Að pína börn og skemma tilhlökkun jólanna - "cruel and unusual punishment" beitt í skólum

Fátt finnst börnum leiðinlegra en að fara í kirkju. Allir sem farið hafa með börnum í kirkju vita þetta og hafa orðið vitni að því, muna jafnvel sjálfir eftir hinum ótrúlegu leiðindum sem messuhaldi fylgir. Þar sem börn eru nokkur saman í messu fara þau oftar en ekki að ærslast og ég hef setið "skólamessu" þar sem presturinn gat varla haldið stólræðu fyrir gauragangi!

það að fara með börn í messu er píning, óvenjulega harkaleg meðferð. Nú þegar jólin nálgast, með litlujólum og gleði í hverju barnshjarta, taka skólastjórar landsins upp á því að refsa börnunum fyrir gleðina með því að draga þau í messu. það virðist varla sá skóli sem dregur ekki börnin, hvern bekkinn á fætur öðrum, nauðug viljug, í messur að sitja undir þrugli og rugli, og eyðileggja þar með alla jólagleðina.

Af hverju finnst börnum svona leiðinlegt í messu? Af því að börn sjá í gegnum fals og tilgerð auðveldar en fullorðnir, og bera enga virðingu fyrir því. Í sinni siðferðilega gjaldþrota innrætingarherferð fara trúlitlir prestar með bragðdaufa texta, án sannleika eða sanninda. Bergmálandi uppsteyptar fúnkiskirkjur eða illa lyktandi saggafullir 19. aldar timburhjallar, harðir bekkir, leiðinleg tónlist illa flutt, karl í kjól talar með þeim tilgerðarvæl sem allar dragdrottningar reyna að tileinka sér en aðeins guðfræðideild kennir, hvernig veit ég ekki.

Væri ekki ráð að hætta að pína börnin? Gera eitthvað skemmtilegt í stað þess að gera enn eina kynslóð að hefðarkristnum og trúdauðum hræsnurum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Já, en í fylgd með foreldrum sínum. Ekki pínd af skólastjóra.

Svo er langt síðan ég sá Jesú í kirkju, ég held að honum hafi leiðst líka.

Svo er hér gamall sálmur sem sunginn var í minni æsku:

amen, geispen, leiðenlegt
jamen segir klerkur
samen biðjem bænemememe
kamen alle guðstilríkistil
nemen þeir sem sofna.

Brynjólfur Þorvarðsson, 19.12.2007 kl. 23:46

2 Smámynd: Mofi

Sammála að það er eitthvað undarlegt að vera dreginn af skólastjóra í messu. Hafandi sagt það þá hafa frændur mínir farið nærri því hvern einasta hvíldardag í messu frá því þeir fæddust og þykir ekki mikið mál. Stundum er gaman, stundum er leiðinlegt eins og gengur og gerist.

Mofi, 20.12.2007 kl. 08:21

3 Smámynd: Sólveig Lilja Óskarsdóttir

Sæll og takk fyrir innleggið

Það er margt til í því sem þú segir hér. Ég trúi sjálf á Jésús Frelsara minn, Guð Almáttugan skapara minn og Faðir og Heilagan Anda Kennara minn. Þegar ég fer í kirkju þá fer ég í Hallelúja hoppara kirkju heittrúaðra eins og Fríkirkjan Vegurinn, Fíladelfía, Krossinn og Samhjálp og fleiri og mér finnst gaman, ég hoppa,dansa,klappa og syng af öllu hjarta bæði rokkuð stuðlög og róleg lofgjörðarlög. Dóttir mín sem er 14 ára fer á unglingasamkomur á föstudagskvöldum og hún minnir mig á ..mamma þú manst keyra mig á samkomu í kvöld..því hún hlakkar til og á virkilega góða vini og vinkonur þar og þau spjalla saman eftir samkomuna og hafa gaman og ég má ekki koma of snemma að sækja hana.

Það er hljómsveit á samkomum með trommum og rafmagnsgítar söngvurum og fleiri hljóðfærum,þau skemmta sér vel og hlusta á lifandi predikun og vitnisburði frá unglingum litlu eldri sem hafa farið í trúboð til Pakistans og Indlands og niðrí miðbæ Reykjavíkur og inní Menntaskólunum að segja frá hvað Jésús hefur gert fyrir þau, læknað, leyst úr viðjum erfiðleika og gefið gleði inn í líf þeirra. Á samkomunum biðja þau fyrir hvort öðru og uppörva hvort annað,hlægja og eru glöð. Dóttir mín kemur alltaf mjög glöð heim eftir samkomur og tíminn leið yfirleitt of fljótt.

 Kíktu á lifandi samkomur. Barnakirkjan er aldursskift og börnin fá efni við sitt hæfi hjá góðu fólki á meðan foreldrarnir hlusta á predikun sem hentar þeim. Biblían er stórkostleg bók en það er hægt að kynna hana á margan hátt, með aðlöðun, með áróðri, skemmtilega eða leiðinlega. Hvernig við komum þessu til skila til barnanna okkar í kristna landinu okkar er undir okkur hinum fullorðnu komið, við berum ábyrgð á því að börnin okkar og unglingarnir okkar eignist sterka og heilbrigða sjálfsmynd og búi við gleði og öryggi og að siðferðiskennd þeirra sé sterk og þau kunni að setja mörk og virða annara mörk.  Líf með Jésú er innihaldsríkt og skemmtilegt líf, hann fór út um allt og læknaði fólk og fólkið varð glatt að losna undan sjúkdómum synd og áþján, þessi sami Jésús lifir enn í dag og bankar á dyr hjartna okkar og þráir að komast inn í hjarta okkar og allt okkar líf , gæti verið að hann standi fyrir utan einhverjar kirkjur og banki.......!! hver veit!!  

Kær kveðja Sólveig Lilja

Sólveig Lilja Óskarsdóttir, 20.12.2007 kl. 12:58

4 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Sæl Mofi og Sólveig Lilja

Takk fyrir athugasemdir, mig grunar að við séum sammála um að trúaruppeldi barna er hlutverk foreldra.

Tilefni þessa pistils hjá mér var að ég hef heyrt ótrúlega margar sögur upp á síðkastið frá ættingjum og vinum þar sem fólk er að lýsa kirkjuferðum skólabarna þar sem verið er að biðja bænir og iðka trú. Þessar ferðir eru á skólatíma og yfirleitt ekki gefinn kostur á öðru en að taka þátt.

Sá sem er trúaður upplifir kirkjuferð allt öðruvísi en hinn sem er neyddur til að fara. Barn sem fer nauðugt í stórum hópi annarra barna, með lítinn áhuga og sumir félagarnir með enn minni áhuga, og prestur sem hefur litla reynslu af að stjórna stórum barnahópum. Þetta býður upp á tóma vitleysu, fyrir utan að vera ekki eðlilegur þáttur í almennri menntun.

Barn sem fer með foreldrum sínum eða öðrum sem það treystir og lítur upp til og tekur þátt í trúarlífi þeirra upplifir kirkju (eða samkomur) allt öðruvísi. Það er okkar foreldranna að ala börnin okkar upp, trú manna er persónulegt fyrirbæri og börnin eru heilög. Ekki mynduð þið vilja að ég færi að predika trúleysi yfir ykkar börnum og ég kæri mig ekki um að aðrir fullorðnir séu að boða mínum börnum trú sem ég trúi ekki sjálfur á.

En ef þið viljið boða trú ykkar gagnvart fullorðnum þá er það í góðu lagi. Þetta er frjálst samfélag og maður á að fylgja sannfæringu sinni.

En skólastjórar, hættið að pína börnin og gefið þeim frí svona í tilefni jólanna!

Brynjólfur Þorvarðsson, 20.12.2007 kl. 20:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband