Er ekki allt í lagi þótt prestar bjóði fram þjónustu sína í skólum?

 

Prestar eru ekki bara með tilboð. Ég var í barna-afmæli rétt áðan, hjá systur minni sem lét skíra bæði sín börn þótt hún segist sjálf varla vera kristin og hefur engan áhuga á að kristniboði sé beint að börnunum hennar.

Í leikskólanum þar sem dóttir hennar fer er reglulega beðið bænir með presti/djákna og æfðir helgileikir sem sýndir eru í kirkjunni. Í skólanum er verið að kenna syni hennar að guð hafi skapað heiminn. Þar er líka farið reglulega í kirkju og þar eru líka beðnar bænir.

það var aldrei neitt tilboð. Ef prestur einu sinni yfir önnina og segir, "krakkar, komið í sunnudagaskóla, það er frábært" þá sé ég ekkert athugavert við það. Þegar foreldrar fá bréf heim þar sem þeir þurfa að tilkynna ef þeir vilja ekki að börnin þeirra taki þátt í trúarlegu starfi í skólanum þá er það ekki í lagi. Þannig bréf fékk systir mín. Hverju átti hún að svara? Hvar áttu börnin að vera? Það er í lögum að öll börn eiga að fá sömu fræðslu í skólum, átti núna að taka hennar börn til hliðar? Nei, hún svaraði ekki bréfinu. Persónuvernd er reyndar nýbúin að taka svona fyrirspurnir til meðferðar enda ljóst að það kemur skólanum ekki við hver trúarafstaða foreldra barna er. Á að fara að halda gagnagrunna í skólum um hverjir séu kristnir og hverjir ekki?

Börnin mín tvö eru bæði í unglingadeild. Standa sig vel og finnst skólinn skemmtilegur. Núna eru þau hins vegar aftur og aftur að tala um kirkjuferð sem alltaf er farin rétt fyrir jól. Þau vilja ekki fara en þora ekki að tala um það í skólanum. Þau vilja ekki að ég tali um það heldur svo ég þegi. En þeim finnst sér misboðið og kvarta við mig. Þetta er ekki tilboð, þarna eru börnin dregin á skólatíma í kirkju til að sitja guðsþjónustu þar sem presturinn segir þeim hluti sem ég held að séu ósannir og ég vil ekki að fullorðið fólk sé  að segja börnunum mínum. En það spurði mig enginn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óli Jón

Þetta er nákvæmlega málið. Börnin eiga ekki að þurfa að afþakka þetta 'tilboð' því það á ekki að vera upp á borðinu. Þeir sem vilja ala börn sín upp í trú gera það sjálfir í sínum frítíma; foreldrar eiga ekki að nota skólann sem millilið þar. Kirkjan á þannig ekki að herja á börnin sem ekki hafa þroska til að íhuga með gagnrýnum huga það sem aðili í valdstöðu hefur fyrir þeim innan veggja skólans þar sem þeim er uppálagt að meðtaka allt gagnrýnilaust. Slíkt fyrirkomulag er öllum hlutaðeigandi til minnkunar.

Ofangreint merkir ekki að hætta eigi að fræða börn um trú í sérstökum kennslustundum í trúarbragðafræðum. Slíkt er bara af hinum góða meðan kennslan er fer fram með hlutlausum hætti.

Virðum réttinn til trúleysis til jafns á við réttinn til trúar.

Óli Jón, 10.12.2007 kl. 00:55

2 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Kannast við þetta. Vildi lengi ekki mótmæla neinu af ótta við að börnin yrðu látin gjalda þess, af skólans hálfu eða félaganna. Fyrir ári gerði dóttir mín, þá 14 ára, sjálf uppreisn. Sú saga er of löng hér en það var fróðleg reynsla og er ég mjög hugsi yfir aðkomu kirkju að skóla síðan. Ekki síður yfir afstöðu skólayfirvalda til þessara mála, mín reynsla er að skólinn er orðinn of samdauna þessu og skilningur þar meðal margra starfsmanna ótrúlega lítill. Börn eru sett í þá aðstöðu að þurfa að útskýra afstöðu sína til jóla og trúar fyrir kennurum. Það er óviðunandi.

Kristjana Bjarnadóttir, 10.12.2007 kl. 10:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband