Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Lennox vs. hann sjálfur

Mofi birti nýlega grein eftir stærðfræðinginn John Lennox þar sem hann svarar fullyrðingum Stephen Hawking um guðlaust upphaf alheims. Ekki veit ég hvað Hawking segir nánar um málið en það sem Lennox hefur að segja er óttalega ómerkilegt.

 En skoðum máli nánar:Lennox er stærðfræðingur, ekki eðlisfræðingur. Ummæli hans eru ekki fræðilegs eðlis heldur heimspekileg og trúarleg eins og berlega kemur fram í málflutningi hans. Fulllyrðingar sem hann kemur með um eðlisfræði eða alheimsfræði eru fullyrðingar áhugamanns, verulega mótaðar af fyrirfram gefinni trúarsannfæringu.En hversu marktækur er þá Lennox á sínu áhugasviðum?

 

Within the Christian faith, there is also the powerful evidence that God revealed himself to mankind through Jesus Christ two millennia ago. This is well-documented not just in the scriptures and other testimony but also in a wealth of archaeological findings.

 

Í lok ofangreindrar tilvitnunar fullyrðir Lennox um fornleifafræði - og missir algjörlega marks. Það er ekki ein einasta arða sem fornleifafræðin hefur fært okkur til sönnunar á tilvist Jesú, hvað þá að hann hafi verið birtingarmynd Guðs. En Lennox fullyrðir hvort tveggja. Hér hefur hann svo augljóslega rangt fyrir sér.

Lennox beitir einnig mannfræðilegum rökum í málflutningi sínum, í frásögn af Joseph Needham:

 

He wanted to find out why China, for all its early gifts of innovation, had fallen so far behind Europe in the advancement of science.

He reluctantly came to the conclusion that European science had been spurred on by the widespread belief in a rational creative force, known as God, which made all scientific laws comprehensible.

 

Þetta er furðuleg röð fullyrðinga - í fyrsta lagi var niðurstaða Needham (og vel að merkja, þetta var fyrir hálfri öld síðan) sú að það voru trúarbrögð Kínverja (Taóismi og Konfúsíanismi) sem hafi haldið aftur af þeim - ekki að kristni hafi ýtt undir í Evrópu (eins og Lennox fulllyrðir). Needham er reyndar frægur fyrir spurninguna (hvers vegna fór Evrópa fram úr Kína) en niðurstöður hans hafa ekki enst vel.

Jared Diamond hefur að mínu viti svarað "Needham spurningunni" manna best, og ekki bara fyrir Kína heldur mannkyn allt. Svarið hefur ekkert með kristni að gera - en bók hans er gríðarlega áhugaverð og ég hvet alla að kynna sér hana ("Guns, Germs and Steel", NY 1997).En Lennox fullyrðir einnig að Needham hafi komið fram með kenningu um að vísindaþróun í Evrópu sé afleiðing af trúnni á einn, skiljanlegan Guð (orðið "rational" merkir hér skiljanlegur eða skilgreinanlegur). Nú má vera að Needham hafi einhvern tímann sagt eitthvað á þessa leið en fullyrðinguna er auðvelt að hrekja með vísun til sögunnar: Annars vegar stöðnunar vísindaframþróunar í 1000 ár (400 - 1400), á meðan Kristnin réð ríkjum í Evrópu, og hins vegar stöðnun vísindaframþróunar í 1000 ár (1000 - 2000) í Íslam þar sem trú á skiljanlegan Guð er ekki minni en í Kristni.

Kína hefur á móti ekki lifað 1000 ára stöðnun í vísindaframþróun - fyrir 700 árum var Kína þróaðasta land í heimi og framfarir voru mjög hraðar. Innrás Mongóla stöðvaði þessa þróun, borgarmenning leið verulegan hnekki og efnahagur hrundi og Kína var í raun verulega skert efnahagslega næstu 500 árin. Vísindaþróun er ekki hröð við slíkar kringumstæður (Evrópa hefur svipaða afsökun fyrir sitt fyrri helming síns stöðnunarskeiðs, Íslam ekki).

Needham skrifaði fyrir hálfri öld eða meira, í dag eru Kínverjar augljóslega að geysa fram á gríðarlegum hraða, bæði efnahagslega og vísindalega. Með núverandi vexti fara Kínverjar fram úr hinum "Kristna" heimi áður en okkar ævi er öll og hafa þar með afsannað eina ferðina enn að trúarbrögð hafa ekker með málið að gera.

Fullyrðingar Lennox eru því nánast tóm tjara - og ekki verður séð að han hafi mikinn skilning á því sem hann tjáir sig um á sviði fornleifafræði, sagnfræði eða mannfræði. Skyldi hann vita meira í eðlisfræði eða alheimsfræðum?

 

Merkingarfræðileg markleysa

 
But contrary to what Hawking claims, physical laws can never provide a complete explanation of the universe. Laws themselves do not create anything, they are merely a description of what happens under certain conditions.

 

Nú veit ég ekki hvort Hawking hafi sagt að eðlisfræðilögmál skýri alheminn til fullnustu. Mér þykir ólíklegt að hann hafi tekið svo stórt upp í sig. En það er ekki heldur rétt hjá Lennox að eðlisfræðlilögmál séu bara lýsing á atburðarás. Kenningar Einsteins og lögmál leidd út frá þeim eru t.d. mjög ákveðnar lýsingar á eðli heimsins - og út frá þeim má bæði skýra og spá fyrir um atburðarás. Slíka lýsingu á eðli heimsins er ekki að finna í trúarbrögðum eða "frumstæðari" vísindakenningum.

 

Þekkingarfræðileg hringavitleysa

Lennox kemur með athyglisverða skilgreiningu á sannleikanum, skoðum það nánar:

 

Despite this, Hawking, like so many other critics of religion, wants us to believe we are nothing but a random collection of molecules, the end product of a mindless process.

This, if true, would undermine the very rationality we need to study science. If the brain were really the result of an unguided process, then there is no reason to believe in its capacity to tell us the truth.

 

Það virðist sem Lennox sé að vísa til þróunarkenningarinnar þegar hann talar um tilviljanakennda samröðun sameinda, afleiðing blindrar atburðarrásar. Það er algengur misskilningur að niðurstöður þróunar séu tilviljanakenndar þótt þróun vissulega byggi á tilviljanakenndum atburðum.

En Lennox virðist meina að þróaður heili (öfugt við skapaðan) hafi ekki getu til að þekkja sannleikann. Hér gæti hann verið að meina tvennt: rökfræðilegan sannleika eða "rétta" þekkingu, þ.e. þekkingu sem samsvaraði raunveruleikanum.

En rökfræði er mekanísk eins og Alan Turing sannaði fyrir 90 árum - sannleiksgildi röksetninga hefur ekkert með hugsun að gera, tölvur fara létt með að finna sannleikann eftir hreinum mekanískum leiðum.

Um sannleiksgildi fullyrðinga um raunheiminn er það að segja að sannleiksgildið ræðst auðvitað af því hversu "rétt" fullyrðingin er. Þar sem raunheimar, t.d. eðlisfræði, er afleiðing sömu ferla og hafa þróað heilann þá er einmitt mjög rökrétt að ætla að þróaður heili geti þekkt sannleikann um raunheima. Við ættum einmitt að óttast hæfileika hins skapaða heila til að þekkja mun á eigin innri starfsemi og hinum ytri raunveruleika, enda væru þessir tveir þættir afleiðingar gjörólíkra ferla.

Nema auðvitað að maður gefi sér að alheimurinn sé einnig skapaður. Þá stenst auðvitað fullyrðing Lennox: Ef alheimurinn og allt í honum er skapað, NEMA mannsheilinn, þá gætum við ekki treyst mannsheilanum. En svona röksemdafærsla er kallað að fara í hringi.

 

Skýringarfræðilegur misskilningur

Lennox, eins og svo margir aðrir trúmenn, virðast halda að Guð sé skýring á tilurð heimsins. Lennox segir þetta beinum orðum í tilvitnun hér að ofan, um útskýringar: Eðlisfræðin getur aðeins skýrt svo og svo mikið en ef við viljum skýra allan heiminn þá verðum við að hafa Guð sem skapara.

Misskilningurinn felst auðvitað í því að hér sé komin skýring. Alheimsfræðin, samspil eðlisfræði, stjarnfræði og annarra vísinda, leitast við að skýra heiminn eins og við sjáum hann. Heimurinn er flókinn en við skiljum hann betur og betur og komumst sífellt nær því takmarki að skilja hann til fullnustu.

Sumt munum við kannski aldrei skilja, m.a. hvað hugsanlega gerðist við upphaf alheimsins (þótt við höfum þokkalega góða mynd af atburðarrásinni stuttu eftir upphafið). Skilningi okkar er ábótavant og það má vel vera að við höfum ekki hæfileikann til að skilja upphafið, vegna takmarkana í heila okkar.

En guðstrúarmenn setja fram skýringu á því sem við skiljum ekki og segja: Sko, þetta er einfalt, það var bara Guð sem sá um þetta! En þessi Guðs-skýring er miklu flóknari en vandamálið! Ef Guð hefur skapað alheiminn þá er Guð miklu flóknari en alheimurinn. Ef Guð er skiljanlegur (eins og Lennox fullyrðir, hann segir beinlínis að það sé forsenda Kristni að við skiljum Guð og hönnum hans) þá hlýtur Guð að fylgja einhverjum þeim reglum sem við sjáum gilda um allan alheim - t.d. að atburðir þurfa allt í senn, tíma, rúm og orku. Guð getur ekki byrjað sköpunarverkið án þess að vera sjálfur til staðar í einhvers konar tilvist sem er miklu flóknari en það sem hann ætlar að skapa.

 

Ófyrirséð frelsissvipting

Lennox, eins og svo margir skoðanabræðra hans, halda því gjarnan fram að ekkert geti gerst án orsaka. Mofi endurtekur þetta reglulega. "Some agency must have been involved." fullyrðir Lennox og notar billjarðkúlur sem dæmi: Hvernig kúlan hreyfir sig skýrist af lögmálum Newtons en af hverju hún lagði af stað skýrist aðeins af einhverri ytri orsök.

En ófyrirséð hjá Lennox (og Mofa) eru þeir þar með búnir að kaupa newtonska nauðhyggju - allt á sér orsök, ekkert gerist án orsaka. En í nauðhyggnum heimi er frjáls vilji ekki möguleiki! Mofi hefur nýlega gert mikið úr tilvist frjáls vilja, hann skýrir tilvist hins vonda, illskunnar, í heiminum með einhvers konar kaupsamningi Guðs og manna um illsku fyrir frelsi.

Það er ekki hægt að kalla til einhvers konar guðlegan frelsis-hæfileika sem lausn. Frjáls vilji er orsakalaus atburður - annars er niðurstaðan ekki frjáls, hún er nauðhyggin, hún er bundin atburðarrás orsaka og afleiðinga. Krafan um frjálsan vilja knýr á um orsakalausa atburði. Eitt getur ekki verið til án hins.Þeir Lennox og Mofi geta ekki bæði átt kökuna og étið hana!

 

Rökfræðilegur ruglingur

Lennox, og Mofi, skoða heiminn í kringum sig og komast að þeirri niðurstöðu að mannleg sköpun og uppruni líffræðilegra kerfa hljóti að vera af sama meiði. Þetta er fullkomlega eðlileg ályktun og að mínu viti einnig fullkomlega rétt ályktun.

En þeir telja báðir að mannleg sköpun sé á einhvern hátt guðleg " - but the task of development and creation needed the genius of Whittle as its agent." segir Lennox og hvort sem hann notar orðið "genius" í upphaflegri merkingu eða ekki þá gerir hann augljóslega ráð fyrir sköpunarhæfileika sem liggur utan þess sviðs sem eðlisfræði eða önnur vísindi ná til - einhvers konar yfirskilvitlegs, guðlegs, sköpunarkrafts.

En jarðbundnari einstaklingur gæti snúið dæminu við og sagt sem svo: Náttúran hefur skapað sinn margbreytileika með náttúrulegum, vísindalega skýranlegum hætti. Skyldi mannleg sköpunargáfa ekki vera skýranleg með sama hætti? Og jú, auðvitað er hún það. Kenningin um þróun tegunda felur í sér einfaldan mekanísma sköpunar sem getur allt eins starfað í mannsheilanum eins og annars staðar í lífheimum.

Þessi mekanismi er vel skýrður og margprófaður og reynist vera mun öflugri en menn áttu von á. Vísindamenn hafa gaman að tilraunum og þróunarfræðilegar tilraunir eru í gangi um allan heim og skila stanslaust nýjum niðurstöðum sem allar benda í sömu átt: Bæði lífkerfi og "hugkerfi" láta smíða sig með þessum sama mekanísma.

Þeir Lennox og Mofi virðast reyndar einnig gera ráð fyrir því að það þurfi meðvitund til að skapa. Á yfirborðinu virkar þetta rökrétt, en í rauninni er þessu ekki þannig farið eins og allir sjá ef þeir hugsa sig um. Meðvitundin þvingar aldrei fram lausnir, meðvitundin skapar ekki neitt. Hún kallar á undirliggjandi kerfi, hún bíður eftir hugmyndum - og stundum bíður meðvitundin án árangurs. En lausnir geta sprottið upp hvenær sem er og hinn mesti sköpunarkraftur leysist einmitt úr læðingin á meðan meðvitundin er hvað mest fjarverandi: Í draumum.


Er húmanísk lífsskoðun trú?

Sú gagnrýni hefur komið fram á síðasta pistil minn að heimsmynd eða lífsskoðun sem telur sig trúlausa hljóti að byggja á raunvísindum eingöngu, sem aftur gerir að verkum að húmanísk gildi verði útundan.

Það sem ég reyndi að segja í síðustu færslu minni var að heimsmynd mín er samansett af sannreynanlegum kenningum og skoðunum - kenningar raunvísinda vega vissulega þungt en eru langt í frá það eina sem telur.

Raunvísindin eru takmörkuð þegar kemur að hinu mannlega, siðfræði og heimspekipælingum osfrv., hin vísindalega aðferðafræði dugar skammt í hinu einstaka, ómælanlega. Og siðferðilegar, heimspekilegar hugmyndir eru vissulega stór hluti af heimsmynd minni og flestra annarra.

Sjálfur er ég mjög hallur undir það sem ég hef fundið upp á að kalla lýðræðislegt stjórnleysi sem er auðvitað algjört bull. Ég vitna gjarnan í Dewey hvað varðar lýðræðið, nú á seinni tíð hef ég smitast örlítið af Grundtvigisma hér í Danaveldi. Stjórnleysið er mér í blóð borið (það sem kallað var leti í gamla daga).

Heimsmynd er reyndar tvíþætt, annars vegar getur maður haft skoðanir á því hvernig heimurinn er, hins vegar hvernig heimurinn ætti að vera.

Undir fyrri liðinn fellur auðvitað hinn ytri efnisheimur en einnig við sjálf, maðurinn í allri sinni mynd. Undir hið síðari fellur vilji til að hlutirnir séu með ákveðnum hætti í mannlegu samfélagi, skoðun á að svona eigi hlutirnir að vera og ekki öðruvísi. Siðferðilegur vilji og pólítískar skoðanir falla undir þetta.

Þetta er einmitt það sem við köllum stundum lífsskoðun, gott dæmi er húmanísminn. Eitt af því sem lífsskoðun á borð við húmanísma gerir ekki er að afneita gildismati, þótt hið gagnstæða sé einmitt algeng ásökun trúmanna. Húmanístinn telur ákveðin gildi, ákveðna siðfræði, vera betri en aðrir möguleikar, það er það sem felst í húmanísma.

En þessi gildi spretta ekki af engu, þau spretta í grunninn af þeirri skoðun að lífið eigi að vera bærilegt - jafnvel gott - og að reynslan hafi sýnt að sumt gerir lífið betra en annað.

Ég sem húmanisti bý mér til heimsmynd út frá þeirri einföldu forsendu að ég kýs að lifa góðu lífi. Ég hef velt mikið fyrir mér í hverju það felst, eitt veit ég að sem mannvera á ég erfitt með að hafa það gott þegar aðrir þjást í kringum mig. Reynslan kennir mér að svo sé og raunvísindin geta reyndar stutt að þessi upplifun er ekki bara mín, þetta er nokkuð sem við finnum flest fyrir. Okkur líður sjálfum betur þegar við erum góð við annað fólk, við höfum löngum til að gefa, til að elska, til að gleðjast með öðrum. Maður er manns gaman, gleði er meðal guma. Allt er þetta sannreynanlegt.

Grunnforsendan er ákvörðun um að lifa góðu lífi, vera hamingjusamur. Ákvörðunin sjálf kemur ekki utan frá, hún er innbyggð í okkur líffræðilega, hún er eðlileg ákvörðun - en ekki sú eina sem ég gæti tekið. Ég gæti t.d. valið að lifa vondu lifi, að stefna að sem mestri þjáningu, eða leiðindum - manntýpur Kierkegaard eru einmitt dæmi um einstaklinga sem velja dáldið skrýtnar grunnforsendur fyrir lífi sínu.

Ekkert af þessu eru fantasíur, ekkert af þessu gerir ráð fyrir ósannreynanlegum frumsendum. Trúmaðurinn jafnt sem sá trúlausi tekur þessar grundvallar ákvarðanir, og þær koma innan frá. Sem raunvísindamaður hallast ég undir að þær spretti tilviljanakennt frá líffræðilegum ferlum, en það er algjört aukaatriði.

Leiðin milli trúmannsins og þess trúlausa skilur þegar trúmaðurinn telur sig þurfa að gera ráð fyrir ósannreynanlegum forsendum til að fullnægja grundvallar ákvörðun sinni um hvernig líf hann kýs að lifa. Hinn trúlausi telur sig ekki hafa þörf á því.

Trúmaðurinn er hugsanlega í þessu samhengi að stytta sér leið. Hann hefur markmið sem er gott líf. Hann veit að gott líf þarfnast þess að aðrir séu góðir hver við annan. Það er miklu fljótlegra að kaupa inn í einhverja fantasíu um að ef maður er ekki góður við náungann þá verði maður steiktur í helvíti, en að þurfa að útleiða sjálfstæða lífsskoðun.

Lífsskoðun húmanísmans er valkostur við trú, og það er mikilvægt að við bendum á þennan valkost og gerum okkur grein fyrir í hverju hann felst, hvernig hann er rökstuddur, af hverju hann er betri. Lífsskoðun jafngildir ekki trú, en margir telja trú nauðsynlega forsendu góðrar, mannvænnar lífsskoðunar. Við höfum það hlutverk að sýna að svo er ekki.


Að sanna og sannreyna - um Gödel, Newton, trú og trúleysi

Nauðvörn margra trúmanna er að væna trúleysingja um trú. Nýlegar umræður hjá Kristni Theódórssyni og Svani Sigurbjörnssyni hafa snúist um Gödel og tilraunir trúmanna til að nota kenningar hans sem sönnun fyrir því að allar heimsmyndir, líka hin trúlausa, byggi á trú.

Að sanna og sannreyna

Ef við tökum eðlisfræðikenningu sem dæmi, t.d. kenningu Newton um aðdráttarafl, þá er hægt að skoða hana á marga mismunandi vegu - það má sannreyna hana á ýmsa vegu og það má sanna ýmsa þætti hennar.

Newton þróaði sjálfur nýja tegund stærðfræði til að geta sannreynt kenningar sínar. Það var í sjálfu sér auðvelt að benda á hvers vegna aðdráttaraflið minnkar í hlutfalli við fjarlægðina í öðru veldi: Flestir eðlisfræðingar voru sammála um að þannig hegði orkusvið sér, þau dreifast eins og um yfirborð kúlu sé að ræða og yfirborð kúlu stækkar (krafturinn dreifist) í hlutfalli við radíus í öðru veldi.

En Newton þurfti að sannreyna að þetta ætti einnig við um mælda hreyfingu hnattanna. Hann þurfti sem sagt að setja hreyfingar t.d. tungls og jarðar í samhengi hvor við aðra og sýna að massi þeirra ásamt hreyfingu stæðist kenninguna.

Sú stærðfræði sem Newton notaði var þróuð út frá evklíðskri stærðfræði en hún er einmitt gott dæmi um gödelskt, opið, frumsendukerfi. Án frumsendunnar um að tvær samhliða línur snertist aldrei er ekki hægt að sanna evklíðska flatarmálsfræði; og frumsenduna er ekki hægt að leiða út frá öðrum frumsendum evklíðskrar flatarmálsfræði.

Newton leiddi sína stærðfræði út frá sömu frumsendum og enn erum við með opið gödelskt frumsendukerfi. Hann notaði síðan stærðfræðina til að sannreyna eðlisfræðikenninguna. Engar kenningar verða "sannaðar", en þær má sannreyna aftur og aftur.

Þar sem kenningar um raunheima verða ekki sannaðar þá eru engar slíkar kenningar gjaldgengar sem opin (eða lokuð) frumsendukerfi. Setning Gödel á því aldrei við um t.d. kenningar í líffræði. Hins vegar er vel hægt að segja (og flestir myndu fallast á) að kenningar í líffræði nýta sér kenningar úr öðrum fræðigreinum, og að margar þessara kenninga nýta sér stærðfræðileg frumsendukerfi.

Það er t.d. skemmtilegt að Einstein þurfti að hafna evklíðskri flatarmálsfræði til að geta sannað afstæðiskenninguna, evklíðska frumsendukerfið reyndist nefnilega ekki lýsa raunheimi með réttum hætti (frumsendan um að tvær samhliða línur snertist aldrei er röng).

En allar kenningar innan vísinda eru sannreynanlegar með ákveðnum hætti, það sem við köllum vísindalega aðferðafræði.

Raunveruleikinn

Raunveruleikinn er sannreynanlegur eftir mörgum mismunandi aðferðum. Ég get leitt að því vísindaleg rök að veggurinn fyrir framan mig sé til, út frá burðarfræði, ljósfræði, varmafræði osfrv. Ég get líka bara gengið beint á hann og sannreynt tilvist hans með þeim hætti.

En raunveruleikinn er aldrei sannanlegur. Sannanir gilda bara um manngerðar kenningar, og þá aðeins um þær sem gilda innan frumsemdukerfa sem eru röklega uppbyggð og samkvæm sjálfum sér. Kenning sem er sönnuð innan slíks kerfis verður að frumsendu í kerfinu.

Það eru sem sagt engar frumsendur í hinum ytri raunveruleika, aðeins sannreynanlegar kenningar og sannreynanleg fyrirbæri. Það útilokar auðvitað ekki að til séu ósannreynanleg fyrirbæri. Á hinn bóginn getur ósannreynanleg fullyrðing aldrei orðið að kenningu. Slíkar fullyrðingar köllum við fantasíur.

Ósannreynanleg fyrirbæri gætu sem sagt verið til en tilvist þeirra væri þá algjörlega án snertingar við okkar raunveruleika. Allar fullyrðingar um ósannreynanleg fyrirbæri eru því fantasíur.

Heimsmynd sem gengur út frá tilvist ósannreynanlegra fyrirbæra er því fantasíuheimsmynd. Sá sem aðhyllist slíka heimsmynd getur aldrei sannað eða sannreynt hana og neyðist því til að trúa. Slík heimsmynd hefur "frumsendur" sem eru ekki aðeins ósannanlegar, þær eru ósannreynanlegar. Heimsmynd af þessu tagi á ekkert skylt við ófullkomleikasetningu Gödels, ekkert af skilyrðum þeirrar setningar eru uppfyllt.

Heimsmynd sem gengur ekki út frá tilvist ósannreynanlegra fyrirbæra fullnægir kröfum um innra samræmi. Slík heimsmynd krefst ekki trúar, allt sem í henni felst er sannreynanlegt. Heimsmyndin hefur engar frumsendur aðrar en þær sem tilheyra röklega samkvæmum frumsendukerfum (stærðfræði, rökfræði), en hún hefur aragrúa forsendna, kenninga, sem hver um sig er sannreynanleg og í innra röklegu samhengi við aðrar forsendur og kenningar.

Af hverju er Gödel mikilvægur?

Heimspekilega er litið svo á að raunveruleikinn sé lokaður og rökrétt uppbyggður, samkvæmur sjálfum sér. Þessi heimspekilega afstaða hefur gert það að verkum að margir heimspekingar eiga erfitt með að samþykkja skammtafræðileg áhrif sem raunveruleg - þeir vilja margir halda í að skammtafræðin fjalli um sýndarfyrirbæri, sé nánar að gáð muni leynist að baki þeirra hefðbundin, en ósköp smágerð, newtonsk eðlisfræði.

Í mínum huga, og margra annarra, er þetta ekki réttur skilningur. Raunheimurinn gæti vel verið rökréttur og samkvæmur sjálfum sér jafnvel þótt skammtafræðin sé raunveruleg. Hin innri rök raunheima væru þá að vísu ekki alltaf þau sömu og hin manngerða rökfræði ætlast til.

Í lok 19. og byrjun 20. aldar virðast margir heimspekingar hafa viljað heimfæra "fullkomnun" raunheima yfir á stærðfræðina, bak við slíka hugsun liggur kannski sú sannfæring að stærðfræðin geri meira en lýsa raunheimum - hún sé beinlínis byggingarefni raunheima. Ef raunheimar eru sjálfum sér nógir, röklega uppbyggðir, samkvæmir sjálfum sér, og allar forsendur (kenningar) þannig að hægt er að leiða þær röklega út frá öðrum kenningum, þá ætti stærðfræðin helst að vera þannig líka.

Það sem Gödel í raun sannaði er að stærðfræðin er takmörkuð, hún á sér ekki sjálfstæða tilvist utan raunheima. Margar nauðsynlegar frumsendur stærðfræðinnar eru raunveruleg fyrirbæri, sannreynanleg í raunheimum en ekki sannanleg stærðfræðilega.

Frumsendan hjá Evklíð, um að tvær samsíða línur snertast aldrei, er fengin beint úr raunheimum og hefur verið sannreynanleg mjög lengi. Einstein grunaði að hún væri engu að síður röng, við þyrftum einfaldlega stærri mælikvarða til að sannreyna að svo væri. Grunsemdir Einsteins hafa seinna verið staðfestar, í raunheimum er það svo að tvær samsíða línur geta snert hvor aðra.

Trú vs. trúleysi

I) Nafnorðið trú eitt og sér hefur ákveðna merkingu í hugum fólks, merkingu sem má lýsa með því sem ég nefndi áður: Heimsmynd sem gefur sér ósannreynanlegar frumsendur krefst trúar. Trú er þá sú sannfæring að ósannreynanlegar frumsendur séu hluti af raunveruleikanum. Trú er því aldrei hægt að rökstyðja eða sannreyna.

II) Auðvitað er orðið trú notað í víðari merkingu, sem nafnorð í samsetningum á borð við "það er trúa mín" eða "ég hef trú á" er ljóst að orðið hefur ekki sömu merkingu og í I hér að ofan.

III) Sögnin að trúa er einnig notuð í víðari merkingu, ég get t.d. vel sagst trúa því að flestir fullorðnir íslendingar séu læsir (sannreynanlegt) án þess að ég sé að lýsa yfir trú skv. skilgreiningu I.

Orðið trúleysi er skilgreint út frá orðinu trú og þá eingöngu í merkingu I. Sá sem er trúlaus hefur heimsmynd sem ekki krefst trúar. Heimsmynd hans er samansett af sannreynanlegum kenningum og forsendum.

Flest höfum við einnig sannfæringar sem mynda hluta af heimsmynd okkar. Sannfæring mætti skilgreina sem svo að við teljum víst að ákveðnar forsendur séu réttar, án þess að við höfum sannreynt þær. Munurinn á hinum trúlausa og hinum trúaða er hér að hinn trúlausi getur verið sannfærður um tilteknar sannreynanlegar forsendur, jafnvel þótt hann sannreyni þær ekki sjálfur - hann tekur þær trúanlegar. Um leið er hann reiðubúinn til að breyta skoðun sinni í ljósi reynslunnar.

Sá trúaði hefur einnig sínar sannfæringar, margar hverjar þær sömu og sá trúlausi. En sá trúaði hefur einnig sannfæringar um frumsendur sem hann veit að eru ósannreynanlegar. Hann telur ekki aðeins að frumsendurnar séu trúlegar, að þær séu sannreynanlegar, þvert á móti trúir hann á að þær séu réttar. Reynslan muni ekki skera þar um.

Kaþólskir velkomnir!

Og reyndar allir aðrir! Ef þið hafið gaman að sagnfræði, sannleika og kaþólsku (þríhyrndur oxímórónismi) þá endilega kíkjið á www.vantru.is .


Nýjatestamentisfræði í HÍ erfiðasta akademíska nám sem hægt er að fara í segir guðfræðinemi.

Þetta finnst mér mjög trúlegt og ekki dettur mér í hug að rengja orð guðfræðlingsins enda á hann skilið alla samúð mína. Háskólanám er ekki auðvelt eins og þeir vita sem reynt hafa. Hvort eitthvað eitt sé erfiðara en annað er erfitt að segja, sumt hentar einum betur en öðrum. En hvað þarf til að gera eitthvað að “erfiðasta akademíska námi” sem hægt er að fara í?

 

Sjálfur er ég ekki mikill námsmaður eins og sést af því að ég sit og skrifa þennan pistil í minni “skrifstofu” með fartölvuna á stýrinu á Caterpillar 962H – því miður ekki kominn með internettengingu þar ennþá! Alvöru námsmenn fá auðvitað góðar gráður og vel launaða innivinnu þ.a. ekki telst ég til þess hóps.

 

Reyndar ákvað ég að skella mér í skóla í haust, svona aukalega við minn 11 tíma vinnudag, og tók 20 einingar fyrir jól (15 í sagnfræði, 5 í kennslufræði) með meðaleinkunn 8,5. Ekki fannst mér þetta neitt átakanlega erfitt enda hvort tveggja mikil áhugamál hjá mér. Hérna áður fyrr var ég meira raunvísindalega sinnaður, tók áfanga í stærðfræði, efnafræði, eðlisfræði, líffræði, líffærafræði, jarðfræði, forritun og gekk stundum vel en stundum illa. Þá fannst mér sumt mjög erfitt enda í raun ekki með mikinn áhuga á námsefninu en 109 einingar og eitt BSc próf var nú samt árangurinn af streðinu. Núna eru einingarnar orðnar 129 og aðrar 15 bætast vonandi við í vor. Einhvern tímann hlýt ég að ná upp í mastersgráðu eða jafnvel doktorinn áður en ég lendi á elliheimili.

 

En erfiðasti áfangi sem ég hef lent í var lítill og ómerkilegur kúrs, almennt kallaður “fílan” en heitir réttu nafni Heimspekileg forspjallsvísindi. Nú hlæja kannski einhverjir, “fílan” er leiðinleg skylda en varla alvöru áfangi. En mér fannst þetta ótrúlega erfitt vegna þess að ég uppgötvaði áhuga á efninu en um leið að ég hugsaði ekki rétt. Hugsanaháttur minn var niðurnjörvaður í raunvísindum og tölvuhugsun og hreinlega réð ekki við heimspekileg álitamál og vangaveltur. Ég þurfti að endurtengja hugsanavírana í hausnum og það kostaði átök og mikla erfiðleika.

 

Þannig að ég skil vel guðfræðinginn sem kvartar undan námi í guðfræðideild HÍ. Þar er nefnilega krafist ótrúlegra hugarleikfimiæfinga – akademískt nám á forsendum trúarlegra kennisetninga. Þetta er oxýmórónismi sem hver maður sér að gengur ekki upp, heilinn í heilbrigðum einstaklingi hlýtur að engjast sundur og saman á meðan verið er að tengja hugsanaapparatið upp á nýtt og búa til “guðfræðilegu” tengingarnar sem leyfa mönnum að vera hvort tveggja í senn: Fræðimenn í nýjatestamentisfræðum og trúaðir kristnir.

 

Guðfræði í HÍ hefur alltaf minnt mig á söguna af því þegar umdeildur en áhrifamikill stjórnmálamaður réð sér heimspeking sem upplýsingafulltrúa. Nú þarf hann ekki að ljúga lengur, sögðu menn, hann lætur bara heimspekinginn breyta sannleikanum. Guðfræðingur hefði verið enn betri.

 

Guðfræðideild Háskólans í Kaupmannahöfn er ekki undir þennan hattinn seld. Ég er mikið að spá í að skella mér þangað í haust í master í nýjatestamentisfræðum enda starfa þar tveir fremstu fræðimenn á því sviði, Thomas L. Thompson og Niels Peter Lemche. Þeirra nálgun er eingöngu fræðileg, kristni kemur þeim ekki við nema sem rannsóknarefni. Þannig er alvöru akademísk fræðimennska.


Að trúa því ótrúlegasta án raka er hlægilegt. Skyldi fólkið vita af þessu?

Ótrúlegasta birtingarform þeirrar sjálfviljugu blekkingar sem heitir trú er hin kristna sköpunarhyggja. Það er illskiljanlegt að fullorðið fólk skuli trúa á jafn mikla vitleysu, svipað og að trúa á jólasveininn. Reyndar er sköpunin forsenda kristinna kennisetninga þ.a. það er kannski ekki við öðru að búast í samfélagi sem ríkisstyrkir blekkingarmeistarana. Þeir sem láta plata sig, en eru kannski sæmilega greindir eða rökfastir, hljóta að komast að þeirri niðurstöðu að sköpunin sé nauðsynleg forsenda kristninnar. Síðan er það spurning um að velja - heilbrigða skynsemi eða dogmatíska sköpunarhyggju.

Eitt það fyrsta sem sköpunarsinnar verða að hætta að skilja eða taka mark á eru vísindin. Algengasta aðferðin er sú að draga fram hinar og þessar vísindalegar kenningar sem hafa reynst vitlausar, eða sem eru ekki enn nógu góðar, og hafa þar með afsannað alla vísindalega hugsun!Reynar er mjög algengt að fólk rugli saman vísindalegri þekkingu vs. vísindalegri aðferðafræði. Þekking hvers tíma er ekki endanleg en vísindaleg aðferðarfræði er eina leiðin til að komast að hinu raunverulega. Svo finnst mér óvarlegt af þér að segja að eitthvað sé "vísindalega sannað".

Vísindin og vísindaleg aðferðarfræði er mjög ungt fyrirbæri, segjum að upphafið sé hjá Njúton og Cartesíusi fyrir um 300 árum. Alveg síðan þá hefur vísindaleg aðferðarfræði sannað sig aftur og aftur og aftur og aftur. En vísindalegar kenningar hafa oft verið bölvað bull. Til dæmis sú jarðfræðikenning að meginlöndin væru kjurr en hreyfðust upp og niður. Rökrétt á sínum tíma en afskrifað í dag.

En vísindaleg aðferðarfræði, sem byggist á þeirri kenningu að allt sé skýranlegt með vísindum út frá vísindalegum forsendum, hefur skapað heimsmynd sem er svo ótrúlega miklu flóknari og margreytilegri í alla staði en nokkurn hefði órað fyrir þegar biblían var skrifuð og allt þar til á allra síðustu öldum. Hér gildir engu hvort við skoðum allra smæstu einingar efnisins eða þær allra stærstu, hvort við tökum eðlisfræði eða efnafræði eða efnisfræði eða lífvísindin öll. Heimurinn er ótrúlega gríðarlega miklu flóknari en menn töldu og allt þetta höfum við uppgötvað með vísindalegri aðferðarfræði.

Sumt er enn utan færis vísindanna, er einfaldlega of flókið til að festa hendur á með núverandi þekkingu þótt eitthvað miði áleiðis. Til dæmis mannsheilinn og þetta furðulega fyrirbæri meðvitund sem virðist vera eitthvert það flóknasta sem til er. Í einum mannsheila eru fleiri mögulegar leiðir fyririr taugaboð að fara frá einum enda til annars en eru frumeindir í alheiminum. Það sem gerist í þessum eina mannsheila er af sömu af stærðargráðu og allur tölvubúnaður heimsins samanlagt (þetta var reyndar áætlað fyrir nokkrum árum, allar tölvur heimsins gætu verið farnar að ná samanlagðri heilastarfsemi tveggja einstaklinga, og þá er aðeins átt við margbreytileika í raflögnum, ekki margbreytileika í starfsemi sem er í væntanlega miklu meiri).

Vísindaleg aðferðarfræði hefur skapað þann heim sem við þekkjum í dag. Án hennar engin iðnbylting, engin tölvubylting. Ekkert internet, ekkert rafmagn, engir bílar, engin nútíma sjúkrahús, engin þægileg innivinna. Áður vann ég sem forritari og tölvukall, núna vinn á hjólaskóflu, hvorki hún né tölvurnar væru til án vísindalegrar aðferðarfræði.

Það sem mér finnst furðulegast við hugsunarhátt sköpunarsinna, og jafnvel allra kristinna, er að þeir virðist ekki hafa hugarflug til að skilja hvað þeir í raun trúa á. Ef það væri rétt að guð hafi skapað heiminn þá er guð svo gríðarlega ótrúlegt fyrirbæri að engin orð ná að lýsa því. Öll okkar þekkingarleit síðustu 300 árin með vísindalegri aðferðarfræði er eins og barnaleikur, eins og að klóra í málninguna á húsi raunveruleikans.

Guð væri nánast óendanlega flókinn og tilvist hans óendanlega ólíkleg. Samt helda menn þessu fram án þess að falla bókstaflega í stafi yfir því að láta sér detta annað eins í hug, eins og þetta sé eitthvað sjálfsagt. Mörgum finnast kenningar skammtafræðinnar illskiljanlegar og margt þar ganga á móti almennri skynsemi. Guð slær almenna skynsemi kalda og verður aldrei skiljanlegur.

Ef guð er til þá er heimurinn svo geigvænlega flóknari en við höldum að það er eiginlega ekki hægt að lýsa því. Kenningin um guð væri ótrúlegasta og ólíklegasta kenning sem hægt væri að setja fram. Samt gera menn það, kannski án þess að átta þig á því sem þú eru að segja? Kannski skilja þeir þetta ekki? Halda einhverju fram sem þeir vita ekki hvað er?

Á hvaða rökum eða forsendum byggir þeir kenningu þína? Hvar eru sönnunargögn þessarar alheimsbyltandi heimsmyndar sem þeir heldur fram?

Heimsmynd nútímans er þróuð með vísindalegri aðferðarfræði. Öfugt við það sem flestir halda þá er ekkert, akkúrat ekkert, sem hægt er að sjá frá jörðu niðri án sjónauka sem bendir til þess að jörðin sé á hreyfingu. Jarðmiðjukenningin er hin eðlilega niðurstaða fornaldar og miðalda. Brúnó og Kóperníkus settu sólmiðjukenningar sínar fram jafnvel á trúarlegum forsendum frekar en vísindalegum (einkum Brúnó) en stjórnuskoðanir Galíleós færðu frekari rök fyrir henni þó þau væru ekki óyggjandi. Þegar síðan Tycho Brahe ætaði að afsanna sólmiðjukenninguna með vísindalegum athugunum réð hann ekki við stærðfræðina og fékk Kepler til að reikna fyrir sig. 

Kepler uppgötvaði að útreikningarnir gengu einmitt best upp með sólmiðju + sporbaug. Þar með voru komin mjög sterk rök fyrir sólmiðjukenningunni en fram að Kepler voru í raun engin óyggjandi rök með henni. En engum datt í hug að stjörnurnar væru eins langt í burtu og þær eru, smám saman uppgötvuðu menn að flestar þeirra væru ótrúlega langt í burtu en engan óraði fyrir fjarlægðum á borð við þær sem eru í vetrarbrautinni. Það er ekki fyrr en með Hubble, við upphaf 20. aldar, sem menn fara að gruna að til séu aðrar vetrarbrautir og menn fara að skynja hina raunverulegu óravídd geimsins - og smæð okkar.

Þessi heimsmynd stjörnufræðinnar er studd gríðarlega mörgum athugunum og útreikningum. Það er ekki sjálfgefið að hún sé hin endanlega og eina sanna heimsmynd en það er miklu fleira sem styður hana í öllu því sem við þekkjum í dag heldur sem mælir á móti. Þessi heimsmynd er gríðarleg í ótrúleika sínum miðað við jarðmiðjukenningar miðalda. Hún er samt eins og rykkorn í samanburði við guðmiðjukenningu biblíunnar. Sú kenning hefur engin haldbær rök á bak við sig. Það heldur enginn henni fram í alvöru sem gerir sér grein fyrir því hversu ótrúlega miklu ólíklegri sú kenning er miðað við allar aðrar. Engar mæliniðurstöður, engar kenningar leiddar fram með vísindalegri aðferðarfræði, engar tilgátur um sennilegar orsakir og afleiðingar. Bara eitt stórt alheimssvarthol sem heitir guð.

Guð er sú ótrulegasta kenning sem hægt er að koma fram með til skýringar á nokkrum hlut. Hún er þar að auki óþörf, við höfum nóg af öðrum skýringum og mjög öfluga leið til að finna fleiri. Loks eru engar staðreyndir sem styðja hana á nokkurn hátt.  Þessar þrjár staðreyndir, þ.e. guð er með ólíkindum ótrúlegur, óþarfur og án sönnunargagna, gerir það að verkum að allar tilraunir til að skýra eitthvað út frá guði, eða halda einhverju fram í tengslum við guð eða um guð eins og maður viti eitthvað um hann, eru í raun hlægilegar.


Söguskekkjur JVJ. Kirkjan á eignir fyrir eigin rekstri.

Jón Valur Jensson er eins og margir trúbræður hans, þolir illa gagnrýni og vinnur að því að bæla skoðanaskipti. Hann hefur meinað mér að birta athugasemdir við færslur hjá honum (þótt ég fagni ævinlega athugasemdum hans hjá mér) og því neyðist ég til að svara honum hér. Hann endurbirtir gamla grein þar sem hann fer með furðulegar sögutúllkanir á eignayfirtöku Kaþólsku kirkjunnar á sínum tíma auk ýmissa annarra fullyrðingar, m.a. um að kirkjan eigi jarðirnar og eigi að fá fyrir þær peninga. Það sé einhver heilagur réttur að það sem var stolið fyrir 500 árum eigi maður í dag (þannig er það jú víðast hvar, sjá t.d. konungafjölskyldur hvarvetna). En jafnvel þótt maður samþykkji að kirkjan eigi og hafi átt jarðeignir, þ.e. efist ekki um eignarhald, þá er ekki þar með sagt að núverandi ástand sé óumflýjanlegt.

Fordæmi fyrir því að virða ekki þinglýstar eignir er þegar fyrir hendi. Ríkið hefur undanfarinn áratug eða svo tekið til sín jarðir og eignir almennings þvert á þinglýsingar, í kjölfar laga um þjóðlendur. Nokkrir dómar hafa fallið í þeim málum, m.a. hæstaréttardómar, og þar hefur ekki alltaf verið fylgt fornu eignarhaldi.

Jón Valur kemur með ýmsar tölur um eignarhald kirkjustofnana á jarðeignum á hinum og þessum tímum en tekst að skauta fram hjá því að um 1550 átti kirkjan og það sem henni tilheyrði helming jarðeigna á Íslandi. Ætli honum finnist það ekki óþægileg tala? Síðustu kaþólsku biskuparnir, Jón Arason og Ögmundur, riðu til þíngs 1527, hvor um sig með fjölmennt vopnað lið, samtals um 2700 manns undir vopnum. Ögmundur sektaði menn og hirti af þeim jarðir, Jón Arason fór vopnaður um sveitir með sveinalið, píndi og hrakti búalið og tók jarðir af bændum. Þetta voru vopnaðir fulltrúar erlends valds að sölsa undir sig eignir Íslendinga.

Íslenskir bændur kvörtuðu sáran undan ofurvaldi kirkjunnar, til dæmis 1513 með bænabréfi til Konungs. Jarðir í eigu kirkjunnar borguðu ekki tíund en fjórðungur tíundar fór til fátækraframfærslu. Hin mikla eignatilfærsla varð til þess að fátækraframlag fór sífellt minnkandi. "Farið var að líta á þetta sem þjóðfélagsmein" segir Helgi Þorláksson í VI. riti Íslandssögusafns þjóðhátíðarnefndar (Rvík 2003) en árið 1489 samþykktu Skálholtsbiskup og hirðstjóri að tíund yrði áfram greidd af þeim jörðum sem komið hefðu í eigu biskups undanfarin 20 ár. Helgi telur vafamál að sú samþykkt hafi komið til framkvæmda nema að litlu.

Jarðasöfnun Kaþólsku kirkjunnar var ekki einhver sjálfsögð afleiðing af kristni heldur vísvitandi auðsöfnum með vopnavaldi. Kirkjan varð óhemju rík en sendi jafnframt stórar upphæðir suður til Rómar. Ofurvald kirkjunnar og fjárstreymi til útlanda varð til þess að þýskir furstar og skandínavískir kóngar tóku siðbót Lúters fagnandi.

Klausturjarðir fóru strax undir konung, biskupsjarðir voru seldar um 1800. Enn á kirkjan verulegar jarðeignir, sbr. 2. mgr. 62. grein laga nr. 78/1997:

 62. gr. Kirkjujarðir og aðrar kirkjueignir sem þeim fylgja, að frátöldum prestssetrum og því sem þeim fylgir, eru eign íslenska ríkisins, samkvæmt samningum um kirkjueignir milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar. Andvirði seldra jarða rennur í ríkissjóð.
 Prestssetur, þ.e. prestssetursjarðir og prestsbústaðir, sem prestssetrasjóður tók við yfir stjórn á frá dóms- og kirkjuálaráðuneytinu 1. janúar 1994 með síðari skjalfestum afhendingum frá dóms- og málaráðuneytinu, svo og prestsbústaðir, hús og aðrar eignir sem prestssetrasjóður hefur keypt, eru eign þjóðkirkjunnar með öllum réttindum, skyldum og kvöðum samkvæmt samningi um prestssetur milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar.

Samkvæmt lista á heimasíðu prestssetrasjóðs eru 45 prestsetursjarðir í eigu Þjóðkirkjunnar, þar með taldar til dæmis Staðarstaður, Saurbær á Hvalfjarðarströnd, Borg á Mýrum, Oddi á Rangárvöllum, Skálholt, osfrv. osfrv.

Prestssetrasjóður á síðan annað eins af fasteignum í þéttbýli. Miðað við jarðarverð í dag gæti kirkjan auðveldlega selt eignir fyrir um 50 milljarði, sett þær í banka og fengið 2,5 - 3 milljarði á ári í vexti! Hún á því eignir fyrir eigin rekstri nú þegar og gott betur.

Prestsetrasjóður var skv. lögum frá 1. júli 2007 sameinaður Kirkjumálasjóði og heyrir undir hann núna. Eftir árámót ætla ég að skoða betur þessar jarðeignir, t.d. hvaða eignir það voru sem fóru undir ríkið 1907 og 1997 og hvert söluandvirði þeirra var. Venjulegur húskaupandi tekur lán og greiðir það upp. Hversu stórt lán þyrfti að taka til að endurgreiðslur væru 2,7 milljarðir á ári?

Þær jarðir sem standa undir greiðslum til kirkjunnar í dag voru sem sagt ekki prestsetur heldur venjulegar bújarðir. Af hverju gat kirkjan ekki selt þær sjálf og lifað af vöxtunum? Það hefði ekki breytt neinu um starfsemi kirkjunnar, þetta voru bara venjulegar jarðir án prestsetra eða kirkna.

Þjóðkirkjan er forrík stofnun, ætli hún sé ekki ríkasta fyrirbærið á Íslandi í dag í innlendum eignum talið? Og fær síðan allan rekstrarkostnað greiddan frá ríkinu. Já það er margt skrítið í kyrhausnum.


Sjónarvottar sögðu satt og skrifuðu guðspjöllin. Sönnunin er hér!

Frásagnir guðspjallanna af upprisunni eru eins ólíkar og þær eru margar. Hafi guðspjöllin verið rituð af sjónarvottum þá er nú ekki mikið að marka þá. Eða hvað? Reynum að láta dæmið ganga upp og sjáum hvað gerist! En skoðum fyrst hvað guðspjöllin segja um þennan örlagaríka morgun:

 
Mt   28:1-9  Að liðnum hvíldardegi, þegar lýsti af fyrsta degi vikunnar, komu þær María Magdalena og María hin til að líta á gröfina. Þá varð landskjálfti mikill, því engill Drottins sté niður af himni, kom og velti steininum og settist á hann. Hann var sem elding ásýndum og klæðin hvít sem snjór. Varðmennirnir skulfu af hræðslu við hann og urðu sem örendir. En engillinn mælti við konurnar: "Þér skuluð eigi óttast. Ég veit, að þér leitið að Jesú hinum krossfesta. Hann er ekki hér. Hann er upp risinn, eins og hann sagði. Komið og sjáið staðinn, þar sem hann lá. Farið í skyndi og segið lærisveinum hans: ,Hann er upp risinn frá dauðum, sjá hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann.` Þetta hef ég sagt yður." Og þær fóru í skyndi frá gröfinni, með ótta og mikilli gleði, og hlupu að flytja lærisveinum hans boðin. Og sjá, Jesús kemur á móti þeim og segir: "Heilar þið!" En þær komu, féllu fram fyrir honum og föðmuðu fætur hans.
 
Mk   16:1-8  Þá er hvíldardagurinn var liðinn, keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann. Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni. Þær sögðu sín á milli: "Hver mun velta fyrir oss steininum frá grafarmunnanum?" En þegar þær líta upp, sjá þær, að steininum hafði verið velt frá, en hann var mjög stór. Þær stíga inn í gröfina og sjá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítri skikkju og þær skelfdust. En hann sagði við þær: "Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér. Sjá, þarna er staðurinn, þar sem þeir lögðu hann. En farið og segið lærisveinum hans og Pétri: ,Hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann, eins og hann sagði yður`." Þær fóru út og flýðu frá gröfinni, því ótti og ofboð var yfir þær komið. Þær sögðu engum frá neinu, því þær voru hræddar.
 
Lk    24:1-10       En í afturelding fyrsta dag vikunnar komu þær til grafarinnar með ilmsmyrslin, sem þær höfðu búið. Þær sáu þá, að steininum hafði verið velt frá gröfinni, og þegar þær stigu inn, fundu þær ekki líkama Drottins Jesú. Þær skildu ekkert í þessu, en þá brá svo við, að hjá þeim stóðu tveir menn í leiftrandi klæðum. Þær urðu mjög hræddar og hneigðu andlit til jarðar. En þeir sögðu við þær: "Hví leitið þér hins lifanda meðal dauðra? Hann er ekki hér, hann er upp risinn. Minnist þess, hvernig hann talaði við yður, meðan hann var enn í Galíleu. Hann sagði, að Mannssonurinn skyldi framseldur verða í hendur syndugra manna og krossfestur, en rísa upp á þriðja degi." Og þær minntust orða hans, sneru frá gröfinni og kunngjörðu allt þetta þeim ellefu og öllum hinum. Þessar konur voru þær María Magdalena, Jóhanna og María móðir Jakobs og hinar, sem voru með þeim. Þær sögðu postulunum frá þessu. En þeir töldu orð þeirra markleysu eina og trúðu þeim ekki. Pétur stóð þó upp og hljóp til grafarinnar, skyggndist inn og sá þar líkklæðin ein. Fór hann heim síðan og undraðist það, sem við hafði borið.
 
Jh    21: 1-18       Fyrsta dag vikunnar kemur María Magdalena til grafarinnar svo snemma, að enn var myrkur, og sér steininn tekinn frá gröfinni. Hún hleypur því og kemur til Símonar Péturs og hins lærisveinsins, sem Jesús elskaði, og segir við þá: "Þeir hafa tekið Drottin úr gröfinni, og vér vitum ekki, hvar þeir hafa lagt hann." Pétur fór þá út og hinn lærisveinninn, og þeir komu til grafarinnar. Þeir hlupu báðir saman. En hinn lærisveinninn hljóp hraðar, fram úr Pétri, og kom á undan að gröfinni. Hann laut inn og sá línblæjurnar liggjandi, en fór samt ekki inn. Nú kom líka Símon Pétur á eftir honum og fór inn í gröfina. Hann sá línblæjurnar liggja þar og sveitadúkinn, sem verið hafði um höfuð hans. Hann lá ekki með línblæjunum, heldur sér samanvafinn á öðrum stað. Þá gekk einnig inn hinn lærisveinninn, sem komið hafði fyrr til grafarinnar. Hann sá og trúði. Þeir höfðu ekki enn skilið ritninguna, að hann ætti að rísa upp frá dauðum. Síðan fóru lærisveinarnir aftur heim til sín. En María stóð úti fyrir gröfinni og grét. Grátandi laut hún inn í gröfina og sá tvo engla í hvítum klæðum sitja þar sem líkami Jesú hafði legið, annan til höfða og hinn til fóta. Þeir segja við hana: "Kona, hví grætur þú?" Hún svaraði: "Þeir hafa tekið brott Drottin minn, og ég veit ekki, hvar þeir hafa lagt hann." Að svo mæltu snýr hún sér við og sér Jesú standa þar. En hún vissi ekki, að það var Jesús. Jesús segir við hana: "Kona, hví grætur þú? Að hverjum leitar þú?" Hún hélt, að hann væri grasgarðsvörðurinn, og sagði við hann: "Herra, ef þú hefur borið hann burt, þá segðu mér, hvar þú hefur lagt hann, svo að ég geti sótt hann." Jesús segir við hana: "María!" Hún snýr sér að honum og segir á hebresku: "Rabbúní!" (Rabbúní þýðir meistari.) Jesús segir við hana: "Snertu mig ekki! Ég er ekki enn stiginn upp til föður míns. En farðu til bræðra minna og seg þeim: ,Ég stíg upp til föður míns og föður yðar, til Guðs míns og Guðs yðar."` María Magdalena kemur og boðar lærisveinunum: "Ég hef séð Drottin." Og hún flutti þeim það, sem hann hafði sagt henni.
 

Fjórar útgáfur, engar tvær eins. María Magdalena kemur og fer, kemur fyrst eða ekki, snertir Jesú eða ekki, kemur ein eða ekki. Símon Pétur kemur ýmist einn eða í fylgd annarra.  En bíðum við, nú vitum við ekki fyrir víst að hér séu ekki margar “María Magdalena” á ferð. María var algengt nafn og “Magdalena” merkir eitthvað á borð við “frá bænum Magdala”. Þær hefðu vel getað verið nokkrar. Ef við segjum svo að Pétur og Símon Pétur séu ekki sömu mennirnir þá gæti dæmið farið að ganga upp. Fjórar aðskildar heimsóknir, fjórir aðskildir hópar.

 

Við nánari athugun kemur líka í ljós að frásagnirnar gerast ekki á sama tíma. Frásögnin í Jóhannesi virðist vera fyrst, þar kemur María “svo snemma að enn var myrkur.” Hjá Mattheusi  hefst sagan “þegar lýsti af fyrsta degi vikunnar”, nokkru fyrir sólarupprás. Hjá Markusi “mjög árla ... við sólarupprás” og hjá Lúkasi “í afturelding”. Grískan er einnig skýr með fjórar tímasetningar, nánar tiltekið í myrkri (skotiax) hjá Jóhannesi, við sólarupprás (epijwskoush) hjá Mattheusi, eftir sólarupprás (anateilantox tou eliou) hjá Markúsi og einfaldlega snemma morguns (baqeox) hjá Lúkasi.

Frásögn Jóhannesar ætti því að koma fyrst. En gæti verið að þær fléttist saman? Skoðum málið nánar og höfum í huga að hér er mikill æsingur og læti, “ótti og mikil gleði”, “ótti og ofboð”, hræðsla og aðsvif. Ekki nema von að fólk geti ruglast og farið að sjá ofsjónir sem gæti auðvitað skýrt alla englana sem eru  ýmist hér eða þar.

 

Byrjum á Jóhannesi. Þar kemur ein kona, María Magdalena, að gröfinni, finnur hana tóma og hleypur til Símon Péturs og hins lærisveinsins. Þeir tveir hlaupa af stað, hinn er fljótari í förum. Nú er farið að birta af degi, skiptum yfir til Mattheusar.

 

Nú koma tvær konur, enn ein María Magdalena ásamt Maríu hinni. Þá er  “landskjálfti mikill” í íslensku þýðingunni en mætti eins þýða sem “mikil læti” og gæti átt við hlaupandi mann – hinn lærisveininn úr Jóhannesi! Þær stöllur ruglast í látunum, halda að hann sé engill, eiga við hann orð en hlaupa í burtu – beint í flasið á Símoni Pétri og halda að hann sé Jesú!

 

Aftur yfir í Jóhannes. Hinn lærisveinninn er kominn að gröfinni en fer ekki inn. Símon Pétur kemur að gröfinni, fer inn. Nú er komin sólarupprás, skiptum yfir til Markúsar.

 

Þrjár konur koma að gröfinni, þriðja María Magdalena ásamt Maríu móðir Jakobs og Salóme. Þær fara inn í gröfina og hitta þar “engil” (Símon Pétur!) sem segir þeim að fara og láta Pétur vita. Þær fara en þora ekki að láta vita.

 

Aftur yfir í Jóhannes. Nú fer hinn lærisveinninn inn í gröfina, þeir eru þar báðir Símon Pétur og hinn. Enn er í aftureldingu, skiptum yfir til Lúkasar.

 

Nú koma margar konur, María Magdalena, María moðir Jakobs, Jóhanna og “hinar”. Þær hitta tvo “engla” í gröfinni (Símon Pétur og hinn lærisveininn!), snúa við og láta lærisveinina vita og nú loks fréttir Pétur af þessu og fer að gröfinni.

 

Aftur yfir til Jóhannesar. María Magdalena er aftur komin að gröfinni, grátandi lítur hún inn og sér tvo engla (Símon Pétur og hinn lærisveininn). Hún á við þá orð en snýr svo aftur til baka og mætir núna Jesú án þess að þekkja hann í fyrstu (hér er kominn Pétur sem komst loks af stað hjá Lúkasi). Á meðan þau eigast við læðast Símon Pétur og hinn lærisveinninn í burtu þannig að þegar Pétur gægjist inn í gröfina eru allir farnir.

 

Þarna er sem sagt búið að tvinna saman fjórar frásagnir af sama atburðinum með þeim hætti að hann gæti hafa gerst – en sem tómur ruglingur og læti, misskilningur og hystería. Og, já, með því að gera ráð fyrir fjórum konum sem heita María Magdalena. Annars er sniðugt hvernig konunum fjölgar í hverri ferð, eftir því sem æsingurinn magnast!

 

En hvað með upphafið, þegar María Magdalena kemur í myrkri og finnur tóma gröf. Getur verið að hún hafi villst í myrkrinu? Það gæti einmitt best verið því í Jóhannesarguðspjalli er sagt frá annarri gröf á sama stað, gröf Lazarusar, sem Jesú hafði einmitt opnað viku áður með því að láta renna frá steini (Jh. 11:39) en Lazarus var sveipaður líkblæjum og með sveitadúk – hvort tveggja var skilið eftir á staðnum (Jh. 11:44). Allt passar þetta eins og flís við rass.

 

Hér er lausnin því komin. Guðspjöllin fjögur eru dagsönn sjónarvottafrásögn af því þegar María Magdalena ruglaðist á gröfum, síðan tóku við tóm læti og ruglingur þar sem trúheitar konur sáu engla þar sem voru félagar þeirra og allir ruglast á öllum – sannkallaður gamanleikur við gröfina.


Þjóðkirkjan missir 5-6 vegna úrskráninga hvern virkan dag.

Stórfelldar úrskráningar úr Þjóðkirkjunni er staðreynd. Þjóðkirkjan hefur dregist saman hlutfallslega úr því að vera 92,7% þjóðarinnar 1990 í það að vera 80,7% árið 2007. Margir halda eflaust að skýringarinnar sé að leita í miklum innflutningi fólks til landsins sem fæstir eru skráðir í Þjóðkirkuna en svarið er ekki svo einfalt. Árið 2007 fjölgaði í þjóðkirkunni um 0,09% og úrskráningar eru milli 1000 og 1500 á ári. Þjóðkirkjan missir því um hálft prósent meðlima sinna á ári vegna úrskráninga en sjálfkrafa skráning nýfæddra barna kemur í veg fyrir raunfækkun. 

Eftirfarandi tölur sýna þetta svart á hvítu: (Kári Svan Rafnsson tók saman úr tölum Hagstofunnar):

19941647-3971250
1995777-653124
19961248-2237-989
19971536-912624
19981945-6171328
19992115-8821233
20002097-9311166
20011610-765845
2002886-686200
20031438-843595
20041563-953610
20051918-8511067
20061718-1212506
2007  227

 

Fremsti dálkurinn eru sjálfkrafa skráningar (fæddir inn í Þjóðkirkju - brottfluttir/látnir), miðdálkurinn eru nettó meðvitaðar skráningar, aftast er fjölgunin. Þjóðkirkjan er að missa 1 - 2 prósentustig á ári, með því framhaldi verður hún auðvitað horfin fyrir lok aldarinnar.

Fjölgunin 2007 er ekki nema 0,09%, langt innan við það sem væri ef ekki kæmu til stórfelldar úrskráningar. Þær tölur hafa enn ekki verið birtar fyrir 2007 en það má áætla að þær séu milli 1200 og 1500 miðað við undanfarin ár, jafnvel enn meira (fer mikið eftir fremsta dálk). Eða með öðrum orðum, 6-7 úrskráningar umfram innskráningar á hverjum einasta virka degi sem Hagstofan er opin. Ég veit ekki með ykkur, mér finnst þetta hrikalegt!


Trúlausir stærsti hópurinn utan Þjóðkirkjunnar - og fjölgar hraðast. Björn Bjarnason birtir tölurnar.

Björn Bjarnason er sannkölluð gullnáma gagnlegra upplýsinga. Samkvæmt tölum á bloggsíðu dóms- og kirkjumálaráðherra (http://www.bjorn.is/dagbok/nr/4295) fjölgar trúlausum hraðar en meðlimum allra stærstu kristnu safnaðanna. Aðeins Kaþólski söfnuðurinn rétt heldur í trúlausa og skýrist auðvitað af miklu streymi kaþólskra einstaklinga til landsins. Fjölgun Kaþólskra meðal innfæddra Íslendinga hlýtur að vera hverfandi!

Hér eru tölurnar fyrir 2006 og 2007, fimm stærstu "söfnuðir" landsins í stærðarröð.

                                  2006         2007       Fjölgun 
Þjóðkirkjan           252.234     252.461       227    0,1%
Utan trúfélaga        7.997          8.760*     763    9,5%
Kaþólskir                 7.283          7.997       694    9,5%
Fríkirkjan Rvík          7.009          7.498       489    7,0%
Fríkirkjan Hf.            4.757          5.024       267    5,6%

* Fjöldi trúlausra árið 2007 er áætlaður, Björn Bjarnason gefur upp 2,8% af heildarfjölda Íslendinga sem voru 312.872, þá fæst rúmlega 8.760. Þegar endanlegar tölur birtast hjá Hagstofunni gæti skeikað allt að 0,04% af heildarfjölda eða 125 manns. Það er því mögulegt að Kaþólskir hafi vinninginn í tölum en allt eins líklegt að skekkjan gangi hinn veginn.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband