Færsluflokkur: Vísindi og fræði
21.12.2007 | 23:19
Páll afsannar Jesú. Ótrúlegt en satt!
Guðspjöllin fjögur eru mjög slælegar heimildir í sagnfræðilegum skilningi. Strangt til tekið eru þau aðeins tvö frá sjónarhóli sagnfræðings, Samstofna og Jóhannes (Mattheus, Markús og Lúkas eru samstofna þó talsverðu muni milli þeirra) og því miður eru Samstofna og Jóhannes verulega ósammála, til dæmis um dánardag Jesú.
Guðspjöllin eru enda skrifuð seint. Ýmsir hafa verið að reyna að færa þau framar, til dæmis má sjá í greininni í nýjasta hefti af Sagan öll að Markús sé líkast til skrifaður rétt fyrir uppreisnina en hún hefst 64. Rökin fyrir þannig fullyrðingu eru eingöngu þau að það er ekki hægt að færa ritunina framar. Ekki að það séu neinar vísbendingar um að ritunin hafi verið á þessum tíma, en kristnir þurfa á því að halda margir að ritunin sé sem næst Jesú í tíma.
En það er ekkert í guðspjöllunum sem bendir til að þau séu skrifuð fyrr en nokkuð eftir eyðileggingu musterisins - það er einmitt mjög mikið sem bendir til að þau séu einmitt skrifuð að stórum hluta til sem viðbrögð við eyðileggingu musterisins.
Páll, sem er alvöru heimild um eigin samtíma (um miðja öldina), skrifar ekkert um Jesú. Hann talar mikið um Krist endurfæddan, syndardauðann og minnist einu sinni á eucharist (kvöldmáltíð). En hann er ekki heimild um Jesú, persónuna. Allt sem Páll segir má skýra með hliðsjón af messíanískum pælingum sem sjást til dæmis í Dauðahafshandritunum. En það er ljóst að annað hvort veit Páll ekkert af þeim sögum sem sagðar eru í guðspjöllunum, eða hann kýs að hunsa þær alveg - og gerir þá ráð fyrir að viðtakendur taki því þegjandi.
Líklegra er að hann hafi ekki þekkt þessar sögur, hann hefur ekki þekkt neitt af því sem Jesú á að hafa sagt eða ekki sagt. Hann vitnar aldrei í Jesú eða reynir að komast í kringum eitthvað sem Jesú segir. Sem dæmi, umskurðurinn er aðal málið hjá Páli. Jesú minnist ekkert á umskurð. En Páll minnist ekkert á að Jesú hafi ekki minnst á umskurðinn, og gerir enga tilraun til að réttlæta sitt mál með hliðsjón af því. Sem bendir til að hvorki hann né viðtakendur hafi hugmynd um þessa afstöðu Jesú sem kemur fram í guðspjöllunum.
Samt umgekkst Páll þá Símon Pétur, Jóhannes og Jakob postula Jesú - og Jakob þar að auki bróðir Jesú. Var aldrei talað um boðskap Jesú þegar þeir hittust? Aldrei minnst á að hann hefði nú sagt þetta og hitt? Þeir hittast á fundum þar sem tekist er á um guðfræðileg efni, Páll skrifar síðan (og hugsanlega Jakob líka) bréf sem eru í Nýja Testamentinu. Jesú er ekki í þeim bréfum.
En það eru fleiri sem virðast ekki þekkja guðspjöllin. Rit fyrstu "kirkjufeðranna" sem svo eru kölluð sýna engin merki þess að höfundar þeirra hafi þekkt guðspjöllin. Þeir eru skrifa fyrir eigin samtíma um eigin samtíma. Langt fram á aðra öld eru þeir fyrst og fremst að hugsa um aðra gyðinga eða "gentílismenn" hliðholla gyðingdómi, þeir skrifa um hitt og þetta en vitna til að byrja með ekki í nein skrifuð guðspjöll.
Orðið "guðspjall" er skáþýðing (þ.e. hlóðlíkisþýðing) á enska "gospell" = "good spiel" = "góð frásögn/skilaboð" = evangelion. Páll notar þetta orð um boðskapinn um Jesú og orðið er þekkt í víðar, til dæmis um fréttir af keisarafjölskyldunni.
Fyrstu kirkjufeður eru (í tímaröð):
Clemens (uþb 96), minnist ekkert á neitt úr guðspjöllunum.
Didache (uþb 100), engin vísbending um að hafi lesið guðspjöllin, en mjög líkur hugsanaháttur og í Matteusi. Gæti verið skrifað á sama tíma.
Ignatius (uþb 110) skrifar mjög markvisst gegn Dósetísma sem var nýbyrjaður, hjá Jóhannessi er einnig skrifað gegn Dósetísma. Ignatíus er líka sá fyrsti sem virðist þekkja eitthvert guðspjall, Mattheus.
Papías sem skrifar á fyrri helmingi fyrstu aldar (rit hans eru týnd, en brot eru til í tilvitnun í öðrum ritum) skrifar um orð Jesú og að hann hafi skrifað það sem honum var sagt. Nefnir engin skrifuð guðspjöll.
Þarna eru líklegri ártöl fyrir ritun guðspjallanna, um og eftir 100. Löngu eftir að allir sem gátu verið sjónarvottar eru dauðir. Þetta er samkvæmt sagnfræðinni en ekki óskhyggju sumra kristinna manna.
21.12.2007 | 00:34
Öllu snúið við í leit að haldbærum sönnunum fyrir tilvist Jesú.
En sönnunargögnin láta standa á sér. Guðspjöllin eru ekki marktæk söguleg heimild og aðrir ritarar fornaldar þegja. Suetonius og Tacitus eru stundum dregnir inn í þetta, síðast núna í grein í blaðinu Sagan öll. En var Suetonius að tala um Jesú Krist? Líkur eru til þess að svo hafi ekki verið.
Í mínu eintaki af "Lives of the Caesars" stendur, kafli 25 um Kládíus um ýmislegt sem hann gerir varðandi hin og þessi þjóðarbrot:
"Because of the hideous disputes which had arisen amongst them he deprived the Lycians of their citizenship. To the Rhodians, because of their remorse for their earlier offences, he returned theirs. To the people of Ilium he granted perpetual exemption from tribute on the grounds that they were the founders of the Roman race ... The Jews he expelled from Rome, since they were in constant rebellion, at the instigation of Chrestus. The envoys of the Germans he allowed to sit in the orchestra ... He imposed a complete ban on the religion of the Druids among the Gauls ... he made an attempt to have transferred from Attica to Rome the sacred mysteries of Eleusis ..."
Þetta er skrifað um 120 e.o.t.
Christos (gríska) myndi þýða Messías (hinn smurði), vel þekkt messíanasarkomplex gyðinga ollu þremur stórum uppreisnum. Þarf ekki neinn Jesú til að gera þá vitlausa í Róm árið 45.
Latínan er með "impulsore Chresto" sem mér skilst að merki að uppþotin hafi verið að tilstuðlan einstaklingsins Chrestos. Þetta var víst algengt grískt nafn, Chrestos = "góður maður", ekki það sama og christos = "smurður". Suetonius gæti hafa ruglast, eða hann gæti verið að skrifa um mann sem hét "Chrestos" eða mann sem kallaði sig "góður" eða bara einhver sem þóttist vera messías? Þeir voru ófáir á fyrstu og annarri öld.
Jósefus sagnaritari notar orðið "Chrestos" sem viðurnefni á Agrippa I. Sá var sonur Heródusar mikla, fæddur 10 f.o.t. og sendur til Rómar. Eftir einhverjar hrakningar endar hann aftur í Róm, verður besti vinur Kládíusar og fær Júdeu til yfirráða en er þar stutt, deyr þar árið 44.
Sem sagt, Agrippa "Chrestos" fer til Júdeu sem konungur Gyðinga. Verður vinsæll hjá sumum (ekki mjög hjá ritara Postulasögunnar sem segir frá honum í 12. kafla) og fer að endurreisa varnarveggi Jerúsalem. Fær tiltal frá Rómverjum og deyr stuttu seinna af iðrameini. Jafnvel drepinn af Rómverjum.
Gæti verið að Suetonius sé að segja frá uppþotum Gyðinga að tilstuðlan Agrippa "Chrestos" og fari áravillt? Eða uppþotum Gyðinga eftir að hafa frétt af andláti og hugsanlegu morði Agrippa? Hvort tveggja líklegra en að Jesú Kristur hafi verið í Róm árið 45 að æsa til uppreisna.
Fyrir utan að auðvitað efast enginn um að kristnir voru til. Þeir eru víst til enn í dag, og það að Suetonius skrifi árið 120 um Kristna í Róm árið 45 (ef við kaupum kristnu túlkunina á því sem hann skrifar) þá sannar það ekkert annað en að kristinn söfnuður var til í Róm.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 00:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
16.12.2007 | 11:15
Kristni og mannréttindi
Theódór spyr athyglisverðrar spurningar og vill fá svör, skiljanlega:
"
Áskorun til vantrúaðra:
Vantrúarfólkið heldur áfram að níða skóinn af kristinni trúariðkun og gildum og segja hana vera til trafala. Mannréttindi séu ekki henni að þakka, heldur því að menn brutust undan áhrfium kristni.
Ég skora á hvern talsmann vantrúarinnar sem er að nefna eitt samfélag í mannkynssögunni þar sem mannréttindi hafa náð að festa rætur jafn mikið eða betur en á Vesturlöndum, þar sem kristni hefur haft mest áhrif í heiminum.
Það hlýtur þá að hafa þróast eitthvað svoleiðis samfélag í hinum ókristna heimi, ef að kristnin er mannréttindum til trafala. Hvar!
"
(í umræðum: http://alit.blog.is/blog/alit/entry/387824/)
Ég held að svarið sé í raun einfalt: Það fer saman að þau lönd þar sem mannréttindi hafa náð lengst eru líka þau lönd sem hafa verið kristin. Þetta vissi Theódór fyrir og hann notar þessa "fylgni" til að eigna kristninni mannréttindi. Sama rökvilla grasserar um alla bloggheima og jafnvel í ræðu og riti opinberra manna.
Undanfarin nokkur hundruð ár hefur Evrópa sigrað heiminn með vopnavaldi og er núna að leggja hann undir sig með tækni sinni og hugmyndafræði. Frá því um 1900 hefur "leiðtogi" hins vestræna heims reyndar verið BNA en menningarlega teljum við það land til Evrópu. Hvernig stendur á þessum yfirburðum? Er það kristninni að þakka (eða kenna)?
Hinn virti fjölfræðingur Jared Diamond hefur fjallað um þessa yfirburðu Evrópskrar menningar í nútímanum. Fyrst kom tæknibyltingin sem varð til þess að fátækur útkjálki lagði undir sig heiminn. Ríkidæmi sem fylgdi tækniþróun ásamt stanslausri hugmyndagerjun leiddi af sér þær hugsjónir sem við í dag byggjum samfélag okkar á: Virðingu fyrir frelsi til orðs og æðis, athafna- og eignafrelsi, rétturinn til lífs og lima, þátttaka í stjórnarfari með almennum kosningarétti.
Jared bendir á það sem ætti að vera augljóst öllum sem geta litið yfir heimskort. Evrópa er einstæð frá landfræðilegu sjónarmiði. Það er ekkert annað landsvæði sem hefur sömu eiginleika. Evrópa er nánast öll ræktanleg með aðferðum sem þegar voru þróaðar fyrir 3000 árum og ber því talsverðan mannfjölda. Evrópa skiptist náttúrulega í mjög vel afmörkuð svæði sem eru nógu stór fyrir sterk þjóðríki og tiltlölulega auðvelt að verja. Það sem einkennir sögu álfunnar er því stór og voldug ríki nálægt hvoru öðru í stanslausri samkeppni. Eina undantekningin er Rómarveldi á hátindi sínum en þar var reyndar samkeppnisaðilinn Parþar í Asíu.
Stór og voldug ríki leiða að sér styrjaldir, en ekkert eitt nær yfirhöndinni. Dæmi um nokkurn veginn jafn-stór ríki í Evrópu sem hefur hvert sitt landfræðilega afmarkaða svæði er auðvitað Frakkland, frá 800 - 1800 voldugast og sterkast, Bretland, Þýskaland/Austurríki, Spánarskagi, Ítalíuskagi. Stanlaus hernaður, stanslaus samkeppni leiðir af sér þróun í tækni og hugarfari.
Auðveldar samgöngur um alla Evrópu ýta undir þessa þróun. Siglingar meðfram ströndum og uppeftir stóránum nær auðveldlega til allra landsvæða álfunnar. Ef maður lítur lengra aftur í tímann má sjá að annað nálægt landsvæði, Miðjarðarhafið, hafði þessa kosti Evrópu enn fyrr - skýr afmörkun landsvæða, stór og öflug ríki, góðar samgöngur. En lítið um aðliggjandi landamæri og þess vegna auðveldara að einangrast.
Miðað við landfræðikosti Evrópu þá hefði hún átt að vera ríkust og öflugust en árið 1500 var hún langt á eftir Indlandi og Kína í ríkidæmi og tækniþekkingu, langt á eftir Múslímska heiminum í menntun, listum og mannúðarhugsjón. Eitt hafði Evrópa þó fram yfir og má jafnvel þakka okkur mörlöndum að hluta: Siglingatækni og skipasmíðatækni til að takast á við N-Atlantshafið. Frá um1300 til 1500 fleygði þessari tækni áfram, ekki síst vegna stórfelldra veiða Breta, Þjóðverja, Hollendinga, Frakka og Spánverja við Íslandsstrendur. Hraðskreið og sterkbyggð skip gátu siglt um allan heiminn og heim aftur.
Hérna er tímabært að benda á að þrátt fyrir 1500 ára sögu kristninnar var Evrópa fátækur afturendi heimsins. Hér var menningarstarfsemi í lágmarki, tækniþekking í lágmarki, listasköpun í lágmarki, hugsanafrelsi í lágmarki, frelsi almennt í höndum fámennra eignahópa með sérlög (privilegium). Mannúð þekktist ekki, ofbeldi gríðarlegt og viðvarandi á öllum sviðum. Sannkallað barbarí sem t.d. íslamskir ferðamenn hrylltu sig við að sjá. Hvar voru hin Kristnu gildi sem eiga að vera svo skýr og auðskilin?
Endurreisnin hófst með enduruppgötvun fornritanna sem kirkjan hafði svo lengi reynt að bæla. Grísk klaustur höfðu sum hver falið handrit og nú þegar Tyrkir voru að nálgast var handritum komið til hinna nýju verslanaborga á Ítalíu, Flórens og Genúa (en ekki Feneyja enda leiddu Feneyingar eyðileggingu Konstantínóbels 1204 og opnuðu þar með endanlega leiðina fyrir Tyrki). Ítalirnir tóku að gefa þessi fornrit út í eftirriti, prenttæknin ekki enn komin. Skyndilega barst ljós fornaldar inn í miðaldamyrkur Kirkjunnar og á um 300 árum má segja að veldi hennar hafi hrunið og henni ýtt til hliðar sem megin afli álfunnar.
Rétt fyrir 1800 er hinn formlegi grundvöllur þess sem við köllum mannréttindi lagður. það voru byltingarmenn í hinum verðandi Bandaríkjum sem byrjuðu, með dyggri aðstoð franskra og enskra hugsuða, og síðan tóku Frakkar við. Þegar maður les þessar yfirlýsingar, t.d. réttindaskrá Virgíníufylkis 1776, sjálfstæðisyfirlýsinguna 1776, og mannréttindayfirlýsinguna frönsku 1789, er ljóst að mönnum var ekki kristni ofarlega í huga. Flestir þessara hugsaða voru deistar, svipað og þekkist t.d. í Hindúisma og á ekkert skylt við kristni, og málfar þessara merkilegu plagga er nánast alveg laust við trúarleg stef. Ekki alveg, en næstum því alveg.
Lagði kristnin þá ekkert til málanna? Kannski má segja að hin kristna hugmynd um heilagleika lífsins, sálina, hafi verið grundvöllur að mannréttindahugsjóninni. En hugmyndin um sálina er miklu eldri og frá Grikkjum komin. Árelíus "heimspekikeisarinn" (sá gamli í "Gladiator") skrifar með mannréttindahugsjónir í huga þótt þær séu ekki þróaðar. Honum finnst kristnin hins vegar heimskuleg. Heilagleiki alls lífs er útbreidd hugmynd í Búddisma, og í Konfúsíanisma og Taóisma gætir margra þeirra hugsana sem geta lagt grunn að mannréttindahugsjón. Enda eru til sögur af stjórnarherrum í Indlandi og Kína sem tempruðu stjórnarfar sitt og virtu "mannréttindi" almennings á grundvelli Búddískra eða Konfúsíanískra gilda - en það er engin saga til um konung eða keisara í hinum Kristna heimi sem gerði slíkt hið sama á grundvelli kristinna "siðferðisgilda".
Að ofansögðu má kannski sjá að það er miklu frekar að kristninni (eða kirkjunni) verði kennt um hinar myrku miðaldir en að þeim verið eignaðar manngildishugsjónir upplýsingastefnunnar. Það má vel færa rök fyrir því að kristnin hafi fyrst haldið aftur af Evrópu og síðan, eftir að "útrásin" var hafin, veitt þann hugmyndafræðilega grundvöll sem þurfti til að drepa og myrða miskunnarlaust um allan heim. Urban II páfi þróaði fyrstur manna hugmyndina um heilagt stríð (um 1095) og hvernig maður gat fengið syndaaflausn fyrir að drepa heiðingja - þessi hugmyndafræði var byggð á Ágústínusi kirkjuföður en auðvitað á kristninni eins og þeir skildu hana. Þetta var upphafið af gyðingaofsóknunum sem náðu hámarki á nærri þúsund árum seinna - svo mikið fyrir kristið siðgæði.
"Sá sem er ekki með mér er á móti mér" - boðunarkrafa kristindómsins er gríðarlega sterk og jafnframt sú einfalda lífssýn að það sé bara einn sannleikur. Þannig hugsuðu kristnir fram á allra síðustu aldir og hugsa margir enn. Þessi hugsun er grundvöllur haturs og fordóma, réttlæting morða og misþyrminga, afsökun fyrir eyðileggingu menningarverðmæta í stórum stíl. Kristnir hafa eytt menningu eigin þjóða og annarra af meiri ákafa og af meiri krafti en nokkurt annað í mannkynssögunni. þannig er nú hið kristna siðgæði.
Mannréttindi og kristni fylgjast ekki að á síðustu tveimur öldum. Flest þau ríki sem teljast kristin hafa verið undir einræðisstjórn þennan tíma, þar sem mannréttindi voru að engu höfð. Helsta undantekningin eru ríki N-Evrópu og BNA en þar er hrærigrautur allra kristinna kirkna og ekki hægt að eigna t.d. lútersku eða kalvínsku eitthvað af þessu (eins og t.d. Weber reyndi að gera). Það er frekar að hin lúterska kirkja hafi þróast til þess að vera í takt við nýjar hugsanir, frekar en öfugt, enda má sjá á fyrstu öldum hennar að þar fór enn meira afturhald en áður, enn meiri vanvirðing á öllum grundvallargildum mannréttinda. En þegar upplýsingin nær sér á strik á 19. öld er það hin lúterska kirkja sem aðlagast enda undir stjórn veraldlegra valdhafa. Ekki vegna kenningar Lúters.
Það er athyglisverð þessi birtingarmynd "kristilegs siðgæðis" að ætla að eigna sér allt gott. Þetta ber vott um gríðarlegan skort á sjálfstrausti. "Hin kristna kenning er gjaldþrota, finnum eitthvað annað til að standa á."
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 20:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)