14.12.2007 | 18:21
Hvað er trúboð?
Innra trúboð er stærstur hluti trúboðsstarfs evangelískrar ("trúboðandi") kirkju og trúboð er hennar helsta hlutverk skv. eigin skilgreiningum. Innra trúboð er þegar "sýndarkristnum" er kennd rétt kristni. Þeir sem segjast vera kristnir en trúa t.d. ekki á þrenninguna eða upprisuna eru í raun "hálfkristnir" eða minna og stærsta verkefni Þjóðkirkjunnar samkvæmt eigin skilgreiningum er einmitt að leiðrétta "trúvillu" þessara einstaklinga, gera þá sannkristna. Þetta er sem sagt yfirlýstur megin tilgangur hinnar evangelísk-lútersku Þjóðkirkju - að kristna fólk eins og þennan uþb. helming þjóðarinnar sem segist vera kristinn en er það ekki í raun.
Í ljósi þessa er erfitt að sjá hvað prestar geta gert gagnvart skólabörnum sem væri EKKI trúboð og sem aðrir gætu þá ekki gert jafnvel eða betur. Eða með öðrum orðum, ef prestur er að gera eitthvað í skóla sem er ekki trúboð, af hverju er hann þá að gera það en ekki skólasálfræðingur/ námsráðgjafi? Presturinn er á helmingi hærri launum en er ekki menntaður til skólastarfs. Ekki að prestar séu ekki góðir menn, ég hef þekkt marga og þeir hafa allir verið hin mestu gæðablóð. En þeir eru prestar, hafa menntað sig og starfa opinberlega sem fulltrúar kristninnar á Íslandi og með það yfirlýsta markmið að stunda trúboð við sem flest tækifæri. Í ljósi þess ætti einmitt ekki að láta þá umgangast börn, sem prestar, nema undir vel skilgreindum kringumstæðum þar sem foreldrar veita samþykki sitt.
Hér á eftir nota ég orðið "trúboð" í víðri merkingu, þ.e. allt starf sem prestur myndi hugsanlega inna af hendi í skóla, og sem þyrfti samkvæmt einhverri skilgreiningu að vera unnin af presti. Sálfræðingur gæti til dæmis ekki unnið þessi störf, eða tómstundafulltrúi.
Segjum svo að það verði viðurkennt með lögum og osfrv. að trúboð sé heimilt í skólum. Ein útfærslan gæti verið að öllum væri boðið upp á trúboð og þeir foreldrar (og þeir væru örugglega margir) sem vilja þiggja það boð myndu segja já. Til að gæta jafnræðis ættu þá önnur trúfélög að geta boðið slíkt hið sama og fengið sömu aðstöðu, ef Þjóðkirkjan fær að nota skólahúsnæði þá ætti það sama að gilda um aðra. Siðmennt gæti þá höfðað til trúlausra foreldra á sama grundvelli og notað aðstöðu í skólahúsnæði til að kenna heimspeki og siðfræði börnum þeirra sem það vilja.
Hin útfærslan gæti verið sú að allir nemendur væru látnir sitja trúboðstíma og foreldrar myndu velja hvaða tiltekna trúboð það ætti að vera. Enn þyrfti auðvitað að gæta réttlætis og jafnræðis og öll trú- og lífsskoðunarfélög þyrftu að hafa jafnan aðgang að sínum "félagsmönnum" innan raunhæfra marka. Allt má leysa með góðum vilja og ef t.d. einn grísk-orþódox nemandi væri á Raufarhöfn þá gæti hann fengið kennara til sín í eina eða tvær vikur yfir veturinn, og stundað nám sitt í gegnum tölvur eða í bókum þess á milli.
Hérna þarf í rauninni þjóðfélagið að taka afstöðu, en sú afstaða hefur ekki verið tekin ennþá. Sjálfur get ég ekki tekið afstöðu til þessara möguleika, einfaldast finnst mér að trúboð sé ekki innan veggja skólanna (eins og reyndin er í Bandaríkjunum, Holland, Frakklandi og fleiri löndum) eða þá að jafnræðis sé gætt og ölllum helstu trú- og lífsgildisfélögum á Íslandi sé gert jafn hátt undir höfði.
Meginflokkur: Trúmál og siðferði | Aukaflokkar: Menntun og skóli, Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.12.2007 kl. 20:42 | Facebook
Athugasemdir
smá "hint" með Jón Val og mig...hann veit að ég er fædd í kaþólsku og skírð og altarissakramennti og fermd...svo eina sem ég þarf að gera sem "kaþólikki" er að iðrast í dánarandvarpinu og ég verð kaþólskari en hann sjálfur!...þannig er þetta í kaþólskunni...once a catholic...always a chatolic"...enda biðu víst kaþólskir með presta sína fyrir ofan Lúther þegar hann dó...bara til að athuga "seinasta sakramenntið"...en þú veist þetta kæri vinur Brynjólfur!
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 21.12.2007 kl. 23:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.