Færsluflokkur: Spaugilegt

Sjónarvottar sögðu satt og skrifuðu guðspjöllin. Sönnunin er hér!

Frásagnir guðspjallanna af upprisunni eru eins ólíkar og þær eru margar. Hafi guðspjöllin verið rituð af sjónarvottum þá er nú ekki mikið að marka þá. Eða hvað? Reynum að láta dæmið ganga upp og sjáum hvað gerist! En skoðum fyrst hvað guðspjöllin segja um þennan örlagaríka morgun:

 
Mt   28:1-9  Að liðnum hvíldardegi, þegar lýsti af fyrsta degi vikunnar, komu þær María Magdalena og María hin til að líta á gröfina. Þá varð landskjálfti mikill, því engill Drottins sté niður af himni, kom og velti steininum og settist á hann. Hann var sem elding ásýndum og klæðin hvít sem snjór. Varðmennirnir skulfu af hræðslu við hann og urðu sem örendir. En engillinn mælti við konurnar: "Þér skuluð eigi óttast. Ég veit, að þér leitið að Jesú hinum krossfesta. Hann er ekki hér. Hann er upp risinn, eins og hann sagði. Komið og sjáið staðinn, þar sem hann lá. Farið í skyndi og segið lærisveinum hans: ,Hann er upp risinn frá dauðum, sjá hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann.` Þetta hef ég sagt yður." Og þær fóru í skyndi frá gröfinni, með ótta og mikilli gleði, og hlupu að flytja lærisveinum hans boðin. Og sjá, Jesús kemur á móti þeim og segir: "Heilar þið!" En þær komu, féllu fram fyrir honum og föðmuðu fætur hans.
 
Mk   16:1-8  Þá er hvíldardagurinn var liðinn, keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann. Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni. Þær sögðu sín á milli: "Hver mun velta fyrir oss steininum frá grafarmunnanum?" En þegar þær líta upp, sjá þær, að steininum hafði verið velt frá, en hann var mjög stór. Þær stíga inn í gröfina og sjá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítri skikkju og þær skelfdust. En hann sagði við þær: "Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér. Sjá, þarna er staðurinn, þar sem þeir lögðu hann. En farið og segið lærisveinum hans og Pétri: ,Hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann, eins og hann sagði yður`." Þær fóru út og flýðu frá gröfinni, því ótti og ofboð var yfir þær komið. Þær sögðu engum frá neinu, því þær voru hræddar.
 
Lk    24:1-10       En í afturelding fyrsta dag vikunnar komu þær til grafarinnar með ilmsmyrslin, sem þær höfðu búið. Þær sáu þá, að steininum hafði verið velt frá gröfinni, og þegar þær stigu inn, fundu þær ekki líkama Drottins Jesú. Þær skildu ekkert í þessu, en þá brá svo við, að hjá þeim stóðu tveir menn í leiftrandi klæðum. Þær urðu mjög hræddar og hneigðu andlit til jarðar. En þeir sögðu við þær: "Hví leitið þér hins lifanda meðal dauðra? Hann er ekki hér, hann er upp risinn. Minnist þess, hvernig hann talaði við yður, meðan hann var enn í Galíleu. Hann sagði, að Mannssonurinn skyldi framseldur verða í hendur syndugra manna og krossfestur, en rísa upp á þriðja degi." Og þær minntust orða hans, sneru frá gröfinni og kunngjörðu allt þetta þeim ellefu og öllum hinum. Þessar konur voru þær María Magdalena, Jóhanna og María móðir Jakobs og hinar, sem voru með þeim. Þær sögðu postulunum frá þessu. En þeir töldu orð þeirra markleysu eina og trúðu þeim ekki. Pétur stóð þó upp og hljóp til grafarinnar, skyggndist inn og sá þar líkklæðin ein. Fór hann heim síðan og undraðist það, sem við hafði borið.
 
Jh    21: 1-18       Fyrsta dag vikunnar kemur María Magdalena til grafarinnar svo snemma, að enn var myrkur, og sér steininn tekinn frá gröfinni. Hún hleypur því og kemur til Símonar Péturs og hins lærisveinsins, sem Jesús elskaði, og segir við þá: "Þeir hafa tekið Drottin úr gröfinni, og vér vitum ekki, hvar þeir hafa lagt hann." Pétur fór þá út og hinn lærisveinninn, og þeir komu til grafarinnar. Þeir hlupu báðir saman. En hinn lærisveinninn hljóp hraðar, fram úr Pétri, og kom á undan að gröfinni. Hann laut inn og sá línblæjurnar liggjandi, en fór samt ekki inn. Nú kom líka Símon Pétur á eftir honum og fór inn í gröfina. Hann sá línblæjurnar liggja þar og sveitadúkinn, sem verið hafði um höfuð hans. Hann lá ekki með línblæjunum, heldur sér samanvafinn á öðrum stað. Þá gekk einnig inn hinn lærisveinninn, sem komið hafði fyrr til grafarinnar. Hann sá og trúði. Þeir höfðu ekki enn skilið ritninguna, að hann ætti að rísa upp frá dauðum. Síðan fóru lærisveinarnir aftur heim til sín. En María stóð úti fyrir gröfinni og grét. Grátandi laut hún inn í gröfina og sá tvo engla í hvítum klæðum sitja þar sem líkami Jesú hafði legið, annan til höfða og hinn til fóta. Þeir segja við hana: "Kona, hví grætur þú?" Hún svaraði: "Þeir hafa tekið brott Drottin minn, og ég veit ekki, hvar þeir hafa lagt hann." Að svo mæltu snýr hún sér við og sér Jesú standa þar. En hún vissi ekki, að það var Jesús. Jesús segir við hana: "Kona, hví grætur þú? Að hverjum leitar þú?" Hún hélt, að hann væri grasgarðsvörðurinn, og sagði við hann: "Herra, ef þú hefur borið hann burt, þá segðu mér, hvar þú hefur lagt hann, svo að ég geti sótt hann." Jesús segir við hana: "María!" Hún snýr sér að honum og segir á hebresku: "Rabbúní!" (Rabbúní þýðir meistari.) Jesús segir við hana: "Snertu mig ekki! Ég er ekki enn stiginn upp til föður míns. En farðu til bræðra minna og seg þeim: ,Ég stíg upp til föður míns og föður yðar, til Guðs míns og Guðs yðar."` María Magdalena kemur og boðar lærisveinunum: "Ég hef séð Drottin." Og hún flutti þeim það, sem hann hafði sagt henni.
 

Fjórar útgáfur, engar tvær eins. María Magdalena kemur og fer, kemur fyrst eða ekki, snertir Jesú eða ekki, kemur ein eða ekki. Símon Pétur kemur ýmist einn eða í fylgd annarra.  En bíðum við, nú vitum við ekki fyrir víst að hér séu ekki margar “María Magdalena” á ferð. María var algengt nafn og “Magdalena” merkir eitthvað á borð við “frá bænum Magdala”. Þær hefðu vel getað verið nokkrar. Ef við segjum svo að Pétur og Símon Pétur séu ekki sömu mennirnir þá gæti dæmið farið að ganga upp. Fjórar aðskildar heimsóknir, fjórir aðskildir hópar.

 

Við nánari athugun kemur líka í ljós að frásagnirnar gerast ekki á sama tíma. Frásögnin í Jóhannesi virðist vera fyrst, þar kemur María “svo snemma að enn var myrkur.” Hjá Mattheusi  hefst sagan “þegar lýsti af fyrsta degi vikunnar”, nokkru fyrir sólarupprás. Hjá Markusi “mjög árla ... við sólarupprás” og hjá Lúkasi “í afturelding”. Grískan er einnig skýr með fjórar tímasetningar, nánar tiltekið í myrkri (skotiax) hjá Jóhannesi, við sólarupprás (epijwskoush) hjá Mattheusi, eftir sólarupprás (anateilantox tou eliou) hjá Markúsi og einfaldlega snemma morguns (baqeox) hjá Lúkasi.

Frásögn Jóhannesar ætti því að koma fyrst. En gæti verið að þær fléttist saman? Skoðum málið nánar og höfum í huga að hér er mikill æsingur og læti, “ótti og mikil gleði”, “ótti og ofboð”, hræðsla og aðsvif. Ekki nema von að fólk geti ruglast og farið að sjá ofsjónir sem gæti auðvitað skýrt alla englana sem eru  ýmist hér eða þar.

 

Byrjum á Jóhannesi. Þar kemur ein kona, María Magdalena, að gröfinni, finnur hana tóma og hleypur til Símon Péturs og hins lærisveinsins. Þeir tveir hlaupa af stað, hinn er fljótari í förum. Nú er farið að birta af degi, skiptum yfir til Mattheusar.

 

Nú koma tvær konur, enn ein María Magdalena ásamt Maríu hinni. Þá er  “landskjálfti mikill” í íslensku þýðingunni en mætti eins þýða sem “mikil læti” og gæti átt við hlaupandi mann – hinn lærisveininn úr Jóhannesi! Þær stöllur ruglast í látunum, halda að hann sé engill, eiga við hann orð en hlaupa í burtu – beint í flasið á Símoni Pétri og halda að hann sé Jesú!

 

Aftur yfir í Jóhannes. Hinn lærisveinninn er kominn að gröfinni en fer ekki inn. Símon Pétur kemur að gröfinni, fer inn. Nú er komin sólarupprás, skiptum yfir til Markúsar.

 

Þrjár konur koma að gröfinni, þriðja María Magdalena ásamt Maríu móðir Jakobs og Salóme. Þær fara inn í gröfina og hitta þar “engil” (Símon Pétur!) sem segir þeim að fara og láta Pétur vita. Þær fara en þora ekki að láta vita.

 

Aftur yfir í Jóhannes. Nú fer hinn lærisveinninn inn í gröfina, þeir eru þar báðir Símon Pétur og hinn. Enn er í aftureldingu, skiptum yfir til Lúkasar.

 

Nú koma margar konur, María Magdalena, María moðir Jakobs, Jóhanna og “hinar”. Þær hitta tvo “engla” í gröfinni (Símon Pétur og hinn lærisveininn!), snúa við og láta lærisveinina vita og nú loks fréttir Pétur af þessu og fer að gröfinni.

 

Aftur yfir til Jóhannesar. María Magdalena er aftur komin að gröfinni, grátandi lítur hún inn og sér tvo engla (Símon Pétur og hinn lærisveininn). Hún á við þá orð en snýr svo aftur til baka og mætir núna Jesú án þess að þekkja hann í fyrstu (hér er kominn Pétur sem komst loks af stað hjá Lúkasi). Á meðan þau eigast við læðast Símon Pétur og hinn lærisveinninn í burtu þannig að þegar Pétur gægjist inn í gröfina eru allir farnir.

 

Þarna er sem sagt búið að tvinna saman fjórar frásagnir af sama atburðinum með þeim hætti að hann gæti hafa gerst – en sem tómur ruglingur og læti, misskilningur og hystería. Og, já, með því að gera ráð fyrir fjórum konum sem heita María Magdalena. Annars er sniðugt hvernig konunum fjölgar í hverri ferð, eftir því sem æsingurinn magnast!

 

En hvað með upphafið, þegar María Magdalena kemur í myrkri og finnur tóma gröf. Getur verið að hún hafi villst í myrkrinu? Það gæti einmitt best verið því í Jóhannesarguðspjalli er sagt frá annarri gröf á sama stað, gröf Lazarusar, sem Jesú hafði einmitt opnað viku áður með því að láta renna frá steini (Jh. 11:39) en Lazarus var sveipaður líkblæjum og með sveitadúk – hvort tveggja var skilið eftir á staðnum (Jh. 11:44). Allt passar þetta eins og flís við rass.

 

Hér er lausnin því komin. Guðspjöllin fjögur eru dagsönn sjónarvottafrásögn af því þegar María Magdalena ruglaðist á gröfum, síðan tóku við tóm læti og ruglingur þar sem trúheitar konur sáu engla þar sem voru félagar þeirra og allir ruglast á öllum – sannkallaður gamanleikur við gröfina.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband