Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
8.3.2012 | 11:10
Aðskilnaður og afsamningur
Þjóðkirkjan samdi illa af sér 1907 og gerði vont verra með samningunum 1997. En ríkið samdi einnig af sér, gekkst undir samning þar sem offé er greitt fyrir litlar eignir. Kirkjan hefði betur valið sænsku leiðina og væri þá núna mun betur sett, en ekki vegna þess að hún gæti "lifað af arði eigna" - það gerir sænska kirkjan ekki og sú íslenska hefði heldur aldrei getað það.
Nýlega skrifaði ég langa grein, nær væri að kalla það ritgerð, um samninga ríkis og kirkju sem endanlega voru frágengnir 1907. Þar kemur meðal annars fram að
- Þjóðkirkjan spyrðir skilyrðislaust saman eignasafnið sem afhent var 1907 og launagreiðslur sem ríkið greiðir til Biskupsstofu. Af þeim eru greidd laun biskups, presta og annarra starfsmanna.
- Þjóðkirkjan hefur reiknað út hversu mikils virði jarðirnar voru sem ríkið yfirtók 1907. Þessa útreikninga vill Þjóðkirkjan ekki birta.
- Ríkissjóður greiðir "arð" af þessum eignum. Til að standa undir arðgreiðslum þyrfti höfuðstóll að vera minnst 100 milljarðir, trúlega mun meira.
- Verðmæti jarðanna er þó ekki nema 1/10 af reiknuðum höfuðstól samkvæmt útreikningum mínum. Ríkissjóður lét svindla á sér!
- Sænska kirkjan gerði ekki jarðaskiptasamning við ríkið heldur héldu kirkjurnar jarðeignum sínum. Arður af þessum eignum stendur engan veginn undir rekstri hennar heldur valfrjáls greiðsla (1% af skattskyldum tekjum) sem innheimt er gegnum skattkerfið og stendur öllum trúfélögum til boða. Tekjur sænsku kirkjunnar eru 50% - 100% meiri en þeirra íslensku miðað við höfðatölu.
Allt í allt liggur ljóst fyrir að Þjóðkirkjan hefur fengið jarðirnar endurgreiddar margfalt síðustu 100 árin. Aðskilnaður nú þyrfti ekki að taka á nokkurn hátt tillit til þessara eigna eða núverandi samnings (sem reyndar má endurskoða einmitt á þessu ári, 15 árum eftir undirskrift).
Aðskilnaður ríkis og kirkju og sænskt fyrirkomulag sóknargjalda myndi vera hagur kirkjunnar, ríkissjóðs og landsmanna allra. Greinina alla með útreikningum og heimildarskrá er að finna á heimasíðu Vantrúar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.10.2010 | 15:30
Vantrú sigrar!
Á fyrstu 300 árum kristni, frá krossfestingu að lögleiðingu, fjölgaði kristnum úr nokkrum þúsund í nokkrar milljónir. Mikill vöxtur, vissulega, en þegar tölurnar eru skoðaðar nánar kemur í ljós að fjölgunin nemur um 40% á áratug, eða aðeins minna en vöxtur Mormónakirkjunnar á 20. öld.
Mormónum fjölgaði um 43% á áratug á síðustu öld en sá vöxtur bliknar í samanburði við vöxt vantrúar í heiminum. Pistillinn sem ég nefni vitnar í merkilega heimild, svokallaða World Christian Encyclopedia ("Alfræðirit heimskristninnar") sem kom upphaflega út árið 1982 en í nýrri útgáfu 2001. Markmið þessa alfræðirits er að birta tölfræði um trúfélög um allan heim, hversu margir tilheyra hvaða trúfélagi á hverjum tíma, alla 20. öldina, frá 1900 - 2000.
Þessi merkilega útgáfa er núna komin á netið, undir heitinu World Christian Database, því miður þarf að borga fyrir aðgang að gagnagrunninum en hann er stöðugt uppfærður af stórum hópi sérfræðinga (samkvæmt upplýsingum á vefsíðu hans). Tilgangur útgáfunnar er víst að mæla gagnsemi kristinnar trúboðsstarfsemi og starfið því væntanlega kostað af kristnum trúboðshreyfingum. Hvað um það, samkvæmt "Alfræðiriti alheimskristninnar" fjölgaði vantrúuðum í heiminum úr 0,2% árið 1900 í 15,2% árið 2001. Trúlausir, vantrúaðir eða hvað maður vill kalla það ("nonreligious") eru sem sagt sjötti hluti jarðarbúa, sjálfsagt rúmur milljarður í dag (tæpur milljarður fyrir 10 árum skv. alfræðiritinu). Þeim hefur fjölgað um 76% á áratug alla síðustu öld. Með sama vaxtarhraða verða trúalausir orðnir 100% jarðarbúa fyrir miðja öldina!
Auðvitað gengur það ekki eftir. En vöxturinn er samt merkilegur, Kristni náði 5-10% útbreiðslu fyrstu 300 árin (innan Rómarveldis), trúalausir eru orðnir 15% eftir 100 ár (meðal alls mannkyns). Ég hef áður haldið því fram að við séum að horfa upp á endalok kristninnar, ekki datt mér í hug að það myndi gerast svona hratt!
Tölur sem ég hef séð birtar í ýmsum skoðanakönnunum sýna að trúlausir (og trúhlutlausir) eru t.d. rúm 16% Bandaríkjamanna og fjölgar hratt, í flestum löndum Evrópu eru þeir einnig kringum 15% (þótt eitthvað sé hlutfallið lægra hér á Íslandi).
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
16.5.2009 | 11:12
Sr. Svavar og siðfræði kristninnar
Þegar kristin kirkja náði undirtökum í Rómarríki þá var aragrúi hugsuða og stofnana sem sáu um að halda lífi í, þróa og miðla áfram siðferðishugsjónum Grikkja og Rómverja. Kirkjan þaggaði þetta allt niður og setti sína mjög svo vafasömu siðferðishugsun í staðinn. Að hin elsta kirkja hafi gerst einhvers konar miðill grísk-rómverskrar siðfræði er einfaldlega rangt.
Siðfræði gyðinga, eins og hún birtist í GT, var auðvitað hlægileg forneskja á þessum fyrstu öldum okkar tímatals. Einn stærsti glæpur kirkjunnar í siðferðismálum er einmitt að beita þessum gömlu ofbeldisfullu lygasögum fyrir sér sem kúgunaráróður fyrir eigin valdastöðu og græðgi. Verra en versta Nígeríusvindl.
Við eigum nútíma siðrænum hugsjónum að þakka þeim hugrökku hugsuðum sem börðust gegn kirkjuni og sem *endurreistu* hugsanir og hugmyndir fornaldar. Þeir endurreistu siðfræði, mannfræði, vísindi frá 1000 ára kúgun kirkjunnar. Endurreisnin var rót nútímans í andstöðu við kristni og kirkju.
Að kirkja nútímans skuli á yfirborðinu styðja við þá manngildisstefnu sem risið hefur frá endurreisnartímum er dæmi um aðlögunarhæfni hennar. En stuðningurinn er bara á yfirborðinu og ekki einu sinni alltaf þar. Kirkjan og kristnin boðar undirgefni við andaheim, hlýðni við hatursfulla drauga, ótta við eilífar pyntingar. Lesið t.d. síðasta innleg sr. Svavars á Akureyri. Alltaf sami boðskapurinn: "Þú, maður, er aumt og vesælt skorkvikindi og átt að hlýða ímyndaða fjöldamorðingjanum." Þó sr. Svavar orði hugsunina með dæmigerðu nútímaguðfræðilegu mjálmi þá er það þetta sem hann segir. Og meinar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
20.4.2008 | 00:19
Þola trúmenn ekki samræður?
Skúli múslímabloggari var ekki í miklu uppáhaldi hjá mér. Mér þótti málflutningur hans oft hatursfullur og einstrengingslegur gagnvart múslímum, hann virtist tína til það versta úr þeirra trúarriti og reyndi að draga upp mynd af íslam sem trúarbrögðum haturs og ofbeldis. Persónulega finnst mér biblían síst skárri og kristnir eiga nú enn vinninginn í illverkum ef við skoðum söguna.
En að það hafi verið ástæða til að banna Skúla af moggabloggi, það bara skil ég ekki. Skúli hefur rétt á að segja sínar skoðanir og það var alltaf fyndið að sjá trúfólkið, uppfullt af "kristilegum kærleika" taka undir hatursboðskapinn - nokkuð sem er þeirra réttur.
Annað sem er einkenni trúmanna er að þeir þola illa málfrelsi, þeir banna þennan og klippa út það sem hinn segir. Trúarbrögð þola ekki frjálsa hugsun. Því miður hafa trúarbrögð enn of sterk ítök í samfélagi okkar. Það er í skjóli þess sem Skúli er bannaður - það er í anda þeirra sem telja að trúarbrögð séu æðri mannlegum rétti. Í anda hins kristilega siðgæðis sem telur að guð hafi forgang.
Maðurinn víkur, málfrelsið víkur, frelsið víkur - trúarbrögðin ríkja. Sá sem ekki makkar rétt er bannaður, frjáls skoðanaskipti er ógnun við kristni jafnt sem íslam.
8.4.2008 | 22:17
Móðgandi myndbirtingar
Engum skal því undra það þótt mönnum sárni þegar ráðist er að þessum grunngildum þeirra, þau hædd og lítilsvirt.
Sjálfsþekking eykst með aldrinum, maður áttar sig á kostum sínum og göllum og því sem skiptir mann máli þegar allt kemur til alls. Kjarni lífsgildanna styrkist og verður sýnilegri hverjum og einum.
Myndbirtingar ofbeldis eru hvarvetna í kringum okkur. Fréttir og frásagnir af ofbeldi eru óþægilegur raunveruleiki lífsins en gerir vonandi það gagn að minnka þol okkar gagnvart valdbeitingu og misþyrmingum, enda fer ofbeldi minnkandi í samfélagi okkar og reyndar á heimsvísu líka, þrátt fyrir á stundum neikvæðan fréttaflutning.
Öll minnumst við barnatrúarinnar með hlýhug, sakleysi bernskunnar þegar jólasveinar gefa í skóinn og jesúbarnið liggur í jötunni, táknmyndir alls hins góða í lífinu. Kannski er barnatrúin æfing þess að við getum, sem fullorðið fólk, verið sannfærð um tilvist mannúðar og ástar og réttlætis? Barnatrúna eigum við öll, með einum eða öðrum hætti, og flest þroskumst við frá henni til ábyrgs lífernis.
Andaktugir lesa menn hina listilega skrifuðu passíusálma, ekki til að gleðjast yfir kveðskapnum heldur til að fagna píningunni. Stórkostleg myndlist er innblásin af þjáningum dauðastríðsins og hengd upp í helgidóminum miðjum til átrúnaðar. Sjöfalt og í yfirstærð.
Eilífar opinberar myndbirtingar þessarar ofbeldisdýrkunar valda mér þjáningum. Að ég sé móðgaður er vægt til orða tekið. En ég þoli þetta, ég lít undan og vona með sjálfum sér að þessu linni einn daginn. Frelsi til tjáningar er mér dýrmætt og þá um leið frelsi til að tjá aðrar skoðanir en þær sem ég tel réttar.
26.3.2008 | 13:45
Skólatrúboð í skjóli ólöglegrar undanþáguklausu?
Grein sem alþingismaður skrifaði í moggann varð tilefni þessarar greinar og ábendingar til umboðsmanns Alþingis (sjá neðst)
Af trúarstarfi í skólum
Höskuldur Þór Þórhallsson alþingismaður skrifar grein undir titlinum Kristilegt siðgæði og Mannréttindadómstóll Evrópu í Mbl 12. mars síðastliðinn og fullyrðir að gildandi lög veiti heimild til undanþágu frá námi í kristinfræði. Þar er hann væntanlega að vísa til 8. og/eða 35. greinar grunnskólalaga.
Við nánari athugun sést að 8. greinin veitir ekki slíka undanþágu enda er eingöngu verið að veita tímabundna lausn frá skólasókn, vegna smalamennsku eða íþróttaferða samkvæmt greinargerð sem fylgdi frumvarpinu á sínum tíma.
Öðru máli gegnir með 35. greinina, þar væri hugsanlega hægt að veita undanþágu á borð við þá sem Höskuldur gerir. Hins vegar er það ljóst af greinargerð með frumvarpinu á sínum tíma að svo er alls ekki.
Í nýlegu frumvarpi menntamálaráðherra er það 15. greinin sem tekur á undanþágum frá námi. Enn er skýrt af greinargerðinni að ekki er gert ráð fyrir að börnum sé sleppt við námsþætti á grundvelli skoðana foreldra þeirra.
Loks má benda i á að námsgreinin Kristin fræði, siðfræði og trúarbragðafræði (KST) verður lögð niður í núverandi mynd samkvæmt frumvarpinu og vandséð hvernig veita eigi undanþágu frá kristinfræði eftir gildistöku nýrra laga.
Tíu prósent afslátt af námi?
Í gildandi aðalnámskrá er þess ekki getið að KST sé valfrjáls námsgrein. Fjallað er um viðbrögð við fjölmenningu á bls. 7 í kafla um KST: Með auknum fjölda barna frá ólíkum menningarsvæðum þarf skólinn að huga að því, í samvinnu við heimilin, hvernig koma má til móts við óskir þeirra og þörf til að fá fræðslu um eigin trú og menningu. Nýta má þá möguleika sem blandaður nemendahópur felur í sér til að kynna nemendum ólíka trú, siði og lífsviðhorf.
Hér er ekki gert ráð fyrir að kennt sé í aðskildum hópum enda væri þá aðeins til námskrá fyrir einn hópinn.
Í viðmiðunarstundarskrá fá samfélagsgreinar ásamt KST að meðaltali þrjár kennslustundir á viku. Ef skipt er til helminga situr hver nemandi í 400 kennslustundum í KST á námsferli sínum, um það bil hálft ár af tíu ára skyldunámi. Varla er ætlast til að börn sleppi hálfu ári úr námi vegna skoðana foreldra þeirra?
Sjötta hvert foreldri, gróft reiknað, er kaþólskt, íslamstrúar, búddísti eða trúlaust en borgar engu að síður jafn mikið til reksturs grunnskólans og aðrir foreldrar og á tilkall til jafngóðrar þjónustu börnum sínum til handa.
Nauðsynlegt nám
Nám í KST er nauðsynlegt enda trúarbrögð stór þáttur samfélagsins og mikilvæg í lífi fjölmargra. Kristni er stór hluti menningar okkar og meiri hluti þjóðarinnar er kristinn eða hliðhollur kristni. Það er því fullkomlega eðlilegt að kristnin hafi þyngst vægi í KST.
Á hvaða forsendum eigum við að sleppa nemendum við þessa kennslu, sem er svo nauðsynleg til að við getum skilið okkar eigin menningu og fengið innsýn í menningu annarra landa?
Eina ástæðan sem ég sé fyrir því að veita nemendum undanþágu frá KST er ef þar færi fram einhvers konar trúarinnræting. Sjálfur vildi ég ekki láta innræta börnum mínum kristni í skólanum og ég geri ráð fyrir því að Höskuldur vildi síður að börnum hans væri innrætt trúleysi. En innræting á auðvitað ekki heima í skólastarfi. Skólinn er fræðslustofnun en ekki trúboðsstofnun... segir í aðalnámskrá og það er því afgreitt mál trúarleg innræting í skólum er enda ekki í samræmi við lög.
Trúarstarf í skólum ótækt
Trúboð og annað trúarstarf á augljóslega ekki heima í skólum af ýmsum ástæðum. Ein þeirra er sú að allir hafa rétt á jafngóðri þjónustu en trúarstarf er aðeins ætlað afmörkuðum hópum. Hvorki námskrá né lög gera ráð fyrir skólastarfi þar sem sumum er sinnt en öðrum ekki og skólanum væri því vandi á höndum að sinna öllum nemendum jafnt eins og þeir eiga kröfu til.
Væri kirkjuferð skipulögð á skólatíma, hvort sem það er á vegum skólans eða annarra, þá þyrfti skólinn einnig að sinna þeim nemendum sem ekki færu í kirkjuna. Eigi trúboð sér stað í skólum, til dæmis sem hluti af KST, þá þyrfti skólinn að bjóða upp á sömu þjónustu fyrir allar trúar- og lífsskoðanir. Allt skólastarf lýtur námskrá sem þyrfti þá að taka tillit til trúarlegra þátta með mismunandi námskrár fyrir mismunandi trúarbrögð og lífsskoðanir.
En það sem kemur endanlega í veg fyrir að trúarstarf geti átt sér stað innan veggja skólans er sú staðreynd að skólinn þarf þá jafnframt að hafa vitneskju um trúarafstöðu foreldra. Mannréttindadómstóllinn tekur af skarið með að slíkt gangi ekki og sama gera íslensk lög um verndun persónuuplýsinga.
ES:
Eftir að hafa lokið við þessa grein var mér bent á að í Almenna hluta Aðalnámskrár væri að finna undanþáguklausu sem hljóðar svona:
"Með hliðsjón af sérstöðu þessara þátta, einkum hvað varðar trúfrelsi, er heimilt að veita einstökum nemendum undanþágu frá ákveðnum þáttum skyldunáms." (Aðalnámskrá grunnskóla 2006, almennur hluti, bls. 26)
Í kjölfarið ákvað ég að beina því til umboðsmanns Alþingis að hann kannaði lögmæti þessarar unanþáguklausu Aðalnámskrár. Bréf mitt til umboðsmanns, ásamt fleiri skjölum, eru talin upp hér fyrir neðan:
Ábendinging til umboðsmanns Alþingis : http://binntho.is/files/umbi.pdf
Dómur Mannréttindadómstólsins gegn Norska ríkinu : http://binntho.is/files/norskidomur.pdf
Skýrsla Reykavíkurborgar um samstarf skóla og trúfélaga : http://binntho.is/files/rvk_skolar_tru.pdf
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
10.3.2008 | 19:23
Kaþólskir velkomnir!
Og reyndar allir aðrir! Ef þið hafið gaman að sagnfræði, sannleika og kaþólsku (þríhyrndur oxímórónismi) þá endilega kíkjið á www.vantru.is .
11.1.2008 | 20:16
Vinaleið fær falleinkunn (birtist í Morgunblaðinu 11. janúar 2008)
Bæjarráð Garðabæjar samþykkti vorið 2007 að leita til sérfræðinga hjá KHÍ til að meta réttmæti og gildi vinaleiðar og hafa þeir nú sent frá sér skýrslu en tengingar á hana er að finna á vefsíðunni blogg.visir.is/binntho.
Skýrsluhöfundar fóru þá leið að vinna skýrsluna eingöngu út frá faglegum sjónarmiðum skólastarfs en taka ekki afstöðu til þess hvort aðkoma kirkju að skólastarfi sé réttmæt þegar horft er til almennra laga í lýðræðisþjóðfélagi.
Úrskurður Evrópudómstólsins í Strasbourg gegn norska ríkinu virðist þó taka af öll tvímæli um að starfsemi trúfélags innan almenns skólakerfis standist ekki almenn mannréttindaákvæði.
Starfsmenn Þjóðkirkjunnar hafa ítrekað í ræðu og riti staðfest að vinaleið sé trúboð og biskupinn taldi hana sóknarfæri fyrir kirkjuna. Það þarf því heldur ekki að velkjast í vafa um að vinaleið stangist á við lög um grunnskóla, siðareglur kennara, stjórnarskrá og ýmsa þá alþjóðasamninga um mannréttindi sem íslenska ríkið er aðili að.
Farin og hætt
Vinaleið hófst haustið 2006 í fjórum grunnskólum í Garðabæ og á Álftanesi að frumkvæði sóknarprests. Tveir starfsmenn tóku að sér að sinna verkefninu, djákni og skólaprestur. Vegna andmæla foreldra var gripið til þess ráðs í tveimur skólanna að gefa foreldrum kost á að taka fram sérstaklega ef þeir vildu ekki gefa starfsmönnum vinaleiðar færi á börnum sínum. Þessari gagnasöfnun var vísað til Persónuverndar sem hafði samband við skólastjóra viðkomandi skóla haustið 2007. Á sama tíma sagði djákni starfi sínu lausu og féll vinaleið þar með niður í Flataskóla. Skólastjórar Sjálandsskóla og Hofsstaðaskóla virðast hafa ákveðið að framlengja ekki starfsemi vinaleiðar og er hún því ekki lengur starfrækt í grunnskólum Garðabæjar en skólaprestur starfar enn í Álftanesskóla.
Ekki á forsendum skólastarfs
Fram kemur í áðurnefndri skýrslu að flest jákvæð ummæli sem féllu í viðtölum megi rekja til ánægju með skólaprestinn sem einstakling enda virðist hann hafa náð vel til barnanna og starfsmanna skólans. Að öðru leyti virðist vinaleið engan veginn standast þær kröfur sem gera verður til faglegs skólastarfs. Sú réttlæting sem oft heyrist, að aðkoma Þjóðkirkjunnar að grunnskólum sé á forsendum skólanna, virðist því ekki standast.
Hugmyndafræði vinaleiðarinnar er óljós og framkvæmd hennar illa afmörkuð að mati skýrsluhöfunda. Eigi framhald að verða á vinaleið þurfi að draga fram með skýrum hætti hver sérstaða hennar sé og meta framhaldið á grundvelli þess. Höfundar benda á að sé um hefðbundna sálgæslu að ræða eigi hún heima innan kirkjunnar en verði niðurstaðan sú að vinaleið taki til víðara sviðs eru viðfangsefnin og eðli þjónustunnar þannig að þau eigi heima hjá þeim aðilum sem þegar sinna slíkri þjónustu innan skólans.
Skýrsluhöfundar gagnrýna einnig aðferðarfræði vinaleiðarinnar, þar sé farið inn á svið sem aðrir fagaðilar sinna þegar en án fagþekkingar með þeim afleiðingum að samstarf fagaðila innan skólans er í hættu. Ekki eru haldnar skýrslur eða skrár um viðtöl, engin markmið séu sett fram, engin greining, engin meðferðaráætlun. Fyrst og fremst er um einsleg trúnaðarsamtöl að ræða, jafnvel án vitneskju foreldra, og skýrsluhöfundar gagnrýna þessa aðferðafræði réttilega.
Spyrja má hvort ítrekuð einsleg trúnaðarsamtöl um viðkvæm málefni, án faglegra forsendna, séu ekki hreinlega hættuleg börnum.
Vantar ákvörðun og fjármagn
Skýrsluhöfundar gagnrýna hvernig staðið var að innleiðingu vinaleiðar. Lögformlegum leiðum var ekki sinnt, foreldraráð og skólanefnd fjölluðu ekki um málið fyrirfram og starfsmönnum var tilkynnt um það sem orðnum hlut. Skýrsluhöfundar benda á að þar sem vinaleið sé ekki hluti af lögboðinni þjónustu skóla sé nauðsynlegt að sveitarfélög taki formlega afstöðu til þess hvort þjónustan skuli veitt.
Um leið þurfi að taka afstöðu til kostnaðar. Skólaprestur er mjög dýr á mælikvarða skólastarfs enda eru byrjunarlaun hans um það bil þrefalt hærri byrjunarlaunum kennara sem þó er fagmenntaður til starfa með börnum. Fram kemur í skýrslunni að hörð andstaða sé innan skólanna gegn því að greiða kostnaðinn enda þurfi þá að skerða aðra þjónustu.
Vinaleið í Garðabæ var fjármögnuð að mestu leyti með framlagi eins foreldris en auk þess lagði kirkjan til fjármagn auk sveitarfélagsins Álftaness. Komi til framhalds á starfsemi vinaleiðar er ljóst að sveitarstjórnir þurfa að taka formlega afstöðu til hennar og jafnframt að tryggja fjárveitingar.
Enginn grundvöllur
Skýrsluhöfundar mæla ekki með framhaldi á starfsemi vinaleiðar en segja í lokaorði að brýnt sé að hagsmunaaðilar ræði og taki afstöðu til þess hvort réttmætt sé að kirkjan komi að skólastarfi en fallist menn á það þurfi að fara fram hreinskiptin skoðanaskipti um hugmyndafræði, markmið og leiðir með starfinu.
Af lestri skýrslunnar má sjá að vinaleið er klúður og best færi á því að henni væri hætt með öllu, þó ekki sé nema vegna barnanna sjálfra.
10.1.2008 | 20:14
Nýjatestamentisfræði í HÍ erfiðasta akademíska nám sem hægt er að fara í segir guðfræðinemi.
Þetta finnst mér mjög trúlegt og ekki dettur mér í hug að rengja orð guðfræðlingsins enda á hann skilið alla samúð mína. Háskólanám er ekki auðvelt eins og þeir vita sem reynt hafa. Hvort eitthvað eitt sé erfiðara en annað er erfitt að segja, sumt hentar einum betur en öðrum. En hvað þarf til að gera eitthvað að erfiðasta akademíska námi sem hægt er að fara í?
Sjálfur er ég ekki mikill námsmaður eins og sést af því að ég sit og skrifa þennan pistil í minni skrifstofu með fartölvuna á stýrinu á Caterpillar 962H því miður ekki kominn með internettengingu þar ennþá! Alvöru námsmenn fá auðvitað góðar gráður og vel launaða innivinnu þ.a. ekki telst ég til þess hóps.
Reyndar ákvað ég að skella mér í skóla í haust, svona aukalega við minn 11 tíma vinnudag, og tók 20 einingar fyrir jól (15 í sagnfræði, 5 í kennslufræði) með meðaleinkunn 8,5. Ekki fannst mér þetta neitt átakanlega erfitt enda hvort tveggja mikil áhugamál hjá mér. Hérna áður fyrr var ég meira raunvísindalega sinnaður, tók áfanga í stærðfræði, efnafræði, eðlisfræði, líffræði, líffærafræði, jarðfræði, forritun og gekk stundum vel en stundum illa. Þá fannst mér sumt mjög erfitt enda í raun ekki með mikinn áhuga á námsefninu en 109 einingar og eitt BSc próf var nú samt árangurinn af streðinu. Núna eru einingarnar orðnar 129 og aðrar 15 bætast vonandi við í vor. Einhvern tímann hlýt ég að ná upp í mastersgráðu eða jafnvel doktorinn áður en ég lendi á elliheimili.
En erfiðasti áfangi sem ég hef lent í var lítill og ómerkilegur kúrs, almennt kallaður fílan en heitir réttu nafni Heimspekileg forspjallsvísindi. Nú hlæja kannski einhverjir, fílan er leiðinleg skylda en varla alvöru áfangi. En mér fannst þetta ótrúlega erfitt vegna þess að ég uppgötvaði áhuga á efninu en um leið að ég hugsaði ekki rétt. Hugsanaháttur minn var niðurnjörvaður í raunvísindum og tölvuhugsun og hreinlega réð ekki við heimspekileg álitamál og vangaveltur. Ég þurfti að endurtengja hugsanavírana í hausnum og það kostaði átök og mikla erfiðleika.
Þannig að ég skil vel guðfræðinginn sem kvartar undan námi í guðfræðideild HÍ. Þar er nefnilega krafist ótrúlegra hugarleikfimiæfinga akademískt nám á forsendum trúarlegra kennisetninga. Þetta er oxýmórónismi sem hver maður sér að gengur ekki upp, heilinn í heilbrigðum einstaklingi hlýtur að engjast sundur og saman á meðan verið er að tengja hugsanaapparatið upp á nýtt og búa til guðfræðilegu tengingarnar sem leyfa mönnum að vera hvort tveggja í senn: Fræðimenn í nýjatestamentisfræðum og trúaðir kristnir.
Guðfræði í HÍ hefur alltaf minnt mig á söguna af því þegar umdeildur en áhrifamikill stjórnmálamaður réð sér heimspeking sem upplýsingafulltrúa. Nú þarf hann ekki að ljúga lengur, sögðu menn, hann lætur bara heimspekinginn breyta sannleikanum. Guðfræðingur hefði verið enn betri.
Guðfræðideild Háskólans í Kaupmannahöfn er ekki undir þennan hattinn seld. Ég er mikið að spá í að skella mér þangað í haust í master í nýjatestamentisfræðum enda starfa þar tveir fremstu fræðimenn á því sviði, Thomas L. Thompson og Niels Peter Lemche. Þeirra nálgun er eingöngu fræðileg, kristni kemur þeim ekki við nema sem rannsóknarefni. Þannig er alvöru akademísk fræðimennska.
Ótrúlegasta birtingarform þeirrar sjálfviljugu blekkingar sem heitir trú er hin kristna sköpunarhyggja. Það er illskiljanlegt að fullorðið fólk skuli trúa á jafn mikla vitleysu, svipað og að trúa á jólasveininn. Reyndar er sköpunin forsenda kristinna kennisetninga þ.a. það er kannski ekki við öðru að búast í samfélagi sem ríkisstyrkir blekkingarmeistarana. Þeir sem láta plata sig, en eru kannski sæmilega greindir eða rökfastir, hljóta að komast að þeirri niðurstöðu að sköpunin sé nauðsynleg forsenda kristninnar. Síðan er það spurning um að velja - heilbrigða skynsemi eða dogmatíska sköpunarhyggju.
Eitt það fyrsta sem sköpunarsinnar verða að hætta að skilja eða taka mark á eru vísindin. Algengasta aðferðin er sú að draga fram hinar og þessar vísindalegar kenningar sem hafa reynst vitlausar, eða sem eru ekki enn nógu góðar, og hafa þar með afsannað alla vísindalega hugsun!Reynar er mjög algengt að fólk rugli saman vísindalegri þekkingu vs. vísindalegri aðferðafræði. Þekking hvers tíma er ekki endanleg en vísindaleg aðferðarfræði er eina leiðin til að komast að hinu raunverulega. Svo finnst mér óvarlegt af þér að segja að eitthvað sé "vísindalega sannað".
Vísindin og vísindaleg aðferðarfræði er mjög ungt fyrirbæri, segjum að upphafið sé hjá Njúton og Cartesíusi fyrir um 300 árum. Alveg síðan þá hefur vísindaleg aðferðarfræði sannað sig aftur og aftur og aftur og aftur. En vísindalegar kenningar hafa oft verið bölvað bull. Til dæmis sú jarðfræðikenning að meginlöndin væru kjurr en hreyfðust upp og niður. Rökrétt á sínum tíma en afskrifað í dag.
En vísindaleg aðferðarfræði, sem byggist á þeirri kenningu að allt sé skýranlegt með vísindum út frá vísindalegum forsendum, hefur skapað heimsmynd sem er svo ótrúlega miklu flóknari og margreytilegri í alla staði en nokkurn hefði órað fyrir þegar biblían var skrifuð og allt þar til á allra síðustu öldum. Hér gildir engu hvort við skoðum allra smæstu einingar efnisins eða þær allra stærstu, hvort við tökum eðlisfræði eða efnafræði eða efnisfræði eða lífvísindin öll. Heimurinn er ótrúlega gríðarlega miklu flóknari en menn töldu og allt þetta höfum við uppgötvað með vísindalegri aðferðarfræði.
Sumt er enn utan færis vísindanna, er einfaldlega of flókið til að festa hendur á með núverandi þekkingu þótt eitthvað miði áleiðis. Til dæmis mannsheilinn og þetta furðulega fyrirbæri meðvitund sem virðist vera eitthvert það flóknasta sem til er. Í einum mannsheila eru fleiri mögulegar leiðir fyririr taugaboð að fara frá einum enda til annars en eru frumeindir í alheiminum. Það sem gerist í þessum eina mannsheila er af sömu af stærðargráðu og allur tölvubúnaður heimsins samanlagt (þetta var reyndar áætlað fyrir nokkrum árum, allar tölvur heimsins gætu verið farnar að ná samanlagðri heilastarfsemi tveggja einstaklinga, og þá er aðeins átt við margbreytileika í raflögnum, ekki margbreytileika í starfsemi sem er í væntanlega miklu meiri).
Vísindaleg aðferðarfræði hefur skapað þann heim sem við þekkjum í dag. Án hennar engin iðnbylting, engin tölvubylting. Ekkert internet, ekkert rafmagn, engir bílar, engin nútíma sjúkrahús, engin þægileg innivinna. Áður vann ég sem forritari og tölvukall, núna vinn á hjólaskóflu, hvorki hún né tölvurnar væru til án vísindalegrar aðferðarfræði.
Það sem mér finnst furðulegast við hugsunarhátt sköpunarsinna, og jafnvel allra kristinna, er að þeir virðist ekki hafa hugarflug til að skilja hvað þeir í raun trúa á. Ef það væri rétt að guð hafi skapað heiminn þá er guð svo gríðarlega ótrúlegt fyrirbæri að engin orð ná að lýsa því. Öll okkar þekkingarleit síðustu 300 árin með vísindalegri aðferðarfræði er eins og barnaleikur, eins og að klóra í málninguna á húsi raunveruleikans.
Guð væri nánast óendanlega flókinn og tilvist hans óendanlega ólíkleg. Samt helda menn þessu fram án þess að falla bókstaflega í stafi yfir því að láta sér detta annað eins í hug, eins og þetta sé eitthvað sjálfsagt. Mörgum finnast kenningar skammtafræðinnar illskiljanlegar og margt þar ganga á móti almennri skynsemi. Guð slær almenna skynsemi kalda og verður aldrei skiljanlegur.
Ef guð er til þá er heimurinn svo geigvænlega flóknari en við höldum að það er eiginlega ekki hægt að lýsa því. Kenningin um guð væri ótrúlegasta og ólíklegasta kenning sem hægt væri að setja fram. Samt gera menn það, kannski án þess að átta þig á því sem þú eru að segja? Kannski skilja þeir þetta ekki? Halda einhverju fram sem þeir vita ekki hvað er?
Á hvaða rökum eða forsendum byggir þeir kenningu þína? Hvar eru sönnunargögn þessarar alheimsbyltandi heimsmyndar sem þeir heldur fram?
Heimsmynd nútímans er þróuð með vísindalegri aðferðarfræði. Öfugt við það sem flestir halda þá er ekkert, akkúrat ekkert, sem hægt er að sjá frá jörðu niðri án sjónauka sem bendir til þess að jörðin sé á hreyfingu. Jarðmiðjukenningin er hin eðlilega niðurstaða fornaldar og miðalda. Brúnó og Kóperníkus settu sólmiðjukenningar sínar fram jafnvel á trúarlegum forsendum frekar en vísindalegum (einkum Brúnó) en stjórnuskoðanir Galíleós færðu frekari rök fyrir henni þó þau væru ekki óyggjandi. Þegar síðan Tycho Brahe ætaði að afsanna sólmiðjukenninguna með vísindalegum athugunum réð hann ekki við stærðfræðina og fékk Kepler til að reikna fyrir sig.
Kepler uppgötvaði að útreikningarnir gengu einmitt best upp með sólmiðju + sporbaug. Þar með voru komin mjög sterk rök fyrir sólmiðjukenningunni en fram að Kepler voru í raun engin óyggjandi rök með henni. En engum datt í hug að stjörnurnar væru eins langt í burtu og þær eru, smám saman uppgötvuðu menn að flestar þeirra væru ótrúlega langt í burtu en engan óraði fyrir fjarlægðum á borð við þær sem eru í vetrarbrautinni. Það er ekki fyrr en með Hubble, við upphaf 20. aldar, sem menn fara að gruna að til séu aðrar vetrarbrautir og menn fara að skynja hina raunverulegu óravídd geimsins - og smæð okkar.
Þessi heimsmynd stjörnufræðinnar er studd gríðarlega mörgum athugunum og útreikningum. Það er ekki sjálfgefið að hún sé hin endanlega og eina sanna heimsmynd en það er miklu fleira sem styður hana í öllu því sem við þekkjum í dag heldur sem mælir á móti. Þessi heimsmynd er gríðarleg í ótrúleika sínum miðað við jarðmiðjukenningar miðalda. Hún er samt eins og rykkorn í samanburði við guðmiðjukenningu biblíunnar. Sú kenning hefur engin haldbær rök á bak við sig. Það heldur enginn henni fram í alvöru sem gerir sér grein fyrir því hversu ótrúlega miklu ólíklegri sú kenning er miðað við allar aðrar. Engar mæliniðurstöður, engar kenningar leiddar fram með vísindalegri aðferðarfræði, engar tilgátur um sennilegar orsakir og afleiðingar. Bara eitt stórt alheimssvarthol sem heitir guð.
Guð er sú ótrulegasta kenning sem hægt er að koma fram með til skýringar á nokkrum hlut. Hún er þar að auki óþörf, við höfum nóg af öðrum skýringum og mjög öfluga leið til að finna fleiri. Loks eru engar staðreyndir sem styðja hana á nokkurn hátt. Þessar þrjár staðreyndir, þ.e. guð er með ólíkindum ótrúlegur, óþarfur og án sönnunargagna, gerir það að verkum að allar tilraunir til að skýra eitthvað út frá guði, eða halda einhverju fram í tengslum við guð eða um guð eins og maður viti eitthvað um hann, eru í raun hlægilegar.