Færsluflokkur: Trúmál
22.10.2010 | 15:30
Vantrú sigrar!
Á fyrstu 300 árum kristni, frá krossfestingu að lögleiðingu, fjölgaði kristnum úr nokkrum þúsund í nokkrar milljónir. Mikill vöxtur, vissulega, en þegar tölurnar eru skoðaðar nánar kemur í ljós að fjölgunin nemur um 40% á áratug, eða aðeins minna en vöxtur Mormónakirkjunnar á 20. öld.
Mormónum fjölgaði um 43% á áratug á síðustu öld en sá vöxtur bliknar í samanburði við vöxt vantrúar í heiminum. Pistillinn sem ég nefni vitnar í merkilega heimild, svokallaða World Christian Encyclopedia ("Alfræðirit heimskristninnar") sem kom upphaflega út árið 1982 en í nýrri útgáfu 2001. Markmið þessa alfræðirits er að birta tölfræði um trúfélög um allan heim, hversu margir tilheyra hvaða trúfélagi á hverjum tíma, alla 20. öldina, frá 1900 - 2000.
Þessi merkilega útgáfa er núna komin á netið, undir heitinu World Christian Database, því miður þarf að borga fyrir aðgang að gagnagrunninum en hann er stöðugt uppfærður af stórum hópi sérfræðinga (samkvæmt upplýsingum á vefsíðu hans). Tilgangur útgáfunnar er víst að mæla gagnsemi kristinnar trúboðsstarfsemi og starfið því væntanlega kostað af kristnum trúboðshreyfingum. Hvað um það, samkvæmt "Alfræðiriti alheimskristninnar" fjölgaði vantrúuðum í heiminum úr 0,2% árið 1900 í 15,2% árið 2001. Trúlausir, vantrúaðir eða hvað maður vill kalla það ("nonreligious") eru sem sagt sjötti hluti jarðarbúa, sjálfsagt rúmur milljarður í dag (tæpur milljarður fyrir 10 árum skv. alfræðiritinu). Þeim hefur fjölgað um 76% á áratug alla síðustu öld. Með sama vaxtarhraða verða trúalausir orðnir 100% jarðarbúa fyrir miðja öldina!
Auðvitað gengur það ekki eftir. En vöxturinn er samt merkilegur, Kristni náði 5-10% útbreiðslu fyrstu 300 árin (innan Rómarveldis), trúalausir eru orðnir 15% eftir 100 ár (meðal alls mannkyns). Ég hef áður haldið því fram að við séum að horfa upp á endalok kristninnar, ekki datt mér í hug að það myndi gerast svona hratt!
Tölur sem ég hef séð birtar í ýmsum skoðanakönnunum sýna að trúlausir (og trúhlutlausir) eru t.d. rúm 16% Bandaríkjamanna og fjölgar hratt, í flestum löndum Evrópu eru þeir einnig kringum 15% (þótt eitthvað sé hlutfallið lægra hér á Íslandi).
Trúmál | Breytt s.d. kl. 15:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
8.9.2010 | 16:23
Lennox vs. hann sjálfur
Mofi birti nýlega grein eftir stærðfræðinginn John Lennox þar sem hann svarar fullyrðingum Stephen Hawking um guðlaust upphaf alheims. Ekki veit ég hvað Hawking segir nánar um málið en það sem Lennox hefur að segja er óttalega ómerkilegt.
En skoðum máli nánar:Lennox er stærðfræðingur, ekki eðlisfræðingur. Ummæli hans eru ekki fræðilegs eðlis heldur heimspekileg og trúarleg eins og berlega kemur fram í málflutningi hans. Fulllyrðingar sem hann kemur með um eðlisfræði eða alheimsfræði eru fullyrðingar áhugamanns, verulega mótaðar af fyrirfram gefinni trúarsannfæringu.En hversu marktækur er þá Lennox á sínu áhugasviðum?
Within the Christian faith, there is also the powerful evidence that God revealed himself to mankind through Jesus Christ two millennia ago. This is well-documented not just in the scriptures and other testimony but also in a wealth of archaeological findings.
Í lok ofangreindrar tilvitnunar fullyrðir Lennox um fornleifafræði - og missir algjörlega marks. Það er ekki ein einasta arða sem fornleifafræðin hefur fært okkur til sönnunar á tilvist Jesú, hvað þá að hann hafi verið birtingarmynd Guðs. En Lennox fullyrðir hvort tveggja. Hér hefur hann svo augljóslega rangt fyrir sér.
Lennox beitir einnig mannfræðilegum rökum í málflutningi sínum, í frásögn af Joseph Needham:
He wanted to find out why China, for all its early gifts of innovation, had fallen so far behind Europe in the advancement of science.
He reluctantly came to the conclusion that European science had been spurred on by the widespread belief in a rational creative force, known as God, which made all scientific laws comprehensible.
Þetta er furðuleg röð fullyrðinga - í fyrsta lagi var niðurstaða Needham (og vel að merkja, þetta var fyrir hálfri öld síðan) sú að það voru trúarbrögð Kínverja (Taóismi og Konfúsíanismi) sem hafi haldið aftur af þeim - ekki að kristni hafi ýtt undir í Evrópu (eins og Lennox fulllyrðir). Needham er reyndar frægur fyrir spurninguna (hvers vegna fór Evrópa fram úr Kína) en niðurstöður hans hafa ekki enst vel.
Jared Diamond hefur að mínu viti svarað "Needham spurningunni" manna best, og ekki bara fyrir Kína heldur mannkyn allt. Svarið hefur ekkert með kristni að gera - en bók hans er gríðarlega áhugaverð og ég hvet alla að kynna sér hana ("Guns, Germs and Steel", NY 1997).En Lennox fullyrðir einnig að Needham hafi komið fram með kenningu um að vísindaþróun í Evrópu sé afleiðing af trúnni á einn, skiljanlegan Guð (orðið "rational" merkir hér skiljanlegur eða skilgreinanlegur). Nú má vera að Needham hafi einhvern tímann sagt eitthvað á þessa leið en fullyrðinguna er auðvelt að hrekja með vísun til sögunnar: Annars vegar stöðnunar vísindaframþróunar í 1000 ár (400 - 1400), á meðan Kristnin réð ríkjum í Evrópu, og hins vegar stöðnun vísindaframþróunar í 1000 ár (1000 - 2000) í Íslam þar sem trú á skiljanlegan Guð er ekki minni en í Kristni.
Kína hefur á móti ekki lifað 1000 ára stöðnun í vísindaframþróun - fyrir 700 árum var Kína þróaðasta land í heimi og framfarir voru mjög hraðar. Innrás Mongóla stöðvaði þessa þróun, borgarmenning leið verulegan hnekki og efnahagur hrundi og Kína var í raun verulega skert efnahagslega næstu 500 árin. Vísindaþróun er ekki hröð við slíkar kringumstæður (Evrópa hefur svipaða afsökun fyrir sitt fyrri helming síns stöðnunarskeiðs, Íslam ekki).
Needham skrifaði fyrir hálfri öld eða meira, í dag eru Kínverjar augljóslega að geysa fram á gríðarlegum hraða, bæði efnahagslega og vísindalega. Með núverandi vexti fara Kínverjar fram úr hinum "Kristna" heimi áður en okkar ævi er öll og hafa þar með afsannað eina ferðina enn að trúarbrögð hafa ekker með málið að gera.
Fullyrðingar Lennox eru því nánast tóm tjara - og ekki verður séð að han hafi mikinn skilning á því sem hann tjáir sig um á sviði fornleifafræði, sagnfræði eða mannfræði. Skyldi hann vita meira í eðlisfræði eða alheimsfræðum?
Merkingarfræðileg markleysa
But contrary to what Hawking claims, physical laws can never provide a complete explanation of the universe. Laws themselves do not create anything, they are merely a description of what happens under certain conditions.
Nú veit ég ekki hvort Hawking hafi sagt að eðlisfræðilögmál skýri alheminn til fullnustu. Mér þykir ólíklegt að hann hafi tekið svo stórt upp í sig. En það er ekki heldur rétt hjá Lennox að eðlisfræðlilögmál séu bara lýsing á atburðarás. Kenningar Einsteins og lögmál leidd út frá þeim eru t.d. mjög ákveðnar lýsingar á eðli heimsins - og út frá þeim má bæði skýra og spá fyrir um atburðarás. Slíka lýsingu á eðli heimsins er ekki að finna í trúarbrögðum eða "frumstæðari" vísindakenningum.
Þekkingarfræðileg hringavitleysa
Lennox kemur með athyglisverða skilgreiningu á sannleikanum, skoðum það nánar:
Despite this, Hawking, like so many other critics of religion, wants us to believe we are nothing but a random collection of molecules, the end product of a mindless process.
This, if true, would undermine the very rationality we need to study science. If the brain were really the result of an unguided process, then there is no reason to believe in its capacity to tell us the truth.
Það virðist sem Lennox sé að vísa til þróunarkenningarinnar þegar hann talar um tilviljanakennda samröðun sameinda, afleiðing blindrar atburðarrásar. Það er algengur misskilningur að niðurstöður þróunar séu tilviljanakenndar þótt þróun vissulega byggi á tilviljanakenndum atburðum.
En Lennox virðist meina að þróaður heili (öfugt við skapaðan) hafi ekki getu til að þekkja sannleikann. Hér gæti hann verið að meina tvennt: rökfræðilegan sannleika eða "rétta" þekkingu, þ.e. þekkingu sem samsvaraði raunveruleikanum.
En rökfræði er mekanísk eins og Alan Turing sannaði fyrir 90 árum - sannleiksgildi röksetninga hefur ekkert með hugsun að gera, tölvur fara létt með að finna sannleikann eftir hreinum mekanískum leiðum.
Um sannleiksgildi fullyrðinga um raunheiminn er það að segja að sannleiksgildið ræðst auðvitað af því hversu "rétt" fullyrðingin er. Þar sem raunheimar, t.d. eðlisfræði, er afleiðing sömu ferla og hafa þróað heilann þá er einmitt mjög rökrétt að ætla að þróaður heili geti þekkt sannleikann um raunheima. Við ættum einmitt að óttast hæfileika hins skapaða heila til að þekkja mun á eigin innri starfsemi og hinum ytri raunveruleika, enda væru þessir tveir þættir afleiðingar gjörólíkra ferla.
Nema auðvitað að maður gefi sér að alheimurinn sé einnig skapaður. Þá stenst auðvitað fullyrðing Lennox: Ef alheimurinn og allt í honum er skapað, NEMA mannsheilinn, þá gætum við ekki treyst mannsheilanum. En svona röksemdafærsla er kallað að fara í hringi.
Skýringarfræðilegur misskilningur
Lennox, eins og svo margir aðrir trúmenn, virðast halda að Guð sé skýring á tilurð heimsins. Lennox segir þetta beinum orðum í tilvitnun hér að ofan, um útskýringar: Eðlisfræðin getur aðeins skýrt svo og svo mikið en ef við viljum skýra allan heiminn þá verðum við að hafa Guð sem skapara.
Misskilningurinn felst auðvitað í því að hér sé komin skýring. Alheimsfræðin, samspil eðlisfræði, stjarnfræði og annarra vísinda, leitast við að skýra heiminn eins og við sjáum hann. Heimurinn er flókinn en við skiljum hann betur og betur og komumst sífellt nær því takmarki að skilja hann til fullnustu.
Sumt munum við kannski aldrei skilja, m.a. hvað hugsanlega gerðist við upphaf alheimsins (þótt við höfum þokkalega góða mynd af atburðarrásinni stuttu eftir upphafið). Skilningi okkar er ábótavant og það má vel vera að við höfum ekki hæfileikann til að skilja upphafið, vegna takmarkana í heila okkar.
En guðstrúarmenn setja fram skýringu á því sem við skiljum ekki og segja: Sko, þetta er einfalt, það var bara Guð sem sá um þetta! En þessi Guðs-skýring er miklu flóknari en vandamálið! Ef Guð hefur skapað alheiminn þá er Guð miklu flóknari en alheimurinn. Ef Guð er skiljanlegur (eins og Lennox fullyrðir, hann segir beinlínis að það sé forsenda Kristni að við skiljum Guð og hönnum hans) þá hlýtur Guð að fylgja einhverjum þeim reglum sem við sjáum gilda um allan alheim - t.d. að atburðir þurfa allt í senn, tíma, rúm og orku. Guð getur ekki byrjað sköpunarverkið án þess að vera sjálfur til staðar í einhvers konar tilvist sem er miklu flóknari en það sem hann ætlar að skapa.
Ófyrirséð frelsissvipting
Lennox, eins og svo margir skoðanabræðra hans, halda því gjarnan fram að ekkert geti gerst án orsaka. Mofi endurtekur þetta reglulega. "Some agency must have been involved." fullyrðir Lennox og notar billjarðkúlur sem dæmi: Hvernig kúlan hreyfir sig skýrist af lögmálum Newtons en af hverju hún lagði af stað skýrist aðeins af einhverri ytri orsök.
En ófyrirséð hjá Lennox (og Mofa) eru þeir þar með búnir að kaupa newtonska nauðhyggju - allt á sér orsök, ekkert gerist án orsaka. En í nauðhyggnum heimi er frjáls vilji ekki möguleiki! Mofi hefur nýlega gert mikið úr tilvist frjáls vilja, hann skýrir tilvist hins vonda, illskunnar, í heiminum með einhvers konar kaupsamningi Guðs og manna um illsku fyrir frelsi.
Það er ekki hægt að kalla til einhvers konar guðlegan frelsis-hæfileika sem lausn. Frjáls vilji er orsakalaus atburður - annars er niðurstaðan ekki frjáls, hún er nauðhyggin, hún er bundin atburðarrás orsaka og afleiðinga. Krafan um frjálsan vilja knýr á um orsakalausa atburði. Eitt getur ekki verið til án hins.Þeir Lennox og Mofi geta ekki bæði átt kökuna og étið hana!
Rökfræðilegur ruglingur
Lennox, og Mofi, skoða heiminn í kringum sig og komast að þeirri niðurstöðu að mannleg sköpun og uppruni líffræðilegra kerfa hljóti að vera af sama meiði. Þetta er fullkomlega eðlileg ályktun og að mínu viti einnig fullkomlega rétt ályktun.
En þeir telja báðir að mannleg sköpun sé á einhvern hátt guðleg " - but the task of development and creation needed the genius of Whittle as its agent." segir Lennox og hvort sem hann notar orðið "genius" í upphaflegri merkingu eða ekki þá gerir hann augljóslega ráð fyrir sköpunarhæfileika sem liggur utan þess sviðs sem eðlisfræði eða önnur vísindi ná til - einhvers konar yfirskilvitlegs, guðlegs, sköpunarkrafts.
En jarðbundnari einstaklingur gæti snúið dæminu við og sagt sem svo: Náttúran hefur skapað sinn margbreytileika með náttúrulegum, vísindalega skýranlegum hætti. Skyldi mannleg sköpunargáfa ekki vera skýranleg með sama hætti? Og jú, auðvitað er hún það. Kenningin um þróun tegunda felur í sér einfaldan mekanísma sköpunar sem getur allt eins starfað í mannsheilanum eins og annars staðar í lífheimum.
Þessi mekanismi er vel skýrður og margprófaður og reynist vera mun öflugri en menn áttu von á. Vísindamenn hafa gaman að tilraunum og þróunarfræðilegar tilraunir eru í gangi um allan heim og skila stanslaust nýjum niðurstöðum sem allar benda í sömu átt: Bæði lífkerfi og "hugkerfi" láta smíða sig með þessum sama mekanísma.
Þeir Lennox og Mofi virðast reyndar einnig gera ráð fyrir því að það þurfi meðvitund til að skapa. Á yfirborðinu virkar þetta rökrétt, en í rauninni er þessu ekki þannig farið eins og allir sjá ef þeir hugsa sig um. Meðvitundin þvingar aldrei fram lausnir, meðvitundin skapar ekki neitt. Hún kallar á undirliggjandi kerfi, hún bíður eftir hugmyndum - og stundum bíður meðvitundin án árangurs. En lausnir geta sprottið upp hvenær sem er og hinn mesti sköpunarkraftur leysist einmitt úr læðingin á meðan meðvitundin er hvað mest fjarverandi: Í draumum.
Trúmál | Breytt s.d. kl. 17:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
15.5.2010 | 15:04
Snorri fallinn í náttúrufræði
Trúmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
13.5.2010 | 07:48
Er húmanísk lífsskoðun trú?
Sú gagnrýni hefur komið fram á síðasta pistil minn að heimsmynd eða lífsskoðun sem telur sig trúlausa hljóti að byggja á raunvísindum eingöngu, sem aftur gerir að verkum að húmanísk gildi verði útundan.
Það sem ég reyndi að segja í síðustu færslu minni var að heimsmynd mín er samansett af sannreynanlegum kenningum og skoðunum - kenningar raunvísinda vega vissulega þungt en eru langt í frá það eina sem telur.
Raunvísindin eru takmörkuð þegar kemur að hinu mannlega, siðfræði og heimspekipælingum osfrv., hin vísindalega aðferðafræði dugar skammt í hinu einstaka, ómælanlega. Og siðferðilegar, heimspekilegar hugmyndir eru vissulega stór hluti af heimsmynd minni og flestra annarra.
Sjálfur er ég mjög hallur undir það sem ég hef fundið upp á að kalla lýðræðislegt stjórnleysi sem er auðvitað algjört bull. Ég vitna gjarnan í Dewey hvað varðar lýðræðið, nú á seinni tíð hef ég smitast örlítið af Grundtvigisma hér í Danaveldi. Stjórnleysið er mér í blóð borið (það sem kallað var leti í gamla daga).
Heimsmynd er reyndar tvíþætt, annars vegar getur maður haft skoðanir á því hvernig heimurinn er, hins vegar hvernig heimurinn ætti að vera.
Undir fyrri liðinn fellur auðvitað hinn ytri efnisheimur en einnig við sjálf, maðurinn í allri sinni mynd. Undir hið síðari fellur vilji til að hlutirnir séu með ákveðnum hætti í mannlegu samfélagi, skoðun á að svona eigi hlutirnir að vera og ekki öðruvísi. Siðferðilegur vilji og pólítískar skoðanir falla undir þetta.
Þetta er einmitt það sem við köllum stundum lífsskoðun, gott dæmi er húmanísminn. Eitt af því sem lífsskoðun á borð við húmanísma gerir ekki er að afneita gildismati, þótt hið gagnstæða sé einmitt algeng ásökun trúmanna. Húmanístinn telur ákveðin gildi, ákveðna siðfræði, vera betri en aðrir möguleikar, það er það sem felst í húmanísma.
En þessi gildi spretta ekki af engu, þau spretta í grunninn af þeirri skoðun að lífið eigi að vera bærilegt - jafnvel gott - og að reynslan hafi sýnt að sumt gerir lífið betra en annað.
Ég sem húmanisti bý mér til heimsmynd út frá þeirri einföldu forsendu að ég kýs að lifa góðu lífi. Ég hef velt mikið fyrir mér í hverju það felst, eitt veit ég að sem mannvera á ég erfitt með að hafa það gott þegar aðrir þjást í kringum mig. Reynslan kennir mér að svo sé og raunvísindin geta reyndar stutt að þessi upplifun er ekki bara mín, þetta er nokkuð sem við finnum flest fyrir. Okkur líður sjálfum betur þegar við erum góð við annað fólk, við höfum löngum til að gefa, til að elska, til að gleðjast með öðrum. Maður er manns gaman, gleði er meðal guma. Allt er þetta sannreynanlegt.
Grunnforsendan er ákvörðun um að lifa góðu lífi, vera hamingjusamur. Ákvörðunin sjálf kemur ekki utan frá, hún er innbyggð í okkur líffræðilega, hún er eðlileg ákvörðun - en ekki sú eina sem ég gæti tekið. Ég gæti t.d. valið að lifa vondu lifi, að stefna að sem mestri þjáningu, eða leiðindum - manntýpur Kierkegaard eru einmitt dæmi um einstaklinga sem velja dáldið skrýtnar grunnforsendur fyrir lífi sínu.
Ekkert af þessu eru fantasíur, ekkert af þessu gerir ráð fyrir ósannreynanlegum frumsendum. Trúmaðurinn jafnt sem sá trúlausi tekur þessar grundvallar ákvarðanir, og þær koma innan frá. Sem raunvísindamaður hallast ég undir að þær spretti tilviljanakennt frá líffræðilegum ferlum, en það er algjört aukaatriði.
Leiðin milli trúmannsins og þess trúlausa skilur þegar trúmaðurinn telur sig þurfa að gera ráð fyrir ósannreynanlegum forsendum til að fullnægja grundvallar ákvörðun sinni um hvernig líf hann kýs að lifa. Hinn trúlausi telur sig ekki hafa þörf á því.
Trúmaðurinn er hugsanlega í þessu samhengi að stytta sér leið. Hann hefur markmið sem er gott líf. Hann veit að gott líf þarfnast þess að aðrir séu góðir hver við annan. Það er miklu fljótlegra að kaupa inn í einhverja fantasíu um að ef maður er ekki góður við náungann þá verði maður steiktur í helvíti, en að þurfa að útleiða sjálfstæða lífsskoðun.
Lífsskoðun húmanísmans er valkostur við trú, og það er mikilvægt að við bendum á þennan valkost og gerum okkur grein fyrir í hverju hann felst, hvernig hann er rökstuddur, af hverju hann er betri. Lífsskoðun jafngildir ekki trú, en margir telja trú nauðsynlega forsendu góðrar, mannvænnar lífsskoðunar. Við höfum það hlutverk að sýna að svo er ekki.
Trúmál | Breytt s.d. kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.5.2010 | 12:18
Að sanna og sannreyna - um Gödel, Newton, trú og trúleysi
Að sanna og sannreyna
Ef við tökum eðlisfræðikenningu sem dæmi, t.d. kenningu Newton um aðdráttarafl, þá er hægt að skoða hana á marga mismunandi vegu - það má sannreyna hana á ýmsa vegu og það má sanna ýmsa þætti hennar.Newton þróaði sjálfur nýja tegund stærðfræði til að geta sannreynt kenningar sínar. Það var í sjálfu sér auðvelt að benda á hvers vegna aðdráttaraflið minnkar í hlutfalli við fjarlægðina í öðru veldi: Flestir eðlisfræðingar voru sammála um að þannig hegði orkusvið sér, þau dreifast eins og um yfirborð kúlu sé að ræða og yfirborð kúlu stækkar (krafturinn dreifist) í hlutfalli við radíus í öðru veldi.
En Newton þurfti að sannreyna að þetta ætti einnig við um mælda hreyfingu hnattanna. Hann þurfti sem sagt að setja hreyfingar t.d. tungls og jarðar í samhengi hvor við aðra og sýna að massi þeirra ásamt hreyfingu stæðist kenninguna.
Sú stærðfræði sem Newton notaði var þróuð út frá evklíðskri stærðfræði en hún er einmitt gott dæmi um gödelskt, opið, frumsendukerfi. Án frumsendunnar um að tvær samhliða línur snertist aldrei er ekki hægt að sanna evklíðska flatarmálsfræði; og frumsenduna er ekki hægt að leiða út frá öðrum frumsendum evklíðskrar flatarmálsfræði.
Newton leiddi sína stærðfræði út frá sömu frumsendum og enn erum við með opið gödelskt frumsendukerfi. Hann notaði síðan stærðfræðina til að sannreyna eðlisfræðikenninguna. Engar kenningar verða "sannaðar", en þær má sannreyna aftur og aftur.
Þar sem kenningar um raunheima verða ekki sannaðar þá eru engar slíkar kenningar gjaldgengar sem opin (eða lokuð) frumsendukerfi. Setning Gödel á því aldrei við um t.d. kenningar í líffræði. Hins vegar er vel hægt að segja (og flestir myndu fallast á) að kenningar í líffræði nýta sér kenningar úr öðrum fræðigreinum, og að margar þessara kenninga nýta sér stærðfræðileg frumsendukerfi.
Það er t.d. skemmtilegt að Einstein þurfti að hafna evklíðskri flatarmálsfræði til að geta sannað afstæðiskenninguna, evklíðska frumsendukerfið reyndist nefnilega ekki lýsa raunheimi með réttum hætti (frumsendan um að tvær samhliða línur snertist aldrei er röng).
En allar kenningar innan vísinda eru sannreynanlegar með ákveðnum hætti, það sem við köllum vísindalega aðferðafræði.
Raunveruleikinn
Raunveruleikinn er sannreynanlegur eftir mörgum mismunandi aðferðum. Ég get leitt að því vísindaleg rök að veggurinn fyrir framan mig sé til, út frá burðarfræði, ljósfræði, varmafræði osfrv. Ég get líka bara gengið beint á hann og sannreynt tilvist hans með þeim hætti.En raunveruleikinn er aldrei sannanlegur. Sannanir gilda bara um manngerðar kenningar, og þá aðeins um þær sem gilda innan frumsemdukerfa sem eru röklega uppbyggð og samkvæm sjálfum sér. Kenning sem er sönnuð innan slíks kerfis verður að frumsendu í kerfinu.
Það eru sem sagt engar frumsendur í hinum ytri raunveruleika, aðeins sannreynanlegar kenningar og sannreynanleg fyrirbæri. Það útilokar auðvitað ekki að til séu ósannreynanleg fyrirbæri. Á hinn bóginn getur ósannreynanleg fullyrðing aldrei orðið að kenningu. Slíkar fullyrðingar köllum við fantasíur.
Ósannreynanleg fyrirbæri gætu sem sagt verið til en tilvist þeirra væri þá algjörlega án snertingar við okkar raunveruleika. Allar fullyrðingar um ósannreynanleg fyrirbæri eru því fantasíur.
Heimsmynd sem gengur út frá tilvist ósannreynanlegra fyrirbæra er því fantasíuheimsmynd. Sá sem aðhyllist slíka heimsmynd getur aldrei sannað eða sannreynt hana og neyðist því til að trúa. Slík heimsmynd hefur "frumsendur" sem eru ekki aðeins ósannanlegar, þær eru ósannreynanlegar. Heimsmynd af þessu tagi á ekkert skylt við ófullkomleikasetningu Gödels, ekkert af skilyrðum þeirrar setningar eru uppfyllt.
Heimsmynd sem gengur ekki út frá tilvist ósannreynanlegra fyrirbæra fullnægir kröfum um innra samræmi. Slík heimsmynd krefst ekki trúar, allt sem í henni felst er sannreynanlegt. Heimsmyndin hefur engar frumsendur aðrar en þær sem tilheyra röklega samkvæmum frumsendukerfum (stærðfræði, rökfræði), en hún hefur aragrúa forsendna, kenninga, sem hver um sig er sannreynanleg og í innra röklegu samhengi við aðrar forsendur og kenningar.
Af hverju er Gödel mikilvægur?
Heimspekilega er litið svo á að raunveruleikinn sé lokaður og rökrétt uppbyggður, samkvæmur sjálfum sér. Þessi heimspekilega afstaða hefur gert það að verkum að margir heimspekingar eiga erfitt með að samþykkja skammtafræðileg áhrif sem raunveruleg - þeir vilja margir halda í að skammtafræðin fjalli um sýndarfyrirbæri, sé nánar að gáð muni leynist að baki þeirra hefðbundin, en ósköp smágerð, newtonsk eðlisfræði.Í mínum huga, og margra annarra, er þetta ekki réttur skilningur. Raunheimurinn gæti vel verið rökréttur og samkvæmur sjálfum sér jafnvel þótt skammtafræðin sé raunveruleg. Hin innri rök raunheima væru þá að vísu ekki alltaf þau sömu og hin manngerða rökfræði ætlast til.
Í lok 19. og byrjun 20. aldar virðast margir heimspekingar hafa viljað heimfæra "fullkomnun" raunheima yfir á stærðfræðina, bak við slíka hugsun liggur kannski sú sannfæring að stærðfræðin geri meira en lýsa raunheimum - hún sé beinlínis byggingarefni raunheima. Ef raunheimar eru sjálfum sér nógir, röklega uppbyggðir, samkvæmir sjálfum sér, og allar forsendur (kenningar) þannig að hægt er að leiða þær röklega út frá öðrum kenningum, þá ætti stærðfræðin helst að vera þannig líka.
Það sem Gödel í raun sannaði er að stærðfræðin er takmörkuð, hún á sér ekki sjálfstæða tilvist utan raunheima. Margar nauðsynlegar frumsendur stærðfræðinnar eru raunveruleg fyrirbæri, sannreynanleg í raunheimum en ekki sannanleg stærðfræðilega.
Frumsendan hjá Evklíð, um að tvær samsíða línur snertast aldrei, er fengin beint úr raunheimum og hefur verið sannreynanleg mjög lengi. Einstein grunaði að hún væri engu að síður röng, við þyrftum einfaldlega stærri mælikvarða til að sannreyna að svo væri. Grunsemdir Einsteins hafa seinna verið staðfestar, í raunheimum er það svo að tvær samsíða línur geta snert hvor aðra.
Trú vs. trúleysi
I) Nafnorðið trú eitt og sér hefur ákveðna merkingu í hugum fólks, merkingu sem má lýsa með því sem ég nefndi áður: Heimsmynd sem gefur sér ósannreynanlegar frumsendur krefst trúar. Trú er þá sú sannfæring að ósannreynanlegar frumsendur séu hluti af raunveruleikanum. Trú er því aldrei hægt að rökstyðja eða sannreyna.II) Auðvitað er orðið trú notað í víðari merkingu, sem nafnorð í samsetningum á borð við "það er trúa mín" eða "ég hef trú á" er ljóst að orðið hefur ekki sömu merkingu og í I hér að ofan.
III) Sögnin að trúa er einnig notuð í víðari merkingu, ég get t.d. vel sagst trúa því að flestir fullorðnir íslendingar séu læsir (sannreynanlegt) án þess að ég sé að lýsa yfir trú skv. skilgreiningu I.
Orðið trúleysi er skilgreint út frá orðinu trú og þá eingöngu í merkingu I. Sá sem er trúlaus hefur heimsmynd sem ekki krefst trúar. Heimsmynd hans er samansett af sannreynanlegum kenningum og forsendum.
Flest höfum við einnig sannfæringar sem mynda hluta af heimsmynd okkar. Sannfæring mætti skilgreina sem svo að við teljum víst að ákveðnar forsendur séu réttar, án þess að við höfum sannreynt þær. Munurinn á hinum trúlausa og hinum trúaða er hér að hinn trúlausi getur verið sannfærður um tilteknar sannreynanlegar forsendur, jafnvel þótt hann sannreyni þær ekki sjálfur - hann tekur þær trúanlegar. Um leið er hann reiðubúinn til að breyta skoðun sinni í ljósi reynslunnar.
Sá trúaði hefur einnig sínar sannfæringar, margar hverjar þær sömu og sá trúlausi. En sá trúaði hefur einnig sannfæringar um frumsendur sem hann veit að eru ósannreynanlegar. Hann telur ekki aðeins að frumsendurnar séu trúlegar, að þær séu sannreynanlegar, þvert á móti trúir hann á að þær séu réttar. Reynslan muni ekki skera þar um.
Trúmál | Breytt 13.5.2010 kl. 08:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
16.5.2009 | 11:12
Sr. Svavar og siðfræði kristninnar
Þegar kristin kirkja náði undirtökum í Rómarríki þá var aragrúi hugsuða og stofnana sem sáu um að halda lífi í, þróa og miðla áfram siðferðishugsjónum Grikkja og Rómverja. Kirkjan þaggaði þetta allt niður og setti sína mjög svo vafasömu siðferðishugsun í staðinn. Að hin elsta kirkja hafi gerst einhvers konar miðill grísk-rómverskrar siðfræði er einfaldlega rangt.
Siðfræði gyðinga, eins og hún birtist í GT, var auðvitað hlægileg forneskja á þessum fyrstu öldum okkar tímatals. Einn stærsti glæpur kirkjunnar í siðferðismálum er einmitt að beita þessum gömlu ofbeldisfullu lygasögum fyrir sér sem kúgunaráróður fyrir eigin valdastöðu og græðgi. Verra en versta Nígeríusvindl.
Við eigum nútíma siðrænum hugsjónum að þakka þeim hugrökku hugsuðum sem börðust gegn kirkjuni og sem *endurreistu* hugsanir og hugmyndir fornaldar. Þeir endurreistu siðfræði, mannfræði, vísindi frá 1000 ára kúgun kirkjunnar. Endurreisnin var rót nútímans í andstöðu við kristni og kirkju.
Að kirkja nútímans skuli á yfirborðinu styðja við þá manngildisstefnu sem risið hefur frá endurreisnartímum er dæmi um aðlögunarhæfni hennar. En stuðningurinn er bara á yfirborðinu og ekki einu sinni alltaf þar. Kirkjan og kristnin boðar undirgefni við andaheim, hlýðni við hatursfulla drauga, ótta við eilífar pyntingar. Lesið t.d. síðasta innleg sr. Svavars á Akureyri. Alltaf sami boðskapurinn: "Þú, maður, er aumt og vesælt skorkvikindi og átt að hlýða ímyndaða fjöldamorðingjanum." Þó sr. Svavar orði hugsunina með dæmigerðu nútímaguðfræðilegu mjálmi þá er það þetta sem hann segir. Og meinar.
Trúmál | Breytt s.d. kl. 11:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)