6.1.2008 | 23:39
Kristið siðgæði: Elska skaltu guð meira en sjálfan þig og aðra.
Um daginn benti maður mér á að kjarninn í kristnu siðgæði væri kærleiksboðskapurinn. þar hitti hann naglann á höfuðið. "Elska skaltu Drottin, guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sál þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum og náungann eins og sjálfan þig." (Lk 10:27) Segir eiginlega allt sem segja þarf. Maðurinn, þú og ég, erum í öðru sæti. Guð er í fyrsta sæti. Guðsorð er í fyrsta sæti. Það sem stendur í biblíunni hefur meira gildi en þú og ég. Þannig er kristilegt siðgæði.
Ef Jesú hefði bara sagt "elska skaltu náungann eins og sjálfan þig" hefði hann verið að segja það sem allir vita og við förum öll eftir - og stundum gott betur, flest elskum við einhvern betur en okkur sjálf. En sjálfsögð sannindi geta ekki flokkast sem kristilegt siðgæði. Til þess þarf meira, krafan um að setja manninn í annað sæti og guðsorð í fyrsta sæti.
Hver túlkar guðsorð? Á ég að láta JVJ segja hver á að lifa og deyja vegna þess að hann kann guðsorð? Hvað segirðu um það JVJ, mannstu hvernig þú réttlættir barnamorðin í Egyptalandi?
Eða Karl Sigurbjörnsson, á hann að segja hver á að vera hamingjusamur, hver á að fá að elska og hver ekki, í krafti guðlegs kennivalds? En það er einmitt það sem hann gerir, það er hið kristna siðgæði. Ekki mannlegt siðgæði, sem væri þó miklu betra.
Guðs orð er ofar mannréttindum, það hefur greinilega komið í ljós í umræðu undanfarið. Það er kristilegt siðgæði.
Persónulega finnst mér mannlegt siðgæði betra, sú tilfinning sem við öll berum og sýnum strax frá bernsku: Að maðurinn sé númer eitt. Líf mannsins, hamingja mannsins sé aðal atriðið.
Kristni krefst ótta og hlýðni, krefst þess að við setjum okkur sjálf í annað sæti. Ekki meira af því, takk fyrir.
Flokkur: Trúmál og siðferði | Facebook
Athugasemdir
Brynleifur, þú segir:
" En sjálfsögð sannindi geta ekki flokkast sem kristilegt siðgæði."
Segðu mér eitt: Síðan hvenær eru það sjálfsögð sannindi að menn eigi að elska náungann eins og sjálfan sig?
Greta Björg Úlfsdóttir, 6.1.2008 kl. 23:48
Ég hefði áhuga á að vita um siðgæði annarra trúarbragða!
Guðmundur (IP-tala skráð) 6.1.2008 kl. 23:48
Sæl Greta
Það eru sjálfsögð sannindi að maður eigi að elska náungann eins og sjálfan sig. Það þarf ekki guðlegar skipanir til þess. Það er annað hvort því er framfylgt en ef við skoðum þá hlið málanna þá hefur held ég að það skipti ekki hvort þetta heiti kristið siðgæði eða eitthvað annað. Alla vega segir sagan okkur að kristnir hafa síst verið eftirbátar annarra í að níðast á náunganum.
Finnst þér þetta ekki vera sjálfögð sannindi? Fyrir mér er þetta dagsljóst og auðvelt að rökstyðja af hverju við ættum að elska aðra eins og okkur sjálf.
Guðmundur, það er að finna gott siðgæði og vont siðgæði í öllum trúarbrögðum. Íslam er til dæmis með margar siðakenningar sem við ættum að taka okkur til eftirbreytni en á móti enn meiri guðsótta, einn meira að setja manninn í annð sæti.
Í kínversku heimspekikerfunum (taóisma, konfúisíanisma osfrv.) sem oft eru kölluð trúarbrögð er mjög gott siðferði, og þar sem þeirra siðferði er ekki guðlega fyrirskipað heldur leitt fram af rökum þá er það miklu betra en kristið. Gallinn er auðvitað hlýðnin við yfirvöld en jafnvel þar er taóismi miklu róttækari en kristni.
Búddísmi kennir heilagleika alls lífs, þar er það miklu meira mál að koma vel fram við náungann og að virða rétt alls þess sem lifir. Siðgæði búddista hvað varðar virðingu við lífið er miklu meiri en í kristni. Gallinn hjá búddistum vill oft verða sá að vera óvirkir, að segja sem svo að óhamingja annarra sé þeim sjálfum að kenna (karmalögmálið). Á móti kemur að einstaklingurinn bætir sitt eigið karma með því að gera góðverk. Búddismi er sjálfsagt með besta siðgæðisboðskapinn, sterkari en taóisminn.
Um hindúisma veit ég lítið en þar er margt líkt með búddisma.
Hefðbundinn gyðingdómur er svipaður kristni enda segir Jesú ekkert nýtt.
Og ekki koma með einhverjar sögur um hversu illa menn hegða sér í öðrum trúarbrögðum. Kristnir hafa gert þetta allt og gott betur.
Brynjólfur Þorvarðsson, 7.1.2008 kl. 00:05
Jú, Brynjólfur, mér finnst þetta augljós, - en þó ekki sjálfsögð - sannindi.
Því þó okkur tveimur (og fleirum) þyki þetta augljós sannindi (og okkar uppeldi hafi miðað að því að kenna okkur þau, reikna ég með í báðum tilvikum) þá fræðir mannkynssagan okkur um að ekki hefur öllum alltaf þótt þetta eins augljóst og mér og þér.
Greta Björg Úlfsdóttir, 7.1.2008 kl. 00:24
Og þarf ekki mannkynssöguna til, - það þarf ekki annað en að líta í kringum sig í heiminum í dag til þess að sjá að ekki er öllum þessi sannleikur augljós eða sjálfsagður.
Greta Björg Úlfsdóttir, 7.1.2008 kl. 00:26
Ef þú átt að vera með Guð ávallt í 1. sæti og það er í algeru 1. sæti hjá Guði að þú elskir náungan eins og sjálfan þig, er hann þá ekki bara að búa til órjúfanlegan hring þannig að við getum aldrei sleppt mannlega partinum í Guðsdýrkuninni?
Jakob (IP-tala skráð) 7.1.2008 kl. 15:16
Greta, ég er í sjálfu sér sammála - það sem ég átti við var að það þarf ekki einhvern guð til að segja okkur þetta, allir sem á annað borð myndu velta siðferði fyrir sér kæmust að sömu niðurstöðu.
Ofbeldi fer minnkandi í heiminum í dag miðað við fyrri aldir, og mest þar sem trúarbrögð hafa minnst vægi. Það finnst mér merkilegt en líklega er nú ekki sterkt orsakasamhengi þarna á milli.
Jakob, ég skil ekki alveg þennan hringsnúning. Til hvers að dýrka Guð? Ég bara spyr, ég sé ekki hvaða tilgangi það þjónar. Núll og nix ef þú spyrð mig.
Svo er það ekki í algjöru fyrsta sæti hjá Guði að elska náungann eins og sjálfan þig, alla vega ekki miðað við Biblíuna. Guð virðist alls ekki slá hendinni á móti pyntingum og limlestingum, jafnvel á eigin syni. Ótti og hræðsla er boðskapurinn.
Brynjólfur Þorvarðsson, 7.1.2008 kl. 20:26
Ef það er meginboðskapurinn sem þú finnur í NT þá kalla ég það nú neikvætt cherry picking
Jakob (IP-tala skráð) 7.1.2008 kl. 21:27
Nú má vera að ég misskilji t.d. tilganginn með dauða jesú og upprisunni. Var það ekki aðal tilgangur lífs hans? Að vera pyntaður og drepinn, og lifna síðan við aftur?
Ok, fyrst fordæmir guð alla menn fyrr og síðar til dauða út af einu epli.
Síðan drepur hann son sinn, út af einu epli.
Svo lífgar hann son sinn við og segir, ok þið sem trúið á son minn megið líka lifa. Hin munu deyja.
Ótti? Ógn og ofbeldi, hótanir á kosmískum skala. Ég kalla það ótta og hræðslu sem þarna er boðað og boðið.
Svo er verið að þvaðra um einhvern siðaboðska, en hann er í grunninn "Faðir vor, verði þinn vilji" og "elska skaltu drottin guð þinn af öllu" osfrv. Það er ekki mannkærleikur heldur guðsótti.
Brynjólfur Þorvarðsson, 7.1.2008 kl. 21:37
Takk Brynjólfur , þetta blasir við, en sjaldan má nefna. Algilda siðareglan var sönnuð af Immanuel Kant, en hafði verið í hávegum höfð lengi.
Hafði ekki Þorgeir Ljósvetningagoði siðferðisþrek, sem seint verður rakið til kristins siðferðis?
Boðar ekki biskup Íslands 2007 að menn skulu EKKI elska samkynhneigða nágungann eins og sjálfan sig?
Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 7.1.2008 kl. 21:47
"Ef Jesú hefði bara sagt "elska skaltu náungann eins og sjálfan þig" hefði hann verið að segja það sem allir vita og við förum öll eftir - og stundum gott betur, flest elskum við einhvern betur en okkur sjálf"
Brynleifur, mig langar bara til að segja um þetta, að við elskum (flest, vonandi) maka okkar, börn, foreldra og jafnvel fleira fólk. Það þykir okkur sjálfsagt, þó það sé ekki alltaf jafn auðvelt og geti stundum orðið nokkuð flókið. Þegar við elskum þetta fólk gerum við það, í það minnsta þegar kemur að börnum okkar, nánast af eðlishvöt, frekar en af því að okkur beri að gera það.
Flóknara verður málið þegar kemur að því að elska óvini sína, og þykir mér engan veginn sjálfsagt að við eigum að gera það. Þó boðaði Kristur að okkur beri að gera það, því óvinir okkar eru líka náungar okkar. Það er þessi kærleikur sem getur ekki á neinn hátt talist sjálfsagður.
" Algilda siðareglan var sönnuð af Immanuel Kant, en hafði verið í hávegum höfð lengi. "
Anna, ég þekki satt að segja ekki hvort Kant hafi komist að sömu niðurstöðu og Kristur um þetta atriði, það er að segja um að elska óvini sína. En Kristur var auðvitað uppi löngu fyrir tíma Kant, svo það ætti að vera augljóst hvor gæti hugsanlega hafa haft áhrif á hugsun hins.
Greta Björg Úlfsdóttir, 7.1.2008 kl. 22:17
Brynleifur, mig langar til að vita í hvaða löndum þú telur trúarbrögð hafa minnst vægi, þar sem þú tiltekur þau ekki?
Greta Björg Úlfsdóttir, 7.1.2008 kl. 22:20
*og þykir mér engan veginn sjálfsagt að við eigum að gera það= þarna hefði farið betur á að hafa áfram orðið "augljóst" (í staðinn fyrir sjálfsagt) eins og ég hafði skrifað upphaflega.
Greta Björg Úlfsdóttir, 7.1.2008 kl. 22:27
Greta, það liggur ekki endilega í orðunum að maður eigi að elska óvin sinn þótt það sé reyndar rökréttur skilningur. Sá boðskapur er ekki frumlegur hjá Jesú, gullna reglan eða að maður skuli elska alla menn, líka óvini sína. Allir alvöru siðfræðingar, og þeir voru til á fornöld líka, finna svona reglur. Það er ekkert guðlegt eða yfirnáttúrulegt, þetta er bara venjuleg siðfræði.
Varðandi hvar trúarbrögð hafa minnst vægi þá var ég með í huga V-Evrópu fyrst og fremst, ég var að hugsa um okkar hluta heimsins.
Við getum þakkað mönnum upplýsingarinnar fyrir að leggja fræðilegan grunn að því frelsi og þeim mannréttindum sem við búum við í dag. Flestir þeirra voru ekki kristnir, í mesta falli deistar (algyðistrúar, svipað og brahma-Hindúar). Þeir þróuðu siðfræði og siðferði sem tók mið af manninum og þörfum hans - Kant reis þar einna hæst eins og Anna bendir á.
Kristninni tókst þetta ekki á 2000 árum. Það var ekki fyrr en endurreisnarmennirnir köstuð af sér hlekki kirkjunnar og upplýsingarmennirnir losnuðu undan viðjum kristninnar sem grunnur nútíma siðferðis var lagður.
Brynjólfur Þorvarðsson, 7.1.2008 kl. 22:59
Ég fann hérna gullnu regluna hjá Plató, frá því um 400:
"May I do to others as I would that they should do to me." ~ Plato (429-347 BCE), quoted from Plato's dialog "The Laws" in Edith Hamilton and Huntington Cairns, ed., The Collected Dialogues of Plato (Princeton University Press, 1961), p. 1225.
Hérna er hún í "sterka forminu" (gera öðrum sem ég vil að þeir geri mér) en hún er líka algeng í "veika forminu" (ekki gera öðrum sem ég vil ekki að þeir geri mér), í mjög mörgum trúarbrögðum, t.d. Búddisma, Hindúisma, hjá Konfúsíusi osfrv.
Brynjólfur Þorvarðsson, 7.1.2008 kl. 23:11
Brynjólfur, fyrirgefðu að ég rangnefndi þig þarna áðan.
Ég ætla að setja hér inn athugasemd sem ég skrifaði við nýjustu færslu sr. Svavars Alfreðs, mér finnst það við hæfi þar sem ég leyfði mér að taka þessa umræðu hérna sem dæmi um það sem ég segi í henni (athugasemdinni):
Oft er auðsætt að menn sem vilja kalla sig trúleysingja og leggja jafnvel fæð á allt sem kalla má kristið gera sér alls enga grein fyrir því hvernig kristnin hefur mótað meira að segja þeirra eigið hugarfar.
Til dæmis þegar þeir tala um kærleiksboðskapinn sem "sjálfsögð" gildi, þegar reyndin er sú að áherslu á kærleikann er fyrst og fremst að finna í kristni. Þó t.d. búddismi leggi ríka áherslu á virðingu fyrir lífi og einstaklingum, o.s.frv.
Tek fram að ég er ekki búin að lesa það sem þú skrifaðir hér eftir að ég gerði síðast athugasemd, les það á morgun, vildi bara koma þessu að núna, fannst það kurteislegra.
Greta Björg Úlfsdóttir, 8.1.2008 kl. 00:08
Jæja, ég stóðst ekki mátið að lesa þetta áður en ég fór aftur í háttinn, og vil svara þér á eftirfarandi hátt:
Þó það sé auðvitað allt satt og rétt sem þú segir um endurreisnina og og upplýsinguna, svo og siðfræðinga fortíðar, þá finnst mér algjör óþarfi að úthúða kristinni trú og snúa út úr henni eins og ykkur trúleysingjum er gjarnt að gera. Gleymdu ekki að Kristur var einn af siðfræðingum fortíðar og að kristin viðhorf hafa markað vestræna menningu óafmáanlega, þrátt fyrir endurreisn og upplýsingu. Mér finnst algjör óþarfi af ykkur að vilja sífellt kasta rýrð á hlut kristni og kirkju í þróun menningar hér á Vesturlöndum.
Greta Björg Úlfsdóttir, 8.1.2008 kl. 00:16
Greta gullna reglan er mannkyninu sjálfsögð. Hún er einfaldlega í eðli okkar, líklega vegna þess að samfélag við aðra er okkur mikilvægara en flest annað og þessi regla veitir okkur öryggi í slíku samfélagi.
Það er hins vegar ljóst að þessi regla er ekki alltaf í hávegum höfð.
T.d. hef ég ekki orðið var við að biskupinn beri mikinn kærleik til trúlausra.
Þó ég segi sjálfur að þá er ég bara nokkuð góður gaur, ekkert fullkominn en ég fullyrði það að ég hafi meira "kristilegt siðgæði" en margir sannkristnir.
En að ætla kalla mig kristinn fyrir þá siði sem eignaðir hafa verið kristninni verð ég að segja að er argasta ókurteysi.
En hvað er eiginlega að kristilegu siðgæði? Í raun ekkert eins og flestir íslendingar túlka það.
Það sem er hins vegar stórhættulegt er þegar fólk breytir ekki eftir því sem það sjálft telur rétt og rangt, heldur það sem guð segir að sé rétt og rangt.
Því um leið og fólk gerir það að þá er hægt að nota það sem fjarstýringu á þetta fólk, og við þekkjum öll óteljandi dæmi um hvernig slíkt hefur endað illa.
Ingólfur, 8.1.2008 kl. 00:28
Ég hef aldrei haldið því fram að Kristur hafi fundið upp á "gullnu reglunni", og hann er engan veginn sá eini sem hefur boðað það sem í henni felst í gegnum aldirnar. En ég fer ekki ofan af því að hann er sá trúarbragðahöfundanna sem minnist oftast á kærleika, berum orðum, í sínum boðskap.
Ingólfur Harri, ég skal alveg láta ósagt um það hvort gullna reglan sé í eðli mannsins, þar sem ég hef ekki lært sálfræði að neinu ráði. Þykir það reyndar bera vott um töluverða bjartsýni á eðli hans að halda slíku fram. Ekki finnst mér til að mynda mega ráða að svo sé af veraldarsögunni. Ég tel heldur ekki rétt að kenna trúarbrögðunum um allar þær ógnir sem sagan geymir, ja ekki nema menn vilji kalla kommúnismann trúarbrögð?
Greta Björg Úlfsdóttir, 8.1.2008 kl. 02:52
Við höfum nú öll gott af því að vera bjartsýn en auðvitað veit ég að það er margt ljótt líka í mannseðlinu.
Trúarbrögðin bera mikla ábyrgð og jafnvel má flokka kommúnismann sem trúarbrögð þar sem Flokkurinn tók hlutverk "kirkjunnar" í að segja almúganum hvað væri rétt og rangt.
Trúarbrögð er fyrst og fremst stjórntæki og þau trúarbrögð sem eru hvað bestu stjórntækin hafa veraldlega fulltrúa sem fylgjendurnir trúa að viti vilja guðs.
Þetta stjórntæki hefur í gegnum söguna fyrst og fremst verið notað til þess að styrkja eigin völd.
Trú er hins vegar allt annað og er oft af hinu góða.
Ingólfur, 8.1.2008 kl. 03:15
Ingólfur, þessu sem þú segir í síðustu athugasemd erum við sammála. Ég geri mér nefnilega grein fyrir því að skipulögð trúarbrögð, hvers konar, eru öflugt stjórntæki, til góðs og ills, og hafa oft lítið með frjálsa hugsun eða vilja mannsins að gera.
Einnig vil ég segja að það er augljóst að misvitrir prelátar kristnu kirkjunnar hafa í gegnum tíðina snúið upp á boðskapinn, til að hann þjónaði betur valdafíkn þeirra sjálfra, en ekki almenningi, sem þeir áttu þó að þjóna, samkvæmt boðorðinu.
Því það er nefnilega hárrétt sem þú segir að trú og trúarbrögð eru ekki endilega það sama, og eiga jafnvel stundum alls ekkert skylt hvort við annað.
Greta Björg Úlfsdóttir, 8.1.2008 kl. 11:31
Úpss, tók út eitt "í" sem átti að vera inni: í þessu erum við sammála.
Greta Björg Úlfsdóttir, 8.1.2008 kl. 11:32
Sæl Greta
Takk fyrri skrifin, þetta eru ágætist umræður!
Varðandi mína afstöðu þá er hún margþætt en í grunninn sé ég satt að segja mjög lítið gott við kristni. Þó verð ég að segja að t.d. ímyndin um Jesúbarnið í jötu, mynd hreinleika og sakleysis, n.k. barnatrú án dogma, sé börnum hollt. En ekki fullorðnum.
En hér eru nokkur atriði:
1) Jesú: Í fyrsta lagi tel ég ekki að hann hafi verið til, alla vega er ekkert í guðspjöllunum um eða eftir raunverulegan mann. Í öðru lagi þá hefur kristnin eins og hún þróaðist aldrei snúist um það sem Jesú sagði heldur það sem Páll (og aðrir eftir honum) ákváðu að væri aðalatriði: Fórnardauðinn.
2) Kristnin er að mörgu leyti mannúðleg trúarbrögð, hún hefur þá ímynd og margir sem velja þá hlið hennar (eins og þú t.d.) geta notað hana til góðs. Kristni breiddist út um Rómvarveldi sem trú sem höfðaði til almennings og mér finnst ekki ólíklegt að samfélagið hafi kallað eftir mannúðlegum trúarbrögðum. Kristnin virtist passa.
3) Saga kristinna þjóða er hins vegar samfelld saga hörmunga, glæpa gegn mannkyni og menningu. Oftast beinlínis í nafni kristninnar, t.d. bókabrennurnar þegar menningararfi fornaldar var nánast eytt, endalaus dráp á þeim sem voru annarrar trúar, bæling alls sem hét gagnrýnin hugsun eða frelsi. Glæpir kristinna þjóða gegn eigin þegnum og öðrum þjóðum slær öllu við í mannkynssögunni, eyðing á menningu fornaldar slær öllum menningareyðingum við í sögunni. Kristnar þjóðir eiga metið í hvoru tveggja.
4) Þetta síðasta atriði bendir til þess að kristni hafi ekki haft jákvæð áhrif. Það er ekki að sjá á nokkurn hátt í allri sögu hins kristna heims að hér hafi verið betra að vera en annars staðar (t.d. í íslamska heiminum) fyrr en eftir að endurreisnin er komin vel af stað. En endurreisnin sækir einmitt hugmyndir og hugmyndakerfi til for-kristinnar fornaldar.
5) Upplýsingin er arfleifð endurreisnarinnar sem aftur er arfleifð for-kristinna fornbókmennta sem kirkjan hafði eytt innan síns áhrifasvæðis en breiddust út m.a. vegna áhrifa Íslams aftur inn í Evrópu. En auðvitað gerðist þetta allt í samfélagi sem var gegnsýrt kristinni orðræðu. það verður seint hægt að greiða úr því hvaða hugmyndir komu hvaðan, hitt er ljóst að kristnin ein dugði ekki til. En kannski lagði hún eitthvað jákvætt af mörkum.
6) Mín skoðun er sú að kristnar kennisetningar eru á yfirborðinu margar ágætar en undir niðri (og í framkvæmd) alls ekki svo góðar. Reynslan sýnir hversu slæm kristnin er og við nánari athugun þá er boðskapur hennar nefnilega alls ekki góður. Dauði og refsingar, fórnardauði, samviskubit, guðsótti. Þetta er sú kristni sem hefur ríkt gegnum söguna og sem ríkir í nútímanum.
7) Í ljósi þess sem að ofan er sagt finnst mér blasa við að kristni sé í besta falli misheppnuð sem siðgæðisboðskapur, og í versta falli beinlínis hættulegur. Þó má ekki horfa fram hjá því að sumir einstaklingar taka það besta úr kristninni og verða í alvöru betri fyrir vikið. En hefðu þeir ekki tekið það besta úr búddísma í staðinn? Eða Íslam?
8) Tvö dæmi um þetta síðastnefnda: Í bók sem ég las nýlega var lýsing á algengri trúarskoðun innan Íslam sem gengur út á algjört bann við ofbeldi, þar á meðal ónauðsynlegt dráp á dýrum. Einstaklingur sem dæmi var tekið af hafði keyrt of hratt eitt kvöld og keyrt á ref sem hljóp yfir götuna. Hann taldi sig þurfa að iðrast þessa í bænum sínum í mörg ár til að vega upp á móti ódæðinu. Minnir mig á venjulegan íslending sem reynir hvað hann getur að keyra yfir mýs og önnur dýr ef hann sér þau! Hitt dæmið er af sjálfum mér. Ég ólst upp í kristni, var mjög trúaður við fermingu en missti trúna stuttu seinna án sérstakra átaka eða ástæðna - ég bara þroskaðist. Um 20 árum seinna kynntist ég búddisma og þar fann ég lífsreglur sem ég hef fylgt síðan og ég tel að þær hafi gert mig að betri manni. þessi kynni mín af tveimur trúarbrögðum, kristni og búddísma, voru sem sagt þau að ég finn fátt gott í kristni og ekkert sem hefur haft áhrif á mig. Ég fann hins vegar ýmislegt gott í búddisma og hann hafði áhrif á mig.
9) Varðandi þína afstöðu þá skil ég ekki alveg út á hvað þín kristni gengur. Ef Jesú var svona mikill siðapostuli, hvað sagði hann þá sem var nýtt? Og jafnvel þótt hann hafi sagt eitthvað ferskt og gott, réttlætir það trúarbrögð með allri eymdinni sem þeim hafa fylgt? En sleppum þeim, tökum trúna eina og sér. Réttlætir það að einhver Jesú hafi sagt eitthvað gott því að maður telji sig trúaðan og að sú trú sé kristni? Ég sé ekki samhengið þarna á milli. Margir menn segja margt gott. Afhverju að taka einn gyðing fyrir 2000 árum síðan, sem sagði ekkert sérstaklega frumlegt, og gera hann að einhverju trúartákni?
Brynjólfur Þorvarðsson, 8.1.2008 kl. 20:11
Ég tel að ef talað er um kristið siðgæði, þá skuli gera skýran greinarmun á siðgæi Krists og siðgæði kristnna. Þar er himinn og haf á milli.
Jón Steinar Ragnarsson, 9.1.2008 kl. 02:28
Það góða, sem Kristur bætti við er fyrirgefningar hugtakið, það vonda er helvítishugmyndin, hreinsunareldurinn og það að allir menn séu syndugir frá fæðingu og verði því alla tíð að bæta fyrir það til að verða hólpnir. Raunar alger steypa og grunnurinn að öllum viðbjóði hins kristna dogma.
Líf þitt þarf að verða líf iðrunnar og yfirbótar, skammar og auðmýkingar, samt á hann að hafa leyst mannkyn undan þessu öllu með krossfestingunni.
Færðu nokkrurn botn í þetta? Færðu nokkurn botn í að það að éta pappaspjald og drekka vínglas á ákveðnum stað, hjálpi þér áleiðis í VIP stúkuna á himnum? Finnst þér þetta ekki ótrúlegur þykistuleikur? Leikskólabörn eru jarðbundnari og málefnalegri í þykistuleikjum sínum.
Jón Steinar Ragnarsson, 9.1.2008 kl. 02:35
"Afhverju að taka einn gyðing fyrir 2000 árum síðan, sem sagði ekkert sérstaklega frumlegt, og gera hann að einhverju trúartákni?"
Brynjólfur, af sömu ástæðu og ég hlusta frekar á Mozart en Birgittu Haukdal.
Greta Björg Úlfsdóttir, 9.1.2008 kl. 05:16
Jón: Ég veit ekki betur en að hreinsunareldurinn sé komin úr skáldsögu Dante og erfðasyndin sé aðallega mótað af hugmyndum Ágústínusar. Vissulega segir Jesú að allir menn séu syndugir, enda er fólk að lifa á staðli óuppfyllanlegs lögmáls, en endilega komdu með ritningarvers þar sem hann talar beint um erfðasyndina og hreinsunareldana.
Jakob (IP-tala skráð) 9.1.2008 kl. 14:18
Greta: Þetta er gott svar, að bera saman við Mozart. Hann var vissulega snillingur, en aðeins einn af fjölmörgum tónsnillingum og maður yrði væntanlega leiður á því að hlusta ekki á annað en hann. Sama með Jesú, hann er fínn svo langt sem það nær (þ.e. ef maður velur og hafnar úr boðskapnum) en hann skagar ekkert uppúr sem frumlegur og ekki er hann mannúðlegastur.
Jón: Það er rétt að gera greinarmun á því sem Jesú á að hafa sagt (siðgæði Krists) og svo kristnu siðgæði. Þetta tvennt þarf alls ekki að fara saman. Pistillinn hjá mér snérist hins vegar akkúrat um það sem Jesú á að hafa sagt (reyndar ekki beint - en hann tók undir og þetta er talið kjarninn í boðskapnum). Ekki veit ég til þess að Jesú hafi fundið upp fyrirgefninguna. Var ekki til venjulegt fólk á undan Jesú? Fyrirgefning er hluti af öllum menningarsamfélögum, það er hluti af því að vera mennskur.
Brynjólfur Þorvarðsson, 9.1.2008 kl. 20:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.