Meirihluti vill aðskilnað, en hefur minnkað mikið frá 2005. Af hverju?

Samkvæmt frétt á mbl.is eru álíka margir hlynntir og andvígir aðskilnaði ríkis og kirkju samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup. Tölurnar hafa enn ekki verið birtar á vefsíðu Gallup en þar má finna niðurstöður úr sömu spurningu frá 2005 (http://www.gallup.is/?PageID=762&NewsID=175). Það ár var tæpur fjórðungur landsmanna hlutlaus, rúmur fjórðungur andvígur en helmingur fylgjandi. Sambærilegar tölur núna (skv. mbl.is) er 45% fylgjandi, 12% hvorki né og 43% andvígur.

Frétt mbl.is er hér,  http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2007/12/28/alika_margir_hlynntir_og_andvigir_adskilnadi_rikis_/ 

Tvær breytingar hafa orðið frá 2005, hvorki/né hópurinn hefur minnkað um helming og andvígi hópurinn hefur stækkað um þá minnkun og rúmlega það. Ef rétt reynist að afstaða almennings til aðskilnaðar ríkis og kirkju hefur breyst svona mikið þá væri fróðlegt að kanna hverjar ástæðurnar eru.

Svipaðar tölur hafa reyndar sést áður hjá Gallup, árið 2004. Þá var sérstaklega tekið fram í niðurstöðum að "harla ólíklegt" væri að breytingin endurspeglaði raunverulega viðhorfsbreytingu hjá þjóðinni.

Í skoðanakönnun sem gerð var fyrir Biskupsstofu og fleiri aðila 2004 var fyrst spurt um stjórnarskráratkvæðið. Þar voru 55% fylgjandi ákvæðinu, 45% andvíg. (Í öllum prósentum er búið að fjarlægja "hvorki/né" hópinn, summan á því alltaf að vera 100%)

Síðan var helmingur svarenda spurðir um aðskilnað ríkis og kirkju en hinn helmingurinn um aðgreiningu ríkis og kirkju. Í fyrri spurningunni voru 52% fylgjandi aðskilnaði  og 48% andvíg (nánast sömu tölur og í Þjóðarpúlsi Gallups núna skv. mbl.is) en í seinni spurningunni voru 62% hlynnt aðgreiningu en 38% á móti.

Eða með öðrum orðum, árið 2004 fengust sömu tölur og núna, þá taldi Gallup að fyrri spurningar hefðu haft áhrif á svör fólks frekar en að um raunverulega breytingu á skoðunum almennings væri að ræða. Árið 2005 fékkst það enda staðfest að 66% voru fylgjandi aðskilnaði en 34% andvíg - tölur í samræmi við fyrri þjóðarpúlsa og við síðari spurninguna (um aðgreininguna) hér að ofan.

Gallup þarf eiginlega að svara því hvort þeir telji núna að um raunverulega skoðanabreytingu sé að ræða hjá þjóðinni eða ekki, bæði í ljósi þess hvað niðurstaðan núna sker sig mikið frá niðurstöðum fyrri ára, allt aftur til 1996, og einnig í ljósi þess að þegar svipaðar niðurstöður fengust árið 2004 (í skoðanakönnun Biskupsstofu) tók Gallup fram að ekki væri um skoðanabreytingu að ræða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Ég efast um að þessi breyting sé endilega komin til að vera. Frekar gæti ég ímyndað mér að þetta endurspeglaði viðbrögð við nokkuð ofsafengnum málflutningi fáeinna trúleysingja að undanförnu.

Þorsteinn Siglaugsson, 29.12.2007 kl. 15:14

2 Smámynd: Theódór Norðkvist

Sammála Þorsteini. Þeir hafa skemmt annars ágætis málstað og dregið úr fylgi við hann.

Annars verður að skilgreina hvað er átt við aðskilnað ríkis og kirkju, að öðrum kosti eru svona kannanir með öllu marklausar.

  • Er bara átt við fjárhagslegan aðskilnað?
  • Er bara átt við aðskilnað ríkis og Lútersku kirkjunnar, eða allra trúarbragða?
  • Er átt við að það megi ekki minnast á Guð í grunnskólum?
  • Er átt við að það megi alls ekkert samstarf vera á milli kristilegra félagasamtaka og ríkis, eða grunnskóla? Að mínu mati væri það jafnfáránlegt og að banna allt starf KR í meðal barna í Hagaskóla.

Þessum spurningum verður að svara til að vit verði í umræðunni.

Theódór Norðkvist, 29.12.2007 kl. 15:39

3 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Sælir félagar.

Það er ekki ósennilegt sem Þorsteinn segir, samþjöppun átti sér líka stað þegar fjölþreifingamálið stóð sem hæst. Auðvitað skipta menn sér frekar í lið þegar hitnar í kolunum.

Fullur aðskilnaður felst í því að ríkið kemur ekkert nálægt trúarlífi einstaklinga, hvorki með því að vernda lagalega eða styrkja fjárhagslega eða innheimta sóknargjöld. Trúfélög starfi algjörlega sjálfstætt og jafnrétti mili þeirra sé tryggt.

Trúarbragðafræðsla verður auðvitað áfram í grunnskólum en það er óeðlilegt að mínu mati að hópar sem byggja á skoðanamyndun hafi aðgang að börnum án leyfis foreldra. KR og kirkjan er engan vegin sami hluturinn og fáránlegt að líkja því saman.

Það á að vera alfarið á ábyrgð og á vegum foreldra hvaða trúaruppeldi þeir vilja að börn þeirra fái. Þegar börn ná fullum þroska og fá lagalega stöðu fullorðinna geta sjálf tekið afstöðu.

Trúarbragðafræðsla ætti auðvitað að vera hluti af samfélagsfræðikennslu ásamt sagnfræði, siðfræði, heimspeki og félagsfræði osfrv. og sem minnst á áróðursplani. Sem hluti af trúarbragðafræðslu á að kenna börnum um þau skoðanakerfi sem ríkjandi eru í samfélaginu í nokkurn veginn hlutföllum við stærð (lúterska, trúleysi, kaþólska, búddísmi osfrv.).

Brynjólfur Þorvarðsson, 29.12.2007 kl. 15:56

4 Smámynd: Ingólfur

Ég tel það ólíklegt að kröfur um trúariðkun sé haldið úr skólunum hafi þessi áhrif. Ég tel það líklegra að rangfærslur um kröfur "trúleysingja" hafi þarna áhrif, enda ekki á hverjum degi sem biskup og þingmenn taka sig saman og falsa afstöðu andstæðinga sinna.

Ég tel það víst að hlutfallið af þeim sem vill aðskilnað verði aftur komið yfir 60% áður en mánuður er liðinn af nýja árinu. Það er ekki spurning hvort heldur hvenær við fáum aðskilnað.

Ingólfur, 29.12.2007 kl. 16:08

5 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Sæll Ingólfur

það er erfitt að greina orsökina. Ég hitti mikið af fólki þessa dagana og það er gríðarleg reiði gagnvart kirkjunni og sérstaklega biskupnum sem ég verð var við á mínum vinnustað (verktakafyrirtæki) og hjá fjarskyldum ættingjum.

En aðskilnaðurinn kemur auðvitað!

Brynjólfur Þorvarðsson, 29.12.2007 kl. 16:12

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

Já, hvers vegna hefur "fylgi við aðskilnað minnkað mikið", Brynjólfur? Ég fæst m.a. við þá spurningu á þessari vefsíðu minni.

Jón Valur Jensson, 29.12.2007 kl. 18:22

7 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Sæll Jón Valur

Þetta er ekkert ólíkleg skýring hjá þér, hef ég verið að halda öðru fram? Mér sýnist við geta verið sammála hér. Enda er ekkert skrýtið að menn þjappi sér saman þegar harðnar í ári.

Tölulega hefur stuðningsmönnum aðskilnaðar ekki fækkað, en andstæðingum aðskilnaðar hefur hins vegar fjölgað. Sú fjölgun kemur úr hópi þeirra sem voru áður "hvorki/né" fylgjandi.

Þetta eru ekki góðar niðurstöður fyrir mig og minn málstað en við skulum sjá hvað gerist næst. Tölurnar sem sýna mikla aukningu í brottskráningum úr Þjóðkirkjunni vísa í hina áttina, þjóðin skiptist í tvö lið og menn taka frekar afstöðu en áður.

Það sem eftir stendur er að jafnvel þegar hinir kristnu þjappa sér saman ná þeir ekki nema að slefa í helming þjóðarinnar og enn erum við minnt á það að hér býr ekki kristin þjóð í neinum skilningi.

En svo fannst mér æðislga krúttlegt að sjá zzzz hjá þér, ertu vanur að nota þann bókstaf? Það er svona últra-hægri-íhaldsmerki á Íslandi í dag að nota zetu, er það meðvitað?

Brynjólfur Þorvarðsson, 29.12.2007 kl. 18:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband