Kristni og mannréttindi

Theódór spyr athyglisverðrar spurningar og vill fá svör, skiljanlega:

 

"

Áskorun til vantrúaðra: 

Vantrúarfólkið heldur áfram að níða skóinn af kristinni trúariðkun og gildum og segja hana vera til trafala. Mannréttindi séu ekki henni að þakka, heldur því að menn brutust undan áhrfium kristni.

Ég skora á hvern talsmann vantrúarinnar sem er að nefna eitt samfélag í mannkynssögunni þar sem mannréttindi hafa náð að festa rætur jafn mikið eða betur en á Vesturlöndum, þar sem kristni hefur haft mest áhrif í heiminum.

Það hlýtur þá að hafa þróast eitthvað svoleiðis samfélag í hinum ókristna heimi, ef að kristnin er mannréttindum til trafala. Hvar!

" 

 (í umræðum: http://alit.blog.is/blog/alit/entry/387824/)

 Ég held að svarið sé í raun einfalt: Það fer saman að þau lönd þar sem mannréttindi hafa náð lengst eru líka þau lönd sem hafa verið kristin. Þetta vissi Theódór fyrir og hann notar þessa "fylgni" til að eigna kristninni mannréttindi. Sama rökvilla grasserar um alla bloggheima og jafnvel í ræðu og riti opinberra manna.

Undanfarin nokkur hundruð ár hefur Evrópa sigrað heiminn með vopnavaldi og er núna að leggja hann undir sig með tækni sinni og hugmyndafræði. Frá því um 1900 hefur "leiðtogi" hins vestræna heims reyndar verið  BNA en menningarlega teljum við það land til Evrópu. Hvernig stendur á þessum yfirburðum? Er það kristninni að þakka (eða kenna)?

Hinn virti fjölfræðingur Jared Diamond hefur fjallað um þessa yfirburðu Evrópskrar menningar í nútímanum. Fyrst kom tæknibyltingin sem varð til þess að fátækur útkjálki lagði undir sig heiminn. Ríkidæmi sem fylgdi tækniþróun ásamt stanslausri hugmyndagerjun leiddi af sér þær hugsjónir sem við í dag byggjum samfélag okkar á: Virðingu fyrir frelsi til orðs og æðis, athafna- og eignafrelsi, rétturinn til lífs og lima, þátttaka í stjórnarfari með almennum kosningarétti.

Jared bendir á það sem ætti að vera augljóst öllum sem geta litið yfir heimskort. Evrópa er einstæð frá landfræðilegu sjónarmiði. Það er ekkert annað landsvæði sem hefur sömu eiginleika. Evrópa er nánast öll ræktanleg með aðferðum sem þegar voru þróaðar fyrir 3000 árum og ber því talsverðan mannfjölda. Evrópa skiptist náttúrulega í mjög vel afmörkuð svæði sem eru nógu stór fyrir sterk þjóðríki og tiltlölulega auðvelt að verja. Það sem einkennir sögu álfunnar er því stór og voldug ríki nálægt hvoru öðru í stanslausri samkeppni. Eina undantekningin er Rómarveldi á hátindi sínum en þar var reyndar samkeppnisaðilinn Parþar í Asíu.

Stór og voldug ríki leiða að sér styrjaldir, en ekkert eitt nær yfirhöndinni. Dæmi um nokkurn veginn jafn-stór ríki í Evrópu sem hefur hvert sitt landfræðilega afmarkaða svæði er auðvitað Frakkland, frá 800 - 1800 voldugast og sterkast, Bretland, Þýskaland/Austurríki, Spánarskagi, Ítalíuskagi. Stanlaus hernaður, stanslaus samkeppni leiðir af sér þróun í tækni og hugarfari.

Auðveldar samgöngur um alla Evrópu ýta undir þessa þróun. Siglingar meðfram ströndum og uppeftir stóránum nær auðveldlega til allra landsvæða álfunnar. Ef maður lítur lengra aftur í tímann má sjá að annað nálægt landsvæði, Miðjarðarhafið, hafði þessa kosti Evrópu enn fyrr - skýr afmörkun landsvæða, stór og öflug ríki, góðar samgöngur. En lítið um aðliggjandi landamæri og þess vegna auðveldara að einangrast.

Miðað við landfræðikosti Evrópu þá hefði hún átt að vera ríkust og öflugust en árið 1500 var hún langt á eftir Indlandi og Kína í ríkidæmi og tækniþekkingu, langt á eftir Múslímska heiminum í menntun, listum og mannúðarhugsjón. Eitt hafði Evrópa þó fram yfir og má jafnvel þakka okkur mörlöndum að hluta: Siglingatækni og skipasmíðatækni til að takast á við N-Atlantshafið. Frá um1300 til 1500 fleygði þessari tækni áfram, ekki síst vegna stórfelldra veiða Breta, Þjóðverja, Hollendinga, Frakka og Spánverja við Íslandsstrendur. Hraðskreið og sterkbyggð skip gátu siglt um allan heiminn og heim aftur.

Hérna er tímabært að benda á að þrátt fyrir 1500 ára sögu kristninnar var Evrópa fátækur afturendi heimsins. Hér var menningarstarfsemi í lágmarki, tækniþekking í lágmarki, listasköpun í lágmarki, hugsanafrelsi í lágmarki, frelsi almennt í höndum fámennra eignahópa með sérlög (privilegium). Mannúð þekktist ekki, ofbeldi gríðarlegt og viðvarandi á öllum sviðum. Sannkallað barbarí sem t.d. íslamskir ferðamenn hrylltu sig við að sjá. Hvar voru hin Kristnu gildi sem eiga að vera svo skýr og auðskilin?

Endurreisnin hófst með enduruppgötvun fornritanna sem kirkjan hafði svo lengi reynt að bæla. Grísk klaustur höfðu sum hver falið handrit og nú þegar Tyrkir voru að nálgast var handritum komið til hinna nýju verslanaborga á Ítalíu, Flórens og Genúa (en ekki Feneyja enda leiddu Feneyingar eyðileggingu Konstantínóbels 1204 og opnuðu þar með endanlega leiðina fyrir Tyrki). Ítalirnir tóku að gefa þessi fornrit út í eftirriti, prenttæknin ekki enn komin. Skyndilega barst ljós fornaldar inn í miðaldamyrkur Kirkjunnar og á um 300 árum má segja að veldi hennar hafi hrunið og henni ýtt til hliðar sem megin afli álfunnar.

Rétt fyrir 1800 er hinn formlegi grundvöllur þess sem við köllum mannréttindi lagður. það voru byltingarmenn í hinum verðandi Bandaríkjum sem byrjuðu, með dyggri aðstoð franskra og enskra hugsuða, og síðan tóku Frakkar við. Þegar maður les þessar yfirlýsingar, t.d. réttindaskrá Virgíníufylkis 1776, sjálfstæðisyfirlýsinguna 1776, og mannréttindayfirlýsinguna frönsku 1789, er ljóst að mönnum var ekki kristni ofarlega í huga. Flestir þessara hugsaða voru deistar, svipað og þekkist t.d. í Hindúisma og á ekkert skylt við kristni, og málfar þessara merkilegu plagga er nánast alveg laust við trúarleg stef. Ekki alveg, en næstum því alveg.

Lagði kristnin þá ekkert til málanna? Kannski má segja að hin kristna hugmynd um heilagleika lífsins, sálina, hafi verið grundvöllur að mannréttindahugsjóninni. En hugmyndin um sálina er miklu eldri og frá Grikkjum komin. Árelíus "heimspekikeisarinn" (sá gamli í "Gladiator") skrifar með mannréttindahugsjónir í huga þótt þær séu ekki þróaðar. Honum finnst kristnin hins vegar heimskuleg. Heilagleiki alls lífs er útbreidd hugmynd í Búddisma, og í Konfúsíanisma og Taóisma gætir margra þeirra hugsana sem geta lagt grunn að mannréttindahugsjón. Enda eru til sögur af stjórnarherrum í Indlandi og Kína sem tempruðu stjórnarfar sitt og virtu "mannréttindi" almennings á grundvelli Búddískra eða Konfúsíanískra gilda - en það er engin saga til um konung eða keisara í hinum Kristna heimi sem gerði slíkt hið sama á grundvelli kristinna "siðferðisgilda".

Að ofansögðu má kannski sjá að það er miklu frekar að kristninni (eða kirkjunni) verði kennt um hinar myrku miðaldir en að þeim verið eignaðar manngildishugsjónir upplýsingastefnunnar. Það má vel færa rök fyrir því að kristnin hafi fyrst haldið aftur af Evrópu og síðan, eftir að "útrásin" var hafin, veitt þann hugmyndafræðilega grundvöll sem þurfti til að drepa og myrða miskunnarlaust um allan heim. Urban II páfi þróaði fyrstur manna hugmyndina um heilagt stríð (um 1095) og hvernig maður gat fengið syndaaflausn fyrir að drepa heiðingja - þessi hugmyndafræði var byggð á Ágústínusi kirkjuföður en auðvitað á kristninni eins og þeir skildu hana. Þetta var upphafið af gyðingaofsóknunum sem náðu hámarki á nærri þúsund árum seinna - svo mikið fyrir kristið siðgæði.

"Sá sem er ekki með mér er á móti mér" - boðunarkrafa kristindómsins er gríðarlega sterk og jafnframt sú einfalda lífssýn að það sé bara einn sannleikur. Þannig hugsuðu kristnir fram á allra síðustu aldir og hugsa margir enn. Þessi hugsun er grundvöllur haturs og fordóma, réttlæting morða og misþyrminga, afsökun fyrir eyðileggingu menningarverðmæta í stórum stíl. Kristnir hafa eytt menningu eigin þjóða og annarra af meiri ákafa og af meiri krafti en nokkurt annað í mannkynssögunni. þannig er nú hið kristna siðgæði.

Mannréttindi og kristni fylgjast ekki að á síðustu tveimur öldum. Flest þau ríki sem teljast kristin hafa verið undir einræðisstjórn þennan tíma, þar sem mannréttindi voru að engu höfð. Helsta undantekningin eru ríki N-Evrópu og BNA en þar er hrærigrautur allra kristinna kirkna og ekki hægt að eigna t.d. lútersku eða kalvínsku eitthvað af þessu (eins og t.d. Weber reyndi að gera). Það er frekar að hin lúterska kirkja hafi þróast til þess að vera í takt við nýjar hugsanir, frekar en öfugt, enda má sjá á fyrstu öldum hennar að þar fór enn meira afturhald en áður, enn meiri vanvirðing á öllum grundvallargildum mannréttinda. En þegar upplýsingin nær sér á strik á 19. öld er það hin lúterska kirkja sem aðlagast enda undir stjórn veraldlegra valdhafa. Ekki vegna kenningar Lúters.

Það er athyglisverð þessi birtingarmynd "kristilegs siðgæðis" að ætla að eigna sér allt gott. Þetta ber vott um gríðarlegan skort á sjálfstrausti. "Hin kristna kenning er gjaldþrota, finnum eitthvað annað til að standa á."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 16.12.2007 kl. 14:13

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Nærtækt er einnig að nefna Grikkland hið forna og hið klofna Grikkland samtímans. Tilhneiging kristinna er áberandi í að bera sig saman við kommúnisma, sem dæmi um úthýsingu trúar í stað nafnabreytinga á sömu átrúnaðar og ógnarstjórnargildum og áður giltu.  Samanburðurinn er skringilegur og þó.  Kristin kirkja er hápólitískt afl, sem reynir að viðhalda gömlum kreddum í stjórnkerfinu.  USA er gott dæmi um slíkt eftir að kristnir hertu tökin á því samfélagi árið 1955 og settu "In God we Trust" á dollarana sína.  Merkilegt er þó að eini marktæki samanburðurinn um ægivald og ógnir klerkaveldisins eru skelfilegustu ógnarstjórnir síðari tíma Kommar og Nasistar.  Án þeirra væri fátt sem hægt væri að skýla sér að baki.  Rökin eru þó einatt að þar sem til eru vondar eða verri hugsjónir, þá sé yfirgangur kristinnar kirkju réttlættur. 

Það eru Kristnir agitantar, sem hafa flokkað sig með Stalín, Hitler og Pol Pot, enda ekki leiðum að líkjast.

Jón Steinar Ragnarsson, 16.12.2007 kl. 16:05

3 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Góð grein enda hefur kristin kirkja eingöngu verið valda- eða stjórntæki gegnum aldirnar. Eitthvað sem hefur ekkert með Jesús krist að gera annað en að stela vörumerkinu.

Ævar Rafn Kjartansson, 16.12.2007 kl. 18:59

4 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Athyglisverð greining hjá þér Ævar. Konstantínus vissi hvað hann var að gera.

Brynjólfur Þorvarðsson, 16.12.2007 kl. 19:12

5 identicon

Flott grein.

svanhvít (IP-tala skráð) 25.12.2007 kl. 22:17

6 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Tak saa meget!

Brynjólfur Þorvarðsson, 25.12.2007 kl. 22:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband