áður en hann tekur ákvörðun – hann sér ákveðin grunnatriði og púslar þeim saman í heildarmynd byggða á fyrri reynslu og bregst við á grundvelli munstursins en ekki röklegri hugsun um hvert smáatriði. Við notum þetta á hverjum degi þegar við keyrum bíl og í mjög mörgum mannlegum samskiptum, reyndar alltaf þegar við erum ekki að taka “sjálfstæðar” ákvarðanir.

 

Mannsheilinn býr til munstur eða skemu sem hægt er að grípa til, jafnvel ómeðvitað. Það er athyglisvert að sjimpansaúngar læra af mæðrum sínum nákvæmlega, hvert smáatriði. Mannabörn læra ónákvæmlega, horfa á aðalatriðin og reyna síðan að tengja þau sjálf. Þú sérð það væntanlega sjálfur að þessi tilhneiging ýtir undir trú á yfirnáttúruleg fyrirbæri (guðdóm, vætti, álfa, drauga) vegna þess að við reynum alltaf að sjá samhengi í hlutunum.

 

Annar sterkur eiginleiki okkar sem er sérstaklega sterkur hjá börnum er að manngera hluti, ætla hlutum að hugsa. Börn gera þetta mjög mikið, þau ætla steinum og trjám og húsum og bílum að hafa tilfinningar og vilja. Þessarar tilhneigingar gætir líka hjá fullorðnum en í minna mæli. Frummaðurinn hefði haft gagn af þessu, með því að ætla hlutum vilja þá er auðveldara að spá fyrir um hvað gerist næst, einkum ef maður ætlar hlutum illan vilja. Sá sem gerir ráð fyrir því að steinn sem dettur ætli sér að meiða er fljótari að bregðast við og forða sér, sá sem gerir ráð fyrir því að straumþung á ætli sér að drekkja passar sig betur, sá sem gerir ráð fyrir því að ljónið ætli sér að éta forðar sér hraðar.

 

Þarna er kominn annar þáttur í því að skapa trúgirni. Enn einn er trúarlegar innlifanir. Nýlegar rannsóknir hafa sýnt að svonefndar trúarlegar innlifanir eða tilfinningar eigi sér uppruna á tilteknum stað í heilanum og hægt sé að örva þær beint með rafmagni. Menn eru mjög misnæmir fyrir þannig upplifunum og ég á t.d. frekar auðvelt með að finna fyrir tiltölulega sterkri trúarupplifun. Þetta er hægt að örva með hugbreytandi efnum (áfengi osfrv.) Þróunarlegt gagn slíkra stöðva gæti verið að gera okkur kleift að finna til samúðar, það má vera að þessi stöð sé nauðsynlegur hlutur af tilfinningakerfi heilans. Gervigreindarfræðingar hafa bent á að hlutverk tilfinninga er að stjórna hugsunum – heilinn kastar stanlaust upp nýjum hugsunum og hugmyndum, tilfinningarnar velja og hafna. Samkennd og samúð eru nauðsynlegir þættir í samfélagsgerð en það er einmitt samfélagsgerð mannskepnunnar sem umfram allt gerir hana svo hæfa til að lifa af og fjölga sér.

 

Sköpunargleðin er svo enn einn þátturinn, þessi gleði sem við finnum fyrir þegar við gerum eitthvað nýtt og gerum það vel, þegar aðrir hrósa okkur – það þarf kannski ekki að fjölyrða um af hverju það er mikilvægt fyrir afkomu okkar. En sköpunargleðin ásamt lönguninni til að sjá hlutina í samhengi og tilhneigingunni til að manngera alla hluti leiðir af sér sagnahefðina, sögurnar. Menn sitja og segja sögur, búa til sögur – skemmtilegar sögur, fræðandi sögur, minnisstæðar sögur, Börn vilja vita “afhverju” og þá er þeim sagt það, hver kynslóð segir sögurnar sem sú fyrri sagði og bætir við eða breytir. Þannig myndast smám saman grunnur að goðafræði, mýþólógíu.

 

Samfélagslegt gildi sagnahefðarinnar er gríðarlegt. Með flóknari samfélagsgerð og borgarmyndun þróast mýþólógían, samfélagslegt hlutverk hennar eykst en um leið er samfélagið öðruvísi – það hefur kóng, það hefur yfirstjórnanda. Mýþólógían fær það líka, fær sinn kóng – guðdóminn.

 

Kóngur – guð, messías – guð, guð er kóngur í guðsríki, kóngurinn ríkir fyrir guðs náð. þarna nær samruni allra þessara þátta sinni hæstu hæð frá samfélagslegu sjónarmiði en kannski ekki endilega besta útkoman fyrir einstaklinginn.

 

En hvað um það, nútímasamfélag þarf ekki lengur á trúarbrögðum að halda. Trú er einkamál hvers og eins, það mega allir trúa því sem þeir vilja. En sá sem heldur að hann trúi einhverju sem er “rétt” er að misskilja lífið og tilveruna.

Brynjólfur Þorvarðsson, 9.1.2008 kl. 22:25

8 identicon

Sæll Brynjólfur.

Ég veit að þetta hefur oft verið rætt áður, en mér lék forvitni á að vita hvernig þú nálgaðist málið. Þakka þér fyrir að taka þetta svar saman.

Aðeins örfáar athugasemdir. Þú ritar;

"Þarna felst reyndar fullyrðing um að eitthvað geti verið óþekkjanlegt, ekki bara á hverjum tíma heldur yfirhöfuð. Það er í sjálfu sér trúarleg afstaða og ekki í samræmi við t.d. vísindalega nálgun á tilveruna."

Margir eru á því að það sé ekki hægt að fullyrða neitt um það sem gerðist áður en alheimurinn varð til  (fyrir stóra hvell) og það sé óþekkjanlegt.

Ég hef alltaf skilið þróunarkenninguna á þann veg að umhverfið kalli á þróunina og að einstaklingurinn (tegundin) viðhaldi þeim genabreytingum sem eru henni til framdráttar eða nauðsynlegar til að geta af sér hæfari einstaklinga. Nauðsyn er þannig hluti af þróun saman ber háralitinn sem gerir okkur hæfari til að mæta ákveðnum umhverfisaðstæðum.

Nýjustu rannsóknir benda til að Neanderdalsmaðurinn hafi getað talað. Hann hafi verið mjög djúpraddaður og átt í erfiðleikum með vissa sérhljóða sem við notum. - Allar spekúleringar um höfuðstærð og getu til tjáningar eru meira í ætt við vísindaskáldskap enn alvöru vísindi.

Þú telur trúna á Guð vera tengda eftirfarandi orsökum;

Hún er nauðsynleg Samfélagsbindingu, hún verður til vegna nauðsyn þess  að sjá munstur (abstrakt hugsun), og vegna tilhneigingar mannsins til að spegla sjálfan sig í umhverfi sínu, og vegna efnaferla heilans sem orsaka "trúarupplifun" (hvað sem það er) og gæti verið forsenda samkenndar og samúðar og sköpunargleði.

Hér er ekkert að finna sem trúaður maður getur ekki skrifað undir að mínu mati.

kv,

Svanur G. Þorkelsson (IP-tala skráð) 10.1.2008 kl. 14:16

9 identicon

Besta grein sem ég hef lesið lengi!!! 

Pétur Orri (IP-tala skráð) 10.1.2008 kl. 14:22

10 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Sæll Svanur

Það er rétt hjá þér þetta varðandi notkun á orðinu óþekkjanlegt. Auðvitað eru til hlutir sem eru óþekkjanlegir (skammtafræðin gerir t.d. ráð fyrir því að sumar mælingar sé ekki hægt að gera) en ég var að meina hugmyndafræðilega eða kerfisbundið óþekkjanlegt (t.d. eitthvað yfirnáttúrulegt). En þú endurtekur algengan misskilning á miklahvelli. það var ekkert á undan honum, þess vegna er ekki um neitt óþekkjanlegt að ræða þar.

Þetta með Neanderthalsmanninn var auðvitað eins og þú segir meira í ætt við vísindaskáldskap, raunveruleikinn er alltaf miklu flóknari en þetta. Mér fannst þetta bara gott dæmi um hvernig eitthvað "nauðsynlegt" geti þurft á einhverju "ónauðsynlegu" að halda. Sigðblóðkornasýki (sickle cell anemia) er kannski betra dæmi, þeir sem eru með genið sem veldur þessari sýki eru ónæmari gegn malaríu og því er sýkin algeng á svæðum þar sem malaría þrífst.

Varðandi þróunarkenninguna, það er mjög varhugavert að nota orð á borð við "nauðsynlegt", "kalli á" osfrv. því hættan er alltaf sú að maður sé að gefa í skyn einhvers konar hugsun eða áætlun. Að umhverfið orsaki þróun er ekki alveg rétt - þróun mætir umhverfinu. Þess vegna getur þróun gengið í allar áttir og ný tegund er ekki endilega "betri" en sú sem var á undan. Hún gæti misst einhverni rosaflottan hæfileika sem hún hafði áður (t.d. að fljúga) vegna þess að sá hæfileiki hentar ekki lengur samspili tegundar og umhverfis.

Náttúruval getur ekki losað sig við hlutlausa eiginleika, það er enginn mekanismi til þess. Hlutlausir eiginleikar (eða hlutlausar breytingar) dreifa sér bara handahófskennt, sumar hverfa en aðrar geta varið að eilífu. Háralitur okkar hefur ekki skipt máli í milljónir ára en fjölbreytileikinn er samt til staðar, sömuleiðis mismunandi líkamshæð, mismunandi hárafar, mismunandi fitusöfnun osfrv., upptalningin er endalaust. Allar tegundir sýna svona fjölbreytileika í ytra útliti og væntanlega er enn meiri fjölbreytileiki innra með okkur.

En "eiginleiki" þarf að vera neikvæður til að náttúruvalið losi sig við hann og sjálfsagt þarf hann að vera "neikvæður" umfram eitthvað lágmark sem ræðst af stofnstærð og kynslóðalengd. Mjög lítið neikvæður eiginleiki gæti horfið í skuggann af öðrum þáttum. Náttúruval er ekki með neitt gæðakerfi, það virkar eingöngu og alfarið þannig að eiginleikar sem draga úr líkum á æxlun hverfa, eiginleikar sem auka líkur á æxlun lifa. Hlutlausir eiginleikar eru bara. (Ein skilgreining á hlutlausum eiginleika er að hann kosti ekki orku umfram annað, orkunotkun dregur úr líkum á æxlun.)

Þú ert sammála mér um túlkun á trú, það er líka allt gott og blessað. Mér fannst þú vera að ýja að því að tilvist hins guðlega sé það sem kalli á hið guðlega og ekki myndi ég vilja útiloka það ef ég væri ekki svona vantrúaður á hið guðlega. En hið guðlega er ekki forsenda trúar, það var aðal punkturinn hjá mér.

Takk fyrir hrósið Pétur.

Brynjólfur Þorvarðsson, 10.1.2008 kl. 19:44

11 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Ég held að við séum sammála þótt e.t.v. á mismunandi forsendum sé. Ég segi "held"af því mér fanst niðurlagið hjá þér soldið grautarlegt. En af því ég veit að Caterpillarinn getur verið harður húsbóndi þá látum við þetta gott heita í bili.

kv,

Svanur Gísli Þorkelsson, 10.1.2008 kl. 20:55

12 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Mjög góð grein Brynjólfur.

Fyrst misskildi ég setninguna þína um Hubble þar sem mér varð hugsað um geimkíkinn en sé nú að þú áttir við manninn Edwin Hubble.

Geimkíkinum Hubble var skotið upp árið 1990 þó að hugmyndin hafi kviknað árið 1946. 

Síðasta málsgreinin þar sem þú talar um Guðshugmyndina sem óþarfa er einmitt það sem þekkt er sem rakblað Occams, en það gengur út á það að viðbætur við tilgátur sem gefa ekki neina viðbótarskýringu eru í raun óþarfar og ekki hluti af kenningunnni ef kjarni tilgátunnar reynist réttur.

Karl Popper (19. öld) er einn af þeim sem lagði grunninn fyrir vísindalega aðferð og hann sagði nokkuð sem lýtur að því sama, þ.e. að "tilgáta sem á að útskýra allt (t.d. guðshugmyndin), útskýrir ekki neitt"

Bestu þakkir fyrir skrifin - Svanur

Svanur Sigurbjörnsson, 16.1.2008 kl. 00:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband