Vangaveltur um kristni og boð í skólum

Undanfarið hafa margir skrifað og skrafað um stöðu kristninnar innan skólakerfisins. Eftirfarandi eru smá hugleiðingar um þessi mál. Mér finnst ekki alltaf ljóst í umræðunni hvort verið sé að fjalla um úrskurð SÞ eða dóm Mannréttindadómstóls Evrópu. Það er náttúrulega sá síðarnefndi sem veldur því að verið er að gera "kristinfræðibreytinguna" á grunnskólalögunum eins og Þorgerður Katrín er búin að benda á í fjölmiðlum í dag. Ég hef hvorugan lesið, ætla að gera það við tækifæri en ekki virðist það nú vera auðsótt mál.

Varla dettur nokkrum manni í hug að það séu mannréttindabrot að stunda trú eða taka þátt í trúariðkunum. En er ekki mannréttindabrot að láta börn taka þátt í trúariðkunum án þess að fá leyfi frá foreldrum? Guðmundur Finnbogason, einn helsti hugsuður okkar í menntamálum, skrifaði árið 1903: "Þetta fyrirkomulag [kristnidómsfræðsla utan alþýðuskólakerfisins] er nálega óhjákvæmilegt, þar sem svo hagar til, að ýms meir eða mina fjarskyld trúarfélög verða að senda börn sín til sama skólans. Foreldrarnir eiga rétt á að uppala börn sín í þeirri trú eða lífsskoðun, sem þeir sjálfir aðhyllast ..." (Guðmundur Finnbogason: Lýðmenntun, Reykjavík 1994 bls. 115)

Hlutverk skóla er að fræða nemendur. Rík hefð er fyrir því á Íslandi að fræða alla nemendur, þ.e. skólinn er fyrir alla, enda er þetta bundið í lög og yfir 99% barna á grunnskólaaldri sækja almenna grunnskóla. Sumir skólar (t.d. Austurbæjarskólinn) hafa leyft nemendum að sleppa við "Kristinfræðina" vegna trúarafstöðu foreldra. Slíkt er ekki leyft skv. námskrá og ekki gert ráð fyrir því í lögum en mér skilst að t.d. Menntamálaráðuneytið horfi í gegnum fingur sér með það. Er ekki verið að viðurkenna "boðunarhlutverk" kristindómsfræðslunnar með því að leyfa foreldrum ekki-kristinna barna að sleppa henni? Á hvaða annarri forsendu þá? Einhverjir gallharðir íhaldsmenn gætu verið á móti því að börnum sé kennd samfélagsfræði, öfgasinnaðir sjálfstæðismenn gætu verið á móti dönsku, kommúnístar gætu verið á móti agakerfi. Eiga foreldrar að velja og hafna því hvaða námsgreinar börnin sitja í skólanum, á grundvelli lífsskoðana foreldra? Nei, auðvitað ekki, enda væri svar skólans alltaf að kennslan væri hlutlaus í þessum fögum, eða hluti af almennu hlultverki skólans. Kristinfræðikennslan er það greinilega ekki fyrst hægt er að sleppa við hana.

Ef boðunarhlutverk "kristinfræðinnar" er viðurkennt, eða ákveðinna þátta hennar eins og var í Noregi, og börnum leyft að sitja hjá vegna trúarskoðana foreldra, verður skólakerfið þá ekki að bjóða þeim börnum upp á sambærilega menntun? Mín börn féngu þá heimspeki og siðfræði, innflytjendabörn gætu fengið íslam eða búddatrú og jafnvel kaþólska eða grísk-orþódoxa eftir því sem við á. Allir eiga að vera jafnir fyrir lögum og fyrir þjónustu ríkisstofnana. Ef "kristinfræði" er kristin boðun (og þá jafnvel lútersk) og börnum þess vegna leyft að sitja hjá, eiga þau þá ekki rétt á annarri "boðunargrein" í samræmi við trúarskoðanir foreldra?

Ef foreldrum nemenda er boðið upp á að taka ekki þátt í trúarlegu athæfi í skólum þarf skólinn að afla upplýsinga um það. Er það á verksviðið skóla að fylgjast með trúarafstöðu foreldra og barna? Það þyrfti þá að setja í lög að svo sé.

Ef sumir nemendur eru í sérhópi, taka ekki þátt í ákveðnu námsefni og ákveðnum athöfnum utan og innan skólans, er ekki verið að búa til tveggja-þjóða samfélag? "Alvöru" íslendingar alá Guðna Ágústss og Kalla biskup, og svo þessa lélegu og svikulu gervi-íslendinga sem eru gagnvart hinum eins og ísköld þoka af hafís (skv. biskupi). Er það þannig þjóðfélag sem við viljum? Þjóðerniskirkju sem stundar þjóðernisrækt í skólum, hvort sem það var nú markmiðið eða ekki, og þeir sem eru ekki með eru stimplaðir "óvinir" hinna, eru ekki eins og "við", hafa ekki sömu gildi, og háttsettir þingmenn, ráðherrar og biskupar kalla þetta fólk lélegt og siðlaust og hættulegt menningu og þjóð.

Myndu kristnir sætta sig við trúarbragðafræði sem tæki gagnrýnt á Biblíunni og sögu kristninnar og benti á að það væru margir sem eru trúlausir, að trúleysi sé raunhæfur valkostur? (Í núverandi námsefni er þetta ekki nefnt - þrátt fyrir að 10 - 25% þjóðarinnar sé trúlaus - skrítið?) Myndu kristnir sætta sig við námsefni þar sem biblíusögur væru settar í bland við önnur ævintýri sem hafa menningarlegt gildi fyrir þjóðina - sögurnar úr ásatrúnni sem ekki eru lengur kenndar þótt þær séu nauðsynlegar menningarlæsi, grimmsævintýrum, þjóðsögum Jónasar Árnasonar. Myndu kristnir sætta sig við að heimspekingar fornaldar féngu jafnan hlut á við kristni í þessu námsefni sem á að sinna hugmyndasögu okkar og menningargrunn?

Væri ekki betra að hafa námsefni sem væri miðað út frá þörfum þjóðarinar - ekki kristninnar? Með námsefni sem væri skrifað af fræðimönnum - ekki prestum. Með námsefni sem kenndi allar undirstöður vestrænnar menningar, og allar undirstöður íslenskar menningar - ekki bara undirstöður semískrar menningar og kirkjunnar?

Að lokum, allir grunnskólar sem ég hef komist í tæri við á Íslandi frá því ég kom heim árið 2001 hafa verið með virka þátttöku presta og kirkju, þar með taldar reglulegar kirkjuferðir til að sitja guðsþjónustur. Í nokkrum tilfellum hefur skipulagt bænahald átt sér stað og einn kennara veit ég um sem spurði foreldra áður en bænahald átti sér stað, sem er lofsvert í sjálfu sér en samt. Þegar við Marínó vorum í skóla fyrir mjög löngu síðan gerðist þetta aldrei. Íslensk menning lifði góðu lífi án þess. En kristinni trú hallaði nokkuð undan fæti.

Og svona í alveg endalokin, breytingarnar á grunnskólalögunum eru mjög góðar ef við gleymum aðeins "kristinfræði" breytingunni sem er umdeild. Þorgerður Katrín á hrós skilið fyrir góða vinnu, ég var satt að segja mjög lítið hrifinn af henni framan af en hún er að standa sig vel. Breytingarnar í frumvarpinu varðandi "kristinfræði" eru tvær, þótt aðeins önnur hafi komist í umræðuna. "Kristilega siðgæðið" er fellt niður, eins og allir vita. En þar sem áður var upptalning á kennslugreinum í grunnskóla (30. grein), þar með talið "Kristinfræði, siðfræði og trúarbragðafræði" er núna upptalning á miklu almennari markmiðum (25. grein) og í greinagerð segir: "Loks er tillaga um að kristin fræði, siðfræði og trúarbragðafræði flokkist undir samfélagsgreinar en teljist ekki sérstakur liður í lögum." Hér er verið að boða verulegar breytingar í kennslu í þessu fagi í samræmi við dóm Mannréttindadómstólsins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Frábær og upplýsandi grein. Jafnvel fyrir mig, sem er ötull baráttumaður fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju.  Fásinnið hér á kommentakerfinu er væntanlega vitnisburður um að þessi efnistök eru illumdeilanleg.  Fróðlegt er einnig að sjá að þetta er ekki nýtt deiluefni eða áhyggjuefni manna.

Stjórnarskrá okkar er einnig ósamkvæm sjálfri sér hvað varðar ríkistrú á annan bóginn og trúfrelsi á hinn. Við því er tvennt að gera: Að úthýsa trúfrelsi eða aðskilja ríki og kirkju.  Veit ekki hvort það yrðu háar deilur um þessa einföldu kosti.

Ég hef líka áður bent á að hér er verið að berjast á hæl og hnakka um sálir leik og grunnskólabarna, sem ekki hafa vit á að andmæla né skilja boðskapinn.  Engum dettur í hug að bjóða upp á slíka innrætingu í framhaldskólum, þar sem menn eru komnir með snefil af gagnrýnni og sjálfstæðri hugsun.  Er þetta virkilega spurningin um að ná til þessara litlu varnarlausu barna?

Ég tek einnig eftir því að menn tala um hlutfall barna í þjóðkirkjunni sé 90%. Þar er verið að tala um börn, sem ómálga hefur verið dýft í skírnarfontinn og þessi flokkun ákveðin fyrir þau. Er skýrnin leið kirkjunnar til að slá eign sinni á einstaklinga á meðan þeir geta ekki rönd við reist?  Maður spyr sísvona.

Jón Steinar Ragnarsson, 15.12.2007 kl. 19:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband