Sr. Svavar og siðfræði kristninnar

Þegar kristin kirkja náði undirtökum í Rómarríki þá var aragrúi hugsuða og stofnana sem sáu um að halda lífi í, þróa og miðla áfram siðferðishugsjónum Grikkja og Rómverja. Kirkjan þaggaði þetta allt niður og setti sína mjög svo vafasömu siðferðishugsun í staðinn. Að hin elsta kirkja hafi gerst einhvers konar miðill grísk-rómverskrar siðfræði er einfaldlega rangt.

Siðfræði gyðinga, eins og hún birtist í GT, var auðvitað hlægileg forneskja á þessum fyrstu öldum okkar tímatals. Einn stærsti glæpur kirkjunnar í siðferðismálum er einmitt að beita þessum gömlu ofbeldisfullu lygasögum fyrir sér sem kúgunaráróður fyrir eigin valdastöðu og græðgi. Verra en versta Nígeríusvindl.

Við eigum nútíma siðrænum hugsjónum að þakka þeim hugrökku hugsuðum sem börðust gegn kirkjuni og sem *endurreistu* hugsanir og hugmyndir fornaldar. Þeir endurreistu siðfræði, mannfræði, vísindi frá 1000 ára kúgun kirkjunnar. Endurreisnin var rót nútímans í andstöðu við kristni og kirkju.

Að kirkja nútímans skuli á yfirborðinu styðja við þá manngildisstefnu sem risið hefur frá endurreisnartímum er dæmi um aðlögunarhæfni hennar. En stuðningurinn er bara á yfirborðinu og ekki einu sinni alltaf þar. Kirkjan og kristnin boðar undirgefni við andaheim, hlýðni við hatursfulla drauga, ótta við eilífar pyntingar. Lesið t.d. síðasta innleg sr. Svavars á Akureyri. Alltaf sami boðskapurinn: "Þú, maður, er aumt og vesælt skorkvikindi og átt að hlýða ímyndaða fjöldamorðingjanum." Þó sr. Svavar orði hugsunina með dæmigerðu nútímaguðfræðilegu mjálmi þá er það þetta sem hann segir. Og meinar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Var kristin kirkja ekki búin að ná undirtökum í Rómarríki, þegar Ágústínus var uppi? – Jú, en hann var framan af heiðinn og fekk samt að stunda sín veraldlegu fræði í friði. Þú alhæfir hér, sem vankunnandi manna er oft háttur, og gefur engar áreiðanlegar heimildir fyrir málflutningi þínum. Í ennþá lengri mynd og þá vitaskuld með fleiri villum birtirðu svo þetta á annarri vefsíðu á liðnum degi og fekkst þar þessa aths. mína!

Jón Valur Jensson, 17.5.2009 kl. 00:47

2 identicon

Kristni braust fram í stríði Constantine...

JVJ telur að biblía sé alvöru heimildir...hahaha... þá er Harry Potter líka alvöru

Trú er sjálfselsku geðveiki... JVJ has it

DoctorE (IP-tala skráð) 19.5.2009 kl. 09:34

3 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Halló herra Jón Valur! Nú verður þú að vera aðeins meira vandvirkur en þetta. Sagnfræðin þolir ekki svona dilettanta.

Þú ert væntanlega að tala um heilagan Ágústínus af Hippó? Ekki Ágústínus keisara?

Ágústínus af Hippó var uppí í lok 4. aldar, eftir dauða Konstantínusar sem veitti kristinni kirkju viðurkenningu keisaradæmisins. Kirkjan varð að opinberri ríkiskirkju þegar Ágústínus var hálfþrítugur en enn ríkti trúfrelsi í nokkur ár á meðan kúgun Þeódósíusar óx. Við trúskipti Ágústínusar var verið að banna heiðni um allt rómarveldi. Það skyldi þó ekki hafa verið orsökin? Árið 386 snérist heilagur Ágústús til kristinnar trúar. Níundi áratugur fjórðu aldar einkenndist af sívaxandi ofsóknum keisaradæmisins á hendur heiðnum trúarbrögðum, þar sem dauðarefsingum var óspart beitt. Tilviljun? Held ekki.

Brynjólfur Þorvarðsson, 21.5.2009 kl. 21:56

4 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Það að vera á móti trúarbrögðum og þá sérstaklega kristni finnst mér ekkert sérlega frumlegt. Það er æfing sem er afar holl en einsog aðrar æfingar leiðigjarnar í endurtekningu sinni. Maður styrkir efann. Gallinn við efann er að hann verður alltaf að hafa eitthvað að efast um. Annars hefur sá "vöðvi" hugans ekkert viðnám. Það getur svo leitt menn yfir í trú til jafnvægis. Þá fara menn að trúa á eitthvað annað í staðinn fyrir það sem þeir efast um að hafa misst. Þá verða menn trúboðar "skynseminnar" sem er svo frábær af því að það er ekki hægt að efast um hana. Svo eru svo fáir skynsamir að maður verður eiginlega alltaf frábær af því að boða skynsemina. Og af því að skynsemi er oftar en ekki algert bull þá er hægt að skipta um skoðun og aðferðin við það kallast vísindi ef rétt er á málum haldið, en flestir skipta um skoðun af þægindum til að þóknast öðrum. Svo er alltaf hægt að trúa á ástina, nema þeir sem eru leiðinlegir og efast um hina einu sönnu ást líka. En er það skynsamlegt að trúa á ástina. Allt böl ástarinnar sem leitt hefur mannkynið í glötun og samtímis bjargað því. Þessar innri mótsagnir sem skynsemin ræður ekki við og móðgast andspænis. Ég ætla aldrei að viðurkenna skynsemina sem mælikvarða á gott og illt. Ástin getur verið það miklu frekar fyrir mér. Það er ekkert langt síðan að það var almennt talið skynsamlegt að trúa á guð. Kirkjan var þá afar nytsamleg stofnun. Ef hún hefur misst eitthvað af nytsemi sinni hvað hefur þá komið í staðinn? Skynsemin og veraldlegar stofnanir, háskólar og bankar. Leiðindin koma í staðinn.

Gísli Ingvarsson, 21.5.2009 kl. 23:50

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Skemmtileg hugleiðing fram og til baka hjá honum Gísla. Ætti a.m.k. að draga úr oftrú sumra á skynseminni. Menn mega líka minnast þess, að hún var gerð að gyðju hjá ... hverjum? Jú, byltingarmönnunum frönsku upp úr 1789, þeim hinum sömu sem gripnir voru sannkölluðu morðæði næstu árin.

Hvaða Ágústínus keistara ert þú að tala um, Brynjólfur? Hann hét nú Ágústus (Augustus). En Ágústínus (kirkjufaðir) deyr ekki fyrr en 28. ágúst árið 430, sem sé á 5. öld, og þótt fæddur hafi verið (í Norður-Afríku) árið 354, verður hann ekki kristinn fyrr en seint á 4. öld, 386, þegar kristni hafði verið ríkistrú alllengi. Að ofsóknir hafi verið hafnar á hendur fórnartrúarbrögðum heiðinna manna, mest á hendur mustera þeirra og guðadýrkunar, merkir samt ekki, að siðferðishugsjónir Grikkja og Rómverja hafi verið svívirtar, kennsla í heimspeki bönnuð eða bækur brenndar í Rómaborg og Mílanó, þar sem Ágústínus hélt sig mikið. Og í ritum sínum, eftir trúskiptin, þurfti hann að glíma við margs konar veraldlegar heimspeki- og siðferðishugmyndir, sem sýnir nú vel, að það var þá fullt líf í þeim áfram.

Þú ferð því alllangt fram úr sjálfum þér og heimildunum í pistlinum.

Jón Valur Jensson, 22.5.2009 kl. 00:48

6 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Sæll Gísli og takk fyrir innleggið, þótt illskiljanlegt væri. Skynsemin er eina skynsemin sem við höfum, allt annað er óskynsamlegt. Eini mælikvarði á gott og illt er skynsemi okkar - og ástin er hluti þeirrar skynsemi. Gamlar bækur eða ímyndaðir andar verða seint skynsamlegri mælikvarði góðs og ills.

Jón Valur, Ágústus keisari og Ágústínus af Hippó voru auðvitað ekki sömu mennirnir, og ekki nema hálfnafnar. Rétt hjá þér.

En sagnfræðin þvælist enn fyrir þér. Konstantínus keisari gerði kristni aldrei að ríkistrú Rómarveldis - nema í þeim skilningi að hún fékk opinbera viðurkenningu til jafns við önnur trúarbrögð.

Það var ekki fyrr en 27. febrúar 380 sem kristni var gerð að ríkistrúarbrögðum, af Þeódósíusi keisara. Hann og samkeisarar hans tveir í vestri gáfu út tilskipun um að allir þegnar ríkisins skyldu gangast undir Níkeu-játninguna. Í kjölfarið hófust ofsóknir á hendur heiðnum trúarbrögðum.

Umbreytingin varð auðvitað ekki á einum degi og borgarastyrjaldir tóku mesta athygli Þeódósíusar næsta hálfan annan áratug. Hann hafði þó tíma til að banna spámenn árið 384, með mjög hörðum lögum þar sem það gjalt embættismönnum dauðadómi að lögsækja ekki grunaða spámenn. Árið 388 sendi hann prefekta um austurhluta Rómarveldis með það markmið að brjóta upp skipulag heiðinna trúarbragða og eyðileggja musteri. Ári síðar bannaði hann alla helgidaga sem ekki voru kristnir.

Í síðasta innleggi mínu gerði ég því skóna að Ágústínus af Hippó hafi einfaldlega fylgt hinum nýju lögum og séð hvert stefndi þegar hann snerist til kristni. Enda á hann erfitt með að skýra hvers vegna hann tók þessi nýju trúarbrögð. En hugsandi maður á framabraut hefur eflaust séð sér leik á borði að spila með í hinni nýju ríkishugsun.

Á árunum fyrir trúvendingu Ágústínusar réði Gratían keisari í vestri en hann var mjög harður á móti heiðnum trúarbrögðum. Ofsóknir hans hófust af krafti árið 382, en við andlát hans 383 tók Valentinían II við völdum og reyndi að verja hin heiðnu trúarbrögð gegn yfirgangi kristinna. Valentinían missti í raun völd 387 þegar Þeódósíus þurfti að bjarga honum í borgarastríði gegn Maxímus nokkrum.

Kúgun hinna heiðnu trúarbragða jókst hratt upp úr 390 og Þeódósíus beitti m.a. hervaldi. Bækur voru brenndar og musteri eyðilögð, eflaust ófáir drepnir. Sumir földu bækur í jörðu, þannig fór með Nag Hammadi bækurnar sem fundust aftur 1945.

Árið 392 hófust opinberar ofsóknir á hendur heiðnum trúarbrögðum. Eugenius, arftaki Valentiníans, vildi verja heiðnina en 394 tapaði hann orrustu fyrir Þeódósíusi sem nú varð einn keisari. Heiðin trú var þar með útlæg orðin í Rómarveldi.

Þeódósíus dó 399 og þá snerist taflið að hluta og fimmta öldin einkennist af varnarbaráttu heiðinna manna. Árið 451 lögfesti Marcían keisari að hver sá sem uppvís varð að fórn til hinna heiðnu guða skyldi missa allar eigur og vera líflátinn. Það er merkilegt að heiðnin skuli vera svo sterk, þarna má sjá sama mynstur og hér á Norðurlöndum miklu síðar: það er hið opinbera valdakerfi sem vill kristni en almenningur heldur sig við sín gömlu trúarbrögð.

Uppreisn þeirra Illusar og Leontiusar árið 488 var síðasta tilraun heiðinna til að verja trú sína. Zenó keisari barði uppreisnina niður með hörku og þegar Anastasíus keisari var neiddur til að sverja kristinni trú hollustu áður en hann tók við keisaradæminu er talið að heiðnin hafi endanlega liðið undir lok í Rómarveldi, árið 491.

Heiðin trú var hellenísk og hin gríska heimspeki var samtvinnuð henni. Kristnir sáu þetta auðvitað og réðust því ekki síður gegn heimspekingum. Ófrægast er morðið á Hýpatíu árið 415 en segja má að hellenisminn og arfleið grikkja hverfi endanlega árið 529 þegar Jústíanus keisari lokar akademíunni hans Sókratesar.

Kristnin eyddi hinum helleníska heimi og hinni hellenísku hugsun sem stóð kristninni langt framar. Þetta var 1000 ára afturför, 1000 ára myrkur sem ekki rofaði fyrr en hellenisminn barst aftur til Evrópu, var endurreistur.

Brynjólfur Þorvarðsson, 23.5.2009 kl. 14:59

7 Smámynd: Jón Valur Jensson

Mikla vinnu hefurðu lagt í þetta (svolítið einhliða) svar þitt, Brynjólfur, en endar á óleyfilegum ályktunum, þ.e.a.s.: þá niðurstöðu leiðir ekki af staðreyndunum, og stórkarlalegt er það í hæsta máta að segja, "að hellenisminn og arfleið grikkja hverfi endanlega árið 529 þegar Jústíanus keisari lokar akademíunni hans Sókratesar" (sem var nú reyndar ekki akademía hans, heldur framhald af akademíu Aristotelesar).

Vissulega var sú afstaða til hjá mörgum kristnum mönnum og jafnvel fræðimönnum þeirra á meðal, að grísk heimspeki væri af hinu illa, en þá er "bara hálf sagan sögð" (ef svo stuttaralega má að orði komast!), því að hin afstaðan: jákvætt viðhorf til alls þess verðmæta sem finna mátti í hellenskri hugsun, heimspeki, skáldskap og öðrum fræðum, tíðkaðist engu síður meðal kristinna, heimspekilegra hugsuða, allt frá mönnum eins og Jústínusi píslarvotti (100–165 e.Kr.) til Boëthiusar (d. 524) og Cassiodorusar (d.c. 570/583) og allra þeirra, munka sem annarra, sem trúir grísk-rómverska arfinum báru áfram þann anda til skólaspekinga kirkjunnar á hámiðöldum. Allir þessir og ótal aðrir stuðluðu að virðingu og varðveizlu þess arfs.

Ég gæti bent þér á marga góða 20. aldar fræðimenn, sem fjallað hafa af miklu gagni um öll þau mál og dregið saman þá sögu á afar upplýsandi hátt, t.d. Etienne Gilson, A.H. Armstrong, David Knowles, Christopher Dawson, Jacques Maritain, Josef Pieper og Frederick Copleston, SJ., allir merkir akademíkerar og virtir rithöfundar.

Næst þegar þú freistar þess að segja sögu grískrar heimspeki og skrifa um afdrif hennar og varðveizlu, reyndu þá ekki að láta bara skína í hálfa söguna, reyndu fremur að virða það, hvaða stefnur og straumar urðu ríkjandi í þeim efnum meðal kristinna höfunda flestra á miðöldum og áfram og er enn mikils virt í kaþólsku kirkjunni.

PS. Þetta er auðvitað laukrétt hjá þér um ríkistrúna; misminni var það hjá mér, þegar ég nefndi þetta í athugasemd minni.

Jón Valur Jensson, 23.5.2009 kl. 20:13

8 Smámynd: Jón Valur Jensson

Svo verður vitaskuld að geta þess, að orð þín hér um heil. Ágústínus eru ótrúlega ófyrirleitin. Hafi sá maður ekki verið sannfærður um sannindi og skynsemdar-yfirburði kristindómsins, heldur talað þvert um hug sér í sínum sæg rita, þá hefur hvorki þú né ég nokkurn tímann meint neitt af því sem við höfum fest á blað.

PS. Í lista höfundanna góðu má gjarnan bæta E.K. Rand, latínuprófessor við Harvard-háskóla (Founders of the Middle Ages).

Jón Valur Jensson, 23.5.2009 kl. 22:15

9 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Jamm, ég var nú líka aðeins að stríða þér með hann Ágústínus kallinn. Ég hef lesið nokkuð eftir hann og trú hans leynir sér ekki. Og alveg rétt hjá þér með Akademíuna.

Hellenisminn og "heiðni" fornaldar eru nátengd, um það er ekki að villast. Gyðingdómur fyrst aldar var einnig orðinn mjög hellenískur og frumkristnin var það sömu leiðis. En um það er heldur ekki að villast að menningarheimur fornaldar hvarf með kristninni. Bækur, musteri, skólar - allt var þetta hluti af menningunni og allt var þetta bælt niður af hinni kristnu rétthugsun.

Það gerist nefnilega ekki öðruvísi, hin kaþólska kristni leyfði ekki aðra hugsun - það er eiginlega skilgreining hennar og jafnframt skýr vilji hinna kristnu keisara. Ein hugsun skyldi gilda fyrir eitt ríki.

Menningarheimur fornaldar hvarf með einni undantekningu: Hin kristna kirkja er fornaldarstofnun. En innan þeirrar stofnunar varðveittu menn ekki nema í felum hin merku rit samtímans.

Þú talar um "hálfa sögu", en það er einmit málið. Kristin kirkja tók að sér að velja og hafna úr menningu fornaldar, sumt var gjaldgengt en annað ekki. Í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við það, það er gömul saga og ný að þeir sem vilja stjórna hugsun manna reyna að eyðileggja menningu þeirra í leiðinni. Það sem var gjaldgengt í hugum klerka fornaldar var það sem studdi þeirra eigin hugsun.

Hið eiginlega deiluefni er hvort kirkjan hafi miðlað siðferðishugsjónum hellenismans. Svarið er að hluta já, merkar hugmyndir á borð við mannúð, hina gullnu reglu, ást til náungans, fyrirgefning. Þetta tók kristnin til sín og miðlaði áfram. En grundvöllur hinnar grísku hugsunar, sjálf hugsunin, sjálft frelsið til að hugsa, það þoldi kristnin ekki. Æðsta siðferðisgildi kristninnar er undirgefningin, hlýðnin við guð. Slík hugsun hentar keisarastjórninni en er ekki í anda þess besta í siðferðishugsun og heimspeki hellenísmans.

Brynjólfur Þorvarðsson, 24.5.2009 kl. 13:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband