Færsluflokkur: Dægurmál

Aðskilnaður og afsamningur

Þjóðkirkjan samdi illa af sér 1907 og gerði vont verra með samningunum 1997. En ríkið samdi einnig af sér, gekkst undir samning þar sem offé er greitt fyrir litlar eignir. Kirkjan hefði betur valið sænsku leiðina og væri þá núna mun betur sett, en ekki vegna þess að hún gæti "lifað af arði eigna" - það gerir sænska kirkjan ekki og sú íslenska hefði heldur aldrei getað það.

Nýlega skrifaði ég langa grein, nær væri að kalla það ritgerð, um samninga ríkis og kirkju sem endanlega voru frágengnir 1907. Þar kemur meðal annars fram að

  • Þjóðkirkjan spyrðir skilyrðislaust saman eignasafnið sem afhent var 1907 og launagreiðslur sem ríkið greiðir til Biskupsstofu. Af þeim eru greidd laun biskups, presta og annarra starfsmanna.
  • Þjóðkirkjan hefur reiknað út hversu mikils virði jarðirnar voru sem ríkið yfirtók 1907. Þessa útreikninga vill Þjóðkirkjan ekki birta.
  • Ríkissjóður greiðir "arð" af þessum eignum. Til að standa undir arðgreiðslum þyrfti höfuðstóll að vera minnst 100 milljarðir, trúlega mun meira.
  • Verðmæti jarðanna er þó ekki nema 1/10 af reiknuðum höfuðstól samkvæmt útreikningum mínum. Ríkissjóður lét svindla á sér!
  • Sænska kirkjan gerði ekki jarðaskiptasamning við ríkið heldur héldu kirkjurnar jarðeignum sínum. Arður af þessum eignum stendur engan veginn undir rekstri hennar heldur valfrjáls greiðsla (1% af skattskyldum tekjum) sem innheimt er gegnum skattkerfið og stendur öllum trúfélögum til boða. Tekjur sænsku kirkjunnar eru 50% - 100% meiri en þeirra íslensku miðað við höfðatölu.

Allt í allt liggur ljóst fyrir að Þjóðkirkjan hefur fengið jarðirnar endurgreiddar margfalt síðustu 100 árin. Aðskilnaður nú þyrfti ekki að taka á nokkurn hátt tillit til þessara eigna eða núverandi samnings (sem reyndar má endurskoða einmitt á þessu ári, 15 árum eftir undirskrift).

Aðskilnaður ríkis og kirkju og sænskt fyrirkomulag sóknargjalda myndi vera hagur kirkjunnar, ríkissjóðs og landsmanna allra. Greinina alla með útreikningum og heimildarskrá er að finna á heimasíðu Vantrúar.


Þola trúmenn ekki samræður?

Skúli múslímabloggari var ekki í miklu uppáhaldi hjá mér. Mér þótti málflutningur hans oft hatursfullur og einstrengingslegur gagnvart múslímum, hann virtist tína til það versta úr þeirra trúarriti og reyndi að draga upp mynd af íslam sem trúarbrögðum haturs og ofbeldis. Persónulega finnst mér biblían síst skárri og kristnir eiga nú enn vinninginn í illverkum ef við skoðum söguna.

En að það hafi verið ástæða til að banna Skúla af moggabloggi, það bara skil ég ekki. Skúli hefur rétt á að segja sínar skoðanir og það var alltaf fyndið að sjá trúfólkið, uppfullt af "kristilegum kærleika" taka undir hatursboðskapinn - nokkuð sem er þeirra réttur.

Annað sem er einkenni trúmanna er að þeir þola illa málfrelsi, þeir banna þennan og klippa út það sem hinn segir. Trúarbrögð þola ekki frjálsa hugsun. Því miður hafa trúarbrögð enn of sterk ítök í samfélagi okkar. Það er í skjóli þess sem Skúli er bannaður - það er í anda þeirra sem telja að trúarbrögð séu æðri mannlegum rétti. Í anda hins kristilega siðgæðis sem telur að guð hafi forgang.

Maðurinn víkur, málfrelsið víkur, frelsið víkur - trúarbrögðin ríkja. Sá sem ekki makkar rétt er bannaður, frjáls skoðanaskipti er ógnun við kristni jafnt sem íslam.


Skólatrúboð í skjóli ólöglegrar undanþáguklausu?

Grein sem alþingismaður skrifaði í moggann varð tilefni þessarar greinar og ábendingar til umboðsmanns Alþingis (sjá neðst)

Af trúarstarfi í skólum 

Höskuldur Þór Þórhallsson alþingismaður skrifar grein undir titlinum “Kristilegt siðgæði og Mannréttindadómstóll Evrópu” í Mbl 12. mars síðastliðinn og fullyrðir að gildandi lög veiti heimild til undanþágu frá námi í kristinfræði. Þar er hann væntanlega að vísa til 8. og/eða 35. greinar grunnskólalaga.

Við nánari athugun sést að 8. greinin veitir ekki slíka undanþágu enda er eingöngu verið að veita tímabundna lausn frá skólasókn, vegna smalamennsku eða íþróttaferða samkvæmt greinargerð sem fylgdi frumvarpinu á sínum tíma.

Öðru máli gegnir með 35. greinina, þar væri hugsanlega hægt að veita undanþágu á borð við þá sem Höskuldur gerir. Hins vegar er það ljóst af greinargerð með frumvarpinu á sínum tíma að svo er alls ekki.

Í nýlegu frumvarpi menntamálaráðherra er það 15. greinin sem tekur á undanþágum frá námi. Enn er skýrt af greinargerðinni að ekki er gert ráð fyrir að börnum sé sleppt við námsþætti á grundvelli skoðana foreldra þeirra.

Loks má benda i á að námsgreinin “Kristin fræði, siðfræði og trúarbragðafræði” (KST) verður lögð niður í núverandi mynd samkvæmt frumvarpinu og vandséð hvernig veita eigi undanþágu frá kristinfræði eftir gildistöku nýrra laga.

Tíu prósent afslátt af námi?
Í gildandi aðalnámskrá er þess ekki getið að KST sé valfrjáls námsgrein.  Fjallað er um viðbrögð við fjölmenningu á bls. 7 í kafla um KST: “Með auknum fjölda barna frá ólíkum menningarsvæðum þarf skólinn að huga að því, í samvinnu við heimilin, hvernig koma má til móts við óskir þeirra og þörf til að fá fræðslu um eigin trú og menningu. Nýta má þá möguleika sem blandaður nemendahópur felur í sér til að kynna nemendum ólíka trú, siði og lífsviðhorf.”

Hér er ekki gert ráð fyrir að kennt sé í aðskildum hópum enda væri þá aðeins til námskrá fyrir einn hópinn.

Í viðmiðunarstundarskrá fá samfélagsgreinar ásamt KST að meðaltali þrjár kennslustundir á viku. Ef skipt er til helminga situr hver nemandi í 400 kennslustundum í KST á námsferli sínum, um það bil hálft ár af tíu ára skyldunámi. Varla er ætlast til að börn sleppi hálfu ári úr námi vegna skoðana foreldra þeirra?

Sjötta hvert foreldri, gróft reiknað, er kaþólskt, íslamstrúar, búddísti eða trúlaust en borgar engu að síður jafn mikið til reksturs grunnskólans og aðrir foreldrar og á tilkall til jafngóðrar þjónustu börnum sínum til handa.

Nauðsynlegt nám
Nám í KST er nauðsynlegt enda trúarbrögð stór þáttur samfélagsins og mikilvæg í lífi fjölmargra. Kristni er stór hluti menningar okkar og meiri hluti þjóðarinnar er kristinn eða hliðhollur kristni. Það er því fullkomlega eðlilegt að kristnin hafi þyngst vægi í KST.

Á hvaða forsendum eigum við að sleppa nemendum við þessa kennslu, sem er svo nauðsynleg til að við getum skilið okkar eigin menningu og fengið innsýn í menningu annarra landa?

Eina ástæðan sem ég sé fyrir því að veita nemendum undanþágu frá KST er ef þar færi fram einhvers konar trúarinnræting. Sjálfur vildi ég ekki láta innræta börnum mínum kristni í skólanum og ég geri ráð fyrir því að Höskuldur vildi síður að börnum hans væri innrætt trúleysi. En innræting á auðvitað ekki heima í skólastarfi. “Skólinn er fræðslustofnun en ekki trúboðsstofnun...” segir í aðalnámskrá og það er því afgreitt mál trúarleg innræting í skólum er enda ekki í samræmi við lög.

Trúarstarf í skólum ótækt
Trúboð og annað trúarstarf á augljóslega ekki heima í skólum af ýmsum ástæðum. Ein þeirra er sú að allir hafa rétt á jafngóðri þjónustu en trúarstarf er aðeins ætlað afmörkuðum hópum. Hvorki námskrá né lög gera ráð fyrir skólastarfi þar sem sumum er sinnt en öðrum ekki og skólanum væri því vandi á höndum að sinna öllum nemendum jafnt eins og þeir eiga kröfu til.

Væri kirkjuferð skipulögð á skólatíma, hvort sem það er á vegum skólans eða annarra, þá þyrfti skólinn einnig að sinna þeim nemendum sem ekki færu í kirkjuna. Eigi trúboð sér stað í skólum, til dæmis sem hluti af KST, þá þyrfti skólinn að bjóða upp á sömu þjónustu fyrir allar trúar- og lífsskoðanir. Allt skólastarf lýtur námskrá sem þyrfti þá að taka tillit til trúarlegra þátta með mismunandi námskrár fyrir mismunandi trúarbrögð og lífsskoðanir.

En það sem kemur endanlega í veg fyrir að trúarstarf geti átt sér stað innan veggja skólans er sú staðreynd að skólinn þarf þá jafnframt að hafa vitneskju um trúarafstöðu foreldra. Mannréttindadómstóllinn tekur af skarið með að slíkt gangi ekki og sama gera íslensk lög um verndun persónuuplýsinga.

ES:

Eftir að hafa lokið við þessa grein var mér bent á að í Almenna hluta Aðalnámskrár væri að finna undanþáguklausu sem hljóðar svona:

"Með hliðsjón af sérstöðu þessara þátta, einkum hvað varðar trúfrelsi, er heimilt að veita einstökum nemendum undanþágu frá ákveðnum þáttum skyldunáms." (Aðalnámskrá grunnskóla 2006, almennur hluti, bls. 26)

Í kjölfarið ákvað ég að beina því til umboðsmanns Alþingis að hann kannaði lögmæti þessarar unanþáguklausu Aðalnámskrár. Bréf mitt til umboðsmanns, ásamt fleiri skjölum, eru talin upp hér fyrir neðan:

Ábendinging til umboðsmanns Alþingis : http://binntho.is/files/umbi.pdf

Dómur Mannréttindadómstólsins gegn Norska ríkinu : http://binntho.is/files/norskidomur.pdf

Skýrsla Reykavíkurborgar um samstarf skóla og trúfélaga : http://binntho.is/files/rvk_skolar_tru.pdf


Þjóðkirkjan missir 5-6 vegna úrskráninga hvern virkan dag.

Stórfelldar úrskráningar úr Þjóðkirkjunni er staðreynd. Þjóðkirkjan hefur dregist saman hlutfallslega úr því að vera 92,7% þjóðarinnar 1990 í það að vera 80,7% árið 2007. Margir halda eflaust að skýringarinnar sé að leita í miklum innflutningi fólks til landsins sem fæstir eru skráðir í Þjóðkirkuna en svarið er ekki svo einfalt. Árið 2007 fjölgaði í þjóðkirkunni um 0,09% og úrskráningar eru milli 1000 og 1500 á ári. Þjóðkirkjan missir því um hálft prósent meðlima sinna á ári vegna úrskráninga en sjálfkrafa skráning nýfæddra barna kemur í veg fyrir raunfækkun. 

Eftirfarandi tölur sýna þetta svart á hvítu: (Kári Svan Rafnsson tók saman úr tölum Hagstofunnar):

19941647-3971250
1995777-653124
19961248-2237-989
19971536-912624
19981945-6171328
19992115-8821233
20002097-9311166
20011610-765845
2002886-686200
20031438-843595
20041563-953610
20051918-8511067
20061718-1212506
2007  227

 

Fremsti dálkurinn eru sjálfkrafa skráningar (fæddir inn í Þjóðkirkju - brottfluttir/látnir), miðdálkurinn eru nettó meðvitaðar skráningar, aftast er fjölgunin. Þjóðkirkjan er að missa 1 - 2 prósentustig á ári, með því framhaldi verður hún auðvitað horfin fyrir lok aldarinnar.

Fjölgunin 2007 er ekki nema 0,09%, langt innan við það sem væri ef ekki kæmu til stórfelldar úrskráningar. Þær tölur hafa enn ekki verið birtar fyrir 2007 en það má áætla að þær séu milli 1200 og 1500 miðað við undanfarin ár, jafnvel enn meira (fer mikið eftir fremsta dálk). Eða með öðrum orðum, 6-7 úrskráningar umfram innskráningar á hverjum einasta virka degi sem Hagstofan er opin. Ég veit ekki með ykkur, mér finnst þetta hrikalegt!


Trúlausum fjölgar hundrað sinnum hraðar en Þjóðkirkulimum hlutfallslega. Björn Bjarnason birtir tölurnar.

Enn kemur Björn Bjarnason til hjálpar og birtir tölur sem segja ótrúlega mikið - og kannski meira en hann vildi sjálfur! Meðlimum í Þjóðirkjunni fjölgaði um 227 manns á þessu ári eða heil 0,09%. Skráðum utan trúfélaga fjölgaði hins vegar um 760 manns eða svo (*), meira en þrefalt í tölum talið og meira en hundraðfalt hlutfallslega - 9,5% er rúmlega hundrað sinnum meira en 0,09%!

(*) Tölurnar eru byggðar á dagbókarfærslu Björns Bjarnasonar dóms- og kirkjumálaráðherra, sjá http://www.bjorn.is/dagbok/nr/4295 . Björn birtir reyndar ekki fjölda þeirra sem skráðir eru utan trúfélaga en segir að þeir séu 2,8% þjóðarinnar. Miðað við 312.872 Íslendinga gerir það um 8760 einstaklinga en samkvæmt tölum Hagstofunnar, sjá www.hagstofa.is , voru 7997 utan trúfélaga í fyrra. Mismunur er 763, sem gerir fjölgun upp á 9,5%.


Þjóðkirkjan í frjálsu falli - Björn Bjarnason birtir tölurnar.

Íslendingum fjölgaði um 5611 á þessu ári en meðlimum í Þjóðkirkjunni um 227. Það er eiginlega ekki hægt að nota lýsingarorð um þessar tölur. Ríkiskirkjan lögverndaða á 4% af fjölgunninni. Ekki 40%, ekki 94% heldur 4%! Þetta er stofnunin sem vill frjálst aðgengi í skóla landsins, stofnunin sem fær 4 milljarði á ári frá ríkissjóði. Þetta er stofnun í frjálsu falli, stofnun í andarslitrunum.

Skoðum tölurnar aðeins betur. Samkvæmt tölum frá Hagstofunni voru Íslendingar 312.261 þann fyrsta desember síðastliðinn og hafði fjölgað úr 307.261 ári fyrr. Þessar tölur og margar fleiri er að finna hjá www.hagstofa.is

Skráðir í Þjóðkirkjuna voru 252.234 manns fyrir ári síðan, eða 82,1% þjóðarinnar. Samkvæmt tölum sem Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra birtir á heimasíðu sinni voru meðlimir Þjóðkirkjunnar 252.461 þann fyrsta desember síðastliðinn eða 80,7%. Tölurnar hans Björns má finna á http://www.bjorn.is/dagbok/nr/4295.


Aðskilnaður Íslands og kirkju - lausn sem allir geta sætt sig við.

Nú legg ég til að gerður verði fullur aðskilnaður milli Íslands og kirkju. Línan verði dregin nokkurn veginn um Kópavogslækinn, upp á Vatnsendahæð, eftir Búrfellsgjánni í beina stefnu útsuðaustur að Krýsuvík. Reykjanesið (ásamt Garðabæ og Álftanesi) væri þá Þjóðkirkjuland, hitt væri Ísland og yndislegt.

Hér væri fáninn með hring í stíl við þann grænlenska (miklu flottara, hið fullkomna form), þjóðsöngurinn væri "Ísland er land þitt", þar væri reglulega langar fríhelgar með fríi á föstudegi en ekki þessa kristnu dellu að vera alltaf með frí á fimmtudögum eða öðrum fáránlegum dögum. Fjórir milljarðir á ári færu í að efla skólastarf á öllum stigum og "kristinfræði-" tímar í grunnskóla færu í heimspeki, hugmyndasögu og siðfræði en ekki trúarbragðaítroðslu.

Svo væru kristnir auðvitað frjálsir að lifa á Íslandi, hvað annað, þeir eru líka alvöru Íslendingar, ekkert síðri en við hin. En þjóðkirkjan ætti sitt útaf fyrir sig, það er hennar stíll.


Enn reynir kirkjan að stela glæpnum, Geir með Bjarnabófagrímu.

Sumir vilja eigna kirkjunni allt gott, að án hennar væri hvorki skólar né sjúkrahús svo dæmi séu tekin. Hér á Íslandi voru það reyndar hrepparnir sem fóru með umönnunarhlutverkið, alveg frá löggildingu tíundar árið 1096? Hrepparnir fengu fjórðung tíundar til fátækraframfærslu og sáu í raun um þá hlið mála þótt auðvitað hafi klaustrin gert gott líka.

En hér var alvarlegur hængur á: Jarðir í eigu kirkju og klaustra voru undanþegnar tíund! Kirkjan lagði sífellt fleiri jarðir undir sig, um 1550 áttti hún (þ.e. kirkjur, biskupar, biskupsstólar og klaustur) helming jarðeigna á Íslandi. Fátækir fengu sífellt minna og minna og á Alþingi voru samþykkt lög um að nýjar jarðir sem færu undir kirkjuna héldu áfram að borga tíund svo fátækrastuðningur legðist ekki hreinlega niður! Þeim lögum var ekki fylgt.

Geir Waage skrifar í moggann í dag og fer með furðulega mikið af vitleysum fyrir jafn menntaðan mann að vera. Á 19. öld var menntun í höndum húsbænda en ekki presta. Þeirra skylda var að fylgjast með því að húsbændur menntuðu börn sín og börn hjúa sinna. Það kerfi virkaði ekki, og þegar reynt var að koma á almennu skólahaldi hér á Íslandi var það í óþökk bændastéttarinnar og kirkjunnar. Menntafrömuðum var ljóst að kerfið virkaði ekki, bændur sinntu ekki skildu sinni og ekki heldur prestarnir. Um þetta má lesa t.d. í bókinn Lýðmennt eftir Guðmund Finnbogason, einkum í formálanum sem er skrifaður af Ólafi H. Jóhannssyni sem er einn áhrifamesti skólamaðurinn á Íslandi í dag, kemur t.d. að samningu allra námskráa og skólalaga. (Lýðmennt, 1994)

Geir skrifar tóma þvælu af reiði og ofsa. Maður sem líkti samkynhneigðum við nasista í beinni útsendingu í sjónvarpi og þykist ekki vita um hina hatrömmu og ofsafengnu andstöðu við vígslu kvenna sem var hér á Íslandi. Eiginlega hefði maður nú búist við einhverju vandaðri frá svona hámenntuðum manni.

En Geir er eins og aðrir kristnir, búinn að gefast upp. Enginn trúir kenningunni, afturhald og forpokun einkennir presta og talsmenn kirkjunnar og í angist sinni grípa þeir í þjóðrembuna sem sitt síðasta haldreipi. Manni líður eiginlega illa að horfa upp á þvílíkt hrun kirkjunnar.


Hvað óttast kristnir mest?

Merkilegt að í öllu moldviðrinu undanfarnar vikur hef ég ekki séð einn einasta kristinn einstakling verja trúarbrögð sín á forsendum trúarinnar. Fyrir hvað skammast þeir sín? Hvað eru þeir svona hræddir við? Að fólk fari að hlæja?

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband