Guð almáttugur

Trú á tilvist guðs felur í sér að maður samþykki ýmsar rökleysur. Tökum dæmi:

Guð og maðurinn geta ekki báðir haft frjálsan vilja. Ef guð hefur frjálsan vilja þá veit hann ekki allt, annars væru allar ákvarðanir byggðar á nákvæmri þekkingu á öllum útkomum og guð gæti ekki breytt út frá bestu stefnu.

En ef guð veit allt þá getur maðurinn ekki haft frjálsan vilja því framtíðin er bundin í samræmi við vitneskju guðs. Ef maðurinn hefði frjálsan vilja gæti hann gert eitthvað sem guð vissi ekki að hann myndi gera og þá veit guð ekki allt, er ekki alvitur.

Guð hefur engar langanir, engar ástæður til þess að gera neitt og hefði því aldrei skapað heiminn. En ef maður hefur langanir þá hefur maður ekki allt, annars væri engin ástæða til að langa í eitthvað. Ef guð er fullkominn og almáttugur þá hefur hann ekki langanir og þarf ekkert að gera. Hann bara er.

Almáttugur guð getur ekki hafa skapað heiminn. Það er svo margt í heiminum sem er ekki fullkomið, almáttugur guð hefði auðvitað skapað fullkominn heim.

Það er engin þörf á guði til að útskýra tilvist heimsins. Ef guð væri nauðsynleg fyrsta orsök, þarf hann þá ekki sjálfur að hafa fyrstu orsök? Hafa ekki allir hlutir orsök?

Guð getur varla þurft á því að halda að fólk trúi á hann, annars hefði hann gert eitthvað almennilegt í málinu í staðinn fyrir þetta hálfkák sem enginn skilur og flestir eru hættir að trúa á hvort eð er.

Nánast allt í heiminum er skýranlegt með vísindum, og tilurð guðs og guðstrúar er skýranleg með sálfræði og mannfræði. Tilvist guðs hefur því engan tilgang, það er ekkert pláss fyrir hann lengur.

Guð getur ekki veri almáttugur því þá gæti hann búið til stærri stein en hann getur lyft. Eða búið til sterkari guð en hann er sjálfur.

Alvitur guð getur ekki skapað heiminn. Sköpun felur í sér að búa til nýja hluti, þar á meðal nýja vitneskju. En þá var guð ekki alvitur fyrir sköpunina. Hver segir þá að hann sé alvitur núna?

Guð getur ekki verið alvitur, hann getur ekki svarað spurningunni: "Veistu um eitthvað sem þú veist ekki?"

Tilvist hins illa í heiminum þýðir að guð er annað hvort ekki algóður (hann vill hið illa), eða kannski algóður en ekki alvitur (hann veit ekki af hinu illa), eða kannski algóður en ekki almáttugur (hann ræður ekki við hið illa).

Ef hið illa er til vegna þess að guð er ekki alvitur, þá er hann heldur ekki almáttugur. Hann veit ekki allt og hefur ekki mátt til að breyta því, eða hann vill ekki breyta því og þá er hann kannski almáttugur en ekki algóður.

En ef guð er ekki algóður þá er hann ekki heldur almáttugur. Hann hefur ekki fullt vald á grundvallar atriði tilverunnar og trúarinnar sem er hið góða.

Er guð sem er ekki almáttugur þess virði að trúa á? Getur hann nokkuð gert það sem hann lofar? Nóg lofaði guð upp í ermina á sér í gamla testamentinu, skyldi hann ekki vera að plata í því nýja líka? 

Hver er svo niðurstaðan af þessu öllu?

Mér dettur í hug eitt svar:

"Vegir guðs eru órannsakanlegir". Fyrir honum líka? Þá er hann ekki alvitur og ekki almáttugur. Eða bara fyrir okkur? Þá er hann tilgangslaus, við getum aldrei lært neitt um hann og getum aldrei skilið neitt sem hann segir. Sérhver trúarathöfn væri tilgangslaus því við myndum aldrei vita hvort við værum á réttri leið eða ekki.

Annað svar: "Ef þú trúir ekki ferðu til helvítis". Þetta er einmitt svarið sem flestir enda á, ef rökleysan bítur ekki á þig þá er hægt að hræða þig til hlýðni. En hver hélt því eiginlega fram að við færum til helvítis fyrir að trúa ekki? Var það ekki einhver klerkur sem óttaðist um kaupið sitt?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Guð er að sjálfsögðu rökleysa, það er óvissulögmálið líka það er meira að segja rökleysa að kenna lögmál við óvissu, skárrrrer það nú rökleysan!!!

Flestar "vísindalegar skýringar" hafa verið hraktar og þær "vísindalegu skýringar"  sem viðurkenndar eru í dag munu verða hraktar.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 30.8.2007 kl. 22:48

2 Smámynd: Karl Tómasson

Kæri Íkónóblasti.

Galdurinn felst ekki í að komast að niðurstöðu, galdurinn felst í að vera sáttur við sitt.

Bestu kveðjur frá Kalla Tomm úr Mosó.

Karl Tómasson, 30.8.2007 kl. 23:32

3 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Sæll Kalli

Ég er mjög sáttur, takk fyrir góð orð. Frábært framtak með að velja bloggara landsins, var það þín hugmynd? Jens Guð er vel að titlinum kominn, ég get alveg fallist á tilvist hans.

Annars er ég að spá í að gera eins og Kristján hér að ofan og vera í fullkominni óvissu um allt, líka það að allt sé í fullkominni óvissu. Ég kallað það óvissukenning hin meiri, eða óvissukenning Kristjáns.

Kveðja úr íkonóblastinu (brotin fljúga)

Binni

Brynjólfur Þorvarðsson, 30.8.2007 kl. 23:54

4 Smámynd: Mofi

Brynjólfur: Guð og maðurinn geta ekki báðir haft frjálsan vilja. Ef guð hefur frjálsan vilja þá veit hann ekki allt, annars væru allar ákvarðanir byggðar á nákvæmri þekkingu á öllum útkomum og guð gæti ekki breytt út frá bestu stefnu.

Frjáls vilji er einmitt að geta valið, hvort sem það er besta stefna eða næst besta eða hvað sem er.  Að vita hvað er best er ekki að hafa ekki lengur frálsan vilja.

Binni: En ef guð veit allt þá getur maðurinn ekki haft frjálsan vilja því framtíðin er bundin í samræmi við vitneskju guðs. Ef maðurinn hefði frjálsan vilja gæti hann gert eitthvað sem guð vissi ekki að hann myndi gera og þá veit guð ekki allt, er ekki alvitur.

Frjáls vilji er stórmerkilegt fyrirbrigði, hérna ákveður Guð að sleppa takinu og gefa litlum vélmennum frjálsann vilja. Þótt að Guð viti hvað hver og einn mun velja þá þýðir það ekki að við völdum ekki. Þekking á því hvað einhver mun gera tekur ekki frá viðkomandi hans val.

Binni: Guð getur ekki veri almáttugur því þá gæti hann búið til stærri stein en hann getur lyft. Eða búið til sterkari guð en hann er sjálfur.

Þú ert aðeins að biðja Guð um að gera eitthvað órökrétt eða að biðja Guð um að hætta að vera Guð og afþví að Hann getur ekki hætt að vera Guð þá er Hann ekki Guð?  Þetta er ekki rökrétt...

Binna: Ef hið illa er til vegna þess að guð er ekki alvitur, þá er hann heldur ekki almáttugur. Hann veit ekki allt og hefur ekki mátt til að breyta því, eða hann vill ekki breyta því og þá er hann kannski almáttugur en ekki algóður

Eða Guð veit allt og veit að kostnaðurinn við að gefa öðrum verum frjálsan vilja er að leyfa illskunni að vera til.  Þetta var samt útskýrt ágætlega í blogg grein hérna fyrir nokkru sjá: http://jonhjorleifur.blog.is/blog/jonhjorleifur/entry/265269/

Binni: Alvitur guð getur ekki skapað heiminn. Sköpun felur í sér að búa til nýja hluti, þar á meðal nýja vitneskju. En þá var guð ekki alvitur fyrir sköpunina. Hver segir þá að hann sé alvitur núna?

Jafnvel þótt að þú veist ekki fyrir sköpunina þá samt geturðu vitað allt því að nýja sköpunina er ekki hluti af einhverju sem er til. Ég myndi nú samt segja að Guð vissi allt um sköpunina áður en Hann skapaði, að fyrst varð þessi heimur til í huga Guðs.  Þegar við síðan skoðum heiminn þá til að búa til vitsmuna líf eins og okkur þá varð að skipuleggja hvert einasta skref, hvert einasta lögmál og hvernig öll atómin bregðast. Lífið er á hnífsbrún þar sem ekkert má vera öðru vísi annars gætum við ekki verið til. Það fyrir mér sannar að Guð er til og að Hann hafði okkur í huga.

Mofi, 31.8.2007 kl. 12:54

5 Smámynd: Mofi

Afsakaðu stafsetinga villuna

Mofi, 31.8.2007 kl. 14:09

6 identicon

Sæll Mofi

Ég sá nú ekki nema eina stafsetningarvillu og fannst hún ekki alvarleg!

Þú svarar ágætlega útúrsnúningnum hjá mér, flest af þessu eru náttúrulega bara hártoganir.

Eftir stendur þetta með illskuna, hið illa. Hvernig getur Guð verið algóður en samt leyft hinu illa að vera til? Svarið hjá þér er nokkuð gott, hið illa er forsenda fyrir frjálsum vilja. Er það ekki rétt skilið hjá mér?

Þetta er athyglisvert svar og það fyrsta sem manni dettur í hug er að það sé nokkuð til í þessu. En við nánari umhugsun þá sé ég ekki endilega röksamhengið þarna á milli, nema maður gefi sér að guð sé til og þurfi að útskýra hið illa með þeirri fyrirgjöf.

Ef hið illa er til svo maðurinn geti haft eitthvað til að velja á milli þá væri t.d. nóg að hafa það innra með manninum. Af hverju er náttúran þá svona vond við okkur?

Hið illa + frjáls vilji hljómar svona eins og nokkurs konar Hostel uppsetning, guð getur varla verið mjög góður ef hann hugsar svona um okkur.

Eða hver er annars tilgangurinn með leiknum, að setja svona reglur og láta okkur svo drepa hvort annað miskunnarlaust í árþúsundir. Svo nokkrir frelsaðir geti farið til himnaríkis, en allir aðrir sem hafa lifað fari til helvítis? Mér finnst það ekki bera vott um mikla góðmennsku.

Reyndar vantar það alltaf í guðfræðina - hvað er guð að pæla með þessu öllu saman. Þetta hef ég aldrei séð í ræðu eða á riti, kannski einhver hafi tekið á þessu án þess að ég viti?

Greinin hans Jóns Hjörleifs er skemmtileg eins og annað sem hann skrifar en á meira skylt við skáldskap en fræðimennsku. Önnur hvor setning er úr Biblíunni, hinar eru staðhæfingar Jóns án rökstuðnings, ekki nema með hornið á nöglinni á litlu tá á vinstra fæti ofaná því sem stendur í Biblíunni.

Svo er allt í lagi að stafsetja eins og manni sýnist, svo lengi sem það skilst þokkalega.

Kv

Binni

Brynjólfur Þorvarðarson (IP-tala skráð) 31.8.2007 kl. 18:39

7 Smámynd: Mofi

Gríp inn í þar sem þú talar um tilgang leiksins.  Eins og ég skil þetta þá er tilgangur þessa leiks, eða okkar tilveru að útkljá deilunna milli góðs og ills. Að það mun koma sá tími er Guð mun eyða öllu illu en Hann getur það ekki án þess að virka illur nema að illskan fái að sýna sitt rétta andlit.  Ég trúi því að Guð er að þessu öllu sama til að fá... já, félags skap vera sem eru eins og Hann að því leiti að þær hafa frjálsan vilja. Þær eru ekki viljalaus vélmenni heldur sjálfstæðar verur.

Mofi, 31.8.2007 kl. 21:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband