Nýjatestamentisfræði í HÍ erfiðasta akademíska nám sem hægt er að fara í segir guðfræðinemi.

Þetta finnst mér mjög trúlegt og ekki dettur mér í hug að rengja orð guðfræðlingsins enda á hann skilið alla samúð mína. Háskólanám er ekki auðvelt eins og þeir vita sem reynt hafa. Hvort eitthvað eitt sé erfiðara en annað er erfitt að segja, sumt hentar einum betur en öðrum. En hvað þarf til að gera eitthvað að “erfiðasta akademíska námi” sem hægt er að fara í?

 

Sjálfur er ég ekki mikill námsmaður eins og sést af því að ég sit og skrifa þennan pistil í minni “skrifstofu” með fartölvuna á stýrinu á Caterpillar 962H – því miður ekki kominn með internettengingu þar ennþá! Alvöru námsmenn fá auðvitað góðar gráður og vel launaða innivinnu þ.a. ekki telst ég til þess hóps.

 

Reyndar ákvað ég að skella mér í skóla í haust, svona aukalega við minn 11 tíma vinnudag, og tók 20 einingar fyrir jól (15 í sagnfræði, 5 í kennslufræði) með meðaleinkunn 8,5. Ekki fannst mér þetta neitt átakanlega erfitt enda hvort tveggja mikil áhugamál hjá mér. Hérna áður fyrr var ég meira raunvísindalega sinnaður, tók áfanga í stærðfræði, efnafræði, eðlisfræði, líffræði, líffærafræði, jarðfræði, forritun og gekk stundum vel en stundum illa. Þá fannst mér sumt mjög erfitt enda í raun ekki með mikinn áhuga á námsefninu en 109 einingar og eitt BSc próf var nú samt árangurinn af streðinu. Núna eru einingarnar orðnar 129 og aðrar 15 bætast vonandi við í vor. Einhvern tímann hlýt ég að ná upp í mastersgráðu eða jafnvel doktorinn áður en ég lendi á elliheimili.

 

En erfiðasti áfangi sem ég hef lent í var lítill og ómerkilegur kúrs, almennt kallaður “fílan” en heitir réttu nafni Heimspekileg forspjallsvísindi. Nú hlæja kannski einhverjir, “fílan” er leiðinleg skylda en varla alvöru áfangi. En mér fannst þetta ótrúlega erfitt vegna þess að ég uppgötvaði áhuga á efninu en um leið að ég hugsaði ekki rétt. Hugsanaháttur minn var niðurnjörvaður í raunvísindum og tölvuhugsun og hreinlega réð ekki við heimspekileg álitamál og vangaveltur. Ég þurfti að endurtengja hugsanavírana í hausnum og það kostaði átök og mikla erfiðleika.

 

Þannig að ég skil vel guðfræðinginn sem kvartar undan námi í guðfræðideild HÍ. Þar er nefnilega krafist ótrúlegra hugarleikfimiæfinga – akademískt nám á forsendum trúarlegra kennisetninga. Þetta er oxýmórónismi sem hver maður sér að gengur ekki upp, heilinn í heilbrigðum einstaklingi hlýtur að engjast sundur og saman á meðan verið er að tengja hugsanaapparatið upp á nýtt og búa til “guðfræðilegu” tengingarnar sem leyfa mönnum að vera hvort tveggja í senn: Fræðimenn í nýjatestamentisfræðum og trúaðir kristnir.

 

Guðfræði í HÍ hefur alltaf minnt mig á söguna af því þegar umdeildur en áhrifamikill stjórnmálamaður réð sér heimspeking sem upplýsingafulltrúa. Nú þarf hann ekki að ljúga lengur, sögðu menn, hann lætur bara heimspekinginn breyta sannleikanum. Guðfræðingur hefði verið enn betri.

 

Guðfræðideild Háskólans í Kaupmannahöfn er ekki undir þennan hattinn seld. Ég er mikið að spá í að skella mér þangað í haust í master í nýjatestamentisfræðum enda starfa þar tveir fremstu fræðimenn á því sviði, Thomas L. Thompson og Niels Peter Lemche. Þeirra nálgun er eingöngu fræðileg, kristni kemur þeim ekki við nema sem rannsóknarefni. Þannig er alvöru akademísk fræðimennska.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Köben er dejlig...auðvitað er guðfræðideildin hér í HÍ bara prsetaskóli

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 10.1.2008 kl. 21:36

2 Smámynd: Sunna Dóra Möller

Sæll Brynjólfur.

Ég geri ráð fyrir að þú sért að vísa í mín skrif, enda ég nýbúin að tala um þyngd kúrsa í Nt-fræðum við Guðfræðideild HÍ. Ég var nú reyndar ekki að kvarta heldur einfaldlega að lýsa staðreynd. Enda kom fram í framhaldinu að þetta eru skemmtilegir kúrsar, svo skemmtilegir að ég er að skrifa rannsóknarritgerð á þessu sviði, 10e. Prófessor Jón Ma. Ásgeirsson er akademískur fræðimaður og fólki kæmi nú ansi mikið á óvart hversu akademískur hann er enda alltaf verið að tala um guðfræðideildina sem prestaskóla. Hann er virtur fræðimaður, bæði í USA og á Norðurlöndunum og það er enginn svikinn af því að læra af honum enda er hann róttækur á sínu sviði og hefur einbeitt sér að apókrýfum ritum, þá sérstaklega Tómasarritunum en hann vinnur að íslenskri útgáfu þeirra.

Fannst ég verða að leiðrétta þessi skrif þín um meint kvart....svo er líka allt í lagi að nafngreina mig...ég er nú ekki viðkvæm fyrir því !

Bestu kveðjur!

Sunna Dóra Möller, 11.1.2008 kl. 09:28

3 identicon

Það er náttúrulega mjög erfitt að snúa öllu á hvolf: 2 + 2 = 5... ehhh

DoctorE (IP-tala skráð) 11.1.2008 kl. 09:57

4 identicon

Ég á nú bara von á því að hún verði erfiðari og erfiðari, það þarf stöðugt að vera að endurskilgreina eftir því sem þekkingu miðar fram. Menn geta gramsað endalaust í skræðunum þær verða aldrei annað en það sem þær eru.  Einhvertíma verður sett skilti á hurðina þar sem á stendur" Því miður hefur deildinni verið lokað þar sem ljóst er að fræðin eru bara safn af sundurleitum þjóðsögum.

Skuggabaldur (IP-tala skráð) 11.1.2008 kl. 11:20

5 identicon

Uss, hver lifir nú í fornöld?

Guðfræðinn er ekki biblíuskóli. Deildinn er að langmestu leiti sagnfræði með siðferðislegu ívafi. Til að nefna dæmi er gengið út frá GT og NT fræðum útfrá það sem ég kalla hlutlausri trúleysisnálgun. Þú ættir að kíkja á deildina hér áður en þú upprótar fjölskylduna útfrá fordómum. Kaupmannahafnarháskóli hefur einnig fengið mikla gagnrýni fyrir að ganga útfrá að reyna rengja hvaða heimildir sem styðja sagnfræðileg stef i GT. eins og t.d. sigursúlu Merneptah. Þú færð væntanlega fleiri skoðanabræður í DK en ath. að það gæti verið á kostnað sanngirni kennslunar (ekki að ég þekki meira til KBHN háskóla meira en svo).

Gangi þér samt vel, sama hvað þú ákveður að gera

Jakob (IP-tala skráð) 11.1.2008 kl. 11:56

6 identicon

NT fræði er erfið því að sagan er mikil, ýtarleg og erfið. bækurnar margar og langar og túlkanir margvíslegar. tveir "hugsunarskólar" á allt, trú og vantrú stækkar fræðin um helming. Þessvegna er hún erfið.

Jakob (IP-tala skráð) 11.1.2008 kl. 12:00

7 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Einu sinni var talað um að guðfræðin væri ágæt fyrir þá sem ekki treystu sér í framhaldsnám tengdum raunvísindindum, íslensku, tungumálum, sögu, lögfræði og viðskiptum. Menn slumpuðust þar í gegn, voru gjarnan að starfi í lögreglunni eða tollinum jafnhliða námi. Þetta var auðvitað fyrir daga námslána þegar hver þurfti að bjarga sér ef hann hafði ekki ríka foreldra til að fá stuðning. Lifibrauðið var að ráða sig í gott brauð úti á landi þar sem væri barnaskóli þar sem unnt væri að fá kennslu og frystihús þar sem unnt væri að sjá um verkstjórn!

Nú virðist allt vera breytt. Nú er það ekki á færi nema afburðanemenda að leggja fyrir sig guðfræði ef marka má nýjustu fregnir.

Hver er annars stærsti draumur þess sem stýrir jarðýtu? Þegar Mosi starfaði við byggingu Sigölduvirkjunar þá kom einn með þessa stórtæku hugmynd að aka stærstu jarðýtu landsins niður Laugaveginn í Reykjavík! Og með tönnina niðri bætti félagi hans við!

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 11.1.2008 kl. 12:51

8 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Sæl Sunna Dóra

Já, ég var auðvitað að vísa í þín skrif en kunni ekki við að vera að kveina í annarra manna húsum, svona í fyrsta innleggi.

Ég get svo sannarlega vel trúað því að NT fræðin séu erfið, ég er búinn að lesa um þessi mál í mörg ár allt sem ég kemst í og ekki bara eftir vantrúmenn! Góðir guðfræðingar eru góðir guðfræðingar hverju svo sem þeir trúa. En þetta er langt í frá einfalt efni og ekki síst vegna þess hlass sem kirkjann hefur hlaðið á eina litla bók og sem allir þurfa að taka tillit til (og helst reyna að gleyma ef tilgangurinn er sagnfræðilegur).

Guðfræðideildin íslenska hefur nú samt á sér þann stimpil að vera frekar hallur undir trúna, Jakob. Kaupmannahafnarskóli (og háskólinn í Sheffield) eru á hinum vængnum, ég veit það vel. Núverandi prestastétt er að mörgu leyti furðu íhaldssöm í trúmálum og bæði Sigurbjörn gamli og Karl eru mjög íhaldssamir. Svo eru nokkrir "frjálslyndir" prestar, sumum þeirra hef ég kynnst persónulega, og þeir halda sér til hlés.

Annars vorkenni ég þeim alltaf, díkótómían í lífi þeirra er svo vandmeðfarin og hlýtur að trufla þá mjög. Einn prestur sagði einu sinni við mig, "Brynjólfur minn, trúlaus maður er eins og prestur án áfengis". Sá var að ég held í raun trúaður en ekki alltaf mjög kristilegur í sínu lifi.

Raunverulegur skilningur á atburðum í Palestínu 1. aldar fæst aldrei með kristni á bakinu, kristni eru trúarbrögð Rómarveldis sem urðu ekki til fyrr en seinna. Þetta er spennandi viðfangsefni og skapast í grunninn á þeirri skrítnu þverstæðu að kristni getur einfaldlega ekki átt uppruna sinn í Jesú! Það gengur ekki upp jafnvel þótt kraftaverkin og upprisan sé sönn, hann setti ekki fram nein trúarbrögð eða kenningakerfi sem gæti hafa verið upphaf að kristni. Þess vegna skoða ég hinn möguleikann, kristnin hafi búið til Jesú!

Brynjólfur Þorvarðsson, 11.1.2008 kl. 19:20

9 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Takk fyrir góðar óskir Jakob! Sunna Dóra, það er gaman að heyra af góðum fræðimönnum innan guðfræðideildar, annað væri nú nokkuð slæmt. Samt langar mig ekki til að læra þessi fræði hérna heima, ég held að ég hafi útskýrt þetta nokkuð en svo ég endurtaki: Mitt áhugasvið er í rauninni fram að eyðileggingu musterisins og kannski í mesta lagi fram að seinni uppreisn 132-35. Sagnfræðileg nálgun við það tímabil verður að ganga nánast algjörlega framhjá kristni því hún var í raun rétt að verða til þarna, þ.e. sú kristni sem við þekkjum í dag. En einhver forveri hennar var til og til að nálgast hann verður aftur að reyna að gleyma öllu sem við teljum okkur vita um kristni sem trúarbrögð.

Svo lofa ég að kommenta beint hjá þér næst þegar ég vil kvarta (eða bara ekki kvarta)

Brynjólfur Þorvarðsson, 11.1.2008 kl. 19:26

10 Smámynd: Sunna Dóra Möller

Brynjólfur þetta er spennandi sem þú hefur áhuga á að skoða og ég óska þér góðs gengis. Kaupmannahafnarháskóli hefur orð á sér innan Nt-fræða að vera svolítið sér á báti og fara eigin leiðir og það er alls ekki slæmt. Mig minnir að einn helsti Páls sérfræðingur á Norðurlöndunum  og víðar sé þar, Troels Engberg Pedersen! Ég hef lesið margt eftir hann og hann er flinkur. Hann var alla vega í Kaupmannahafnarháskóla.

Það er rétt að guðfræðideildin hefur alið af sér margan íhaldsmanninn..hehe...en með komu nýrra kennara hefur margt breyst. Dr. Sólveig Anna er frábær kennari í sinni siðfræði og telst frekar róttæk og svo Jón Ma. sem hefur aldeilis hrist upp í hlutunum og guðfræðideildin er að útskrifa róttækari guðfræðinga en oft áður. Mér finnst það frábær þróun enda eru þessi fræði skemmtileg sama hvort þú tekur það frá trúfræði eða biblíuvísindalegu sjónarhorni. Það er hægt að skoða þetta frá svo mörgum sjónarhornum. Mítt aðal áhugamál er sjónarhorn kvenna og kynjafræði inn í guðfræði og ritskýringu og hef nú fengið bágt fyrir frá íhaldsömum guðfræðingi hér á blogginu ! Það sýnir bara fjölbreytinina og ég óska þér enn og aftur góðs gengis ef að þú ferð út og það verður gaman að fá þig inn í hóp Nt-fræðinnar! Því fleiri Nt-fræðingar....því skemmtilegri verður samræðan....þó að fólk hafi ólíkar nálganir !

bestu kveðjur!

Sunna Dóra Möller, 11.1.2008 kl. 21:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband