Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
8.3.2012 | 11:10
Aðskilnaður og afsamningur
Þjóðkirkjan samdi illa af sér 1907 og gerði vont verra með samningunum 1997. En ríkið samdi einnig af sér, gekkst undir samning þar sem offé er greitt fyrir litlar eignir. Kirkjan hefði betur valið sænsku leiðina og væri þá núna mun betur sett, en ekki vegna þess að hún gæti "lifað af arði eigna" - það gerir sænska kirkjan ekki og sú íslenska hefði heldur aldrei getað það.
Nýlega skrifaði ég langa grein, nær væri að kalla það ritgerð, um samninga ríkis og kirkju sem endanlega voru frágengnir 1907. Þar kemur meðal annars fram að
- Þjóðkirkjan spyrðir skilyrðislaust saman eignasafnið sem afhent var 1907 og launagreiðslur sem ríkið greiðir til Biskupsstofu. Af þeim eru greidd laun biskups, presta og annarra starfsmanna.
- Þjóðkirkjan hefur reiknað út hversu mikils virði jarðirnar voru sem ríkið yfirtók 1907. Þessa útreikninga vill Þjóðkirkjan ekki birta.
- Ríkissjóður greiðir "arð" af þessum eignum. Til að standa undir arðgreiðslum þyrfti höfuðstóll að vera minnst 100 milljarðir, trúlega mun meira.
- Verðmæti jarðanna er þó ekki nema 1/10 af reiknuðum höfuðstól samkvæmt útreikningum mínum. Ríkissjóður lét svindla á sér!
- Sænska kirkjan gerði ekki jarðaskiptasamning við ríkið heldur héldu kirkjurnar jarðeignum sínum. Arður af þessum eignum stendur engan veginn undir rekstri hennar heldur valfrjáls greiðsla (1% af skattskyldum tekjum) sem innheimt er gegnum skattkerfið og stendur öllum trúfélögum til boða. Tekjur sænsku kirkjunnar eru 50% - 100% meiri en þeirra íslensku miðað við höfðatölu.
Allt í allt liggur ljóst fyrir að Þjóðkirkjan hefur fengið jarðirnar endurgreiddar margfalt síðustu 100 árin. Aðskilnaður nú þyrfti ekki að taka á nokkurn hátt tillit til þessara eigna eða núverandi samnings (sem reyndar má endurskoða einmitt á þessu ári, 15 árum eftir undirskrift).
Aðskilnaður ríkis og kirkju og sænskt fyrirkomulag sóknargjalda myndi vera hagur kirkjunnar, ríkissjóðs og landsmanna allra. Greinina alla með útreikningum og heimildarskrá er að finna á heimasíðu Vantrúar.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 11:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.12.2007 | 14:18
Söguskekkjur JVJ. Kirkjan á eignir fyrir eigin rekstri.
Jón Valur Jensson er eins og margir trúbræður hans, þolir illa gagnrýni og vinnur að því að bæla skoðanaskipti. Hann hefur meinað mér að birta athugasemdir við færslur hjá honum (þótt ég fagni ævinlega athugasemdum hans hjá mér) og því neyðist ég til að svara honum hér. Hann endurbirtir gamla grein þar sem hann fer með furðulegar sögutúllkanir á eignayfirtöku Kaþólsku kirkjunnar á sínum tíma auk ýmissa annarra fullyrðingar, m.a. um að kirkjan eigi jarðirnar og eigi að fá fyrir þær peninga. Það sé einhver heilagur réttur að það sem var stolið fyrir 500 árum eigi maður í dag (þannig er það jú víðast hvar, sjá t.d. konungafjölskyldur hvarvetna). En jafnvel þótt maður samþykkji að kirkjan eigi og hafi átt jarðeignir, þ.e. efist ekki um eignarhald, þá er ekki þar með sagt að núverandi ástand sé óumflýjanlegt.
Fordæmi fyrir því að virða ekki þinglýstar eignir er þegar fyrir hendi. Ríkið hefur undanfarinn áratug eða svo tekið til sín jarðir og eignir almennings þvert á þinglýsingar, í kjölfar laga um þjóðlendur. Nokkrir dómar hafa fallið í þeim málum, m.a. hæstaréttardómar, og þar hefur ekki alltaf verið fylgt fornu eignarhaldi.
Jón Valur kemur með ýmsar tölur um eignarhald kirkjustofnana á jarðeignum á hinum og þessum tímum en tekst að skauta fram hjá því að um 1550 átti kirkjan og það sem henni tilheyrði helming jarðeigna á Íslandi. Ætli honum finnist það ekki óþægileg tala? Síðustu kaþólsku biskuparnir, Jón Arason og Ögmundur, riðu til þíngs 1527, hvor um sig með fjölmennt vopnað lið, samtals um 2700 manns undir vopnum. Ögmundur sektaði menn og hirti af þeim jarðir, Jón Arason fór vopnaður um sveitir með sveinalið, píndi og hrakti búalið og tók jarðir af bændum. Þetta voru vopnaðir fulltrúar erlends valds að sölsa undir sig eignir Íslendinga.
Íslenskir bændur kvörtuðu sáran undan ofurvaldi kirkjunnar, til dæmis 1513 með bænabréfi til Konungs. Jarðir í eigu kirkjunnar borguðu ekki tíund en fjórðungur tíundar fór til fátækraframfærslu. Hin mikla eignatilfærsla varð til þess að fátækraframlag fór sífellt minnkandi. "Farið var að líta á þetta sem þjóðfélagsmein" segir Helgi Þorláksson í VI. riti Íslandssögusafns þjóðhátíðarnefndar (Rvík 2003) en árið 1489 samþykktu Skálholtsbiskup og hirðstjóri að tíund yrði áfram greidd af þeim jörðum sem komið hefðu í eigu biskups undanfarin 20 ár. Helgi telur vafamál að sú samþykkt hafi komið til framkvæmda nema að litlu.
Jarðasöfnun Kaþólsku kirkjunnar var ekki einhver sjálfsögð afleiðing af kristni heldur vísvitandi auðsöfnum með vopnavaldi. Kirkjan varð óhemju rík en sendi jafnframt stórar upphæðir suður til Rómar. Ofurvald kirkjunnar og fjárstreymi til útlanda varð til þess að þýskir furstar og skandínavískir kóngar tóku siðbót Lúters fagnandi.
Klausturjarðir fóru strax undir konung, biskupsjarðir voru seldar um 1800. Enn á kirkjan verulegar jarðeignir, sbr. 2. mgr. 62. grein laga nr. 78/1997:
62. gr. Kirkjujarðir og aðrar kirkjueignir sem þeim fylgja, að frátöldum prestssetrum og því sem þeim fylgir, eru eign íslenska ríkisins, samkvæmt samningum um kirkjueignir milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar. Andvirði seldra jarða rennur í ríkissjóð.
Prestssetur, þ.e. prestssetursjarðir og prestsbústaðir, sem prestssetrasjóður tók við yfir stjórn á frá dóms- og kirkjuálaráðuneytinu 1. janúar 1994 með síðari skjalfestum afhendingum frá dóms- og málaráðuneytinu, svo og prestsbústaðir, hús og aðrar eignir sem prestssetrasjóður hefur keypt, eru eign þjóðkirkjunnar með öllum réttindum, skyldum og kvöðum samkvæmt samningi um prestssetur milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar.
Samkvæmt lista á heimasíðu prestssetrasjóðs eru 45 prestsetursjarðir í eigu Þjóðkirkjunnar, þar með taldar til dæmis Staðarstaður, Saurbær á Hvalfjarðarströnd, Borg á Mýrum, Oddi á Rangárvöllum, Skálholt, osfrv. osfrv.
Prestssetrasjóður á síðan annað eins af fasteignum í þéttbýli. Miðað við jarðarverð í dag gæti kirkjan auðveldlega selt eignir fyrir um 50 milljarði, sett þær í banka og fengið 2,5 - 3 milljarði á ári í vexti! Hún á því eignir fyrir eigin rekstri nú þegar og gott betur.
Prestsetrasjóður var skv. lögum frá 1. júli 2007 sameinaður Kirkjumálasjóði og heyrir undir hann núna. Eftir árámót ætla ég að skoða betur þessar jarðeignir, t.d. hvaða eignir það voru sem fóru undir ríkið 1907 og 1997 og hvert söluandvirði þeirra var. Venjulegur húskaupandi tekur lán og greiðir það upp. Hversu stórt lán þyrfti að taka til að endurgreiðslur væru 2,7 milljarðir á ári?
Þær jarðir sem standa undir greiðslum til kirkjunnar í dag voru sem sagt ekki prestsetur heldur venjulegar bújarðir. Af hverju gat kirkjan ekki selt þær sjálf og lifað af vöxtunum? Það hefði ekki breytt neinu um starfsemi kirkjunnar, þetta voru bara venjulegar jarðir án prestsetra eða kirkna.
Þjóðkirkjan er forrík stofnun, ætli hún sé ekki ríkasta fyrirbærið á Íslandi í dag í innlendum eignum talið? Og fær síðan allan rekstrarkostnað greiddan frá ríkinu. Já það er margt skrítið í kyrhausnum.